Greinaskrif

Grenndargralið hóf að útvega staðarblaðinu Akureyri vikublaði efni til birtingar á heilsíðu árið 2013. Um reglulegar birtingar var að ræða yfir vetrartímann, að jafnaði einu sinni í mánuði á rúmlega tveggja ára tímabili. Afraksturinn var u.þ.b. 20 opnur. Allar götur síðan hefur Grenndargralið birt sögulegan fróðleik úr heimabyggð í Akureyri vikublaði og síðar Norðurlandi, efni sem þekur síður á fjórða tug tölublaða samtals. Grenndargralið hefur einnig skrifað fyrir vefmiðla svo sem Skólavörðuna, akureyri.net, kaffið.is og ma.is. Efnistök eru fjölbreytt þar sem einkunnarorð Grenndargralsins eru höfð að leiðarljósi; gersemar í sögu og menningu heimabyggðar. Markmiðið er ávallt að matreiða viðfangsefnið á sem áhugaverðastan hátt fyrir almenning.

Meðal efnis sem Grenndargralið hefur birt í blaðinu má nefna Æskuslóðirnar mínar þar sem valinkunnir Eyfirðingar segja frá uppvexti sínum í heimabyggð, Af hverju ekki? þar sem Gralið leggur sitt lóð á vogarskálarnar við að auka fjölbreytni í menningu heimabyggðar og Geymt en ekki gleymt þar sem rifjaðir eru upp eftirminnilegir atburðir í sögu heimabyggðar. Þá hafa fjölmargar ítarlegar greinar birst um hin og þessi skemmtileg viðfangsefni úr sögu heimabyggðar, ráðgátur, sögur af sérvitringum og annað sem vekur athygli lesenda.

Hér að neðan getur að líta sýnishorn af fjölbreyttu úrvali blaða- og tímaritsgreina undanfarinna ára.