main image

Frægar myndir af Akureyri málaðar í leiðangri Gaimard

Joseph Paul Gaimard var franskur læknir og náttúruvísindamaður. Hann stýrði vísindaleiðangri á Norðurslóðum á fjórða áratug 19. aldar og ferðaðist þá um Ísland. Hann kom tvisvar hingað til lands, sumrin 1835 og 1836 og dvaldist í rúma fjóra mánuði bæði árin. Í fyrri leiðangrinum hafði hann náttúrfræðinginn Eugene Robert sér við hlið. Í þeim seinni kom sjö-manna hópur vísinda-, fræði- og listamanna frá Frakklandi til að rannsaka, skrá og teikna myndir af því sem fyrir augu bar. Leiðangursmennirnir komu við á Akureyri.

Eftir fyrri leiðangurinn tókst Gaimard að vekja athygli samlanda sinna á Íslandi. Komið hefur fram tilgáta um að sjálfur Frakklandskonungur, Lúðvík Filippus, hafi haft bein áhrif á ákvörðun franskra stjórnvalda um að rannsaka þessa ókönnuðu eyju í Norður-Atlantshafi. Miklu fé var kostað í því skyni að tryggja mannafla og fullkominn tækjabúnað í þágu seinni leiðangursins. Konungi hefur sjálfsagt verið kunnugt um gjöful fiskimið við Íslandsstrendur og því talið eftir einhverju að slægjast. Leiðangurinn var þó ekki einstakur, hann var hluti af metnaðarfullri áætlun Frakka um að rannsaka gjörvalla Norður-Evrópu.

Í hópnum sem kom til Akureyrar var landslagsmálari að nafni Auguste Mayer. Í ferðinni hingað norður málaði Mayer myndir sem nánast hvert mannsbarn á Íslandi þekkir, m.a. myndir af elsta hluta Akureyrar, Laxdalshúsi og Möðruvöllum í Hörgárdal. Myndirnar úr leiðangrinum eru fjölmargar og ekki aðeins af landslagi. Einnig er um að ræða myndir af dýrum, kirkjugripum og fólki. Fleiri málarar komu að gerð myndanna en Mayer. Nokkur nöfn eru nefnd til sögunnar en Auguste Mayer er án nokkurs vafa það nafn sem flestir hafa heyrt nefnt.

Leiðangur Joseph Paul Gaimard kemur við sögu í hlaðvarpsþáttum Grenndargralsins, Leitin að Grundargralinu.

Heimildir:

Friðrik Rafnsson. (1985, 13. apríl). Í sálarkompaníi með Páli Gaimard. DV, bls. 22-23.

Grundargralið – Kom eggjasafnari frá Leipzig með gralið?

Árin 1820 og 21 ferðuðust þýskir vísindamenn til Íslands. Þeir hétu Friedrich August Ludwig Thienemann (1793-1858) og Gustaf Biedermann Gunther (1801-1866). Ferð þeirra til Íslands var í þágu vísinda. Hittu þeir m.a. Gunnlaug Briem sýslumann og konu hans Valgerði Árnadóttur að heimili þeirra á Grund í Eyjafirði árið 1820.

Thienemann var fuglafræðingur og læknir. Eftir læknisfræðinám í Leipzig árið 1819 ferðaðist hann um Evrópu í tvö ár, þar af rúmt ár á Íslandi. Gunther var skurðlæknir, fæddur árið 1801. Á meðan hann stundaði nám við Háskólann í Leipzig, ferðaðist hann með Thienemann um Ísland. Félagarnir skráðu það sem fyrir augu bar í Íslandsheimsókninni í bókinni Reise im Norden Europa’s vorzüglich in Island in den Jahren 1820 bis 1821. Bókin kom út árið 1824.

Gunther varð prófessor í skurðlækningum við Háskólann í Kiel árið 1837. Hann starfaði sem slíkur við Háskólann í Leipzig frá árinu 1841 og til dauðadags. Thienemann er þekktastur fyrir störf sín á sviði fuglafræði og þá sérstaklega fyrir rannsóknir á æxlun fugla. Á starfsævi sinni safnaði hann um 2000 fuglahreiðrum og 5000 eggjum frá 1200 fuglategundum.

Skyldu 19. aldar-egg frá Grund í Eyjafirði leynast á safni í Þýskalandi?

Grenndargralið veltir upp spurningunni hvort Thienemann og Gunther hafi fært sýslumanninum silfurgral í hlaðvarpsþáttunum Leitin að Grundargralinu.

Heimildir:

Friedrich August Ludwig Thienemann. (2020, 27. júní). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Ludwig_Thienemann

Gustav Biedermann Günther. (2018, 5. september). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Gustav_Biedermann_G%C3%BCnther#cite_note-LO-1

Grundargralið – Hver var Akne Hustergaard?

Valgerður Árnadóttir Briem var fædd árið 1779. Valgerður var eiginkona Gunnlaugs Briem (1773-1834) sýslumanns í Kjarna og á Grund. Til er ljósmynd af Valgerði sem margir þekkja. Myndin er söguleg fyrir þær sakir að barnabarn þeirra hjóna, hinn kunni bankastjóri, þingmaður og kaupstjóri Gránufélagsins, Tryggvi Gunnarsson er álitinn hafa tekið myndina af ömmu sinni. Tryggvi lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn veturinn 1863–1864.

Það sem gerir myndina merkilegri er hversu langt síðan Valgerður fæddist. Þó myndin sé ekki á meðal elstu ljósmynda af Íslendingi, hefur hún hingað til verið talin tekin af þeim Íslendingi sem fæddist fyrst allra þeirra sem ljósmynd hefur verið tekin af á Íslandi. Valgerður lést árið 1872 svo ef rétt reynist er myndin tekin fyrir þann tíma, eðli málsins samkvæmt. En er konan á myndinni mögulega einhver önnur en Valgerður Briem?

Ekki er úr miklu að moða þegar leitað er upplýsinga um ljósmyndina á erlendum vefsíðum. Þó er eitt sammerkt með sumum þeirra sem vekur athygli en það er nafn konunnar á myndinni – Akne Hustergaard(?) Er það kannski til marks um að konan sem um ræðir sé önnur en sýslumannsfrúin á Grund? Þá vekur upp spurningar að  ljósmyndin er til á Nationalmuseet í Kaupmannahöfn (https://samlinger.natmus.dk/dmr/asset/160020) þar sem hún er sögð úr fórum Daniel Bruun (1856-1931). Bruun var liðsforingi í danska hernum og fornleifafræðingur. Hann kom margoft til Íslands um aldamótin 1900 til að rannsaka kuml. Þó myndin sé eignuð Daniel Bruun í Þjóðminjasafninu í Danmörku, þarf það ekki að þýða að hann hafi tekið myndina. En ef svo, þá er útilokað að myndin sé af Valgerði Briem þar sem Bruun kom í fyrsta skipti til Íslands árið 1896.

Grenndargralið rekur sögu Gunnlaugs Briem, Valgerðar konu hans, afkomenda og samferðamanna í hlaðvarpsþáttunum Leitin að Grundargralinu.

Fyrstu þættir Leitarinnar að Grundargralinu komnir í loftið

Er gralið á Grund goðsaga?

Í 200 ár hafa Eyfirðingar velt fyrir sér munnmælasögunni um Grundargralið. Sagan segir að ónefndur útlendingur hafi á fyrri hluta 19. aldar fært húsbóndanum á stórbýlinu Grund mikilfenglegt silfurgral að gjöf. Er sagan goðsaga eða sönn? Er Grundargralið til?

Grenndargralið kannar sannleiksgildi sögunnar og freistar þess að endurheimta týnda gersemi í sögu og menningu heimabyggðar.

Hlaðvarpsþættirnir Leitin að Grundargralinu verða aðgengilegir á streymissíðu Grenndargralsins. Fyrsti þáttur fer í loftið fimmtudaginn 17. júní.

