main image

John F. Kennedy óttaðist ekki árás Íslendinga

Til er upptaka af símtali John Fitzgerald Kennedy Bandaríkjaforseta og vinar hans og samstarfsmanns þar sem forsetinn lýsir yfir að hann muni hvergi hvika ef ráðist verði á Bandaríkin. Upptakan er hluti af gögnum úr forsetatíð Kennedy sem nú hafa verið gerð opinber. Símtalið átti sér stað aðeins fjórum mánuðum áður en forsetinn var skotinn til bana í Dallas í nóvember 1963. Kalda stríðið var í algleymingi og stríðandi aðilar sáu skrattann í hverju horni eins og raunar efni símtalsins ber með sér.

Á upptökunni má heyra Kennedy lesa upp tilkynningu þar sem hann dregur í efa að Sameinuðu þjóðirnar muni láta til skarar skríða gegn bandarískum þegnum. Hann muni verja land og þjóð gegn öllum mögulegum árásum, sama hvaðan þær komi. Forsetinn tekur dæmi um þrjú fullvalda ríki sem hann segir ólíklegt að muni ráðast til atlögu gegn Bandaríkjunum. Tvö þessara ríkja höfðu nýlega öðlast fullveldi þegar félagarnir tveir töluðu saman í síma; Tjad árið 1960 og Samóaeyjar árið 1962. Athygli vekur að þriðja landið sem John F. Kennedy nefnir til sögunnar er Ísland. Ísland varð sem kunnugt er fullvalda ríki árið 1918.

Tók Kennedy Ísland, Tjad og Samóaeyjar sem dæmi til að undirstrika fáránleika þess að óttast árás á Bandaríkin eða felst kannski hroki í orðum forsetans sem líklega hafa verið hugsuð til heimabrúks? Sitt sýnist hverjum. Ummæli Bandaríkjaforseta og önnur tengsl hans við Ísland eru til umfjöllunar í seinni hlaðvarpsætti Sagnalistar um JFK sem fer í loftið 22. nóvember. Fyrri þátturinn er nú aðgengilegur á streymisveitunni Spotify.

Stríðsminjar frá Hrafnagilsspítala – snyrtivörur

Bretar reistu herspítala á Hrafnagili í Eyjafirði sumarið 1941 (81st General Hospital). Bandaríkjamenn tóku við rekstri spítalans haustið 1942 (49th Station Hospital). Ári síðar var skellt í lás á Hrafnagilsspítala. Til marks um mikil umsvif hersins á Hrafnagili má nefna að spítalinn gat, þegar mest lét, annast um 500 sjúklinga með hátt á fjórða hundrað manns við störf. Ýmsir áhugaverðir gripir úr fórum Breta og Bandaríkjamanna hafa litið dagsins ljós við rannsóknir á Hrafnagili í haust.

Við vitum ekki mikið um hjúkrunarkonurnar sem störfuðu við herspítalann á Hrafnagili á stríðsárunum. Við vitum þó að Nurse Helen starfaði við 49th Station Hospital á Hrafnagili í eitt ár. Meira um hana á eftir. Suma gripina, sem fundist hafa á svæðinu, er freistandi að tengja við bresku og bandarísku hjúkrunarkonurnar sem störfuðu á spítalanum. Nokkrir gripir eru þó líklegri en aðrir hvað það varðar. Hér skulu þrír nefndir til sögunnar. Til gamans skulum við leika okkur með hugmyndina að vinkona okkar Helen hafi átt og notað gripina og fargað þeim svo að loknu góðu dagsverki.

Í fyrsta lagi er það lítil glerflaska sem olli nokkrum heilabrotum á fundarstað. Síðar kom í ljós að um flösku undan rauðlitaðri naglabandaolíu var að ræða af gerðinni J. W. Marrow’s Trimal for Cuticle, framleiddri af Trimal Laboratories Inc. í Los Angeles. Olían sem flaskan hafði að geyma hefur líklegast mýkt naglabönd Helen og nært neglur hennar eftir erfiðan vinnudag á spítalanum. Frá framleiðanda kom flaskan í litlum pappakassa ásamt leiðbeiningum um notkun og pinna sem átti að vefja bómull utan um. Bómullarpinnann notaði Helen til að ýta naglaböndunum niður þegar þau voru orðin mjúk. Þá gat hún tekið til við að lakka á sér neglurnar án þess að naglaböndin þvældust fyrir.

Þá liggur beinast við að segja næst frá naglalakkaflöskunni hennar Helen sem fannst á Hrafnagili. Flaskan er með fallegu mynstri sem auðveldar greiningu á henni. Naglalakkið er amerískt, af gerðinni Dura-Gloss frá Lorr Laboratories í New Jersey. Kúlulaga tappi flöskunnar er ennþá skrúfaður á, rétt eins og þegar Helen fleygði flöskunni í ruslið. Niður undan tappanum er armur með litlum áföstum pensli sem eitt sinn gerði neglurnar hennar Helen rauðleitar og fínar. Hönnun tappans er skemmtileg en á honum má greina útskorna nögl. Lorr Laboratories fékk einkaleyfi fyrir tappanum haustið 1937 og flöskunni vorið 1938 og hóf í kjölfarið markaðssetningu á naglalakkinu þar sem siglt var undir seglum hagstæðra kaupa. Það sem vekur sérstaka athygli er rauðleitt naglalakkið sem ennþá er í flöskunni, 80 árum eftir að Helen handlék hana og gerði sig fína. Notendur naglalakks klára víst ekki alltaf úr naglalakkaflöskunum sem gæti skýrt hvers vegna flaskan hennar Helen er enn hálffull. Ekki er gott að segja hver liturinn nákvæmlega er því Dura-Gloss bauð upp á nokkur afbrigði – Red Wine, Pink Lady, Zombie og Gay Time svo dæmi séu nefnd.

Í þriðja lagi er það varaliturinn. Hann má muna fífil sinn fegurri. Þrátt fyrir að tímans tönn hafi herjað á þennan litla minjagrip í 80 ár, mátti enn sjá – þegar hann fannst – ákveðin karaktereinkenni á hólknum sem gáfu okkur von um að greina mætti hann nánar. Hólkurinn er rétt um 5 cm að lengd sem stemmir við lengd varalita á þessum árum. Botninn er ögn sverari með þremur „útskornum“ línum hringinn í kringum hólkinn. Rétt neðan við miðju glittir í það sem virðast vera einhvers konar samskeyti. Að ofanverðu, þar sem sjálfur liturinn hefur eitt sinn rúllast upp og niður, beygist hólkurinn örlítið inn á við. Allt eru þetta lýsingar sem eiga við hinar ýmsu tegundir varalita frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Kannski var varaliturinn hennar Helen appelsínugulur á litinn, frá Jean La Salle eða rauður að lit frá Coty. Mögulega kemur hann frá framleiðandanum Tangee í Illinois. Tangee var söluhæsti varaliturinn í Bandaríkjunum árið 1940. Þó appelsínugular varir hafi fallið í kramið á þessum árum, var rauði liturinn í sérflokki. Hann var tákn um ættjarðarást. Einhvers staðar segir að hann hafi ekki einungis látið konum líða sem þær væru kvenlegri heldur og hafi hann auðveldað þeim að lifa af þá róstusömu tíma sem heimsstyrjaldarárin vissulega voru. Á stríðsárunum var litið á varalit sem annað og meira en bara snyrtivöru. Hann var hluti af hernaðaráætlun, að halda móralnum góðum hjá bæði konum og körlum. Konur voru hvattar til að nota varalit svo hermennirnir yrðu glaðari og smella eins og einum góðum kossi á bréfin áður en þau voru send til þeirra á vígstöðvarnar. Kannski eru líkindin með varalit og skothylkjum engin tilviljun enda stundum talað um „lipstick bullet“ vegna lögunarinnar.

Helen J. Armstrong hóf störf hjá bandaríska hernum í Texas þann 3. febrúar árið 1941. Síðar kom hún til starfa á 49th Station Hospital á Hrafnagili. Þar var hún hluti af Army Nurse Corps og bar titilinn 1st. Lt. [First Lieutenant] Á Hrafnagili átti Helen eftir að starfa í eitt ár eða þar til hún slasaðist og þurfti að snúa aftur til Bandaríkjanna í aðgerðir og endurhæfingu. Slysið átti sér stað í mikilli hálku fyrir utan einn braggann á Hrafnagili þar sem hún rann til og féll harkalega á ísklump með þeim afleiðingum að hún skaddaðist á mænu. Helen þurfti í þrjár aðgerðir og í kjölfarið tók við margra mánaða endurhæfing á Brooke General Hospital í Houston í Texas. Lungann úr tímanum þar var hún rúmliggjandi og mátti sig hvergi hreyfa. Hún notaði tímann til að semja ljóð

Þegar Helen komst loks á fætur ákvað hún að gefa ljóðin sín út á bók sem hún sjálf gekk frá á bókbandsstofu endurhæfingarstöðvarinnar á Brooke-spítala. Ljóðin fjalla um liðnar stundir í lífi höfundar, þ.á.m. eru nokkur ljóð þar sem Helen vísar í tíma sinn sem hjúkrunarkona á 49th Station Hospital á Hrafnagili. Memory Lane, ljóðabók Helen, kom út fyrir jólin 1945.

 

Iceland

Arctic land so bleak and barren,

How can thy beauties show?

Year around your face is hidden

’Neath a mantle of snow.

 

Barren mountains, reaching skyward

In a land of ice and fire;

Mighty glaciers and volcanos,

Geysers rumbling with desire.

 

Rising high above the ocean

Proud and lonely tho you stand,

Yet moonbeams and northern lights

Make yours an enchanted land.

 

Isolation may surround you,

Yet the mighty become meek…

Knowing beauty may be hidden

But they’ll find it, if they seek.

 

                             Helen J. Armstrong

 

Army Nurse

Soldier, sailor or marine;

No matter what race or creed

She stands ready at his side

To help, in his hour of need.

 

Dedicated to heal the sick

She has answered every call

Though weariness besets her,

With a smile she greets them all.

 

On land and sea and in the air

She is at the wounded side,

The memory of her courage

Long with them will abide.

 

They say “The wounded do not cry,”

Nor seldom do they curse,

But one and all breathe this prayer

“Thank God for the Army Nurse!!

 

                             Helen J. Armstrong

 

The Reserve nurse

When war-clouds darken the horizon

And soldiers writhe with pain,

The call goes out o’er all the land

For the Reserve Nurse to march again.

 

To the burning planes of Texas,

To Iceland’s frozen shores,

To Australia, Ireland, or Alaska,

Even to the Corregidors!

 

They answer the call of mercy,

And side by side they stand

To help their soldier brothers,

Protect and save our land.

 

They do not ask for glory.

They do not fear the foe,

But only ask to do their part

To rid the world of woe.

 

And when the wars are over,

And freedom rings once more,

They will join their loves ones

Upon our own home shore.

 

                             Helen J. Armstrong

 

 

 

Stríðsminjar frá Hrafnagilsspítala – Coca Cola

Bretar reistu herspítala á Hrafnagili í Eyjafirði sumarið 1941 (81st General Hospital). Bandaríkjamenn tóku við rekstri spítalans haustið 1942 (49th Station Hospital). Ári síðar var skellt í lás á Hrafnagilsspítala. Til marks um mikil umsvif hersins á Hrafnagili má nefna að spítalinn gat, þegar mest lét, annast um 500 sjúklinga með hátt á fjórða hundrað manns við störf. Ýmsir áhugaverðir gripir úr fórum Breta og Bandaríkjamanna hafa litið dagsins ljós við rannsóknir á Hrafnagili í haust.

Ófáar eru glerflöskur setuliðsmanna sem fundist hafa í Eyjafirði á undanförnum árum. Með áhugaverðari gripum sem fundist hafa á Hrafnagili eru heilar Coca cola flöskur. Fyrir utan tvö eða þrjú glerbrot af Coca Cola flöskum sem höfðu komið í leitirnar, var fátt sem benti til þess að hermenn á Akureyri og í nágrenni hefðu drukkið gosdrykkinn að einhverju marki. Eftir að fyrsta flaskan leit dagsins ljós á Hrafnagili fyrir nokkrum dögum síðan, brutu þær sér leið fram í dagsbirtuna hver af annarri, allar á sama blettinum. Þegar upp var staðið voru Coca Cola flöskurnar sex talsins.

Upphaf Coca Cola drykkjarins nær aftur til seinni hluta 19. aldar. Flaskan, eins og við þekkjum hana í dag með sínu svokallaða Hobbleskirt design, kom fyrst á markað árið 1916. Fyrsta „týpa“ Coke-flöskunnar er merkt „NOV.16. 1915“ sem vísar í daginn sem einkaleyfi fékkst fyrir Hobbleskirt design. Frumgerðin var í framleiðslu til ársins 1928 þegar önnur útgáfa var sett í umferð. Sú gengur undir nafninu „jólaflaskan“ (Christmas Bottle) og var hún í framleiðslu til ársins 1938. Nafnið er tilkomið vegna endurnýjunar einkaleyfis á jóladag, þann 25. desember 1923. Framleiðslan hófst þó ekki fyrr en fimm árum seinna. Coca Cola flöskur sem framleiddar eru á þessu tíu ára tímabili eru þannig auðþekktar á merkingunni „DEC.25. 1923“. Ári áður en seinni heimsstyrjöldin braust út, var einkaleyfið endurnýjað í annað sinn og þriðja útgáfan sett í umferð. Sú fékk merkinguna „PAT.D-105529“ (D-Patent Bottle) og var hún framleidd þar til einkaleyfið fyrir hana rann út árið 1951. Að undanskildum merkingunum líta Coke-flöskurnar frá þessum þremur tímabilum eins út. Það var svo árið 1957 sem fyrst var gerð breyting á útliti Coke-flöskunnar þegar stafirnir á henni voru málaðir hvítir.

Ef marka má timarit.is birtust fyrstu Coca Cola auglýsingarnar í blöðum sem gefin voru út á íslensku, í tímaritum Íslendinga í Norður-Ameríku á árunum 1918 og 1919. Auglýsing í Lögbergi á fullveldisárinu var á ensku, ári síðar birtist önnur í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar með mynd af fyrstu týpu Hobbleskirt design-flöskunnar. Fyrstu fréttir af sölu á Coke á Íslandi fyrir Íslendinga komu fyrir sjónir landsmanna í dagblöðum sumarið 1942. Mikil blaðaskrif urðu um hvernig að málum var staðið þegar veitt var umboð fyrir drykkinn á Íslandi. Svo virðist sem einhverjum hafi fundist málið lykta af pólitískri ívilnun og spillingu. Ekki verður annað sagt en að sumar af þeim greinum sem skrifaðar voru í íslenskum dagblöðum og tímaritum um Coca Cola það sem eftir lifði stríðsáranna, laði fram bros á vör. Í greinunum er m.a. velt upp hvort þessi nýi drykkur frá Ameríku innihaldi kókaín og hvort hann sé áfengur.

Coca Cola var vinsæll drykkur á meðal bandarískra hermanna í seinni heimsstyrjöldinni. Hvort sem um var að ræða átakasvæði í Frakklandi og Japan eða á rólegri slóðum Nýja-Sjálands og Íslands, alls staðar mátti sjá hermenn með Coca Cola flöskur. Mikil neysla og útbreiðsla á stríðsárunum er þó einnig tilkomin vegna ákvörðunar forstjóra fyrirtækisins að bjóða hverjum amerískum dáta Kók á kostakjörum á kostnað fyrirtækisins, hvar sem var í heiminum á meðan stríð geisaði – “every man in uniform gets a bottle of Coca-Cola for five cents, wherever he is and whatever it costs the company”. Auglýsingaskilti fyrir Coca Cola spruttu fram á hverju götuhorni. Jafnvel sjálfur Eisenhower hershöfðingi kallaði sérstaklega eftir samstarfi við Coca-Cola Company árið 1943. Honum varð ljóst að drykkurinn létti lundina og gæti með því lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að efla baráttuandann. Styrjöldin átti þannig stóran þátt í að kynna Kók fyrir heimsbyggðinni. Flöskurnar á Hrafnagili eru á meðal fimm milljarða Kók-flaskna sem amerískir hermenn og annað starfsfólk hersins um allan heim drakk úr á stríðsárunum. Sex flöskur í liði „flöskunnar  sem fór af stað í stríð árið 1941 og endaði með því að sigra heiminn“.

Eitt sem einkennir Kók-flöskurnar frá árunum í kringum seinna stríð er græni liturinn á glerinu, svokallaður Georgia-grænn. Hann er nefndur eftir ríkinu þar sem Coca Cola Company var stofnað. Á fyrri hluta 20. aldar var hráefni til að vinna glerið sótt í tiltekna námu sem fyrirtækið hafði á snærum sínum. Náman var rík af kopar og skýrir það græna litinn. Annað sem einkennir flöskurnar er botninn. Ólíkt flestum flöskum er botninn merktur borg eða bæ í Bandaríkjunum sem gefur til kynna hvert viðkomandi flaska fór í sölu. Fjórar af flöskunum frá Hrafnagili eru af gerðinni PAT.D-105529. Þær eru framleiddar á árunum 1938-1951 í Chattanooga Glass Company í Tennessee. Tvær eru merktar NEW YORK á botninum, ein er merkt BOSTON MASS[ACHUSETTS] og loks ein merkt HARTFORD CONN[ECTICUT]. Hinar tvær eru eldri, svokallaðar „jólaflöskur“ með merkinguna DEC.25. 1923 sem segir okkur að þær hafi verið framleiddar á árunum 1928-1938. Önnur er framleidd í Owens-Illinois Glass Company. Báðar eru þær frá árinu 1935. NEW YORK er skráð á botni annarrar. Botninn á hinni er merktur PROVIDENCE R.I. ( RHODE ISLAND).

Græni liturinn á Kók-flöskunum gefur jafnframt til kynna að þær hafi verið hugsaðar til almennrar notkunar en ekki framleiddar sérstaklega fyrir bandaríska hermenn. Coca Cola lét útbúa coke-flöskur sérstaklega fyrir bandaríska herinn í seinni heimsstyrjöldinni. Þær eru glærar og án merkinga á botninum. Þannig hafa flöskurnar Á Hrafnagili líklega verið sendar í verslanir í fyrrnefndum borgum áður en Bandaríkin urðu þátttakendur í stríðinu en í krafti endurnýtingar og skilagjalds, dúkkað upp í nágrenni Akureyrar á stríðsárunum og lokið hlutverki sínu þar með. Ekki aldeilis. Endurnýtingin er enn í fullu gildi. Nú hefst nýtt líf Kók-flasknanna sex frá Hrafnagilsspítala.

Leikarinn Rami Malek fær sér sopa af Coca Cola í þáttunum The Pacific frá árinu 2010. Flaskan er glær og án merkinga á botninum.

Leikarinn James Badge Dale í The Pacific með græna Coce-flösku.

The Pacific.

 

 

Stríðsminjar frá Hrafnagilsspítala – leirtau

Bretar reistu herspítala á Hrafnagili í Eyjafirði sumarið 1941 (81st General Hospital). Bandaríkjamenn tóku við rekstri spítalans haustið 1942 (49th Station Hospital). Ári síðar var skellt í lás á Hrafnagilsspítala. Til marks um mikil umsvif hersins á Hrafnagili má nefna að spítalinn gat, þegar mest lét, annast um 500 sjúklinga og haft hátt á fjórða hundrað manns í vinnu. Ýmsir áhugaverðir gripir úr fórum Breta og Bandaríkjamanna hafa litið dagsins ljós við rannsóknir á Hrafnagili í haust.

Hvít postulínsbrot merkt breska og ameríska hernum hafa fundist í töluverðu magni á Hrafnagili. Fyrst skal nefna þau bresku til sögunnar. Merkingar á þeim gefa til kynna að breski herinn hafi útvegað borðbúnað frá fleiri en einum aðila. Hvort starfsfólk allt og sjúklingar hafi snætt af og drukkið úr svo fagurlega skreyttum diskum og bollum skal ósagt látið. Hvað sem því líður þá er ljóst að á Hrafnagili hafa einhverjir borðað af diskum merktum fyrirtækjunum „Ashworth & Bros.“ og „Salisbury Crown China Co“. Bæði fyrirtækin koma frá borginni Stoke í Englandi en þar liggja rætur leirkeragerðar í Englandi og gengur Stoke því oft undir nafninu The Potteries. Ashworth & Bros. hefur frá árinu 1862 framleitt diska, bolla og fleira í þeim dúr. Samningur milli fyrirtækisins og breska ríkisins um framleiðslu og sérmerkingar á vörum fyrir breska herinn var í gildi á stríðsárunum. Til aðgreiningar frá vörum á almennum markaði var sérstakt merki stimplað á borðbúnaðinn ásamt ártali – bókstafurinn W inn í tígli. Annað og enn skemmtilegra merki sem greina má á bresku postulínsbrotunum á Hrafnagili er fangamark (Royal cypher) Georgs 6. Bretakonungs (ríkisár 1936-1952). Allt frá tímum Hinriks 8. hafa drottningar og konungar Bretlands skartað þeirra eigin konunglega fangamarki. Fangamark Georgs 6. er Tudor kórónan með skrautstafina G (George) og R (Rex (latína fyrir king / ruler)) og rómversku tölustafina VI á milli þeirra. Fangamark Elísabetar heitinnar Bretadrottningar inniheldur St. Edward´s kórónuna. Til gamans má geta þess að fangamark Karls 3. Bretakonungs var afhjúpað fyrir ekki svo löngu. Þar birtist Tudor kórónan aftur. Gárungarnir segja að Karl sé þarna vísvitandi að vísa til afa síns og áranna sem hann ríkti sem konungur.

Postulínsbrotin frá borðbúnaði ameríska hersins eru töluvert fleiri en þau bresku á Hrafnagili. Kannski var notkun hans þar almennari en þess breska. Ólíkt bresku brotunum þá hafa þau amerísku öll sömu merkingarnar – enn sem komið er; „Shenango China Newcastle. PA. U.S. Army Medical Dept. 1941.“ Shenango China var stofnað árið 1901 í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum en sameinaðist öðru fyrirtæki, New Castle Pottery Company árið 1912. Árið 1936 óskaði hinn frægi franski postulínsframleiðandi Haviland & Co. eftir samstarfi við Shenango China Newcastle. Samstarfið skilaði sér m.a. í framleiðslu á leirtaui fyrir Hvíta húsið í forsetatíð Franklin D. Roosevelt og Harry S. Truman sem og minjagripum vegna komu Georgs 6. Bretakonungs og konu hans Elísabetar drottningar á heimssýninguna í New York árið 1939. Amerísku brotin á Hrafnagili eru með tveimur misbreiðum borðum og merki sjúkradeildar ameríska hersins, allt í rauðum lit. Merkið er tekið úr grískri goðafræði, tveir snákar sem vefja sig utan um vængjaðan sprota, The Caduceus. Bandaríski herinn hefur notað merkið sem tákn fyrir sjúkradeild hersins frá árinu 1902. Utan um merkið er hringur með áletruninni UNITED STATES ARMY MEDICAL DEPARTMENT. Amerísku brotin eru ýmist af diskum, bollum eða skálum.

 

Myndir: Varðveislumenn minjanna og Daily Mail.

Sagnalist með Adda & Binna fer af stað eftir hlé

Önnur þáttaröð af hlaðvarpsþáttunum Sagnalist með Adda & Binna hefst í næstu viku. Um þessar mundir er ár liðið frá því að fyrsti þáttur þeirra félaga fór í loftið en alls urðu þættirnir sextán. Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi verið góðar og því hafa Arnar Birgir og Brynjar Karl ákveðið að dusta rykið af hljóðnemunum og fara af stað með nýja seríu.

Ný þáttaröð verður með svipuðu sniði og áður. Sögur af áhugaverðu fólki og spennandi atburðum liðinna tíma verða í forgrunni í bland við reynslusögur og hugleiðingar þáttastjórnenda. Í fyrsta þætti leiða þeir hlustendur á miðaldaslóðir og ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur – í bókstaflegri merkingu. Fjallaklifur kemur við sögu og biskupsfrú á flótta svo eitthvað sé nefnt.  

Þættirnir verða aðgengilegir á streymisveitunni Spotify. Hægt er að nálgast þætti úr fyrstu seríu með því að smella hér.

Hver bar kaþólska kopar hálsmenið?

Ummerki um veru hermanna á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni leynast víðar í jörðu en margan grunar. Akureyri er þar ekki undanskilin. Innan um glerbrot, kol og ryðgaða nagla sem finna má í umtalsverðu magni, leynast fágætari stríðsminjar og jafnvel persónulegir munir setuliðsmanna. Ein slík gersemi varð á vegi Varðveislumanna um nýliðna helgi – agnarsmátt hálsmen úr kopar með trúarlegum táknum á báðum hliðum og áhugaverða sögu í farteskinu.

