Vatnsfatan bjargaði lífum þegar Kong Trygve sökk

Þann 19. mars árið 1907 lagði flutningaskipið Kong Trygve af stað frá Akureyri austur fyrir land og áleiðis til Reykjavíkur þaðan sem ætlunin var að sigla til Kaupmannahafnar.  Mikill hafís var fyrir öllu Norðurlandi og slæmt veður svo skipið lá í vari við Hrísey fyrstu nóttina. Daginn eftir hélt skipið för sinni áfram en á leið sinni sigldi það ítrekað á ísjaka. Það kom þó ekki að sök vegna þess hve skipið fór hægt yfir. Næstu tvo sólarhringa eða svo rifust skipstjóri og stýrimaður Kong Trygve um hvort halda ætti förinni áfram eða snúa við. Að lokum var tekin ákvörðun um að halda áfram og átti það eftir að reynast örlagarík ákvörðun.

Um þrjúleytið aðfaranótt 23. mars rakst skipið á stóran ísjaka með þeim afleiðingum að það byrjaði að leka. Þá var skipið statt u.þ.b. 100 mílur út af Langanesi. Fjórum klukkustundum síðar var skipið sokkið en skipverjar og farþegar, 32 að tölu, komust í þrjá björgunarbáta. Á meðal farþega voru nokkrir Akureyringar. Einn þeirra var kona að nafni Sveinbjörg Jóhannsdóttir. Hún kom sér fyrir í stærsta björgunarbátnum ásamt átta íslenskum farþegum og sex úr áhöfn. Í þeim hópi var m.a. sjálfur skipstjórinn sem var fyrstur allra til að koma sér í björgunarbát.

Af einhverjum ástæðum greip Sveinbjörg með sér vatnsfötu úr hinu sökkvandi skipi. Fatan átti eftir að koma að góðum notum því rétt eins og Kong Trygve rakst björgunarbáturinn á ísjaka og varð fyrir skemmdum. Bátinn tók að leka og varð þannig þessi undarlega ákvörðun Sveinbjargar, að grípa með sér fötuna, bátsverjum til lífs.  Báturinn kom að landi við Borgarfjörð eystri fyrri part dags 24. mars. Þá hafði hann rekið stjórnlaust í sjónum í 30 klukkustundir. Einn lést um borð í bátnum en það var danskur háseti. Sveinbjörg og hinir þrettán bátsverjarnir komust lifandi frá þessum hildarleik. Það var ekki síst Sveinbjörgu og fötunni hennar að þakka. Af hinum bátunum tveimur er það að segja að annar komst í land tveimur sólarhringum eftir að bátur Sveinbjargar rak að landi. Einhverjir létu lífið á leiðinni og var líkunum varpað fyrir borð.

Á meðal þeirra sem komust af voru mæðgur frá Akureyri en það voru þær María Guðmundsdóttir og Jónína Magnúsdóttir dóttir hennar. Þær sýndu mikið hugrekki. Móðirin söng til að stytta öðrum stundina og dóttirin lét aldrei bugast þrátt fyrir ömurlegar aðstæður. Í þriðja bátnum, sem jafnframt var lítill og ótraustur, var einn Íslendingur. Hann hét Jósep Jósepsson og var kaupmaður á Akureyri. Hann hafði til að byrja með verið í sama bát og mæðgurnar en gaf eftir plássið sitt til handa ungri stúlku sem var í litla bátnum. Þar með bjargaði hann lífi stúlkunnar á eigin kostnað. Jósep fórst með bátnum sem og sjö aðrir.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd