main image

Grenndargral fjölskyldunnar 2012

 

 

Haustið 2008 fór Giljaskóli af stað með Leitina að grenndargralinu, tilraunaverkefni í grenndarkennslu fyrir nemendur í 8.-10. bekk. Síðan 2008 hefur verkefnið verið í boði á haustin fyrir nemendur í grunnskólum á Akureyri. Um nokkurs konar ratleik er að ræða sem stendur yfir í 10 vikur.  Þátttakendur leysa eina þraut á viku sem tengist sögu og menningu heimabyggðar. Lokamarkmiðið er að finna Grenndargralið sem er falið innan bæjarmarkanna. Nánari upplýsingar um upphaf og þróun Leitarinnar að grenndargralinu má finna undir linknum sagan hér efst á síðunni.
Í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar verður boðið upp á sérstaka afmælisútgáfu af Leitinni að grenndargralinu. Umsjónarmenn Leitarinnar standa að afmælisútgáfunni í samstarfi við afmælisnefnd Akureyrar og gengur hún undir nafninu Grenndargral fjölskyldunnar.

Hvernig fer Grenndargral fjölskyldunnar fram?
Þrjár þrautir verða lagðar til grundvallar á jafnmörgum vikum og munu þær sem fyrr tengjast sögu og menningu heimabyggðar, með áherslu á Akureyri. Þátttakendur ferðast um söguslóðir og læra um sögu Akureyrar í gegnum skemmtilegar og krefjandi þrautir. Þeir skila inn úrlausnum við þrautunum þremur sem umsjónarmenn ratleiksins munu svo fara yfir. Þeir sem skila inn réttum úrlausnum fyrir tilskilinn tíma fá eina lokavísbendingu sem vísar á gralið. Það er falið á sérstökum stað  þar sem það bíður þess að líta dagsins ljós. Sá einstaklingur/hópur/fjölskylda sem finnur gralið stendur uppi sem sigurvegari.

Hvenær fer Grenndargral fjölskyldunnar fram?
Grenndargral fjölskyldunnar hefst miðvikudaginn 1. ágúst þegar fyrsta þraut verður birt. Önnur þraut verður birt viku síðar, þann 8. ágúst og sú þriðja og síðasta miðvikudaginn 15. ágúst. Þessar þrjár vikur, eða rúmlega það, snúast ekki um að vera á undan hinum heldur frekar að gefa sér tíma við að leysa þrautirnar svo úrlausnirnar verði nú örugglega réttar. Laugardaginn 25. ágúst verður lokavísbendingin afhent þeim sem leyst hafa þrautirnar þrjár. Þá fer tíminn að skipta máli þar sem kapphlaupið um Grenndargralið hefst. Ómögulegt er að segja til um hversu langan tíma það tekur en þegar gralið kemur í leitirnar lýkur Grenndargrali fjölskyldunnar.

Hvenær og hvernig á að skila úrlausnum við þrautunum þremur?
Umsjónarmenn Grenndargrals fjölskyldunnar  fá lausnirnar til yfirferðar. Ef svörin eru röng eða að einhverju leyti ófullnægjandi munu umsjónarmenn hafa samband við þau lið sem eiga í hlut. Þannig gefst þeim tækifæri til að leiðrétta villurnar og tryggja sér þar með áframhaldandi þátttöku til jafns við þá sem skilað hafa inn réttum úrlausnum. Þátttakendur hafa að jafnaði eina viku til að leysa þrautirnar þrjár. Æskilegt er að leysa þrautirnar og skila úrlausnum inn til yfirferðar jafnt og þétt þ.e. í þeirri viku sem viðkomandi þraut birtist. Þátttakendum er þó í sjálfsvald sett hvenær á tímbilinu 1. – 24. ágúst þeir leysa þrautirnar. Til að eiga möguleika á að fá lokavísbendinguna afhenta og þar með öðlast rétt til að leita að sjálfu Grenndargralinu þurfa réttar úrlausnir við þrautunum þremur að hafa borist umsjónarmönnum fyrir 24. ágúst. Úrlausnum má  skila með tölvupósti á netföng umsjónarmanna (sjá neðar) eða skriflega í upplýsingamiðstöðina í Hofi.  Með úrlausnunum þarf að koma fram hvað liðið heitir, nöfn liðsmanna (eða hvaða hóp er um að ræða ef hann er mjög fjölmennur), netfang (tölvupóstur) og sími.