Hálsmenið er 2 x 1 cm að stærð, með útlínur sem minna á töluna átta og upphleyptum myndum og bókstöfum beggja megin. Tilviljun réði því að Varðveislumenn komu auga á menið í blautri moldinni. Grænn litur koparsins, sem tilkominn er vegna veðrunar, kom þeim á sporið. Erfitt reyndist að greina tákn eða merkingar en þó lék strax grunur á að þarna væri annað hvort um hluta af rennilás að ræða eða hálsmen. Úrskurður fékkst þegar heim var komið og litli kopargripurinn var hreinsaður. Undan skítnum birtust María mey og Jesús Kristur í öllu sínu veldi.

Við tók rannsóknarvinna undir smásjá og á veraldarvefnum. Hún leiddi eitt og annað í ljós. Menið er heillahálsmen (charm pendant), einnig nefnt „kraftaverkahálsmen“ (miraculous medal) og því mögulega verið hugsað eigandanum til gæfu og heilla á erfiðum tímum á fjarlægum slóðum.

Önnur hlið mensins sýnir Maríu mey með Jesúbarnið í fanginu, stjörnur við höfuð þeirra og geisla sem frá þeim berast. Undir þeim mæðginum er kross, tákn Krists og bókastafurinn M, tákn Maríu. Krossinn og bókstafurinn eru tvinnaðir saman sem tákn um sameiningu þeirra tveggja. Þar undir eru tvö lítil hjörtu, annað umvafið þyrnikórónu sem tákn um hjarta Jesú Krists en hitt með sverð í hjartastað, tákn um kraft kærleikans, hið flekklausa hjarta Maríu sem stungið var rýtingi. Upp af hjörtunum loga eldar. Þeir standa fyrir brennandi kærleika sem Jesús og María bera til allra manna. Í kringum þetta allt hringsóla tólf stjörnur. Þær tákna postulana og kirkjuna.

Hinum megin sést María mey standa á stalli með beygt höfuð og handleggi frá líkama. Í hringnum sem umlykur hana er áletrað „Ó María, getin án syndar, biðjið fyrir okkur sem höfum leitað til ykkar. “ Hendur hennar varpa geislum til jarðar sem minna okkur á að með fyrirbæn Maríu sendir hún náð Guðs til heimsins. Yfir Maríu gnæfir fullorðinn Jesús, sömuleiðis umlukinn hring með hendur á lofti og ljósgeisla yfir höfði sér.

Við nánari rannsóknir á meninu kom í ljós að það er af tiltekinni gerð kraftaverkahálsmena, svokallað Scapular-hálsmen. Greina má Scapular-hálsmen frá öðrum sambærilegum hálsmenum m.a. út frá fjölda tákna sem þau bera sbr. upptalninguna hér að ofan. Sagan segir að María hafi birst leiðtoga Karmelreglunnar árið 1251 og afhent honum „Brown Scapular” sem eru heilög klæði. Hálsmenið sem eitt sinn var í eigu setuliðsmanns á Akureyri táknar þessa gjöf Maríu. Börn sem fæðast inn í Karmelregluna fá hálsmenið og María er leiðarljós þeirra sem það bera. Scapular vísar til þess að tilheyra Maríu, loforð um móðurvernd hennar, ekki aðeins í lifanda lífi heldur og eftir dauðann. Ef marka má heimildir er Scapular-hálsmen eilífðareign sem skilur helst ekki við eiganda sinn fyrr en á dánarstundu.

Vísbendingar eru um að hönnun Scapular-hálsmensins megi rekja til Art Deco hönnunarstílsins og að menið hafi verið smíðað á fjórða áratugnum. Þó ótal afbrigði af kraftaverkahálsmenum séu í umferð, gömul og ný eins og myndir á veraldarvefnum gefa til kynna, virðist sem það eigi ekki við um Scapular-hálsmen eins og það sem Varðveislumenn fundu. Þó er vitað um eitt slíkt. Það fannst grafið í jörðu á vettvangi orrustunnar um Hong Kong sem háð var í desember 1941 þar sem Japanir börðust m.a. við Breta og Kanadamenn.

Við munum líklega seint komast að því hver átti og bar litla kopargripinn og hvers vegna hann lenti þar sem Varðveislumenn fundu hann 80 árum síðar. Við getum aðeins leyft okkur að vona að hálsmenið hafi veitt eigandanum einhverja huggun þar sem hann dvaldist í smábæ á fjarlægri eyju langt frá fjölskyldu og vinum.

Stuðst var við https://chatteriz.com/blogs/news/in-memory-of-those-who-defended-this-land-in-the-fall-of-hong-kong-december-1941

Varðveislumenn gengu í fótspor frúarinnar á Hólum

Fjórir vaskir Varðveislumenn fóru á dögunum í leiðangursferð í Blönduhlíð í Skagafirði. Við lögðum af stað snemma morguns frá Akureyri, tilbúnir í miðaldaævintýri á söguslóðum. Í Skagafirði hófst ævintýrið á því að við tókum hús á Sigurði Hansen í Kakalaskála þar sem hann jós úr viskubrunni sínum um Jón Arason biskup og Helgu Sigurðardóttur fylgikonu hans. Þaðan keyrðum við heim í hlað á höfuðbólinu Flugumýri norðan við Kakalaskála.
 
Flugumýri er landnámsjörð Þóris dúfunefs. Þórir þessi átti fótfráu hryssuna Flugu sem bærinn tekur nafn sitt af. Á Flugumýri klæddum við okkur í fjallgönguskóna og tókum stefnuna á fjallið ofan bæjarins. Rétt áður en við lögðum af stað hittum við húsfreyjuna á bænum, Ástu Kristínu Sigurbjörnsdóttur og áttum við hana gott spjall. Hún sýndi okkur áttavilltum göngugörpunum hvar best væri að hefja gönguna og hvert stefna skyldi. Við höfðum jú aldrei áður komið á áfangastað, Húsgilsdrag í Glóðafeyki, og vissum því ekki alveg í hvorn fótinn við áttum að stíga þegar við hófum gönguna.
 
Veðrið var prýðilegt, eins og best verður á kosið fyrir fjallgöngu. Fljótlega eftir að við kvöddum Ástu á bæjarhlaðinu, komum við að svokölluðum Virkishól rétt ofan við bæinn. Í hólnum er talið að finna megi rústir virkis frá Sturlungaöld. Áfram héldum við upp hlíðina og inn Flugumýrardal. Eftir rúmlega tveggja klukkustunda göngu sáum við glitta í 300 metra langt Húsgilsdragið. Þegar á endastöð var komið settumst við niður á þessum afskekkta og fáfarna stað og fengum okkur hressingu. Við vorum komnir á slóðir Helgu Sigurðardóttur. Þar sem við vorum úti í guðsgrænni náttúrinni, reifuðum við örlög biskupsins á Hólum og sona hans tveggja haustið 1550 og hlutskipti fylgikonu hans og móður bræðranna sumarið eftir.
 
Eins og flestum er kunnugt var Jón Arason Hólabiskup hálshöggvinn ásamt tveimur sonum sínum 7. nóvember árið 1550. Vorið 1551 komu dönsk herskip til landsins með her manna sem ætlað var að handsama Jón og syni hans og sigla með þá til Danmerkur. Fréttir af andláti þeirra höfðu ekki borist til Kóngsins Kaupmannahafnar. Eftir komu dönsku herskipanna voru feðgarnir dæmdir landráðamenn. Dómurinn var felldur á Oddeyri við Eyjafjörð. Á meðan á Oddeyrardómi stóð fékk Helga fréttir af komu herskipanna og hóf að undirbúa flótta upp til fjalla frá Hólum í Hjaltadal. Með í för var sonardóttir Helgu og Jóns. Helga drap niður fæti í Húsgilsdragi, sló upp tjaldbúðum og hafðist þar við ásamt fríðu föruneyti í tvo mánuði sumarið 1551 í felum. Sagan segir að hún hafi jafnvel haft með sér silfur úr Hólakirkju sem hún vildi ekki fyrir sitt litla líf að kæmist í hendur konungs.
 
Eftir kaffisopa og spjall okkar Varðveislumanna um rúmlega 470 ára gamla atburði í Íslandssögunni röltum við um svæðið í sannkölluðum Guðs friði. Ekki bærðist hár á höfði í Draginu og hljóðeinangrunin var einstök. Við reyndum að sjá fyrir okkur sögusviðið sumarið 1551, tjöldin og útbúnað útilegufólksins. Helgu spígsporandi í grasi gróinni fjallshlíðinni, umkringd klettabeltum á allar hliðar undir bláum himni. „Skyldi hún hafa misst silfrið úr vasa sínum?“
 
Við renndum málmleitartækjum yfir hluta svæðisins en létum þar við sitja. Allt var gert með samþykki heimamanna og ekkert jarðrask af hálfu okkar Varðveislumanna, aðeins kannað hvort tækin gæfu frá sér merki. Við sendum dróna á loft yfir svæðið sem tók yfir 100 ljósmyndir af svæðinu í góðum gæðum. Við eigum eftir að rýna betur í myndirnar til að kanna hvort þær sýni mögulega útlínur eða annað sem gætu bent til mannaferða á svæðinu fyrr á tímum. Annars er Húsgilsdrag fáfarinn staður og hefur alla tíð verið að sögn þeirra sem þekkja til á staðnum.
 
Eftir nokkurra klukkustunda dvöl í fjallinu skrifuðum við nöfnin okkar í gestabók sem búið er að koma fyrir í vatnsheldum kassa og bolta fastan í stóran stein. Síðan héldum við niður fjallið. Á bakaleiðinni virtum við fyrir okkur þverdal sem skerst úr Flugumýrardal til norðausturs og við höfðum fyrir augunum alllanga stund. Um dalinn er gömul gönguleið yfir í Hjaltadal. Kannski kom Helga ríðandi þaðan þegar hún yfirgaf Hóla. Að lokinni göngu skoðuðum við Flugumýrarkirkju áður en við brunuðum í Varmahlíð í síðbúinn kvöldverð. Góður dagur var á enda kominn og þrátt fyrir silfurskort í Húsgilsdragi héldu Varðveislumenn minjanna heim á leið reynslunni ríkari.
 
