Vissi héraðshöfðingi Eyfirðinga um hið heilaga gral Krists?

Allir þekkja söguna um hið heilaga gral. Bikarinn sem Jesús drakk af þegar hann snæddi síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinunum. Bikarinn sem geymdi blóð hins krossfesta Krists. Ekki hefur tekist að sanna tilvist gralsins en ljóst er að trúin á sannleiksgildi sögunnar, og að gralið sé til enn þann dag í dag, á sér fylgjendur um allan heim. Allt frá miðöldum hafa komið fram tilgátur um hugsanlega felustaði gralsins og hafa staðir eins og London og Pýreneafjöll gjarnan verið nefndir í því sambandi. Ljóst er að fundur gralsins yrði stórkostleg uppgötvun og í raun ekki sambærilegur við aðra fornleifafundi, hvorki fyrr né síðar. Ísland er nú komið á kortið yfir líklega staði þar sem gralið er geymt og teygir sagan anga sína til Eyjafjarðar.

Blóðbaðið í Jerúsalem 7. júní 1099

Til að átta sig á mögulegum flutningi gralsins til Íslands þurfum við að fara rúm 900 ár aftur í tímann. Þann 7. júní árið 1099 réðust þúsundir kristinna riddara inn í Jerúsalem. Ætlun þeirra var að ná aftur borginni úr höndum múslima sem þá höfðu safnast þar saman. Í rúman mánuð börðust þessar tvær fylkingar í borginni þar sem riddararnir myrtu 40.000 manns. Fjöldamorðin í Jerúsalem eru talin meðal grimmilegustu hermdarverka veraldarsögunnar. Þau marka upphaf Krossferðanna en svo kallaðist stríðið milli kristinna manna í Evrópu og múslima í Austurlöndum nær. Stríðið stóð yfir í tvær aldir og gætir jafnvel áhrifa þess enn í dag. Tuttugu árum eftir atburðina í Jerúsalem varð til kristin riddararegla í Frakklandi sem kallaðist Musterisriddarar. Verkefni hennar voru margvísleg en öll þó í þágu kristinnar trúar. Eitt af því sem Musterisriddararnir gerðu var að koma dýrgripum úr musterinu í Jerúsalem í öruggt skjól en þeir höfðu verið teknir frá eftir blóðbaðið mikla. Í hugum kristinna manna var um ómetanleg menningarverðmæti að ræða og þar á meðal hið heilaga gral.

Gralið flutt til Íslands 1217

Ítalskur verkfræðingur og dulmálssérfræðingur að nafni Giancarlo Gianazza telur sig hafa fundið sterkar vísbendingar um að stór hópur manna hafi komið til Íslands árið 1217 og haft gralið með sér. Gralið hafi þeir falið á hálendi Íslands með aðstoð heimamanna. Mörgum kann að þykja kenningin fjarstæðukennd en Gianazza hefur ásamt teymi fræðimanna eytt miklum tíma í rannsóknir á þessum ævintýralega möguleika. Í þeim rannsóknum hefur margt áhugavert komið fram. Sumt af því má frekar búast við að sjá í bíómyndum en í raunveruleikanum og sem dæmi um það má nefna Síðustu kvöldmáltíðina, eitt frægasta málverk Leonardo da Vinci (1452-1519). Gianazza vill meina að í málverkinu megi sjá falið kort sem sýni felustað gralsins á Íslandi. Ef kenning hans er rétt var í það minnsta einn maður í Eyjafirði sem vissi hvar hið heilaga gral Jesú Krists var falið.

Sturlunga geymir mikilvægar upplýsingar

Í Sturlungu segir frá Skotanum Herburt sem var hér á landi sumarið 1216 en hann var fylgdarmaður Snorra Sturlusonar. Segir frá deilum hans og annars útlendings sem kallaður var Hjaltinn en sá var aðstoðarmaður Magnúsar goða. Má draga þá ályktun að Herburt hafi haft frumkvæði að þessum ágreiningi þeirra á milli og jafnvel gert meira úr honum en efni stóðu til. Í kjölfarið upphófust deilur milli Snorra og Magnúsar og liðsmanna þeirra. Fleiri deilumál komu upp milli þessara tveggja aðila sem enduðu með því að árið eftir (1217) mættust þeir tveir á Alþingi sem þá var á Þingvöllum. Þar komum við að því sem Gianazza telur vera eina vísbendingu af mörgum sem styðji kenningu hans um veru gralsins hér. Í kjölfar frásagnar af deilum þeirra Snorra og Magnúsar sem áður var minnst á segir eftirfarandi: „Eftir þetta fjölmenntu mjög hvorirtveggja til alþingis. Snorri lét gera búð þá upp frá Lögbergi er hann kallaði Grýlu. Snorri reið upp með sex hundruð manna og voru átta tigir Austmanna í flokki hans alskjaldaðir. Bræður hans voru þar báðir með miklu liði.“ (Sturlunga saga, 1988:253-254) Samkvæmt þessu var Snorri Sturluson með stóran hóp fylgdarmanna á Alþingi og þar af voru 80 Austmenn.

Musterisriddarar á Íslandi?

Norðmenn sem heimsóttu Ísland á miðöldum gengu gjarnan undir nafninu Austmenn sem og aðrir sem sigldu til landsins úr austri. Snorri Sturluson var vissulega mikill höfðingi og naut mikillar virðingar en velta má fyrir sér hvers vegna hann var með 80 manna erlendan her með sér auk nokkurra hundruða íslenskra reiðmanna sem honum fylgdu á Alþingi sumarið 1217. Hvaða erlendi her var þetta? Hvaðan kom hann? Hvað var hann að gera hér á landi? Gianazza telur að þarna sé um 80 menn úr hópi Musterisriddaranna að ræða og að þeir hafi komið hingað fyrst og fremst til að fela verðmæti úr frumkristni, þ.á.m. hinn heilaga kaleik Krists. Að för þeirra með Snorra á Alþingi vegna deilumála hans við Magnús goða hafi einungis verið sett á svið til að beina athygli manna að öðru en því sem þeir voru raunverulega að gera hér. Var það tilviljun að Skotinn Herburt kom þessari atburðarás af stað þegar hann hóf deilurnar við Hjaltinn árið áður? Ekki verður þessum spurningum svarað hér frekar en öllum þeim spurningum sem Giancarlo Gianazza hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár vegna rannsókna hans á tengslum Íslands og bikars Krists.

 

Hvílir leyndarmálið í vígðri mold í Eyjafjarðarsveit?

Einn úr fylgdarliði Snorra á Alþingi sumarið 1217, þegar 80 erlendir vopnaðir menn voru með í för, bjó á Grund í Eyjafirði um 23 ára skeið (1215-1238). Hann var einn helsti höfðingi Sturlunga á fyrri hluta 13. aldar og var jafnframt héraðshöfðingi Eyfirðinga og Þingeyinga um tíma. Leiða má líkur að því að maðurinn hafi verið í hópi fárra Íslendinga sem vissu um raunverulegar fyrirætlanir huldumannanna 80. Hér er að sjálfsögðu átt við Sighvat Sturluson, bróður Snorra. Sighvatur féll í Örlygsstaðabardaga árið 1238. Hann er talinn hvíla í sérstökum Sturlungareit í kirkjugarðinum að Munkaþverá í Eyjafjarðarsveit. Ef kenning Gianazza er byggð á sandi má í það minnsta hafa gaman af henni. Ef hún er á rökum reist er gaman til þess að vita að í heimabyggð hvíli maður sem mögulega vissi um hið heilaga gral Krists. Sennilega fáum við aldrei úr því skorið hvort Sighvatur vissi um gralið. Hann tók leyndarmálið með sér í gröfina fyrir 780 árum síðan.

Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í september 2013.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd