main image

De Beauvoir og Sartre flugu til hinnar drungalegu Akureyrar

Hún hafði nýlega gefið út eina áhrifamestu bók 20. aldar þegar hún kom til Akureyrar. Bókin hét Le Deuxième Sexe (Hitt kynið) en í henni vakti umrædd kona athygli á kúgun kvenna. Hún kom út árið 1949. Bókin varð strax umdeild en hefur að sama skapi skipað sérstakan sess í kvennabaráttu og femínískum fræðum. Höfundur bókarinnar, Simone de Beauvoir (1908-1986) var franskur heimspekingur og rithöfundur sem hafði um skeið stundað nám við Sorbonne-háskólann í París.

Hann er af mörgum álitinn merkasti hugsuður 20. aldarinnar. Jean Paul Sartre (1905-1980) er höfundur hinnar svokölluðu tilvistarstefnu eða existensíalismans sem var ein helsta heimspekistefna aldarinnar. Hann var, rétt eins og Beauvoir, heimspekingur og rithöfundur. Sartre ávann sé frægð fyrir skáld- og leikverk sín. Má nefna bók hans Les Jeux sont faits (Teningunum er kastað) sem kom út árið 1947 og leikverkið Les séquestrés d’Altona (Fangarnir í Altona) frá árinu 1953. Kvikmynd var gerð eftir leikritinu árið 1962 með hinni ítölsku Sophiu Loren í aðalhlutverki. Árið 1964 var Sartre veitt bókmenntaverðlaun Nóbels. Hann afþakkaði pent af persónulegum ástæðum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þau Simone de Beauvoir og Jean-Paul Sartre kynntust á námsárunum í París og felldu þau hugi saman. Ástarsamband þeirra olli umtalsverðu fjaðrafoki á sínum tíma. Þótti mörgum sambandið fullfrjálslyndislegt þar sem aðrir elskhugar komu við sögu og af sama kyni – í það minnsta í tilfelli de Beauvoir.

Simone de Beauvoir gaf út æviminningar sínar á sjöunda áratugnum (La force des choses). Þar segir hún frá eftirminnilegri tíu daga ferð til Íslands árið 1951 þar sem hún lýsir landi og þjóð með ákaflega skemmtilegum og lifandi hætti. Koma þar m.a. við sögu tveir „huldumenn“ á Akureyri sem hittu frönsku maddömuna. Hér á eftir fer lausleg þýðing úr æviminningum  Simone de Beauvoir sem birtist í Dagblaðinu Vísi-DV árið 1984.

„Engar járnbrautir var að finna þarna [á Íslandi] og ákaflega fáa vegi; í flugvélum var maður ekki bara samferða bændum með kjúklingabúr í fanginu heldur og íslensku sauðfé sem skipti um haga eftir árstíðum loftleiðis. Bændurnir líktust meira amerískum kúrekum en hinum venjulegu evrópsku bændum: vel klæddir og vel skæddir, búa i húsum með öllum nútímaþægindum og ferðast um á hestbaki.“

Skötuhjúin dvöldust á Hótel Borg. Á hótelinu voru fleiri erlendir gestir sem eðlilega veittu hinu heimsfræga pari athygli. Á meðan dvöl þeirra stóð í Reykjavík urðu ýmsir minna þekktir einstaklingar á vegi þeirra, t.a.m. franski landkönnuðurinn Paul-Emile Victor:

 „Hann sagði okkur frá eskimóunum, frá leiðöngrum sínum og reynslu sinni af fallhlífarstökki. Þarna voru líka tveir kvikmyndagerðarmenn — annan þeirra hafði ég hitt í Hollywood en hinn var fastagestur á Flore—sem voru að gera heimildarmynd. Við hittum líka son landkönnuðarins Scotts sem var að veiða villt dýr og Íslending sem var að safna steinum.“

