Mennirnir sem sigldu yfir hafið til að deyja
Það var um jól fyrir margt löngu að Sigríður Eyjafjarðarsól yfirgaf þann heim sem hún þekkti og settist að á framandi slóðum. Rétt eins og Sigríður, yfirgáfu þeir heimaslóðir og settust að í öðru landi. Annar var þingmaður, hinn uppfinningamaður og báðir nutu þeir mikillar virðingar sem slíkir. Þeir virtust lifa hinu fullkomna lífi með fullar hendur fjár. Síðustu æviárunum eyddu þeir þó með djöfulinn í eftirdragi líkt og Sigríður gerði þegar hún reið í fylgd illra vætta í átt til nýrra heimkynna. Fjarri fjölskyldu og vinum dóu þeir drottni sínum; annar endaði ævina í sjónum og jörðin virðist hafa gleypt hinn. Mennirnir sem um er rætt bjuggu báðir í Eyjafirði.
Árið 1840 fæddist drengur að bænum Laufási í Grýtubakkahreppi. Hann var sonur Gunnars, prestsins á staðnum. Drengurinn fékk nafnið Eggert. Sama ár sigldi maður að nafni August Schrader frá Hannover í Þýskalandi til Bandaríkjanna. Hann átti sér draum um að öðlast betra líf í Ameríku eins og svo margir Evrópubúar á þessum tíma. Árið 1853 dó faðir Eggerts sem þá var nýorðinn 13 ára. Fimm árum seinna, árið 1858, eignaðist August Schrader son en sá var skírður George H. F. Schrader.
August gamli stofnaði fyrirtæki fjórum árum eftir komuna til Bandaríkjanna. Fyrirtækið framleiddi m.a. köfunarútbúnað og var leiðandi í þróun á gúmmívörum ýmiss konar. Fyrirtækið þróaði vörur fyrir hinn heimsþekkta dekkjaframleiðanda Goodyear. Árið 1890 gekk Schrader, þá 32 ára gamall, til liðs við föður sinn. Varð hann fljótt aðalmaðurinn í fyrirtækinu og átti stærstan þátt í að gera það að einu fremsta fyrirtæki heimsins á sínu sviði. Einn er sá hlutur sem Schrader fann upp og hefur, öðrum fremur, haft áhrif á daglegt líf fólks víða um heim allar götur síðan. Schrader kynnti ventilinn til sögunnar árið 1893 og í kjölfarið fór vegur fyrirtækisins og Schrader vaxandi í Bandaríkjunum og víðar. Schrader mokaði inn peningum, varð þekktur maður vestra og umgekkst suma af helstu viðskiptajöfrum Bandaríkjanna í kringum aldamótin 1900.
Nítján árum eftir þessa merkilegu uppfinningu og tímabil frægðar og frama sigldi Schrader til lítils bæjar á norðanverðu Íslandi. Áfangastaður hans var Akureyri. Schrader dvaldist í bænum frá júlí 1912 til nóvember 1915 og hélt til á Hótel Akureyri í Aðalstræti. Akureyringar voru mjög forvitnir um þennan nýja íbúa, auðjöfurinn sem hafði byrjað með tvær hendur tómar í Ameríku og grætt fúlgur fjár í viðskiptum. Hann hafði látið til sín taka á sviði mannúðar- og dýraverndunarmála í heimalandinu og átti eftir að halda því starfi áfram á Akureyri. Hann stuðlaði að bættu bæjarsamfélagi fyrir menn og málleysingja með fjárframlögum til handa mannúðarsamtökum á staðnum. Schrader þótti Akureyringar hirðulausir um hag sinn. Hann kenndi þeim að hugsa betur um tennurnar og að fara úr skítugum vinnugallanum eftir vinnu. Þá hafði hann gaman af því að gleðja börnin í bænum. Hann bauð upp á jólaball í Samkomuhúsinu, bauð þeim í útreiðartúra og dreifði til þeirra sælgæti. Schrader var mjög svo umhugað um velferð hrossa. Hann gaf út bækur sem miðuðu að því að bæta velferð manna og hesta. Hann gagnrýndi meðferð Íslendinga á hrossum og þótti umgengni þeirra við dýrin slæm. Úr því vildi hann bæta. Um þessar mundir eru liðin rétt rúm 100 ár frá því Schrader hóf byggingu á hesthúsi og gisitheimili á Akureyri sem hann hugsaði fyrst og fremst fyrir þá sem höfðu lítið milli handanna. Í desember 1914 lauk verkinu og afraksturinn var aðstaða fyrir 130 hross og gistirými fyrir 30 manns. Með framtakinu vildi Schrader leggja sitt af mörkum við að bæta skilyrði hestanna en um leið koma til móts við efnalitla einstaklinga sem vildu nýta sér slíka þjónustu. Schrader nefndi húsið Caroline Rest eftir móður sinni en það stóð við Kaupvangsstræti, í miðju Grófargili.
