main image

Silfurgaffall frá breska hernum fannst í Hlíðarfjalli

Silfurgaffall af gerðinni Old English fannst við rætur Hlíðarfjalls í gær. Varðveislumenn minjanna  voru við sínar reglulegu athuganir í hlíðunum ofan Akureyrar á slóðum bandarískra, breskra og norskra hermanna á stríðsárunum þegar gaffallinn varð óvænt á vegi þeirra. Margir þekkja útlitið á gafflinum enda borðbúnaður af þessari gerð algengur á íslenskum heimilum á 20. öld. Þegar rýnt er í merkingar kemur hins vegar í ljós að þessi tiltekni gaffall er ekki kominn frá íslensku heimili.

Enginn vafi leikur á því að gaffallinn kemur úr fórum bresks hermanns á stríðsárunum. Hann er merktur sérstakri ör (Broad Arrow) sem táknar eign breska hersins (War Department). Athygli vekur að gaffallinn er framleiddur fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldar eins og merking á honum ber með sér, árið 1937. Greina má merkingarnar C Bros S með skrautstöfum en þar er vísað til fyrirtækisins Cooper Brothers & Sons í Sheffield í Englandi. BP stendur fyrir Britannia Plate.

Bræðurnir Tom og John William Cooper fæddust í Sheffield fyrir miðja 19. öld. Þeir stofnuðu Cooper Brothers & Sons árið 1866. Við andlát þeirra tóku synir Tom við rekstrinum. Þeir voru við stjórnvölinn þegar Hlíðarfjallsgaffallinn var framleiddur. Undir þeirra stjórn var Cooper Brothers & Sons í fararbroddi með tilraunir á ryðfríum hnífum og árið 1929 markaðssetti fyrirtækið áhöld úr ryðfríu stáli. Cooper-fjölskyldan stýrði fyrirtækinu fram yfir stríð. Fyrirtækið Frank Cobb & Co keypti reksturinn árið 1983.

Silfurbúnaður frá Cooper Brothers & Sons er vandaður og eftirsóttur af söfnurum um allan heim. Silfurgaffallinn úr Hlíðarfjalli bætist nú í hóp fjölmargra gripa frá árum seinni heimsstyrjaldar sem Varðveislumenn minjanna hafa fundið í heimabyggð og tekið til varðveislu.

Hall skildi eftir spor á Akureyri

Bandaríkjamaðurinn James Norman Hall er góðkunningi Grenndargralsins. Þekktasta bók rithöfundarins er Mutiny on the Bounty sem hann skrifaði með Charles Nordhoff og gaf út árið 1932. Sumarið 1922 ferðaðist Hall til Íslands og hélt til í nokkra mánuði á Hótel Oddeyri á Akureyri hjá Kristínu Eggertsdóttur hótelstýru. Hann lærði íslensku hjá Vernharði Þorsteinssyni sem þá kenndi við Gagnfræðaskólann. Grenndargralið fjallaði ítarlega um dvöl Hall á Akureyri í grein sem bar yfirskriftina Bjó á Oddeyri áður en heimsfrægðin knúði dyra.

Tíðindi bárust nýlega frá Menntaskólanum á Akureyri um að bók eftir James Norman Hall, árituð af höfundinum, hefði fundist í geymslu skólans. Á vef skólans ma.is segir:

Ekki alls fyrir löngu fannst rykfallin bók í MA, skrifuð af Hall og Nordhoff og gefin út af Harper & Brothers í Bandaríkjunum árið 1921, ári áður en Hall kom til Akureyrar. Bókin er sú fjórða í röðinni sem Hall skrifaði og heitir Faery Lands of the South Seas. Finnandi bókarinnar varð heldur betur hissa þegar hann opnaði hana og sá að bókin er árituð af sjálfum James Norman Hall. Ekki nóg með það, heldur er áritunin persónuleg kveðja til Vernharðs og virðist sem bókin hafi verið persónulegur áramótaglaðningur frá Hall til Vernharðs, gjöf frá nemanda til kennara síns. Fremst í bókina skrifar James Norman Hall með svörtum blekpenna:

To Mr. Thorsteinsson
With the best wishes for a Happy new year
James N. Hall
Akureyri, December 31, 1922.