Eftir að hafa dvalist í Reykjavík um nokkurra daga skeið fóru að kvisast út sögur um að þau Simone og Jean-Paul myndu heimsækja höfuðstað Norðurlands. Dagblaðið Dagur á Akureyri birti frétt á forsíðu þar sem spurt var hvort Sartre og Beauvoir væru væntanleg til bæjarins. Sennilega hefur blaðið ekki fengið fregnir af komu þeirra til Akureyrar því frekari skrif urðu ekki um málið af hálfu blaðsins. Engum blöðum er þó um það að fletta að hin franska de Beauvoir kom til Akureyrar ásamt Sartre. Skyldu þau hafa komið í myrkri?

 „Við fórum í flugvél til hinnar drungalegu Akureyrar og þaðan fór ég með flugbáti eftir hinni yndislegu norðurströnd allt til lítillar hafnar sem er alveg nyrst á eynni. Einu ferðafélagar mínir voru tveir skeggjaðir strákar: „Við erum á puttaferðalagi kringum Ísland,” sögðu þeir mér.“

Hverjir voru hinir skeggjuðu strákar sem ferðuðust með Madame de Beauvoir á flugbáti frá Akureyri?

Krufði fórnarlambið í heimahúsi í viðurvist morðingjans

Guðfinna Jónsdóttir fannst látin í Svartá við bæinn Svartárkot í Bárðardal. Hún var fertug að aldri og var vinnukona á bænum. Guðfinna hafði orðið ófrísk eftir mann að nafni Jón Sigurðsson sem var vinnumaður á öðrum bæ í nágrenninu. Jón var rúmlega tvítugur.

Tildrög málsins voru með þeim hætti að Guðfinna fékk leyfi húsmóðurinnar á bænum til að skreppa frá í stutta stund. Jón var þá nýlega farinn frá Svartárkoti eftir að hafa dvalist þar um nóttina. Ástæða fararinnar var fundur sem hún átti við Jón. Þegar ljóst var að Guðfinna myndi ekki skila sér heim á kristilegum tíma var farið að leita hennar. Fjölmennur hópur leitaði og bar leitin árangur þremur dögum síðar, þann 16. september 1891. Lík hennar fannst liggjandi á grúfu í ánni.

Líkið var flutt heim að bænum þar sem því var þegar komið fyrir í kistu. Grunsemdir voru uppi um að einhver hefði eitthvað á samviskunni og lét sýslumaður Benedikt Sveinsson, sem kominn var á vettvang, senda eftir héraðslækninum á Akureyri, Þorgrími Johnsen. Grunur beindist strax að hinum unga Jóni Sigurðssyni. Viku eftir að Guðfinna fannst látin kom Þorgrímur ríðandi að bænum og var hlutverk hans að kryfja líkið og komast til botns um hvað olli dauða Guðfinnu.

Þeim Benedikt og Þorgrími kom saman um að Jón skyldi verða viðstaddur krufninguna og var því sent eftir honum. Nú var allt til reiðu og sýslumaður afhenti Þorgrími líkið, þvegið og kistulagt. Var það síðan tekið upp úr kistunni, lagt á fjalir og líkskurðurinn framkvæmdur í viðurvist hins grunaða Jóns. Honum brá við því sem við honum blasti en sat þó hinn rólegasti á meðan krufningunni stóð. Öll þrjú hol líkamans voru opnuð, höfuð, brjóst og kviður. Niðurstaða héraðslæknis lá fyrir. Guðfinna dó köfnunardauða og hafði kafnað áður en hún féll í ána. Hún hafði því ekki drukknað eins og allt benti til á vettvangi atburðarins.

Sýslumaður fór nú ríðandi að þeim stað sem Guðfinna fannst og fann þar fótspor í jarðveginum. Hann stakk upp hnaus með sporinu, kom því haganlega fyrir í kassa og hafði með sér í Svartárkot. Hinn grunaði var beðinn um að afhenda skóna sem hann hafði klæðst daginn sem Guðfinna lést. Nú féllu öll vötn til Dýrafjarðar. Vinstri skór Jóns smellpassaði við fótsporið. Jón Sigurðsson var handtekinn, grunaður um morðið á Guðfinnu Jónsdóttur.

Jón játaði á sig morðið. Hann viðurkenndi að þegar hann kom að fundarstað þeirra Guðfinnu við ána hefði hún kastað á hann kveðju en hann hins vegar gengið upp að henni og látið til skarar skríða án þess að mæla orð. Hann tróð upp í hana vettlingum sínum og hélt fyrir vit hennar þar til hún hætti að anda. Hann henti líkinu í ána og reið aftur til vinnu.

Að játningu lokinni var Jón fluttur í varðhald til Húsavíkur. Þaðan var hann fluttur til fangavistar á Akureyri. Jón var dæmdur til dauða. Hann var síðar sendur til Kaupmannahafnar þar sem aftakan átti að fara fram. Heimildum ber þó ekki saman um hver örlög Jóns urðu eftir að hann kom til Kaupmannahafnar. Í ársbyrjun 1893 bárust þær fréttir að utan að Jón hefði fyrirfarið sér í fangaklefa sínum. Í einu af dagblöðum þessa tíma segir um sjálfsvígið; „hann renndi af alefli höfðinu á múrinn í varðhaldsklefanum, svo að hausinn molaðist og heilasletturnar fóru út um allt herbergið.“ Samkvæmt öðrum heimildum bjó Jón á Húsavík löngu eftir atburðina í Bárðardal og lést þegar langt var komið fram á 20. öldina.

Þorgrímur Johnsen héraðslæknir var fyrsti starfandi læknirinn við fyrsta sjúkrahús Akureyringa, Gamla spítala (Gudmanns Minde). Hann lést árið 1917.

Benedikt Sveinsson sýslumaður var faðir hins kunna skálds Einars Benediktssonar. Hann sat á Alþingi í 38 ár, frá árinu 1861 til dauðadags. Hann lést árið 1899.

Ekki fundust upplýsingar við gerð þessarar samantektar um hvar Guðfinna Jónsdóttir hvílir.

 

Þöndu netmöskvana á Akureyri og Wembley

Eins og mörgum er kunnugt léku knattspyrnustórveldin Manchester City og Manchester United á Akureyri í upphafi 9. áratugarins. Svo skemmtilega vill til að liðin tvö komust í úrslit ensku bikarkeppninnar, sitt hvort árið, um svipað leyti og þau sóttu Akureyri heim. Enn fremur skoruðu leikmenn knattspyrnufélaganna tveggja, sem sprikluðu á Akureyri, í bikarúrslitaleikjunum á Wembley. Annað liðið hampaði bikarmeistaratitlinum meðan hitt varð að lúta í gras gegn andstæðingnum.

Manchester City spilaði í úrslitum ensku bikarkeppninnar þann 9. maí 1981 gegn Tottenham. Leikurinn endaði með janftefli 1-1 fyrir framan 100 þúsund áhorfendur. Tommy Hutchison skoraði í fyrri hálfleik fyrir City. Hann bætti við öðru marki í seinni hálfleik. Því miður fyrir hann var um sjálfsmark að ræða. Því varð að spila annan leik fimm dögum síðar og endaði hann með sigri Tottenham 3-2. Um það bil 92 þúsund áhorfendur sáu Steve McKenzie og Kevin Reeves skora mörk Manchester-liðsins.

Þremur mánuðum síðar voru markaskorararnir frá Wembley, þeir Hutchison og Reeves, mættir fyrir framan 3000 áhorfendur á Akureyri. Þór Akureyri gegn Manchester City. Leikurinn endaði með sigri City 5-0.