Öryggið á oddinn í sumar

Síðastliðið sumar var sannarlega viðburðaríkt hjá Varðveislumönnum minjanna. Skemmtilegar gönguferðir á slóðir setuliðsmanna í og við Hlíðarfjall ofan Akureyrar og í Hörgárdal. Óvæntar uppgötvanir í fjallinu og  fundur merkilegra stríðsminja. Spennandi sprengjuleiðangrar með Landhelgisgæslunni. Hlaðvarpsþættir um vetrarhernað breskra, bandarískra og norskra hermanna í fjallinu á stríðsárunum. En þó umfram allt skemmtilegt samfélag grúskara sem deilir áhuga á sögu, útiveru og varðveislu sögulegra minja í heimabyggð.

Árið 1980 fóru feðgin í hressingargöngu upp á Súlur. Á leið þeirra um Súlumýrar gengu þau fram á torkennilegan hlut sem faðirinn tók til handargagns (sjá mynd). Hann vissi hvers kyns var og taldi óhætt að flytja sprengjuhólkinn til byggða þar sem hann var holur að innan og vantaði á hann oddinn. Sprengjan sem feðginin fundu var líklega úr amerískri AA gun loftvarnarbyssu. Hún hefur verið í eigu föðurins í rúm 40 ár. Dóttirin deildi þessari litlu lífsreynslusögu með Varðveislumanni minjanna nú þegar sól hækkar á lofti og snjóa leysir með tilheyrandi fjallabrölti útivistarfólks.

Þó allt hafi farið á besta veg í tilfelli feðginanna á Súlumýrum er rétt að minna fólk á að ennþá eru að finnast á víðavangi virkar sprengjur frá breska og ameríska setuliðinu. Þó tilfellin séu ekki mörg hér um slóðir á undanförnum árum er full ástæða til að minna útivistargarpa á eftirfarandi: Undir engum kringumstæðum skal hreyfa við hlutum í hlíðunum ofan við Akureyri, við rætur Súlna og inn í Glerárdal sem kunna að vera leifar af gömlum sprengjum úr seinni heimsstyrjöldinni. Þessir staðir voru æfingasvæði setuliðsins á stríðsárunum. Hið rétta í stöðunni er að taka myndir af hlutnum, merkja staðsetninguna og gera Lögreglu eða sprengjudeild Landhelgisgæslunnar viðvart.

Setjum öryggið á oddinn og njótum fallegrar náttúru í heimabyggð í sumar.

Hvað varð um fjármunina sem Aðalsteinn gaf börnum í Eyjafirði?

Í júní 1952 birtist flennistór frétt í Degi undir yfirskriftinni Vestur-Íslendingur arfleiðir Akureyri og Eyjafjarðarsýslu að meira en 500 þús. krónum. Fénu á að verja til menningarmála í bæ og sveit. Grenndargralinu leikur forvitni á að vita hvernig fjármunum þessum – sem voru umtalsverðir á þessum tíma – var ráðstafað.

Vestur-Íslendingurinn sem um er rætt er Aðalsteinn Kristjánsson, fæddur á Bessahlöðum í Öxnadal árið 1878. Hann flutti með foreldrum sínum að bænum Flögu í Hörgárdal árið 1880 þar sem hann bjó þar til hann settist að í Ameríku um aldamótin. Hann lærði byggingariðn ásamt bróður sínum Friðriki og starfaði sem fasteignasali. Saman stofnuðu þeir bræður fyrirtæki sem skilaði miklum hagnaði. Byggingarmeistarinn Aðalsteinn skrifaði bækur í frítíma sínum, jafnt á íslensku sem ensku. Hann var duglegur að rækta samband sitt við fósturjörðina og heimsótti Ísland árin 1914 og 1917. Árið 1911 kvæntist Aðalsteinn enskri konu að nafni Olive Emely. Þeim varð ekki barna auðið. Við lok fyrri heimsstyrjaldar gekk Aðalsteinn í breska herinn. Hann var sendur í herbúðir en sneri aftur árið 1919.

Ungur að árum fór Aðalsteinn að kenna sér meins sem varð til þess að hann samdi erfðaskrá árið 1926. Hann var þá skilinn við Olive Emely. Samkvæmt erfðaskránni áttu stofnanir í Ameríku að njóta góðs af gjafmildi byggingarmeistarans. Meirihluti eigna hans átti þó að renna til þriggja verkefna á Íslandi þ.á.m. til Háskóla Íslands og „til eflingar skóggræðslu og landbúnaði í Akureyri og Eyjafjarðarsýslu“. Næstu tvo áratugina eða rúmlega svo bjó Aðalsteinn í Bandaríkjunum, n.t.t. í Brooklyn og Los Angeles þar sem hann bjó síðustu æviárin. Aðalsteinn lést í Hollywood árið 1949.

Þremur árum eftir andlátið barst bæjarstjórn Akureyrar bréf, undirritað af hæstaréttarlögmanni. Þar var bæjarstjórnarmönnum gert kunngjört að auk framlags Aðalsteins til skógræktar á svæðinu hefði hann „í erfðaskrá sinni stofnað sjóð til styrktar fátækum börnum hér og er sjóður þessi 18 þúsund dollarar eða um 290 þúsund krónur.“ Þessi höfðinglega gjöf sem Eyfirðingum barst frá Ameríku og Dagur gerði að umfjöllunarefni er einnig nefnd til sögunnar í minningarorðum sem Einar P. Jónsson skrifaði um Aðalstein og birtust í Lögbergi í árslok 1949; „síðast en ekki sízt ber að minnast fyrirmælanna, sem táknrænust eru fyrir innræti og hjartalag gefandans, en þau lúta að stofnun eldtrausts og glæsilegs heimilis í Eyjafirði fyrir munaðarlaus og hjálparþurfa börn, en til þess að koma slíkri stofnun á fót, leggur gefandinn fram höfðinglega fjárhæð“.

Einhver dráttur virðist hafa orðið á því að hugmyndir Aðalsteins kæmust í framkvæmd. Þá vaknar jafnframt upp sú spurning hvort allar fyrirætlanir hans, eins og þær birtust í erfðaskránni, hafi orðið að veruleika. Á heimasíðu Háskóla Íslands, undir liðnum Styrktarsjóðir segir eftirfarandi; „var skipulagsskrá Minningarsjóðs Aðalsteins Kristjánssonar til eflingar náttúruvísindum og efnafræði við Háskóla Íslands ekki staðfest fyrr en 1978“. Þar segir enn fremur að hluti arfsins sem átti að renna til HÍ hafi verið geymdur í Winnipeg allt þar til sumarið 1994 þegar Diane Kristjansson, barnabarn Friðriks (bróður Aðalsteins) kom til Íslands „til að afhenda greiðslu arfsins“. Um svipað leyti afhenti Diane Skógræktarfélagi Íslands þann hluta sem ætlaður var til skógræktar, tæpar 8 milljónir að þávirði – 45 árum eftir dauða Aðalsteins.

Aðalsteinn Kristjánsson átti sér ósk um að styrkja þrjú verkefni á Íslandi að sér látnum. Grenndargralinu er ekki kunnugt um hvað varð um hugmyndina um eldtraust og glæsilegt heimili í Eyjafirði fyrir munaðarlaus og hjálparþurfa börn og/eða fjármuni þá sem Aðalsteinn arfleiddi í þágu þess málefnis. Mögulega var ferð Diane Kristjansson til Íslands árið 1994, þegar hún kom til að afhenda greiðslu arfsins, einskonar uppgjör við óskir Aðalsteins. Ferð til fjár í bókstaflegum skilningi. Getur verið að aðrar stofnanir sem vinna að velferð barna hafi notið góðs af gjafmildi Aðalsteins? Á heimasíðu HÍ segir: „Auk Háskóla Íslands og Skógræktarfélagsins munu samtökin Barnaheill hafa hlotið fjármuni af þessum arfi.“

 

Heimildir:

Einar P. Jónsson. (1949, 22. desember). Minningarorð um Aðalstein Kristjánsson. Lögberg, bls. 1.

Háskóli Íslands. (2010, 11. mars.) Minningarsjóður Aðalsteins Kristjánssonar til eflingar náttúruvísindum og efnafræði. Æviagrip. http://sjodir.hi.is/aeviagrip

Höfðingleg gjöf til Skógræktarfélags Íslands. (1995, 29. júní). Tíminn, bls. 5.

Vestur-Íslendingur arfleiðir Akureyri og Eyjafjarðarsýslu að meira en 500 þús. krónum. (1952, 5. júní). Dagur, bls. 1.

Aukaleikkonurnar í Hollywood í aðalhlutverki á Akureyri?

Grenndargralið fjallaði ekki alls fyrir löngu um söngkonuna Ethel Hague Rea og píanósnillinginn Kathryn Overstreet sem dvöldust hér á landi í seinni heimsstyrjöldinni. Vitað er að þær komu báðar til Akureyrar. Ethel Hague Rea var viðstödd vígslu tómstundamiðstöðvar fyrir setuliðið árið 1942. Kathryn Overstreet skemmti Akureyringum á tvennum tónleikum í janúar 1944.

Ethel og Kathryn voru í hópi kvenna sem sendur var til Íslands af ameríska Rauða krossinum til að skemmta hermönnum sem hér gegndu herþjónustu. Ethel hafði getið sér gott orð sem sópransöngkona í Bandaríkjunum á millistríðsárunum. Kathryn var upprennandi stjarna í heimalandinu þegar hún steig á svið í Samkomuhúsinu. Konurnar sem hingað komu höfðu mikilvægu starfi að gegna innan setuliðsins. Þær voru í aðalhlutverki við að gleðja hundleiða hermennina sem höfðu lítið við að vera í tilbreytingarleysinu á Íslandi á meðan stríð geisaði í Evrópu.

Heimildir staðfesta komu fleiri skemmtikrafta en Ethel og Kathryn á vegum ameríska Rauða krossins (ARC) til Akureyrar á stríðsárunum. Grenndargralið hefur áður sagt frá heimsókn Jane Goodell, Doris Thain og Betsy Lane í bæinn. Allar voru þær samstarfskonur Ethel og Kathryn á meðan á Íslandsdvölinni stóð. Sumum af ARC-konunum sem unnu með þeim við að skemmta bandarískum hermönnum á Íslandi á stríðsárunum átti eftir að bregða fyrir á hvíta tjaldinu að stríði loknu. Þar voru þær oftar en ekki í aukahlutverkum. 

Reta Shaw (1912-1982) lék í fjölmörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á ferli sínum. Hún er þekktust fyrir hlutverk sín í Disney-myndunum Mary Poppins (1964) og Pollyanna (1960) og sjónvarpsþáttum á borð við Happy Days og Lucy Show.

Molly Dodd (1921-1981) gat sér gott orð sem leikkona í sjónvarpi. Hún kom m.a. fram í þáttunum The Brady Bunch, The Mary Tyler Moore Show, The Twilight Zone og The Andy Griffith Show. Þekktasta bíómynd sem Dodd lék í var stórmynd Alfred Hitchcock, Vertigo með James Stewart og Kim Novak (1958).

Parker McCormick (1918-1980) lék í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum í 30 ár. Hún lék með þekktum leikurum svo sem Lauren Bacall, James Garner, Angelu Lansbury, Glenn Ford og Tom Berenger. McCormick var gift leikaranum John Forsythe sem síðar átti eftir að slá í gegn í sjónvarpsþáttunum um ættarveldið, Dynasty.

Miriam Stovall kom fram í vinsælum sjónvarpsþáttum á sjötta áratugnum. Þekktust er hún þó fyrir leik á sviði á árunum eftir seinna stríð í leikritum George Bernard Shaw og Tennessee Williams.