Munir úr fórum Nordahl og Gerd Grieg í Davíðshúsi og í Menntaskólanum

Sagnalist hefur undanfarnar vikur fjallað um norska skáldið og andspyrnuhetjuna Nordahl Grieg og eiginkonu hans, leikkonuna Gerd Grieg. Þrír þættir í hlaðvarpsþáttaröðinni Sagnalist með Adda & Binna varpa ljósi á sterk tengsl hjónanna við Ísland og þá ekki síst tengsl við Akureyri (Grieg-undir heroki kúgunarvalds, Grieg-þú varst heiða og hreina hjartalindin mín og Grieg-elskendur sem aldrei geta mæst). Addi og Binni reyna að rekja slóð þeirra þar sem þeir staldra m.a. við Samkomuhúsið, Davíðshús og Menntaskólann auk þess sem dularfullur sumarbústaður í útjaðri bæjarins kemur við sögu. Nokkrir áhugaverðir gripir úr fórum Grieg-hjónanna, sem dagað hafa uppi á Akureyri, urðu á vegi þáttastjórnenda við undirbúning þáttanna. Hér að neðan getur að líta nokkur sýnishorn. Sjón er sögu ríkari.

 

Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin, útgáfa frá 1913. Bókin var í eigu Nordahl Grieg og er merkt honum árið 1918. Bókin er með stimpil Amtsbókasafnsins á Akureyri. Hún er í eigu manns á höfuðborgarsvæðinu.

 

Ljóðabókin Ættmold og Ástjörð kom út á Íslandi árið 1942 í 175 tölusettum eintökum. Bókin geymir ljóð Nordahl Grieg á íslensku, í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Grieg skrifar formála. Menntaskólinn á Akureyri á eintak með áritun skáldsins.

 

Bækur Nordahl Grieg, áður í eigu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Nú varðveittar í Davíðshúsi. Gjöf til Davíðs frá Gerd Grieg.

 

Málverk, áður í eigu Davíðs Stefánssonar. Nú varðveitt í Davíðshúsi. Gjöf til Davíðs frá Gerd Grieg. Máluð af Ferdinand Finne, norskum listmálara og vini Gerd.

 

Ljóðabókin Friheten kom út á Íslandi þann 17. maí 1944. Bókin geymir ljóð Nordahl Grieg á norsku. Menntaskólinn á Akureyri á eintak, áritað af Gerd Grieg sem hún gaf skólanum árið sem bókin kom út.

 

Ljósmynd af Nordahl Grieg í ramma. Myndin er í eigu Menntaskólans á Akureyri. Ekki er vitað hvenær og af hvaða tilefni myndin kom í Menntaskólann. Komið hafa fram hugmyndir um að Gerd Grieg hafi fært skólanum hana að gjöf um leið og Friheten.

 

Eru til ljósmyndir af Nordahl Grieg á Akureyri?

Fyrir rúmum 20 árum birtist grein í Morgunblaðinu undir liðnum Bréf til blaðsins. Norðmaður að nafni Torleif Lyngstad sendi bréfið. Torleif hafði heyrt vin sinn, Knut Johannes Aspelund, segja sögur af dvöl hans á Íslandi á stríðsárunum. Aspelund fékk það skemmtilega verkefni á Íslandi sumarið 1942 að fylgja og hjálpa samlanda sínum Nordahl Grieg í nokkra daga á meðan hann dvaldist á Akureyri. Grieg var þekkt skáld og því mikill heiður fyrir Aspelund að fá að fylgja honum hvert fótmál á Akureyri og í nágrenni bæjarins þessa daga í júnímánuði.

Í bréfinu sem birtist í Morgunblaðinu óskar Torleif eftir aðstoð Íslendinga við að hafa upp á ljósmyndum sem Aspelund vildi meina að hefðu verið teknar af honum og Grieg á Akureyri. Að sögn Aspelund hittu hann og Grieg nokkur ungmenni um tvítugt í og við sumarbústað í nágrenni bæjarins og höfðu þau myndavél meðferðis. Aspelund fékk nöfn ungmennanna en auðnaðist ekki að koma á sambandi við ungu Íslendingana. Aspelund lést árið 2001. Nöfn þeirra sem tóku myndir af Knut Johannes Aspelund og Nordahl Grieg – ef marka má Aspelund – eru Hjördís Guðmundsdóttir, Guðrún Guðmundsdóttir, Gunnar Jóhannesson, Hjálmar Guðmundsson og Hulda Guðmundsdóttir.

Sagnalist vinnur að hlaðvarpsþætti um Nordahl Grieg, eiginkonu hans Gerd Grieg og dvöl þeirra á Akureyri á stríðsárunum. Ef þú telur þig hafa upplýsingar um fólkið sem nafngreint er hér að ofan máttu gjarnan koma upplýsingum á borð Grenndargralsins eða Sagnalistar.

 

Morgunblaðið 290. tölublað (26.10.2003)

Póstkort frá May Morris fannst í húsi á Akureyri

Merkilegt póstkort kom í leitirnar við tiltekt í húsi á Akureyri í síðasta mánuði. Grenndargralið komst á snoðir um fundinn og þótti mikið til hans koma enda sendandi kortsins góðkunningi Gralsins. May Morris, listakona og skartgripahönnuður með meiru og dóttir hins kunna Íslandsvinar William Morris, skrifaði á kortið og sendi til Íslands jólin 1934. Eins og faðir hennar, hafði May sterk tengsl við Ísland og heimsótti land og þjóð nokkrum sinnum á millistríðsárunum. Sagan hennar er ekki síður áhugaverð en saga föður hennar. May lést árið 1938. Á kortinu er málverk af William Morris. Hinum megin skrifar May eitthvað á þessa leið; „Alúðarkveðjur frá Kelmscott. Ég hef verið með flensu og get ekki skrifað. May Morris. Jól 1934.” Ekki er vitað á hvern póstkortið var stílað og hverjum það var ætlað en Grenndargralinu er kunnugt um vini sem May eignaðist á Akureyri á þriðja og fjórða áratugnum. Grenndargralið fjallaði ítarlega um frú Morris fyrir nokkrum árum í greinaflokknum Konan sem skuggi föðurins faldi.

Bók merkt þjóðskáldi fannst í kassa

Við skoðun á bókakössum sem árum saman hafa verið í geymslurými á Akureyri kom áhugaverð gömul skrudda í ljós. Bók með nafni Matthíasar Jochumssonar, ritað með penna. Bókin heitir Supplement til Islandske Ordbøger gefin út á síðasta áratug 19. aldar. Höfundur bókarinnar er Jón Þorkelsson. Jón var um tíma kennari við Lærða skólann og síðar rektor hans. Á Þjóðminjasafninu er til gömul ljósmynd sem sýnir þessa tvo heiðursmenn saman í fremstu röð kennara skólans með nemendur að baki sér. Myndin er tekin nokkrum árum áður en bókin kom út. Óneitanlega veltir maður fyrir sér hvort Matthías hafi átt bókina. Handskrifað nafn hans á saurblaði bókarinnar bendir til þess. Ef skrift þess er skrifaði nafnið er borin saman við undirskrift Matthíasar frá árinu 1917 verður ekki annað séð en bókin hafi verið í eigu þjóðskáldsins.

Jón Þorkelsson (til vinstri) og Matthías Jochumsson (til hægri). 

Minnisblaðið

Í síðasta hlaðvarpsþætti af Sagnalist með Adda & Binna var minnisblað úr Hvíta húsinu til umfjöllunar. Minnisblaðið er dagsett 23. maí 1961, á tímum Kúbudeilu og geimkapphlaups í miðju köldu stríði. Innihald og titill blaðsins er heimsókn forseta Íslands til Bandaríkjanna (Visit of Icelandic President to U.S.). Í minnisblaðinu er reifuð sú hugmynd að Ásgeiri Ásgeirssyni forseta Íslands verði boðið í heimsókn til Washington til fundar við John F. Kennedy í kjölfar opinberrar heimsóknar Ásgeirs til Kanada í september sama ár. Síðar í minnisblaðinu kemur þó fram að af heimsókninni geti ekki orðið vegna mikilla anna hjá forseta Bandaríkjanna og raunar forseta Íslands einnig. Í minnisblaðinu er mælst til þess að nýráðinn sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, herra Penfield (James Kedzie Penfield), komi þeim skilaboðum áleiðis til forseta Íslands frá forseta Bandaríkjanna að hann hlakki til að hitta íslenska forsetann. Af því geti þó ekki orðið á yfirstandandi ári. Bláar undirstrikanir eru til marks um áhersluna sem lögð eru á skilaboð forsetans.