 

Síðla sumars 1982 kom Manchester United til Akureyrar til að spila vináttuleik gegn KA. Leikurinn endaði með sigri United 7-1. Í liði United á Akureyrarvelli voru meðal annarra hetjur eins og Bryan Robson, Norman Whiteside, Frank Stapleton og Ray Wilkins. Þeir skoruðu allir í úrslitaleikjum ensku bikarkeppninnar tæpu ári síðar þegar lið United lagði Brighton í tveimur leikjum á Wembley.

Þeir eru ekki margir Íslendingarnir sem hafa spilað gegn báðum stórliðunum frá Manchester, hvað þá hér á Fróni. Nokkuð óhætt er að fullyrða að Siglfirðingurinn Ásbjörn Björnsson er sá eini úr heimabyggð sem hefur afrekað að taka þátt í kappleikjum gegn United og City á Íslandi. Ásbjörn, sem þá lék með KA, var í landsliðshópnum sem tapaði 1-2 gegn Manchester City í Reykjavík, daginn eftir leikinn gegn Þór á Akureyri. Ásbjörn var og leikmaður KA þegar liðið spilaði leikinn fræga gegn Manchester United. Hann fiskaði víti seint í leiknum sem gaf eina markið sem Akureyrarliðin skoruðu í leikjunum tveimur. Manchesterliðin skoruðu tólf mörk gegn Akureyrarstórveldunum, Þór og KA. Til gamans má geta þess að Ásbjörn er faðir landsliðskonunnar í knattspyrnu, Katrínar Ásbjörnsdóttur.

 

 

 

 

Akureyringur varð vitni að blóðbaðinu í Batoche

Jón Júlíus Jónsson var fæddur á Akureyri 19. júlí árið 1858, sonur hjónanna Jóns Jónssonar járnsmiðs og Þórunnar Kristjánsdóttur. Jón Júlíus ólst upp í hópi systkina en yngri bróðir hans var hið kunna skáld Kristján Níels Júlíus Jónsson (Káinn). Jón Júlíus upplifði róstusama tíma á uppvaxtarárum sínum á Akureyri. Fjögurra ára gamall varð hann vitni að því þegar langþráður draumur margra samferðamanna hans á Akureyri varð að veruleika þegar bærinn fagnaði kaupstaðarréttindum árið 1862. Hver veit nema Jón litli hafi verið í grenndinni ári síðar þegar frú Vilhelmina Lever verslunarkona á Akureyri kaus fyrst allra kvenna á landinu í sveitarstjórnarkosningum? Á unglingsaldri missti hann móður sína og stuttu síðar (1876) sigldi hann yfir hafið til að hefja nýtt líf í Kanada. Þegar til Vesturheims var komið hóf Jón að starfa við járnbrautarlagningu. Árið 1880 giftist hann Jónínu Kernested frá Gimli. Þau eignuðust fimm börn.

Tæpum áratug eftir að Jón flutti erlendis gerðu indíánar uppreisn gegn yfirráðum hvíta mannsins á svæðum í Kanada þar sem Íslendingar höfðu tekið sér bólfestu. Jón Júlíus skráði sig í 95. herdeildina í Winnipeg sem ásamt öðrum herdeildum var send til að bæla niður uppreisnina. Jón Júlíus hélt ásamt u.þ.b. 20 öðrum Íslendingum á vígvöllinn undir forystu hershöfðingjans Frederick D. Middleton. Jón og herflokkur hans var í hópi þeirra fyrstu sem mættu indíánunum við Fish Creek föstudaginn 24. apríl.