Betty McCabe lék lítið hlutverk í kvikmyndinni Moonlight in Vermont (1943). Frá Íslandi fór hún á milli herstöðva víða í Evrópu til að skemmta amerískum hermönnum.

Fjórar hinar síðastnefndu mynduðu teymi en störfuðu einnig náið með Retu Shaw, Ethel Hague Rea og Kathryn Overstreet. Vel kann að vera að einhverjar úr þessum hópi aukaleikkvenna í Hollywood hafi leikið aðalhlutverk í heimabyggð með dansi, söng og hljóðfæraleik fyrir setuliðsmenn í bragga á Gleráreyrum eða í Lögmannshlíð.

Heimildir: The White Falcon og imdb.com.

Reta Shaw

Molly Dodd

Parker McCormick

Miriam Stovall

Betty McCabe

Þyrilfluga vakti athygli Akureyringa í kalda stríðinu

Þyrlur koma nokkuð við sögu í fréttamyndum af eldgosinu á Reykjanesskaga. Núorðið þykir ekkert tiltökumál þótt hér sjáist til þyrlu í háloftunum en þannig hefur það ekki alltaf verið. Um miðja 20. öldina sást þyrla í fyrsta skipti á Akureyri. Heimsókn amerísku þyrlunnar – þessarar mikilfenglegu uppfinningar mannsins – hefur án vafa fyllt margan bæjarbúann stolti. Á sama tíma og farartækið sveimaði yfir bænum, var undirbúningur á lokastigi fyrir tímamótaflug tveggja þyrlna frá Bandaríkjunum yfir Atlantshafið, með viðkomu á Íslandi. Stoltið yfir hugviti og kröftum mannsandans var ekki minna úti í hinum stóra vestræna heimi.

Átök austurs og vesturs voru greinileg sumarið 1952 þegar skip úr bandaríska flotanum lá við bryggju á Akureyri. Bandaríkjamenn voru að undirbúa vetnissprengju í tilraunaskyni sem sprengja átti á Marshall-eyjum í nóvember og fyrstu vopnuðu átök Kalda stríðsins geysuðu í Kóreu. Um borð í flutningaskipinu var framandi loftfar sem notað var við leit að heppilegum stöðum til að koma upp ratsjám. Allt var þetta hluti af því að koma vörnum landsins í sem besta horf gagnvart hinu illa úr austri. Dagur greindi frá heimsókn fyrstu þyrilflugunnar til Akureyrar þann 14 júlí.

Hér kom fyrir helgina amerískt flutningaskip, tilheyrandi sjóhernum, og hafði meðferðis þyrilflugu (helicopter). Hóf flugan sig upp af þilfari skipsins hér við Torfunefsbryggju á mánudagsmorguninn og flaug síðan hér umhverfis bæinn. Er þetta í fyrsta sinn, sem slík flugvél sést á flugi hér. Flugvélin settist jafnauðveldlega á þilfar skipsins, stanzaði í loftinu í nokkurri hæð og seig síðan hægt niður á þilfarið.

Daginn eftir að bæjarbúar virtu fyrir sér þyrlu hið fyrsta sinn, hófu tvær Sikorsky-þyrlur sig til flugs frá Bandaríkjunum áleiðis til Þýskalands. Flugmenn þyrlanna Hop-A-Long og Whirl-O-Way freistuðu þess að verða fyrstir til að fljúga þyrlum austur yfir Atlantshaf, til meginlands Evrópu með viðkomu á nokkrum stöðum, m.a. á Íslandi. Markmiðið var að kanna burði þyrlnanna til langflugs. Flugið gekk stóráfallalaust fyrir sig. Þyrlurnar lentu í Keflavík þann 29. júlí en fluginu lauk í Wiesbaden þann 4. ágúst eftir 20 daga ferðalag.

