main image

Vopnaður ,,konungur” bældi niður andstöðu Eyfirðinga

Árið 1809 átti Napóleon Frakklandskeisari í hatrömmum bardögum við breska heimsveldið. Í  viðleitni sinni til að knésetja óvininn lýsti Napóleon yfir viðskiptabanni við Breta um alla Evrópu. Vegna samvinnu Dana og Frakka náði það bann einnig til Íslands. Í júní 1809 gerði áhöfn á bresku skipi byltingu í Reykjavík og felldi úr gildi viðskiptabannið. Í framhaldinu fór ástandið úr böndunum og áður en langt um leið hafði einn foringi byltingarsinna, Jörgen Jörgensen, lýst yfir að stjórn Dana á Íslandi væri að fullu lokið og að nú væri Ísland lýðveldi, sjálfstætt og frjálst undir vernd breska heimsveldisins. Norðlendingar urðu annars lítið varir við þessi læti fyrir sunnan nema í formi krassandi frásagna sem bárust frá höfuðstaðnum. Til tíðinda dró þó í júlí þegar fréttist af vopnuðum herflokki á leið norður til Akureyrar í þeim erindagjörðum að fylgja eftir nýjum landslögum.

Rétt er að geta þess að samtímaheimildir um þessa norðurferð Jörgensens eru nokkuð brotakenndar og hlutdrægar enda sumar teknar saman af aðilum hliðhollum dönsku krúnunni sem vildu gera lítið úr byltingunni. Staðreyndin er engu að síður sú að fjölmargir embættismenn á Íslandi gengu til liðs við hinn 29 ára Jörgensen sem kynnti sig sem verndara eyjunnar og hæstráðanda um lög og láð þar til hið forna Alþingi landsins yrði endurreist. Byltingaleiðtoginn bar með sér stórar hugsjónir sem margar hverjar höfðu nú tekið gildi sem lög í landinu. Þar má nefna kosningafrelsi allra manna, ríkra sem fátækra, og algjört ferðafrelsi allra Íslendinga um land sitt. 

Komið til Akureyrar

Um miðjan júlí reið Jörgensen inn til Akureyrar klæddur einkennisbúningi breskra skipherra í fylgd tveggja einkennisklæddra og vel vopnaðra lífvarða. Við upphaf ferðarinnar frá Reykjavík höfðu þeir reyndar verið fleiri í flokknum en sökum þess hve Norðlendingar reyndust gestrisnir og viðmótsþýðir fengu nokkrir lífvarðanna að yfirgefa lestina. Í Eyjafirði fann Jörgensen hins vegar fyrst fyrir almennri andstöðu við fyrirætlanir sínar. Vissulega hafði komið til átaka á leiðinni norður en á Möðruvöllum hafði hann neyðst til að leysa amtmanninn frá embættum sínum þar sem hann vildi ekki hlýða hinu nýja yfirvaldi.

Þjóðvegurinn til Akureyrar lá framhjá hlaði Eyrarlandsbæjarins og þaðan niður brekkurnar. Líklegt er að herflokkurinn hafi riðið þessa leið. Þaðan mátti sjá ágætlega yfir timbur- og torfhús verslunarstaðarins. Syðst á eyrinni stóð eina starfandi verslunin á Akureyri þar sem Johan Peter Hemmert hélt um stjórnartaumana. Áfram lá þjóðvegurinn niður með Eyrarlandsbrekkunni í beygjum og sveigjum ofan í Búðargil með stóra kartöflugarða Levers á hægri hönd. Næst varð að ríða yfir lækinn og síðan niður með vegslóða niður að ströndinni. Sá vegslóði fékk seinna nafnið Breiðigangur.

Margt um manninn

Höfuðstaður Norðurlands lét vissulega ekki mikið yfir sér en það hefur vafalaust komið Jörgensen á óvart hversu margt var þar um manninn. Á Akureyri bjuggu að staðaldri um 40 sálir en þennan dag voru auk íbúanna um 60 síldveiðimenn að störfum við Pollinn. Jörgensen gæti hafað grunað Hemmert kaupmann um að hafa smalað mönnunum saman enda kaupmenn oft í forsvari síldveiðanna. Þá er freistandi að ímynda sér hvernig stemningin hefur verið þegar þeir félagar riðu á hestum sínum eftir ströndinni í átt að verslun Hemmerts og hvort dönsku fánar verslunarhúsanna hafi þá blaktað yfir fulltrúum lýðveldisins.

