Vopnaður ,,konungur” bældi niður andstöðu Eyfirðinga
Árið 1809 átti Napóleon Frakklandskeisari í hatrömmum bardögum við breska heimsveldið. Í viðleitni sinni til að knésetja óvininn lýsti Napóleon yfir viðskiptabanni við Breta um alla Evrópu. Vegna samvinnu Dana og Frakka náði það bann einnig til Íslands. Í júní 1809 gerði áhöfn á bresku skipi byltingu í Reykjavík og felldi úr gildi viðskiptabannið. Í framhaldinu fór ástandið úr böndunum og áður en langt um leið hafði einn foringi byltingarsinna, Jörgen Jörgensen, lýst yfir að stjórn Dana á Íslandi væri að fullu lokið og að nú væri Ísland lýðveldi, sjálfstætt og frjálst undir vernd breska heimsveldisins. Norðlendingar urðu annars lítið varir við þessi læti fyrir sunnan nema í formi krassandi frásagna sem bárust frá höfuðstaðnum. Til tíðinda dró þó í júlí þegar fréttist af vopnuðum herflokki á leið norður til Akureyrar í þeim erindagjörðum að fylgja eftir nýjum landslögum.
Rétt er að geta þess að samtímaheimildir um þessa norðurferð Jörgensens eru nokkuð brotakenndar og hlutdrægar enda sumar teknar saman af aðilum hliðhollum dönsku krúnunni sem vildu gera lítið úr byltingunni. Staðreyndin er engu að síður sú að fjölmargir embættismenn á Íslandi gengu til liðs við hinn 29 ára Jörgensen sem kynnti sig sem verndara eyjunnar og hæstráðanda um lög og láð þar til hið forna Alþingi landsins yrði endurreist. Byltingaleiðtoginn bar með sér stórar hugsjónir sem margar hverjar höfðu nú tekið gildi sem lög í landinu. Þar má nefna kosningafrelsi allra manna, ríkra sem fátækra, og algjört ferðafrelsi allra Íslendinga um land sitt.
Komið til Akureyrar
Um miðjan júlí reið Jörgensen inn til Akureyrar klæddur einkennisbúningi breskra skipherra í fylgd tveggja einkennisklæddra og vel vopnaðra lífvarða. Við upphaf ferðarinnar frá Reykjavík höfðu þeir reyndar verið fleiri í flokknum en sökum þess hve Norðlendingar reyndust gestrisnir og viðmótsþýðir fengu nokkrir lífvarðanna að yfirgefa lestina. Í Eyjafirði fann Jörgensen hins vegar fyrst fyrir almennri andstöðu við fyrirætlanir sínar. Vissulega hafði komið til átaka á leiðinni norður en á Möðruvöllum hafði hann neyðst til að leysa amtmanninn frá embættum sínum þar sem hann vildi ekki hlýða hinu nýja yfirvaldi.
Þjóðvegurinn til Akureyrar lá framhjá hlaði Eyrarlandsbæjarins og þaðan niður brekkurnar. Líklegt er að herflokkurinn hafi riðið þessa leið. Þaðan mátti sjá ágætlega yfir timbur- og torfhús verslunarstaðarins. Syðst á eyrinni stóð eina starfandi verslunin á Akureyri þar sem Johan Peter Hemmert hélt um stjórnartaumana. Áfram lá þjóðvegurinn niður með Eyrarlandsbrekkunni í beygjum og sveigjum ofan í Búðargil með stóra kartöflugarða Levers á hægri hönd. Næst varð að ríða yfir lækinn og síðan niður með vegslóða niður að ströndinni. Sá vegslóði fékk seinna nafnið Breiðigangur.
Margt um manninn
Höfuðstaður Norðurlands lét vissulega ekki mikið yfir sér en það hefur vafalaust komið Jörgensen á óvart hversu margt var þar um manninn. Á Akureyri bjuggu að staðaldri um 40 sálir en þennan dag voru auk íbúanna um 60 síldveiðimenn að störfum við Pollinn. Jörgensen gæti hafað grunað Hemmert kaupmann um að hafa smalað mönnunum saman enda kaupmenn oft í forsvari síldveiðanna. Þá er freistandi að ímynda sér hvernig stemningin hefur verið þegar þeir félagar riðu á hestum sínum eftir ströndinni í átt að verslun Hemmerts og hvort dönsku fánar verslunarhúsanna hafi þá blaktað yfir fulltrúum lýðveldisins.