Pappírinn sem ritað er á kemur úr bréfsefni utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Neðst á minnisblaðinu er vélrituð undirskrift aðalritara ráðuneytisins, L. D. Battle (Lucius Durham Battle). Ofan við nafn aðalritarans hefur M. L. Manfull (Melvin Lawrence Manfull) ritað nafn sitt með bláum penna. Manfull stýrði á þessum tíma teymi innan utanríkisráðuneytisins sem hafði með notkun á kjarnorku að gera í þágu friðar. Skilja má handskrifaða undirskrift Manfull sem svo að það sé hann sem sendi minnisblaðið til Hvíta hússins en að hann geri það jafnframt í umboði L. D. Battle.

En hverjum innan Hvíta hússins var minnisblaðið frá utanríkisráðuneytinu ætlað? Upphafsorð blaðsins eru „Minnisblað handa herra McGeorge Bundy í Hvíta húsinu“ (Memorandum for Mr. McGeorge Bundy, The White House). McGeorge Bundy var þjóðaröryggisráðgjafi John F. Kennedy í forsetatíð hans 1961 – 1963 og einn nánasti samstarfsmaður forsetans í Kúbudeilunni 1962. Bundy var t.a.m. sá sem upplýsti Kennedy um frægar ljósmyndir sem teknar voru úr U2-njósnaflugvél þann 14. október 1962 og staðfestu grun um staðsetningu sovéskra kjarnorkuvopna á Kúbu. Í nýútkominni bók um Kúbudeiluna eftir Max Hastings, í þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, segir frá því þegar Bundy gekk inn í svefnherbergi Kennedy að morgni 16. október til að færa honum tíðindin. Fyrstu viðbrögð forsetans þar sem hann stóð í náttfötunum voru heldur nöturleg þegar hann mælti: „Við neyðumst sennilega til að sprengja þá“.

Minnisblaðið ber vitni um áætlun Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna að koma á fundi milli Kennedy og Ásgeirs. Ef marka má orð ritara ráðuneytisins virðist sem Kennedy sjálfur hafi lýst yfir áhuga á að hitta Ásgeir. Að sama skapi verður ekki annað séð en að allar slíkar fyrirætlanir hafi þó verið háðar samþykki McGeorge Bundy. Hvað sem öllum slíkum vangaveltum líður stendur minnisblaðið óhaggað og það sem á því stendur, rúmum 60 árum eftir að það var skrifað og sent. Og svo mun verða um ókomna tíð. Eftir standa áleitnar spurningar. Samþykkti Bundy fund Ásgeirs og Kennedy? Kom hápunktur Kúbudeilunnar árið 1962 í veg fyrir að forsetarnir tveir hittust? Hvað lá að baki áhuga utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna og John F. Kennedy að hitta forseta íslenska lýðveldisins? Hvaða spurningar, fyrirmæli eða óskir hefði Kennedy borið á borð Ásgeirs á tímum Kúbudeilu og geimkapphlaups í miðju köldu stríði? Líklega fáum við aldrei svör við því.

John F. Kennedy óttaðist ekki árás Íslendinga

Til er upptaka af símtali John Fitzgerald Kennedy Bandaríkjaforseta og vinar hans og samstarfsmanns þar sem forsetinn lýsir yfir að hann muni hvergi hvika ef ráðist verði á Bandaríkin. Upptakan er hluti af gögnum úr forsetatíð Kennedy sem nú hafa verið gerð opinber. Símtalið átti sér stað aðeins fjórum mánuðum áður en forsetinn var skotinn til bana í Dallas í nóvember 1963. Kalda stríðið var í algleymingi og stríðandi aðilar sáu skrattann í hverju horni eins og raunar efni símtalsins ber með sér.

Á upptökunni má heyra Kennedy lesa upp tilkynningu þar sem hann dregur í efa að Sameinuðu þjóðirnar muni láta til skarar skríða gegn bandarískum þegnum. Hann muni verja land og þjóð gegn öllum mögulegum árásum, sama hvaðan þær komi. Forsetinn tekur dæmi um þrjú fullvalda ríki sem hann segir ólíklegt að muni ráðast til atlögu gegn Bandaríkjunum. Tvö þessara ríkja höfðu nýlega öðlast fullveldi þegar félagarnir tveir töluðu saman í síma; Tjad árið 1960 og Samóaeyjar árið 1962. Athygli vekur að þriðja landið sem John F. Kennedy nefnir til sögunnar er Ísland. Ísland varð sem kunnugt er fullvalda ríki árið 1918.

Tók Kennedy Ísland, Tjad og Samóaeyjar sem dæmi til að undirstrika fáránleika þess að óttast árás á Bandaríkin eða felst kannski hroki í orðum forsetans sem líklega hafa verið hugsuð til heimabrúks? Sitt sýnist hverjum. Ummæli Bandaríkjaforseta og önnur tengsl hans við Ísland eru til umfjöllunar í seinni hlaðvarpsætti Sagnalistar um JFK sem fer í loftið 22. nóvember. Fyrri þátturinn er nú aðgengilegur á streymisveitunni Spotify.

Stríðsminjar frá Hrafnagilsspítala – snyrtivörur

Bretar reistu herspítala á Hrafnagili í Eyjafirði sumarið 1941 (81st General Hospital). Bandaríkjamenn tóku við rekstri spítalans haustið 1942 (49th Station Hospital). Ári síðar var skellt í lás á Hrafnagilsspítala. Til marks um mikil umsvif hersins á Hrafnagili má nefna að spítalinn gat, þegar mest lét, annast um 500 sjúklinga með hátt á fjórða hundrað manns við störf. Ýmsir áhugaverðir gripir úr fórum Breta og Bandaríkjamanna hafa litið dagsins ljós við rannsóknir á Hrafnagili í haust.

Við vitum ekki mikið um hjúkrunarkonurnar sem störfuðu við herspítalann á Hrafnagili á stríðsárunum. Við vitum þó að Nurse Helen starfaði við 49th Station Hospital á Hrafnagili í eitt ár. Meira um hana á eftir. Suma gripina, sem fundist hafa á svæðinu, er freistandi að tengja við bresku og bandarísku hjúkrunarkonurnar sem störfuðu á spítalanum. Nokkrir gripir eru þó líklegri en aðrir hvað það varðar. Hér skulu þrír nefndir til sögunnar. Til gamans skulum við leika okkur með hugmyndina að vinkona okkar Helen hafi átt og notað gripina og fargað þeim svo að loknu góðu dagsverki.

Í fyrsta lagi er það lítil glerflaska sem olli nokkrum heilabrotum á fundarstað. Síðar kom í ljós að um flösku undan rauðlitaðri naglabandaolíu var að ræða af gerðinni J. W. Marrow’s Trimal for Cuticle, framleiddri af Trimal Laboratories Inc. í Los Angeles. Olían sem flaskan hafði að geyma hefur líklegast mýkt naglabönd Helen og nært neglur hennar eftir erfiðan vinnudag á spítalanum. Frá framleiðanda kom flaskan í litlum pappakassa ásamt leiðbeiningum um notkun og pinna sem átti að vefja bómull utan um. Bómullarpinnann notaði Helen til að ýta naglaböndunum niður þegar þau voru orðin mjúk. Þá gat hún tekið til við að lakka á sér neglurnar án þess að naglaböndin þvældust fyrir.

Þá liggur beinast við að segja næst frá naglalakkaflöskunni hennar Helen sem fannst á Hrafnagili. Flaskan er með fallegu mynstri sem auðveldar greiningu á henni. Naglalakkið er amerískt, af gerðinni Dura-Gloss frá Lorr Laboratories í New Jersey. Kúlulaga tappi flöskunnar er ennþá skrúfaður á, rétt eins og þegar Helen fleygði flöskunni í ruslið. Niður undan tappanum er armur með litlum áföstum pensli sem eitt sinn gerði neglurnar hennar Helen rauðleitar og fínar. Hönnun tappans er skemmtileg en á honum má greina útskorna nögl. Lorr Laboratories fékk einkaleyfi fyrir tappanum haustið 1937 og flöskunni vorið 1938 og hóf í kjölfarið markaðssetningu á naglalakkinu þar sem siglt var undir seglum hagstæðra kaupa. Það sem vekur sérstaka athygli er rauðleitt naglalakkið sem ennþá er í flöskunni, 80 árum eftir að Helen handlék hana og gerði sig fína. Notendur naglalakks klára víst ekki alltaf úr naglalakkaflöskunum sem gæti skýrt hvers vegna flaskan hennar Helen er enn hálffull. Ekki er gott að segja hver liturinn nákvæmlega er því Dura-Gloss bauð upp á nokkur afbrigði – Red Wine, Pink Lady, Zombie og Gay Time svo dæmi séu nefnd.