Niðurfelling skulda

Jörgensen mun væntanlega hafa gefið sig á tal við fólkið sem þarna var samankomið og sagt þeim frá nýju landslögunum en það gerði hann gjarnan hvert sem hann fór. Við slík tækifæri tilkynnti hann jafnframt að menn mættu vita að allar skuldir Íslendinga við danska kaupmenn og dönsku ríkisstjórnina væru felldar niður. Ef Danir á Íslandi ættu erfitt með að kyngja þessum nýju stjórnarháttum yrðu þeir sendir aðra leið til Danmerkur, þeim að kostnaðarlausu. Í æviminningum sínum segir Jörgensen að honum hafi verið tekið vel af bæjarbúum og þeir hafi sagt honum ýmis kærumál í garð dönsku kaupmannanna. Gunnlaugur Briem sýslumaður Eyjafjarðarsýslu kom þennan dag til Akureyrar og var ekki eins glaður með þróun mála. Hann sagði þegar af sér embætti en fékk þess í stað boð frá Jörgensen um að halda á brott til Danmerkur.

Leitað af landmælingakortum

Það olli Jörgensen gremju að landmælingamennirnir Frisak og Scheel voru hvergi sjáanlegir í bænum né kort þeirra enda þeir félagar löngu farnir út á land til frekari mælinga. Hann hefði gjarnan viljað koma höndum sínum yfir gögn þeirra því þau geymdu mikilvægar upplýsingar um öruggar siglingarleiðir við landið. Einhverjir hvísluðu sín á milli að Jörgensen mætti teljast heppinn að lautenantarnir væru ekki í bænum því þeir myndu örugglega ekki sitja þegjandi undir þessu valdaráni.

Hemmert verslunarstjóri heimsóttur

Eitt af markmiðum norðurferðarinnar var að kanna hversu miklar byrgðir væru í vöruskemmum kaupmanna og hvort starfshættir þeirra væru sanngjarnir gagnvart alþýðunni. Þremenningarnir stöðvuðu því hesta sína við verslun Hemmerts og kröfðust þess að fá að litast um húsakynnin. Hemmert sem var annars nokkuð dagfarsprúður náungi þverneitaði að hleypa aðkomumönnunum inn því hann óttaðist líklega að verslunin yrði gerð upp. Hemmert mun hafa reynt að hrekja Jörgensen burt með valdi. Það gagnaði lítt og hann fékk heldur engan stuðning frá alþýðunni. Jörgensen bað lífverði sína að sitja sem fastast en steig sjálfur af baki og gekk með brugðu höggsverðinu inn til kaupmannsins.

Hinn stórmerkilegi en nokkuð hlutdrægi sagnaritari Espólín segir að á meðan Jörgensen hafi athafnað sig inni hjá kaupmanni hafi lífverðir hans setið í mannþrönginni með hlaðnar pístólur og skolfið af hræðslu. Hvað sem því líður þá hefur ýmsum vafalaust þótt eitthvað hárugt við þessa einkennisklæddu tvímenninga. Gott ef annar þeirra var ekki Eyfirðingurinn Jón Bjarnason áður búsettur í hegningarhúsinu í Reykjavík vegna þjófnaðar. Téðum Jóni hefur eflaust þótt þetta með afbrigðum vandræðalegar aðstæður enda orti skáldið Ámi Jónsson seinna um þessa frægðarferð:

 

Úr tukthúsi útskroppinn

Eyfirðinga ganti

Kom hér fús með korðann sinn

Kámugur lúsasoldatinn

 

Haldið til baka

Enginn veit nákvæmlega hvað átti sér stað inni hjá Hemmert nema það að Jörgensen mun hafa lagt frá sér sverðið þegar inn kom er hann taldi sig ekkert hafa að óttast. Þegar Jörgensen snéri til baka frá Hemmert virtust þeir hafa náð góðu samkomulagi sín á milli. Síðasta verk lífvarðanna á Akureyri var að miða pístólum sínum út á fjörðinn og skjóta eftir skipun foringja síns. Það gekk víst heldur illa segir Espólín þar sem þeir hafi verið orðnir svo stirðhentir af hræðslu. Því næst kvaddi verndari Íslands og lífverðir hans bæjarbúa, riðu á brott og hurfu út í fagra sumarnóttina.

Arnar Birgir Ólafsson.

Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í júní 2014.

Arngrímur mótmælir útlendingum og rokkar með Foreigner

Ef rýnt er í forn skjöl frá höfuðstað Norðurlands má sjá að hann kemur fyrir í heimild frá árinu 1562. Um er að ræða dóm yfir konu á Akureyri sem svaf hjá manni án þess að hafa giftingarvottorð. Engum sögum fer af manninum. Kannski var hann ,,foreigner” hver veit? Víst er að heimsóknir erlendra ferðamanna til Íslands voru tíðar fyrr á öldum þar sem þeir skráðu niður eitt og annað er bar fyrir augu þeirra. Fyrsta ferðalýsing erlends manns á Íslandi, að talið er, kom einmitt út á bók nokkrum mánuðum áður en fyrrnefndur dómur yfir blessaðri konunni á Akureyri féll.

Maður að nafni Gories Peerse orti brag, Van Ysslandt (Um Ísland), og gaf út árið 1561 í Hamborg í Þýskalandi. Bragurinn hefur að geyma nokkuð ítarlega lýsingu á upplifun Peerse af Íslandi. Áhöld eru reyndar um hvort Peerse hafi yfir höfuð nokkurn tímann komið til landsins. Neikvæðar lýsingar hans á landi og þjóð benda þó til þess að hann hafi komið „á klakann“ og þá styðja gögn um ferðir skipa að hann hafi verið hér á ferð eftir 1558 og jafnvel um það leyti sem eldsumbrot voru í Heklu árið 1554. Sjálfur segir hann í bókinni að hann hafi komið í höfn í öllum landshlutum. Það skyldi þó ekki vera að hann hafi komið við á Akureyri og gerst brotlegur við íslensk lög? Sennilega verður það að teljast frekar langsótt.

Í ljóðinu sem hann orti segir hann frá lúsugum Íslendingum sem víli ekki fyrir sér að borða matinn þó hár eða lús lendi í honum, þeir urri og rymji eins og hundar og bjarndýr, sofi í þvögu og leiti að dauðu fé og úldnum fiski sér til matar. Eðlilega féll hið bundna mál Peerse ekki í kramið hjá þeim Íslendingum sem af því fréttu, höfðu menn gjarnan uppi orð eins og lygasaga og níðkvæði. Frændunum Guðbrandi Þorlákssyni Hólabiskupi og Arngrími (lærða) Jónssyni blöskraði sú umfjöllun sem samlandar þeirra fengu hjá útlendingnum Peerse og öðrum erlendum ferðamönnum sem fjölluðu um Ísland á niðrandi hátt. Þeim skyldi svarað á latínu með útgáfu bókar í Kaupmannahöfn.

 

 

 

 

Árið 1593 kom út bókin Brevis commentarius de Islandia (Stutt greinargerð um Ísland). Arngrímur skrifaði bókina með formála eftir Guðbrand. Í bókinni mótmælir Arngrímur harðlega þeirri illu meðferð sem Ísland og Íslendingar fá í hinum ýmsu ritum útlendinga. Markmiðið var að kveða niður níð og leiðrétta rangfærslur sem birst höfðu á opinberum vettvangi erlendis. Tekur hann Gories Peerse sérstaklega fyrir í bókinni. Bókin hafði umtalsverð áhrif úti í hinum stóra heimi. Áfram héldu þó níðskrif útlendinga um Ísland. Arngrímur Jónsson lést árið 1648.

Nú 425 árum eftir útgáfu Brevis commentarius de Islandia er von á „útlendingi“ (Foreigner) til landsins. Bresk-ameríska rokkbandið mun halda tónleika í Laugardalshöll og flytja alla sína helstu slagara. Allar áhyggjur af mögulegum níðkvæðum meðlima hljómsveitarinnar um land og þjóð ættu að vera ástæðulausar. Ísland er komið á kortið hjá erlendum skemmtikröftum og því engin þörf fyrir varnarskrif Arngríms lærða. Tengsl Arngríms við útlendinga ná þó út fyrir gröf og dauða. Hann fylgist með á plötuumslagi Foreigner frá árinu 2002.

Hluti Grundarbílsins kominn í leitirnar

Þremur árum eftir að fyrsti bíllinn kom til landsins kom fyrsta bifreiðin til Akureyrar. Magnús Sigurðsson bóndi á Grund í Eyjafjarðarsveit varð þar með fyrsti bíleigandinn á Norðurlandi. Hann pantaði bifreiðina, flutningabíl af gerðinni N.A.G., frá Þýskalandi í nóvember 1907. Magnús rak verslun á Grund og var bílnum m.a. ætlað að sjá um vöruflutninga til og frá Akureyri. Grundarbíllinn hafði verið í eigu súkkulaðiverksmiðju í Berlín sem notaði hann til að flytja súkkulaði á milli staða. Yfirbyggingin var næstum mannhæðar há, klædd járni og stáli að utan en fóðruð með timbri og korki að innan. Líklegast hefur útbúnaður þessi verið hugsaður til varnar því að súkkulaðið bráðnaði í flutningum. Ásamt varningi komust tíu manneskjur fyrir í húsi bílsins auk þess sem pláss var fyrir tvo farþega fram í hjá ökumanni.

Grundarbíllinn var hálfgerður gallagripur. Bíllinn vó um 3,9 tonn, þar af var yfirbyggingin u.þ.b. 1,2 tonn að þyngd. Ekki var bíllinn kraftmikill, 8-9 hestöfl, sem þýddi að hann gat farið 20 km/klst og þá þurfti að ýta honum upp brekkur. Aksturinn milli Grundar og Akureyrar gat tekið 3-4 klukkustundir báðar leiðir en vegalengdin er 15-20 km. Þá var erfiðleikum bundið af fá auka hjólbarða fyrir bílinn þar sem framleiðslu þeirra var hætt um það leyti sem Magnús flutti bílinn til landsins. Þó Grundarbíllinn hafi ekki verið upp á marga fiska áttu erfiðar samgöngur einnig sinn þátt í því að Magnús lagði bílnum fyrir fullt og allt árið 1909.

Grundarbíllinn stóð óhreyfður á túninu á Grund til loka árs 1912 þegar gerð var tilraun til að ræsa vélina. Hún rauk í gang, bílnum var ekið til Akureyrar þaðan sem hann var fluttur til Danmerkur og seldur í janúar 1913. Stuttri en viðburðaríkri sögu fyrsta bílsins í heimabyggð var þar með lokið. Fyrsti bíllinn á Norðurlandi á eftir Grundarbílnum var bifreið Rögnvaldar Snorrasonar kaupmanns á Akureyri. Þar með hófst innreið bifreiða á Norðurlandi.

Í ævisögu Magnúsar Sigurðssonar; Dagar Magnúsar á Grund er nokkuð ítarleg lýsing á Grundarbílnum. Þar segir m.a. að „ljósker voru sitt hvoru megin á vagninum framanverðum. Steinolíulampar með glasi (flatbrennarar).“ Saga Grundarbílsins  er sveipuð nokkrum ævintýraljóma og því væri gaman ef í ljós kæmi að bíllinn væri ennþá til. Því miður er borin von að nokkur finni Grundarbílinn nú þegar rúm 100 ár eru liðin frá því að hann var sendur úr landi. En viti menn. Sögunni lauk ekki árið 1913, í það minnsta ekki alveg.

Grenndargralið hefur fyrir því öruggar heimildir að Grundarbíllinn sé ekki að öllu leyti glataður! Þannig er að annað ljósker bílsins er í eigu konu sem á ættir að rekja til Magnúsar á Grund. Kerinu var breytt fyrir margt löngu og gegnir það nú hlutverki rafmagnslampa í húsi í Þorpinu á Akureyri. Nú sem fyrr lýsir því ljósker Grundarbílsins upp tilveruna í heimabyggð.

 

Akureyri í ljósum logum

Frá desember 1901 til, og með, desember 1912 urðu a.m.k. sextán húsbrunar á Akureyri. Þótt ótrúlegt megi virðast varð ekkert manntjón í eldsvoðunum en eignatjón var gífurlegt. Á meðal húsa sem brunnu til kaldra kola voru glæsilegar hótelbyggingar og stór einbýlishús. Var tilviljun ein sem réði því að svo margir brunar urðu í bænum á svo stuttum tíma eða var mögulega um glæpsamlegt athæfi að ræða? Grenndargralið stiklar á stóru og skoðar hvernig umhorfs er í dag á fjórum stöðum þar sem eldar loguðu í upphafi 20. aldarinnar á Akureyri. Við sögu kemur merkilegt hús dansks kaupmanns, þrjóskur Íslandsmálaráðherra og óheppnar systur.

Fyrsta íbúðarhúsið á Akureyri brennur

Fyrsti stórbruninn varð þann 19. desember árið 1901. Gestir á Hótel Akureyri við Aðalstræti vöknuðu upp að næturlagi við mikil köll og læti þar sem eldurinn átti upptök sín. Hótelið brann til kaldra kola ásamt fimm íbúðarhúsum. Eitt þeirra var fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var á Akureyri. Smíði þess hófst árið 1777 en lauk árið eftir. Maður að nafni Friðrik Lynge, en hann var danskur kaupmaður í þjónustu konungs á Akureyri, bjó fyrstur manna í húsinu. Frá því að einokunarverslun Danakonungs á Íslandi hófst árið 1602 og til ársins 1776 höfðu danskir kaupmenn í hans þjónustu aðeins dvalist yfir hásumarið á Akureyri sem og annars staðar á landinu. Frá og með árinu 1776 skyldaði konungur alla sína kaupmenn á Íslandi til að að hafa þar vetursetu og afgreiða úr búðum sínum allan ársins hring. Þar með var komin þörf fyrir að byggja fyrsta íbúðarhúsið í bænum.

Íbúar Álasunds koma til hjálpar

Í upphafi árs 1905 eignuðust Akureyringar vísi að slökkviliði, hinu fyrsta í sögu bæjarins. Keypt voru tæki og tól erlendis frá svo sem slökkvidæla á hjólum, brunahanar, axir, brunahjálmar og slöngur. Slökkviliðið kom þó litlum vörnum við þann 18. október árið 1906 þegar einhver örlagaríkasti bruninn varð, hinn svokallaði Oddeyrarbruni. Talið var að eldur hefði kviknað út frá olíulampa í kjalla eins hússins. Á u.þ.b. tveimur klukkustundum náði einhver mesti bruni Íslandssögunnar að eyða fimm stórum verslunar- og íbúðarhúsum af yfirborði jarðar og gera hátt í hundrað manns heimilislausa. Húsin fimm sem fuðruðu upp stóðu við Strandgötu 3,7,9,11 og 13. Oddeyrarbruninn vakti mikla athygli, jafnvel út fyrir landssteinana. Hannes Hafstein Íslandsmálaráðherra skýrði konungi frá eldsvoðanum og notaði tækifærið til að tilkynna að ekki stæði til að leita fjárhagsaðstoðar utan kaupstaðarins. Akureyringar sjálfir ætluðu sér að endurreisa Oddeyrina án aðstoðar annarra. Þrátt fyrir þetta fékkst óvænt aðstoð frá útlöndum m.a. frá íbúum Álasunds í Noregi. Þeir höfðu frétt af brunanum og vegna svipaðrar reynslu sem þeir höfðu orðið fyrir tveimur árum fyrr þegar um 800 hús brunnu vildu þeir koma Akureyringum til hjálpar. Það gerðu þeir með því að gefa bænum einingar til að setja saman tvö hús auk þess sem þeim fylgdi töluvert af húsbúnaði svo sem diskar, bollar og hnífapör.

Óheppnar Möllersystur

Árið 1912 varð annað svæði á Akureyri illa fyrir barðinu á eldi. Þar var um tvo bruna að ræða, þann fyrri 27. apríl en þann seinni 15. desember. Brunarnir tveir urðu í nágrenni við þann stað þar sem Ísbúðin Brynja stendur í dag. Í aprílbrunanum brunnu þrjú hús. Í desember urðu tólf hús eldinum að bráð. Í apríl brann m.a. húsið sem hýsti fyrsta apótek bæjarins á sínum tíma. Í því bjuggu systurnar Jónína og Nanna Möller þegar brann. Þar misstu þær systur heimili sitt í bruna í annað sinn því í brunanum mikla 1901 brann hús þeirra til kaldra kola. Eftir aprílbrunann 1912 fluttu þær Jónína og Nanna í nýtt húsnæði. Það brann í desember sama ár. Það var eina íbúðarhúsið sem brann en auk þess brunnu 11 önnur hús. Möllersystur misstu því heimili sitt þrisvar sinnum í jafnmörgum eldsvoðum. Þannig brunnu samtals 15 hús á nánast sama blettinum í tveimur brunum á einu og sama árinu.

Sögusagnir kveðnar niður?

Í kjölfar brunanna á Akureyri lögðu bæjaryfirvöld sífellt meiri áherslu á að efla brunavarnir í bænum. Mesta vægi hefur þó sjálf vatnsveitan haft í þeim efnum en hún var tekin í notkun árið 1914. Nálægt 40 brunahanar voru settir við vatnsleiðsluna á víð og dreif um bæinn. Þeir komu að góðum notum mánuði síðar þegar slökkviliðinu tókst að slökkva eld í brennandi húsi á Oddeyri.

Sögusagnir um mögulegar ástæður brunanna 1901-1912 fóru fljótt af stað; bæjarbúum hlyti að standa á sama þó húsin þeirra brynnu, Akureyringar kynnu ekki að halda á eldspýtum og þar fram eftir götunum. Jafnvel var óttast að brennuvargur gengi laus –  slíkur væri fjöldinn af brunum að ekki gæti verið um tilviljun að ræða. Aldrei var þó hægt að sýna fram á annað en að brunarnir á Akureyri ættu sér eðlilegar skýringar og að ekkert glæpsamlegt lægi þar að baki.

Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í mai 2014.

Nóbelsverðlaunahafi eignast jörðina Reykhús

Það er með þessi blessuðu „ef“ og „hefði“ í samtölum fólks. Orðin tvö leyfa okkur að leika okkur með eitthvað sem varð ekki en hefði mögulega orðið ef eitthvað hefði farið á annan veg en það gerði. Ef Einar hefði keypt Reykhús eins og hann hafði áhuga á og fengið Nóbelsverðlaunin eins og vonir stóðu til…ja, þá hefði fyrirsögnin hér að ofan átt við rök á styðjast.

Hér skulum við bakka örlítið og gera langa sögu stutta. Hallgrímur Kristinsson fæddist á bænum Öxnafellskoti í Eyjafirði árið 1876. Eftir að hafa stundað nám og hin ýmsu störf í heimabyggð giftist hann Maríu Jónsdóttur. Sama ár og þau gengu í hjónaband, árið 1902, hófu þau búskap á jörðinni Reykhús í Hrafnagilshreppi þar sem þau voru með búskap til loka heimsstyrjaldarinnar fyrri. Eitt af fyrstu verkefnum Hallgríms og Maríu eftir að þau komu í Reykhús var að reisa nýtt og fallegt timburhús. Hjónin festu svo kaup á jörðinni árið 1907. Þau eignuðust fjögur börn á búskaparárum sínum í Reykhúsum. Seinna reis Heilsuhæli Norðurlands í landi Kristness, steinsnar frá þeim stað sem Hallgrímur og María reistu sér bæ.

Hallgrímur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í upphafi 20. aldarinnar. Hann var m.a. kaupfélagsstjóri Kaupfélags Eyfirðinga um tíma og þá var hann forstjóri SÍS um sex ára skeið, hinn fyrsti til að gegna því embætti. Störfunum fylgdu mikil ferðalög og fundahöld og því óhjákvæmilegt að komast í kynni við fólk af öllum stigum þjóðfélagsins. Einn af kunningjum Hallgríms var hinn kunni rithöfundur Einar H. Kvaran. Þeir voru einnig tengdir fjölskylduböndum þar sem mágkona Hallgríms var hálfsystir Einars. Árið 1913 skrifaði Einar leikritið Lénharður fógeti sem Leikfélag Akureyrar tók til sýninga árið eftir. Með hlutverk fógetans fór Hallgrímur Kristinsson og fórst það vel úr hendi ef marka má leikhúsgagnrýni í dagblaðinu Norðurlandi (9. tbl. 28.02.). Árið 1928 skrifaði Einar söguna Reykur og ári síðar söguna Hallgrímur. Er það kannski til marks um tengsl hans og Hallgríms í Reykhúsum? 