Eftir að hersveitin hafði haldið fimm mílur vegar um morguninn af og til gegnum dálitla skógarrunna, heyrði hún skothríð framundan sér. Voru uppreistarmenn þar þá fyrir og sendu hersveitinni fyrstu kveðju sína. Hvatti Middleton herforingi sveitina þá til öruggrar framgöngu og var þá hlaupið fram all-langa leið. En þar kom, að hún stóð í dæld nokkurri með knédjúpu vatni, en skógar og hæðir umhverfis. Var þar allmargt af Indíánum og gægðust þeir fram undan trjánum og skutu hver í kapp við annan á hersveitina, sem stóð í pollinum, þreytt og móð eftir hlaupin. Engu síðar veitti hún hraustlega viðnám og sendi Indíánum kúlnahríð all-harða inn í skóginn. Stóð orusta þessi í þrjár eða fjórar klukkustundir. Hörfuðu þá Indíánarnir lengra inn í skóginn, en hermennirnir sóttu á eftir þeim með ópi og eggjunarorðum, þangað til herlúðurinn var þeyttur og þeir kallaðir til baka aftur, en þá sóttu Indíánar aftur á eftir þeim. Skeytti hersveitin þeim þá ekki, en færði sig upp úr dældinni og vatninu út á sléttur nokkurar lengra frá skóginum og nam þar staðar, þegar hún var svo langt komin, að kúlur óvinanna náðu henni ekki. Fjórir eða fimm menn féllu en 40 særðust og sumir til ólífis. Enginn Íslendinganna varð sár. (Almanak Ólafs S. Thorgeirsson, 1905, bls. 98-99)

Jón Júlíus og félagar hans dvöldust við Fish Creek í hálfan mánuð í herbúðum. Middleton hershöfðingi beið eftir hríðskotabyssu (Gatling Gun) en von var á henni frá Bandaríkjunum. Hægt var að skjóta 100 skotum á mínútu úr byssunni. Þegar stríðstólið barst skipaði Middleton hermönnum sínum að halda til Batoche í Saskatchewan þar sem Louis Riel, foringi uppreisnarmanna hélt sig. Laugardaginn 9. maí braust út bardagi mikill þar sem munaði um hríðskotabyssu Middleton.  Áfram var barist næstu daga. Úr röðum indíána féllu yfir 60 manns og nálægt 100 manns særðust. Jón Júlíus og félagar sluppu betur úr þessum mikla hildarleik. Átta af mönnum Middletons féllu og 42 særðust. Eftir orustuna við Batoche gáfust margir uppreisnarmenn upp og foringinn Riel var handtekinn þann 15. maí. Nokkrir úr röðum uppreisnarmanna neituðu þó að gefast upp og fór þar fremstur í flokki indíáninn Big Bear (Mistahi-maskwa). Hann gafst þó upp að lokum. Þann 14. júlí kom Jón Júlíus aftur heim til Winnipeg úr þessari miklu svaðilför ásamt öðrum úr her Middleton. Mikil hátíðarhöld brutust út í borginni og var hermönnunum fagnað sem hetjum. Íslendingar á svæðinu voru með sérstaka samkomu til heiðurs samlöndum sínum sem tóku þátt í leiðangrinum. Við það tilefni hélt Jón Júlíus ræðu þar sem hann deildi reynslu sinni af stríðsátökunum með samkomugestum. Af foringja uppreisnarmanna, Louis Riel, er það það að segja að hann var fundinn sekur um uppreist og dæmdur til hengingar.  

Jón Júlíus Jónsson lést að heimili dóttur sinnar í Winnipeg þann 9. september árið 1933. Hann var 75 ára gamall.

Flutti Haraldur frá Espihóli Englandsdrottningu yfir Atlantshafið?

Maður er nefndur Haraldur Sigurðsson. Hann fæddist á Espihóli í Eyjafjarðarsveit þann 8. nóvember árið 1843. Faðir hans var Sigurður Sigurðsson timbursmiður, móðir hans hét Sigríður Hallgrímsdóttir. Um miðja öldina fluttu hjónin til Akureyrar þar sem þau bjuggu í allmörg ár ásamt þremur sonum og þremur dætrum.