Hverjir geta tekið þátt?
Allir geta tekið þátt, jafnt ungir sem aldnir. Engin takmörk eru fyrir því hversu margir skipa þátttökuliðin og þannig geta einstaklingar, fjölskyldur eða vinahópar tekið sig saman og myndað lið. Ekki þarf að skrá lið til þátttöku. Hægt er að hefja þátttöku hvenær sem er á tímabilinu 1.-24. ágúst. Hvorki þarf að tilkynna sérstaklega þegar lið hefur þátttöku né ef það kýs að draga sig úr keppni.

Hvar verða þrautirnar og aðrar upplýsingar vegna Grenndargrals fjölskyldunnar birtar?
Þrautirnar munu birtast á heimasíðu gralsins www.grenndargral.is kl. 12:00 undir linknum Grenndargral fjölskyldunnar vinstra megin á síðunni og á Facebook-síðu grenndargralsins. Aðrar upplýsingar í tengslum við ratleikinn verða birtar á forsíðu heimasíðunnar auk þess sem upplýsingar munu birtast á facebook-síðu Grenndargralsins. Nauðsynlegt er að geta komið upplýsingum áleiðis til þátttakenda hratt og örugglega á meðan ratleiknum stendur. Því eru þátttakendur hvattir til að fylgjast vel með gangi mála á síðunum sem og öðrum upplýsingamiðlum sem hugsanlega verða nefndir til sögunnar síðar.

Hvernig er verðlaunagripurinn sem barist verður um?
Gripurinn sem barist verður um á rætur sínar að rekja til Randers, vinabæjar Akureyrar í Danmörku. Það er vel við hæfi vegna tengsla Akureyrar við Danmörku og ekki síst danska kaupmenn um það leyti sem bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1862. Ingvar Engilbertsson er hönnuður gralsins auk þess sem hann smíðar gripinn. Til þess notar hann stofn jólatrésins frá Randers sem gladdi Akureyringa og aðra um síðustu jól. Sigurvegararnir fá gralið afhent til eignar að leit lokinni. Hér er um sérstaka hátíðarútgáfu að ræða af Grenndargralinu sem aðeins verður keppt um í þetta eina skipti. Það er því til mikils að vinna. Öll lið sem klára þrautirnar þrjár fá viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna.

Krefst þátttaka í Grenndargrali fjölskyldunnar einhvers undirbúnings?
Nei. Þetta er einfalt í framkvæmd en um leið skemmtilegt. Allt sem þarf að gera er að kynna sér fyrstu þraut miðvikudaginn 1. ágúst, fara af stað og leysa hana og skila svo inn úrlausnum. Ferlið er svo endurtekið tvisvar sinnum áður en lokavísbendingin verður afhent þeim sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við þrautunum þremur fyrir föstudaginn 24. ágúst.

Mikilvægar dagsetningar:
miðvikudagur 1. ágúst kl. 12:00         Fyrsta þraut birtist á grenndargral.is
miðvikudagur 8. ágúst kl. 12:00         Önnur þraut birtist á grenndargral.is
miðvikudagur 15. ágúst kl. 12:00        Þriðja þraut birtist á grenndargral.is
fimmtudagur 23. ágúst kl. 00:00        Réttar úrlausnir við þrautunum komnar til umsjónarmanna
laugardagur 25. ágúst                            Lokavísbending afhent – gralið fundið???

 

Grenndargral fjölskyldunnar á N4       http://www.n4.is/tube/file/view/2728/

Grenndargral fjölskyldunnar á Bylgjunni      http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP12989

Grenndargral fjölskyldunnar á Rás 1    http://www.ruv.is/sarpurinn/samfelagid-i-naermynd/02082012/leitin-ad-grenndargralnum-brynjar-karl-ottarsson