Í þriðja lagi er það varaliturinn. Hann má muna fífil sinn fegurri. Þrátt fyrir að tímans tönn hafi herjað á þennan litla minjagrip í 80 ár, mátti enn sjá – þegar hann fannst – ákveðin karaktereinkenni á hólknum sem gáfu okkur von um að greina mætti hann nánar. Hólkurinn er rétt um 5 cm að lengd sem stemmir við lengd varalita á þessum árum. Botninn er ögn sverari með þremur „útskornum“ línum hringinn í kringum hólkinn. Rétt neðan við miðju glittir í það sem virðast vera einhvers konar samskeyti. Að ofanverðu, þar sem sjálfur liturinn hefur eitt sinn rúllast upp og niður, beygist hólkurinn örlítið inn á við. Allt eru þetta lýsingar sem eiga við hinar ýmsu tegundir varalita frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Kannski var varaliturinn hennar Helen appelsínugulur á litinn, frá Jean La Salle eða rauður að lit frá Coty. Mögulega kemur hann frá framleiðandanum Tangee í Illinois. Tangee var söluhæsti varaliturinn í Bandaríkjunum árið 1940. Þó appelsínugular varir hafi fallið í kramið á þessum árum, var rauði liturinn í sérflokki. Hann var tákn um ættjarðarást. Einhvers staðar segir að hann hafi ekki einungis látið konum líða sem þær væru kvenlegri heldur og hafi hann auðveldað þeim að lifa af þá róstusömu tíma sem heimsstyrjaldarárin vissulega voru. Á stríðsárunum var litið á varalit sem annað og meira en bara snyrtivöru. Hann var hluti af hernaðaráætlun, að halda móralnum góðum hjá bæði konum og körlum. Konur voru hvattar til að nota varalit svo hermennirnir yrðu glaðari og smella eins og einum góðum kossi á bréfin áður en þau voru send til þeirra á vígstöðvarnar. Kannski eru líkindin með varalit og skothylkjum engin tilviljun enda stundum talað um „lipstick bullet“ vegna lögunarinnar.

Helen J. Armstrong hóf störf hjá bandaríska hernum í Texas þann 3. febrúar árið 1941. Síðar kom hún til starfa á 49th Station Hospital á Hrafnagili. Þar var hún hluti af Army Nurse Corps og bar titilinn 1st. Lt. [First Lieutenant] Á Hrafnagili átti Helen eftir að starfa í eitt ár eða þar til hún slasaðist og þurfti að snúa aftur til Bandaríkjanna í aðgerðir og endurhæfingu. Slysið átti sér stað í mikilli hálku fyrir utan einn braggann á Hrafnagili þar sem hún rann til og féll harkalega á ísklump með þeim afleiðingum að hún skaddaðist á mænu. Helen þurfti í þrjár aðgerðir og í kjölfarið tók við margra mánaða endurhæfing á Brooke General Hospital í Houston í Texas. Lungann úr tímanum þar var hún rúmliggjandi og mátti sig hvergi hreyfa. Hún notaði tímann til að semja ljóð

Þegar Helen komst loks á fætur ákvað hún að gefa ljóðin sín út á bók sem hún sjálf gekk frá á bókbandsstofu endurhæfingarstöðvarinnar á Brooke-spítala. Ljóðin fjalla um liðnar stundir í lífi höfundar, þ.á.m. eru nokkur ljóð þar sem Helen vísar í tíma sinn sem hjúkrunarkona á 49th Station Hospital á Hrafnagili. Memory Lane, ljóðabók Helen, kom út fyrir jólin 1945.

 

Iceland

Arctic land so bleak and barren,

How can thy beauties show?

Year around your face is hidden

’Neath a mantle of snow.

 

Barren mountains, reaching skyward

In a land of ice and fire;

Mighty glaciers and volcanos,

Geysers rumbling with desire.

 

Rising high above the ocean

Proud and lonely tho you stand,

Yet moonbeams and northern lights

Make yours an enchanted land.

 

Isolation may surround you,

Yet the mighty become meek…

Knowing beauty may be hidden

But they’ll find it, if they seek.

 

                             Helen J. Armstrong

 

Army Nurse

Soldier, sailor or marine;

No matter what race or creed

She stands ready at his side

To help, in his hour of need.

 

Dedicated to heal the sick

She has answered every call

Though weariness besets her,

With a smile she greets them all.

 

On land and sea and in the air

She is at the wounded side,

The memory of her courage

Long with them will abide.

 

They say “The wounded do not cry,”

Nor seldom do they curse,

But one and all breathe this prayer

“Thank God for the Army Nurse!!

 

                             Helen J. Armstrong

 

The Reserve nurse

When war-clouds darken the horizon

And soldiers writhe with pain,

The call goes out o’er all the land

For the Reserve Nurse to march again.

 

To the burning planes of Texas,

To Iceland’s frozen shores,

To Australia, Ireland, or Alaska,

Even to the Corregidors!

 

They answer the call of mercy,

And side by side they stand

To help their soldier brothers,

Protect and save our land.

 

They do not ask for glory.

They do not fear the foe,

But only ask to do their part

To rid the world of woe.

 

And when the wars are over,

And freedom rings once more,

They will join their loves ones

Upon our own home shore.

 

                             Helen J. Armstrong

 

 

 

Stríðsminjar frá Hrafnagilsspítala – Coca Cola

Bretar reistu herspítala á Hrafnagili í Eyjafirði sumarið 1941 (81st General Hospital). Bandaríkjamenn tóku við rekstri spítalans haustið 1942 (49th Station Hospital). Ári síðar var skellt í lás á Hrafnagilsspítala. Til marks um mikil umsvif hersins á Hrafnagili má nefna að spítalinn gat, þegar mest lét, annast um 500 sjúklinga með hátt á fjórða hundrað manns við störf. Ýmsir áhugaverðir gripir úr fórum Breta og Bandaríkjamanna hafa litið dagsins ljós við rannsóknir á Hrafnagili í haust.

Ófáar eru glerflöskur setuliðsmanna sem fundist hafa í Eyjafirði á undanförnum árum. Með áhugaverðari gripum sem fundist hafa á Hrafnagili eru heilar Coca cola flöskur. Fyrir utan tvö eða þrjú glerbrot af Coca Cola flöskum sem höfðu komið í leitirnar, var fátt sem benti til þess að hermenn á Akureyri og í nágrenni hefðu drukkið gosdrykkinn að einhverju marki. Eftir að fyrsta flaskan leit dagsins ljós á Hrafnagili fyrir nokkrum dögum síðan, brutu þær sér leið fram í dagsbirtuna hver af annarri, allar á sama blettinum. Þegar upp var staðið voru Coca Cola flöskurnar sex talsins.

Upphaf Coca Cola drykkjarins nær aftur til seinni hluta 19. aldar. Flaskan, eins og við þekkjum hana í dag með sínu svokallaða Hobbleskirt design, kom fyrst á markað árið 1916. Fyrsta „týpa“ Coke-flöskunnar er merkt „NOV.16. 1915“ sem vísar í daginn sem einkaleyfi fékkst fyrir Hobbleskirt design. Frumgerðin var í framleiðslu til ársins 1928 þegar önnur útgáfa var sett í umferð. Sú gengur undir nafninu „jólaflaskan“ (Christmas Bottle) og var hún í framleiðslu til ársins 1938. Nafnið er tilkomið vegna endurnýjunar einkaleyfis á jóladag, þann 25. desember 1923. Framleiðslan hófst þó ekki fyrr en fimm árum seinna. Coca Cola flöskur sem framleiddar eru á þessu tíu ára tímabili eru þannig auðþekktar á merkingunni „DEC.25. 1923“. Ári áður en seinni heimsstyrjöldin braust út, var einkaleyfið endurnýjað í annað sinn og þriðja útgáfan sett í umferð. Sú fékk merkinguna „PAT.D-105529“ (D-Patent Bottle) og var hún framleidd þar til einkaleyfið fyrir hana rann út árið 1951. Að undanskildum merkingunum líta Coke-flöskurnar frá þessum þremur tímabilum eins út. Það var svo árið 1957 sem fyrst var gerð breyting á útliti Coke-flöskunnar þegar stafirnir á henni voru málaðir hvítir.

Ef marka má timarit.is birtust fyrstu Coca Cola auglýsingarnar í blöðum sem gefin voru út á íslensku, í tímaritum Íslendinga í Norður-Ameríku á árunum 1918 og 1919. Auglýsing í Lögbergi á fullveldisárinu var á ensku, ári síðar birtist önnur í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar með mynd af fyrstu týpu Hobbleskirt design-flöskunnar. Fyrstu fréttir af sölu á Coke á Íslandi fyrir Íslendinga komu fyrir sjónir landsmanna í dagblöðum sumarið 1942. Mikil blaðaskrif urðu um hvernig að málum var staðið þegar veitt var umboð fyrir drykkinn á Íslandi. Svo virðist sem einhverjum hafi fundist málið lykta af pólitískri ívilnun og spillingu. Ekki verður annað sagt en að sumar af þeim greinum sem skrifaðar voru í íslenskum dagblöðum og tímaritum um Coca Cola það sem eftir lifði stríðsáranna, laði fram bros á vör. Í greinunum er m.a. velt upp hvort þessi nýi drykkur frá Ameríku innihaldi kókaín og hvort hann sé áfengur.