Niðurfelling skulda
Jörgensen mun væntanlega hafa gefið sig á tal við fólkið sem þarna var samankomið og sagt þeim frá nýju landslögunum en það gerði hann gjarnan hvert sem hann fór. Við slík tækifæri tilkynnti hann jafnframt að menn mættu vita að allar skuldir Íslendinga við danska kaupmenn og dönsku ríkisstjórnina væru felldar niður. Ef Danir á Íslandi ættu erfitt með að kyngja þessum nýju stjórnarháttum yrðu þeir sendir aðra leið til Danmerkur, þeim að kostnaðarlausu. Í æviminningum sínum segir Jörgensen að honum hafi verið tekið vel af bæjarbúum og þeir hafi sagt honum ýmis kærumál í garð dönsku kaupmannanna. Gunnlaugur Briem sýslumaður Eyjafjarðarsýslu kom þennan dag til Akureyrar og var ekki eins glaður með þróun mála. Hann sagði þegar af sér embætti en fékk þess í stað boð frá Jörgensen um að halda á brott til Danmerkur.
Leitað af landmælingakortum
Það olli Jörgensen gremju að landmælingamennirnir Frisak og Scheel voru hvergi sjáanlegir í bænum né kort þeirra enda þeir félagar löngu farnir út á land til frekari mælinga. Hann hefði gjarnan viljað koma höndum sínum yfir gögn þeirra því þau geymdu mikilvægar upplýsingar um öruggar siglingarleiðir við landið. Einhverjir hvísluðu sín á milli að Jörgensen mætti teljast heppinn að lautenantarnir væru ekki í bænum því þeir myndu örugglega ekki sitja þegjandi undir þessu valdaráni.
Hemmert verslunarstjóri heimsóttur
Eitt af markmiðum norðurferðarinnar var að kanna hversu miklar byrgðir væru í vöruskemmum kaupmanna og hvort starfshættir þeirra væru sanngjarnir gagnvart alþýðunni. Þremenningarnir stöðvuðu því hesta sína við verslun Hemmerts og kröfðust þess að fá að litast um húsakynnin. Hemmert sem var annars nokkuð dagfarsprúður náungi þverneitaði að hleypa aðkomumönnunum inn því hann óttaðist líklega að verslunin yrði gerð upp. Hemmert mun hafa reynt að hrekja Jörgensen burt með valdi. Það gagnaði lítt og hann fékk heldur engan stuðning frá alþýðunni. Jörgensen bað lífverði sína að sitja sem fastast en steig sjálfur af baki og gekk með brugðu höggsverðinu inn til kaupmannsins.
Hinn stórmerkilegi en nokkuð hlutdrægi sagnaritari Espólín segir að á meðan Jörgensen hafi athafnað sig inni hjá kaupmanni hafi lífverðir hans setið í mannþrönginni með hlaðnar pístólur og skolfið af hræðslu. Hvað sem því líður þá hefur ýmsum vafalaust þótt eitthvað hárugt við þessa einkennisklæddu tvímenninga. Gott ef annar þeirra var ekki Eyfirðingurinn Jón Bjarnason áður búsettur í hegningarhúsinu í Reykjavík vegna þjófnaðar. Téðum Jóni hefur eflaust þótt þetta með afbrigðum vandræðalegar aðstæður enda orti skáldið Ámi Jónsson seinna um þessa frægðarferð:
Úr tukthúsi útskroppinn
Eyfirðinga ganti
Kom hér fús með korðann sinn
Kámugur lúsasoldatinn
Haldið til baka
Enginn veit nákvæmlega hvað átti sér stað inni hjá Hemmert nema það að Jörgensen mun hafa lagt frá sér sverðið þegar inn kom er hann taldi sig ekkert hafa að óttast. Þegar Jörgensen snéri til baka frá Hemmert virtust þeir hafa náð góðu samkomulagi sín á milli. Síðasta verk lífvarðanna á Akureyri var að miða pístólum sínum út á fjörðinn og skjóta eftir skipun foringja síns. Það gekk víst heldur illa segir Espólín þar sem þeir hafi verið orðnir svo stirðhentir af hræðslu. Því næst kvaddi verndari Íslands og lífverðir hans bæjarbúa, riðu á brott og hurfu út í fagra sumarnóttina.
Arnar Birgir Ólafsson.
Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í júní 2014.