Auk Keflavíkur, lentu Sikorsky-þyrlurnar í Narsarsuaq á Grænlandi og Prestwick í Skotlandi á leið þeirra yfir Atlantshafið í júlí 1952. Fjölmiðlar víða um heim fylgdust með ferð þeirra og fólk flykktist á flugvellina til að berja þær augum. Þyrilflugan sem heillaði Akureyringa í sama mánuði kom víða við á flugi sínu um Norðurland. Hún lenti m.a. í Grímsey og á íþróttavellinum á Siglufirði og vakti óskipta athygli. Nú er öldin önnur. Þyrilflugurnar sveima um eins og hverjar aðrar flugur og lenda í grennd við gosstöðvarnar. Heimsbyggðin lætur sér fátt um finnast en fyllist aðdáun yfir ógnarkröftum náttúrunnar.

 

Heimildir:

Ekki á að ganga af Grímsey. (1952, 25. júlí). Siglfirðingur, bls. 4.

Ivy Mike. (2021, 5. mars). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Ivy_Mike

Vinnie Devine. (2014, nóvember). Sikorsky Product History. Sótt af https://www.sikorskyarchives.com/S-55.php

Þyrilfluga yfir Akureyri. (1952, 16. júlí). Dagur, bls. 8.

Þyrilfluga á íþróttavellinum á Ísafirði. (1952, 19. júlí). Morgunblaðið, bls. 12.

Þyrilvængjum flogið í fyrsta sinn austur yfir Atlantshaf. (1952, 1. ágúst). Alþýðublaðið, bls. 7-8.

Menningarverðmæti fundust í safninu hans pabba

„Ég fann þetta bréf þegar ég fór í gegnum dótið hans pabba og skemmti mér vel yfir lestrinum. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta lenti hjá honum en pabbi var mikið í því að skipta bókum í dánarbúum og fékk yfirleitt greitt í bókum og pésum. Mér finnst ekki ólíklegt að bréfið hafi ratað til hans með þeim hætti þó ég hafi ekki hugmynd um það.

Ég velti fyrir mér hvort það geti verið að bréfið sé skrifað af Benedikt sjálfum eða er ég kannski með eintak sem einhver annar hefur skrifað upp eftir honum? Hvert var tilefni þessara skrifa? Hver/hverjir áttu að lesa eða var þetta bara skrifað af því bara?

Ég lofaði pabba því að ég skyldi aldrei lána, gefa eða selja nokkuð úr safninu hans. Mér þykir endalaust vænt um það og mun gæta þess vel. Það á ekki síst við um þetta tiltekna bréf sem pabbi hafði merkt sem fágæti.“

Svona hefst tölvupóstur sem Grenndargralinu barst ekki alls fyrir löngu ásamt myndum af gul-lituðu og snjáðu 19. aldar bréfi. Ónefndur einstaklingur í heimabyggð veltir fyrir sér tilgangi skrifanna og hvort Benedikt sá er vísað er til, sé Benedikt Gröndal náttúrfræðingur og skáld (1826-1907), sonur hins þekkta Pereat-rektors Lærða skólans, Sveinbjörns Egilssonar. Bréfið er nokkurs konar vottun eða staðfesting Benedikts á frelsi Vilborgar nokkurrar Sigurðardóttur til að ferðast óhindrað milli landshluta. Þegar bréfið var skrifað hafði Benedikt misst eiginkonu og tvær dætur. Hann lagðist í alvarlegt þunglyndi og sinnti illa starfi sínu sem kennari við Lærða skólann í Reykjavík. Honum var vikið úr starfi árið 1883. Næstu árin vann hann ýmis störf til að hafa í sig og á. Titill bréfsins er Fararbrjef handa stúlku. Árið er 1886.

Hjer með kunngjörist að stúlkan Vilborg Sigurðardóttir ætlar vistferlum hjeðan úr bænum, norður í Húnavatnssýslu, og er hún til þess fullkomlega frjáls, hvort hún vill heldur fara í norður, vestur, austur eða suður og eftir öllum strikum kompássins, hvort hún vill heldur ganga eða hlaupa, stökkva, klifra, skríða, fara á handahlaupum, sigla eða fljúga.