Eggert Gunnarsson gerðist bóndi á bænum Espihóli í Eyjafjarðarsveit árið 1866 og ári síðar giftist hann Elínu Sigríði Magnúsdóttur. Elín dó árið 1869 og sama ár hætti Eggert búskap. Eggert fékkst við hin ýmsu störf um ævina. Hann var m.a. kaupstjóri á Akureyri um skeið og sýslumaður í Skagafjarðarsýslu. Hann stofnaði Framfarafélag Eyjafjarðar og átti þátt í stofnun kvennaskóla á Laugalandi. Eggert var bróðir Tryggva Gunnarssonar sem m.a. stofnaði hið fræga Gránufélag árið 1870. Systir Eggerts og Tryggva var Kristjana, móðir Hannesar Hafstein ráðherra. Árið 1875 var Eggert kosinn á þing. Hann var þingmaður í fimm ár. Eggert bjó á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit þann tíma sem hann gegndi þingmennsku.
Eggert var mikill hæfileikamaður og átti auðvelt með að ávinna sér traust annarra. Hann var vel liðinn af samferðamönnum sínum og vildi allt fyrir þá gera sem til hans leituðu. Svo virðist sem hann hafi staðið í skugga bróður síns og átt erfitt með að sætta sig við alla þá athygli sem Tryggvi fékk. Eftir setu á þingi flutti Eggert til Reykjavíkur. Þar hóf hann að stunda viðskipti og verslunarstörf og ætlaði sér stóra hluti. Hann stofnaði m.a. Bresk-íslenska verslunarfélagið og útgerðarfélag. Vera kann að hann hafi ætlað að sýna að hann gæti rétt eins og Tryggvi staðið sig vel í viðskiptalífinu. En eitthvað mikið fór úrskeiðis. Eggert átti erfitt með að standa við skuldbindingar sínar. Hann stóð ekki í skilum og fór svo að hann greip til örþrifaráða. Hann skildi eftir sig skuldahala á Íslandi, flýði land og sigldi til Bretlands árið 1884. Þar hélt hann áfram að safna skuldum. Tryggvi, sem hafði gjarnan hlaupið undir bagga með bróður sínum og reynt að styðja hans málstað gagnvart skuldunautunum, var nú farinn að að efast um heilindi Eggerts. Hann lagði því til við bróður sinn að skynsamlegast væri fyrir hann að fara til Bandaríkjanna og hefja nýtt líf.
Örlög þeirra Eggerts og Schrader eru sveipuð dulúðlegum blæ. Í nóvember árið 1915 ákvað Schrader að stíga um borð í síldarbátinn Helga magra sem lá við höfnina á Akureyri og sigla af landi brott. Akureyringum var orðið ljóst að Schrader hlyti að vera haldinn illvægum sjúkdómi, slíkar voru aðfarirnar þegar hann gekk um borð. Eftir að hafa fleygt persónulegum skjölum í hafið og skipt peningum á milli áhafnarinnar mætti Schrader örlögum sínum. Þriðju nótt siglingarinnar vöknuðu áhafnarmeðlimir við skothvell en svo virðist sem Schrader hafi beitt skotvopni og síðan látið sig falla í Atlantshafið.
Af Eggert er það að segja að það síðasta sem vitað er um afdrif hans nær til fyrri hluta ársins 1886. Þá er eins og jörðin gleypi hann. Engar heimildir eru til sem staðfesta nokkuð um dvalarstað hans eða yfir höfuð hvort hann var lífs eða liðinn. Næstu ár gengu sögusagnir um að sést hefði til hans í Bandaríkjunum og að lífsstíll hans þar bæri síður en svo vott um erfiða fjárhagsstöðu. Hugsanlega dó hann slyppur og snauður í Bretlandi. Hvað sem vangaveltum um afdrif þeirra Schrader og Eggerts líður minnir saga þeirra okkur á að auðævi og völd tryggja ekki eilífa hamingju. Hamingjan er ekki föl fyrir fé. Þetta vissi Sigríður Eyjafjarðarsól þegar hún mælti hin fleygu orð við komuna til nýju heimkynnanna: „Betra er yndi en auður.“
Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í desember 2013.
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd