main image

Gekk yfir hálendið í vikutíma blautur og hrakinn

Aldamótin 1900, samgöngur erfiðar og fjarskipti með öðrum hætti en nú þekkist. Er hægt að lifa af heila viku að hausti uppi á hálendi Íslands, villt(ur), fáklædd(ur) og matarlaus við slíkar aðstæður? Slíkt yrði álitið mikið þrekvirki. Svarið við spurningunni er já því við lok 19. aldar vakti saga ungs Eyfirðings mikla athygli þegar hann villtist á hálendinu en lifði af við mjög erfiðar aðstæður.

Kristinn Jónsson var 22 ára þegar hann, ásamt félögum sínum, lagði af stað í göngur frá heimili sínu í Eyjafirði seint í septembermánuði árið 1898. Kristinn bjó að bænum Tjörnum sem er innsti bær í Eyjafirði, u.þ.b. 45 km frá Akureyri. Ferðinni var heitið skammt upp fyrir búfjárhaga og síðan beinustu leið heim aftur. Kristinn var því frekar illa klæddur, í þunnum jakka og ekki með trefil um hálsinn. Fjótlega skall á þoka og þar með hófst raunasaga þessa unga manns. Þokan stóð yfir í nokkra daga og þegar henni loks létti var Kristinn kominn upp á hálendi Íslands. Sjálfur gerði hann sér ekki grein fyrir því hvert hann var kominn. Næstu daga gekk hann um, jafnt að degi sem nóttu, í leit að einhverju sem gæti vísað honum leiðina til byggða. Aldrei snjóaði á hann og aðeins frysti eina nóttina. Hins vegar rigndi töluvert og oft varð Kristinn gegndrepa. Þá nærðist hann nánast eingöngu á vatni. Á fimmta eða sjötta degi kom hann að á og ákvað að ganga meðfram henni og reyna þannig að komast til byggða.

Á sjöunda degi var Kristinn orðinn svo örmagna og aðframkominn að hann ákvað að leggja sig í skógarrjóðri í Búrfelli við Þjórsá. Hann reiknaði ekki með að vakna aftur og horfðist í augu við þá staðreynd að þarna myndi hann sennilega bera beinin. Daginn eftir fór bóndi einn úr Gnúpverjahreppi í Árnessýslu ríðandi á hesti sínum í skógarferð í Búrfell. Hann staldraði við á einum stað en þegar hann ætlaði að halda för sinni áfram sá hann eitthvað hreyfast í rjóðrinu. Hann athugaði hvers kyns var og sá þá Kristin, fáklæddan, hrakinn og aðframkominn af hungri. Bóndinn gaf honum að borða, klæddi hann í föt af sér og flutti hann á hestinum að bænum Ásólfsstöðum þar sem hann dvaldist meðan hann náði aftur heilsu. Hrakningarsaga Kristins Jónssonar vakti svo mikla athygli að dagblaðið Ísafold hóf söfnun fyrir hann m.a. til að standa undir lækniskostnaði og kostnaði við að flytja hann aftur heim í Tjarnir.

Já, allt er gott sem endar vel.

Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í janúar 2014.