Áminnast hjer með allir karlmenn um að fikta ekkert við Borgu fremur en hún sjálf vill leyfa, og engar hindranir henni að gera, ekki bregða henni hælkrók, nje leggja hana á klofbragði, heldur láta hana fara frjálsa og óhindraða og húrrandi í loftinu, hvert á land sem hún vill, þar eð hún hefur hvorki rænt né drepið mann, ekki logið nje stolið, ekki svikið né neitt gjört, sem á verður haft.

Lýsist hún því hér með frí og frjáls fyrir öllum sýslumönnum og hreppstjórum, böðlum og besefum, kristnum og ókristnum, guðhræddum hundheiðnum, körlum og konum, börnum og blóðtökumönnum.

Heldur áminnast allir og umbiðjast, að hjálpa nefndri Borgu og greiða veg hennar, hvort heldur hún vill láta draga sig, aka sjer, bera sig á háhesti, reiða sig á merum eða múlösnum, trippum eða trússhestum, gæðingum eða graðungum, í hripum eða hverju því sem flutt verður á.

Þetta öllum til þóknanlegrar undirrjettingar, sem sjá kunna passa þennan. Enginn sóknarprestur þarf að skrifa hjer upp á.

Reykjavík 5. maí 1886.

Benedikt Gröndal.

Árið 1913 birtist grein í Verkamannablaðinu undir yfirskriftinni Passi. Þar er bréf Benedikts Gröndal birt í heild ásamt skýringum á hlutverki þess.

Það vóru lög fyrrum, að menn urðu að fá sér vegabréf hjá yfirvaldi til þess að geta ferðast frjálsir inn í annað lögsagnarumdæmi. Slík vegabéf eru enn í góðu gengi á Rússlandi, en munu nú vísast horfin annars staðar um hinn svonefnda siðaða heim. Þetta vegabréf eða passa, sem hér fer á eftir, gaf Ben. Gröndal vinnukonu sinni, sem fluttist vistferlum frá honum og orðar hann auðvitað á sína vísu. Afskrift af passa þessum mun vera í fárra manna höndum, en eftirsjá að hann glatist, svo einkennilegur sem hann er og líkur Gröndal.

Verkamannablaðið svarar þannig ágætlega þeirri spurningu eiganda bréfsins, hver tilgangur skrifanna var. Þá getum við svo gott sem fært til bókar að textinn í bréfinu kemur upphaflega frá umræddum Benedikt Gröndal, náttúrufræðingnum, skáldinu og rithöfundinum. Eftir stendur spurningin hvort þetta tiltekna eintak sem Grenndargralið fékk fyrirspurn um sé „orginall“, skrifað og undirritað af skáldinu sjálfu.

Þó ekki sé hægt að fullyrða nokkuð um það, verður líklega að teljast ólíklegt að svo sé. Til þess eru líkindin ekki nægilega mikil með undirskriftinni á bréfinu og undirskrift sem ótvírætt er runnin undan rifjum Benedikts. Eins getur Verkamannablaðið þess að afrit (ft) af bréfinu hafi verið til sem gefur til kynna mögulega fjölritun og þá ekki endilega frá rithöfundinum sjálfum. Þá er orðalag bréfsins sem hér er til umfjöllunar örlítið frábrugðið textanum sem birtist í Verkamannablaðinu.

Hvað sem öllu líður er ljóst að bréf sem hafði mikið varðveislugildi árið 1913 sökum þess hversu fá eintök voru til, hefur ekki minna gildi nú rúmum 100 árum síðar. Menningarlegt gildi fararbréfs Benedikts Gröndal handa stúlku frá árinu 1886 er þannig ótvírætt. Gott er að vita af þessari gersemi í sögu og menningu heimabyggðar í góðum höndum í safninu hans pabba.

Heimildir:

Lestu ehf. (e.d.). Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal. Lestu.is. https://lestu.is/safn/Benedikt%20Sveinbjarnarson%20Grondal/index.html

Passi. (1913, 1. maí). Verkamannablaðið, bls. 4.