Hlaðvarp
Leyndardómar Hlíðarfjalls 2022 – Kassos. John G. Kassos fórst með vél sinni P-39 Airacobra á Melgerðismelum í Eyjafirði sumarið 1942. Sagnalist í samstarfi við Grenndargralið segir sögu Kassos og P-39 í nýjum hlaðvarpsþáttum í þáttaröðinni Leyndardómar Hlíðarfjalls.
Leyndardómar Hlíðarfjalls 2021. Framhald þáttaraðarinnar vinsælu Leyndardómar Hlíðarfjalls sem fór í loftið sumarið 2020. Sagan heldur áfram.
Leitin að Grundargralinu. Í 200 ár hafa Eyfirðingar velt fyrir sér munnmælasögunni um Grundargralið. Sagan segir að ónefndur útlendingur hafi á fyrri hluta 19. aldar fært húsbóndanum á stórbýlinu Grund mikilfenglegt silfurgral að gjöf. Er sagan goðsaga eða sönn? Er Grundargralið til Grenndargralið kannar sannleiksgildi sögunnar og freistar þess að endurheimta týnda gersemi í sögu og menningu heimabyggðar.
Leyndardómar Hlíðarfjalls. Brynjar Karl Óttarsson tilheyrir hópi sögugrúskara sem deilir áhuga á stríðsminjunum í Hlíðarfjalli og dulúðinni sem hvílir yfir veru setuliðsmanna þar á hernámsárunum. Í þáttunum segir Brynjar frá leiðöngrum sem hann hefur farið upp í fjallið til að bjarga stríðsminjum og tilraunum til að leysa ráðgátur sem leynast þar. Athugun á samtímaheimildum og spjall við fræðinga og fólk sem þekkir til hernámsáranna af eigin raun fyllir upp í myndina. Útkoman er viðleitni til að púsla saman heildstæðari mynd af því sem fór fram í Hlíðarfjalli á stríðsárunum.
Sögur úr heimabyggð. Þann 19. mars árið 1907 lagði flutningaskipið Kong Trygve af stað frá Akureyri austur fyrir land og áleiðis til Reykjavíkur þaðan sem ætlunin var að sigla til Kaupmannahafnar. Mikill hafís var fyrir öllu Norðurlandi og slæmt veður svo skipið lá í vari við Hrísey fyrstu nóttina. Þessi og fleiri sögur úr heimabyggð.
Áreksturinn á Strandagrunnshorni. Aðfaranótt laugardagsins 22. júlí árið 1984 skall sovéska skemmtiferðaskipið Estonia á Harðbak EA 303 frá Akureyri úti á opnu hafi. Svanur Zophaníasson var um borð í Harðbaki umrædda nótt. Hann segir frá upplifun sinni af árekstrinum.
Kristneshæli – musteri lífs og dauða. Árið 1927 var berklahæli reist í Eyjafirði. Þátturinn er byggður á bók Brynjars Karls Óttarssonar, Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli. Lesarar eru: Arnar Birgir Ólafsson, Björn Vigfússon, Brynjar Karl Óttarsson, Eik Haraldsdóttir, Eyrún Huld Haraldsdóttir, Hildur Hauksdóttir, María Pálsdóttir, Óttar Örn Brynjarsson, Rósberg Halldór Óttarsson, Sigríður Steinbjörnsdóttir, Sunna Borg og Vilhjálmur B. Bragason. Umsjón: Brynjar Karl Óttarsson. Aðstoð við dagskrárgerð: Gígja Hólmgeirsdóttir.