 

 

 

 

 

 

 

 

      Á árunum 1915-1917 dvaldist Hallgrímur í Kaupmannahöfn vegna starfa sinna fyrir SÍS. Á þeim tíma  var hann farinn að hugsa sér til hreyfings, frá Reykhúsum til Akureyrar. Hann íhugaði að selja Reykhús og flytjast búferlum ásamt Maríu sinni og börnunum fjórum. Í einu af fjölmörgum bréfum sem Hallgrímur skrifaði heim frá Kaupmannahöfn nefnir hann áhuga Einars H. Kvaran á að festa kaup á jörðinni, þó ekki fyrir sig sjálfan heldur Ragnar son sinn. Árið 1923 bárust fréttir frá Svíþjóð þess efnis að Einar kæmi til greina sem næsti handhafi bókmenntaverðlauna Nóbels. Komið væri að Íslandi að eignast einn slíkan og Einar væri efstur á blaði af íslenskum rithöfundum. Nokkru síðar fékkst staðfest að nafn Einars væri á borði sænsku akademíunnar. Ekkert varð af því að eigandi Reykhúsa í Eyjafirði hlyti Nóbelsverðlaun. Jörðin var orðin of dýr vegna viðhalds og hækkandi verðlags svo skáldið Einar hafði ekki efni á henni. Hvað Nóbelsverðlaunin snerti þá féllu þau honum ekki í skaut. Sumum þótti sem sænska akademínan hefði fallið frá hugmyndum sínum vegna ummæla sem Sigurður Nordal prófessor í bókmenntum við Háskóla Íslands hafði þá látið falla í sænsku vikublaði. Urðu þónokkrar blaðadeilur út af ummælum Sigurðar.

„Kvaran er tvímælalaust góður smásagnahöfundur, en verk hans eru ekki í þeim gæðaflokki að þau megi með gildum rökum nefna til Nóbelsverðlauna.“

                                                                                                                                                                   Sigurður Nordal

Þó Nóbelsverðlaunahafinn Einar hafi ekki gengið um grasi grónar brekkurnar í Reykhúsum og Kristnesi á árum fyrra stríðs gerði verðandi Nóbelsverðlaunahafinn Halldór það í aðdraganda seinna stríðs. Árið 1937 heimsótti Laxness berklasjúklinga á Kristneshæli. Ekki þótti þó öllum vistmönnum Hælisins mikið til heimsóknar hans koma.

„…Fyrir stuttu síðan kom hinn alkunni alþýðuvinur og skáld Halldór Kiljan Laxness hingað, og fékkst hann ekki, þrátt fyrir marg ítrekaðar og misheppnaðar tilraunir til að segja neitt sjúklingunum til skemmtunar. Verðum vér því að telja þetta ókurteisis, frekar en kurteisisheimsókn, enda komumst við að raun um það, ef við lítum á hann í „ljósi heimsins“, að hér er mjög sjálfstæður maður á ferð, bæði hvað skáldskap og kurteisi viðkemur…“

                                                                      Úr Gáska, blaði gefnu út af vistmönnum Kristneshælis í ágúst 1937

 

Hallgrímur Kristinsson lést að heimili sínu í Reykjavík þann 30. janúar árið 1923, 46 ára aldri. Dánarorsök var botnlangabólga. María Jónsdóttir flutti norður á heimaslóðir með börnin um vorið. María og börnin bjuggu í Reykhúsum til ársins 1931 þegar þau fluttu aftur til höfuðborgarinnar. María lést árið 1954, tæplega áttræð að aldri.

Einar H. Kvaran lést 1938, ári eftir heimsókn Halldórs Laxness á Kristneshæli. Sextíu ár liðu áður en Halldór fór á fund feðra sinna. Við gerð bókar um líf berklasjúklinga á Kristneshæli – Í fjarlægð – sem kom út árið 2017 fundust óvænt heimildir í rykföllnum pappakassa sem gefa til kynna kunningsskap Nóbelsskáldsins við íbúa í Kristnesþorpi á seinni hluta 20. aldarinnar. Svo virðist sem sú vinátta hafi varað um áratuga skeið. Það er efni í sérstaka umfjöllun.