Haraldur var mikill ævintýramaður. Hann sigldi utan um tvítugt og var meira og minna á hafi úti næstu 28 árin. Árið 1886 dvaldist hann í Mexíkó þar sem hann tók þátt í að reka gripahjörð alla leið norður til Manitoba-fylkis. Svo skemmtilega vildi til að þegar ferðalaginu lauk í Kanada hitti hann bróður sinn Sigurð sem hann hafði ekki séð frá því hann sigldi frá Akureyri. Haraldur settist að í smábænum Kenora ásamt eiginkonu sinni og syni. Næstu áratugina smíðaði Haraldur 30 stór skip auk fjölda smærri báta. Hann tók þátt í kappsiglingum og var sigursæll á því sviði.

Árið 1864 var Haraldur háseti á dönsku freygátunni Jylland sem smíðuð hafði verið fjórum árum áður. Hann tók þátt í frægri sjóorustu hennar við eyna Helgoland í Norðursjó í stríði Dana við Prússland og Austurríki þar sem Danir sigruðu á eftirminnilegan hátt.  

Í tilefni af 90 ára afmæli sínu árið 1933 fór Haraldur yfir farinn veg og rifjaði upp eftirminnileg augnablik frá langri ævi. Auk orustunnar við Helgoland minntist hann siglingar sem hann fór með Jylland þann 7. mars árið 1863, fyrir nákvæmlega 155 árum. Siglt var frá Danmörku til Englands. Um borð, ásamt Haraldi háseta frá Espihóli, var ung dönsk prinsessa, Alexandra að nafni. Hún var á leið til London að hitta tilvonandi eiginmann sinn, Edward VII prins af Wales. Þau giftust þremur dögum síðar og að nokkrum árum liðnum var Alexandra orðin Englandsdrottning. 

Heimildum ber ekki saman með hvaða skipi Alexandra fór frá Danmörku þennan örlagaríka dag fyrir 155 árum. Ólíkt frásögn Haraldar virðist sem mörgum heimildum á veraldarvefnum beri saman um að fleyið sem flutti tilvonandi drottningu hafi ekki verið danska freygátan Jylland heldur enska konungssnekkjan Victoria and Albert II. Enginn vafi leikur þó á því að Jylland flutti konungsborna manneskju frá Danmörku árið 1874 og það til Íslands þegar Kristján 9. Danakonungur kom í heimsókn í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Hann hafði skjal meðferðis.

Ef þú getur stutt frásögn Haraldar um siglingu með dönsku prinsessunni Alexöndru um borð í Jylland árið 1863 máttu gjarnan hafa samband við Grenndargralið. Skrifa má athugasemd hérna við greinina, senda línu á facebook-síðu Grenndargralsins eða póst á póstfangið brynjar@akmennt.is.

 

Eftirfarandi facebook-færsla frá Nelson Gerrard birtist í kjölfar greinarinnar að ofan.

Haraldur became a ship Wright in Keewatin, Ontario, and built many large boats that plied the waters of the Lake of the Woods. He married late in life and had one adopted son, Edward Sigurdson, whose widow, Elizabeth, I visited in the 1970’s. They had an adopted daughter, who I believe is still living in Winnipeg. Haraldur had two brothers in North America, Sigtryggur, who was also a sailor for many years and settled in Dakota, and Sigurdur, last of Blaine, Washington. These brothers had two sisters who went to Denmark. One later moved to Norway, where she married and had family. The father of these siblings was Sigurdur Sigurdsson ‘timburmadur’ of Akureyri, whose brother Jónas was the father of Sigtryggur Jonasson and those siblings, most of whom settled in Canada. Another brother was Sigtryggur ‘Sterki’ of Husavik. They were the children of Sigurdur Jonsson, a farmer and gifted poet at Nedstaland in Oxnadalur, and his wife, Ingibjorg Benediktsdottir, whose mother was Gudrun Jonasdottir from Hvassafell, aunt and foster mother to the poet Jonas Hallgrimsson.