Brynjar Karl Óttarsson.
 
Sjá má myndir frá fjallgöngunni á facebooksíðu Varðveislumanna minjanna.

Hulu svipt af tveimur ljósmyndum frá hernámsárunum

Fyrir ári síðan greindi Grenndargralið frá því að Varðveislumenn minjanna væru komnir á slóð herdeildar úr seinni heimsstyrjöldinni í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Forsaga málsins var sú að VM töldu sig þekkja kennileiti á ljósmyndum og í kvikmynd sem sýndu norska skíðaherdeild við æfingar í vetrarhernaði í fjallinu á stríðsárunum.

Í framhaldi af því voru farnir leiðangrar upp fjallið með ljósmyndirnar í farteskinu til að kanna hvort mögulegt væri að finna einhverja af þeim stöðum sem sjást á myndunum og þannig rekja slóð herdeildarinnar. Væntingum var þó stillt í hóf því erfitt var að átta sig á kennileitum í snævi þöktum hlíðunum. Svæðið er víðfeðmt og mörgum stöðum í fjallinu svipar til hvers annars, ekki síst þegar hvítur snjórinn hylur stóran hluta yfirborðsins. Engu að síður fannst samsvörun ekki svo langt frá Skíðahótelinu (sjá hér).

Varðveislumenn fundu nýlega aðra samsvörun (sjá myndir að neðan). Í þetta skiptið eru tjaldbúðirnar mun ofar í hlíðinni eða við rætur fjallsins. Á annarri myndinni má sjá á þriðja tug hermanna með skíðabúnað, ýmist klæddir dökkum fötum eða hvítum felubúningum. Ljósmyndarinn beinir myndavél sinni til norðurs. Á hinni myndinni sjást þrír hundar í fylgd með setuliðsmönnum. Vaðlaheiði er í bakgrunni. Staðsetningin er í samræmi við niðurstöður úr könnunarleiðöngrum Varðveislumanna. Á undanförnum árum hafa þeir fundið mikið magn skotfæra á þessu tiltekna svæði.

Ljósmyndirnar tvær eru í eigu Minjasafnsins á Akureyri. Þær og fleiri myndir af fjallaferðum setuliðsmanna má finna á www.sarpur.is.

Silfurhringur í eigu liðsforingja fannst á Akureyri

Forláta silfurhringur úr seinni heimsstyrjöldinni fannst á Akureyri síðastliðinn laugardag. Varðveislumenn minjanna voru við rannsóknir á vettvangi ameríska setuliðsins þegar hann skoppaði upp úr moldinni öllum að óvörum. Hringurinn er svokallaður WWII U.S. Army Officers Ring.

Innan í hringnum er grafið lógó fyrirtækisins AMICO (American Insignia Company), örn með vængina úti ofan á stöpli og skeifulaga borði undir stöplinum. Amico var með höfuðstöðvar í New York og var í rekstri 1919-1982. Á stríðsárunum framleiddi fyrirtækið skartgripi, orður og barmmerki fyrir bandaríska herinn. Logo fyrirtækisins breyttist í upphafi stríðsins sem gerir gripi með þessu tiltekna logoi fágæta. Líklegt er því að hringurinn sem fannst á Akureyri um helgina sé ekki yngri en frá árinu 1942. Undir stöplinum er grafið orðið Sterling til marks um að hringurinn sé gerður úr 92,5% hreinu silfri.

Flöturinn á hringnum er úr svörtum glerungi og til hliðar við hann á langhliðum eru svartar skrautlínur. Í glerungnum er rás þar sem áður var áfstur gylltur örn. Glansandi svartur flöturinn með gyllingu hefur því líkast til skinið skært á stríðsárunum. Í dag er glerungurinn máður og gylltur örninn floginn burt. Silfrið í hringnum sjálfum skín hins vegar jafn skært í dag og þegar setuliðsmaður á Akureyri, líklega liðforingi í ameríska hernum, gekk með hann fyrir 80 árum síðan. Á heimasíðum erlendra safnara má sjá að hringar sem þessi eru ekki á hverju strái.

Samsetta myndin hér að ofan sýnir hringinn eins og hann lítur út í dag (til vinstri) og hvernig hann leit út á árum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar gyllti örninn sat sem fastast á svörtum fletinum (til hægri). Uppi eru hugmyndir um að koma hringnum í upprunalegt horf.

Fjarskiptabúnaður fyrir flugvél finnst á Melgerðismelum

Býsna merkilegur gripur hérna á ferðinni sem VM fundu á Melgerðismelum í Eyjafirði. Þetta er hluti af fjarskiptabúnaði fyrir flugvél (Aircraft Radio Transmitter control box) af gerðinni Western Electric WW2 CW-23097. Líklega má rekja þennan búnað aftur til áranna fyrir stríð eða upphafs styrjaldarinnar. Ef marka má erlendar vefsíður safnara er erfitt að nálgast „control box“ af þessari gerð nú til dags.