Coca Cola var vinsæll drykkur á meðal bandarískra hermanna í seinni heimsstyrjöldinni. Hvort sem um var að ræða átakasvæði í Frakklandi og Japan eða á rólegri slóðum Nýja-Sjálands og Íslands, alls staðar mátti sjá hermenn með Coca Cola flöskur. Mikil neysla og útbreiðsla á stríðsárunum er þó einnig tilkomin vegna ákvörðunar forstjóra fyrirtækisins að bjóða hverjum amerískum dáta Kók á kostakjörum á kostnað fyrirtækisins, hvar sem var í heiminum á meðan stríð geisaði – “every man in uniform gets a bottle of Coca-Cola for five cents, wherever he is and whatever it costs the company”. Auglýsingaskilti fyrir Coca Cola spruttu fram á hverju götuhorni. Jafnvel sjálfur Eisenhower hershöfðingi kallaði sérstaklega eftir samstarfi við Coca-Cola Company árið 1943. Honum varð ljóst að drykkurinn létti lundina og gæti með því lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að efla baráttuandann. Styrjöldin átti þannig stóran þátt í að kynna Kók fyrir heimsbyggðinni. Flöskurnar á Hrafnagili eru á meðal fimm milljarða Kók-flaskna sem amerískir hermenn og annað starfsfólk hersins um allan heim drakk úr á stríðsárunum. Sex flöskur í liði „flöskunnar  sem fór af stað í stríð árið 1941 og endaði með því að sigra heiminn“.

Eitt sem einkennir Kók-flöskurnar frá árunum í kringum seinna stríð er græni liturinn á glerinu, svokallaður Georgia-grænn. Hann er nefndur eftir ríkinu þar sem Coca Cola Company var stofnað. Á fyrri hluta 20. aldar var hráefni til að vinna glerið sótt í tiltekna námu sem fyrirtækið hafði á snærum sínum. Náman var rík af kopar og skýrir það græna litinn. Annað sem einkennir flöskurnar er botninn. Ólíkt flestum flöskum er botninn merktur borg eða bæ í Bandaríkjunum sem gefur til kynna hvert viðkomandi flaska fór í sölu. Fjórar af flöskunum frá Hrafnagili eru af gerðinni PAT.D-105529. Þær eru framleiddar á árunum 1938-1951 í Chattanooga Glass Company í Tennessee. Tvær eru merktar NEW YORK á botninum, ein er merkt BOSTON MASS[ACHUSETTS] og loks ein merkt HARTFORD CONN[ECTICUT]. Hinar tvær eru eldri, svokallaðar „jólaflöskur“ með merkinguna DEC.25. 1923 sem segir okkur að þær hafi verið framleiddar á árunum 1928-1938. Önnur er framleidd í Owens-Illinois Glass Company. Báðar eru þær frá árinu 1935. NEW YORK er skráð á botni annarrar. Botninn á hinni er merktur PROVIDENCE R.I. ( RHODE ISLAND).

Græni liturinn á Kók-flöskunum gefur jafnframt til kynna að þær hafi verið hugsaðar til almennrar notkunar en ekki framleiddar sérstaklega fyrir bandaríska hermenn. Coca Cola lét útbúa coke-flöskur sérstaklega fyrir bandaríska herinn í seinni heimsstyrjöldinni. Þær eru glærar og án merkinga á botninum. Þannig hafa flöskurnar Á Hrafnagili líklega verið sendar í verslanir í fyrrnefndum borgum áður en Bandaríkin urðu þátttakendur í stríðinu en í krafti endurnýtingar og skilagjalds, dúkkað upp í nágrenni Akureyrar á stríðsárunum og lokið hlutverki sínu þar með. Ekki aldeilis. Endurnýtingin er enn í fullu gildi. Nú hefst nýtt líf Kók-flasknanna sex frá Hrafnagilsspítala.

Leikarinn Rami Malek fær sér sopa af Coca Cola í þáttunum The Pacific frá árinu 2010. Flaskan er glær og án merkinga á botninum.

Leikarinn James Badge Dale í The Pacific með græna Coce-flösku.

The Pacific.