Af hverju ekki?
Af hverju bjóða Grenvíkingar og aðrir íbúar Grýtubakkahrepps ekki erlendum skólabörnum, sem vilja heimsækja landið í sérstökum námsferðum, að koma til sín? Kom ekki frétt þess efnis nýverið að Ísland væri vinsælt land í hugum breskra nemenda á aldrinum 14-19 ára? Í það minnsta er von á 3000 nemendum að utan til landsins í 80 hópum ásamt kennurum á nokkurra vikna tímabili fram að páskum. Gallinn er bara sá að þeir dveljast allir á Suðurlandi. Hvað er það? Af hverju koma þessir krakkar ekki til okkar? Íbúar Grýtubakkahrepps eru vel til þess fallnir að bjóða upp á slíkar námsferðir. Fyrir utan að vera duglegir og úrræðasamir hafa þeir allt sem erlend ungmenni sækjast eftir í ævintýraferð sem þessari. Skoðum þetta aðeins nánar. Til að byrja með þarf að koma fólkinu fyrir. Getur ekki Grenivíkurskóli hýst hópinn rétt eins og margir aðrir skólar gera þegar íslensk börn fara á milli landshluta í æfinga- og keppnisferðir? Þar er mötuneyti og þá er samkomuaðstaða, íþróttahús og sundlaug sambyggð við skólann. Svo ekki sé nú talað um ferðaþjónustuaðila á svæðinu svo sem að Ártúni og Nolli. Hvað eiga svo erlendu gestirnir að gera annað en að slappa af í heita pottinum eða hanga í Jónsabúð? Í Grýtubakkahreppi er glettilega margt í boði fyrir ævintýraþyrsta unglinga frá fjarlægum löndum. Þeir koma nefnilega ekki hingað með sömu óskir og ef um íslensk ungmenni væri að ræða. Fyrir þessa krakka eru það hlutir eins og náttúran, friðurinn, sagan, harðfiskurinn og skyrið, álfar og tröll o.s.frv. Í fyrrnefndri frétt kom fram að meðal þess sem hóparnir óska eftir er að fá einhverskonar kynningu á jarðfræði svæðisins sem þeir heimsækja. Látraströnd ber þess merki að hafa lent í klóm ísaldarajöklanna með sínum dölum og fjöllum til skiptis. Betra verður það varla fyrir jarðfræðiþyrsta nemendur. Auk þess sem náttúrufegurðin og friðurinn þarna er engu öðru líkt og þó víðar væri leitað. Kynna mætt
i fyrirtækin á staðnum en þau hafa án nokkurs vafa sinn sjarma í augum aðkomufólks. Pharmarctica; lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á blautvörum. Harðfiskverkunin Darri; Heimir sýnir réttu handtökin við að herða fisk. Sveitabæina mætti heimsækja. Áshóll og kartöfluræktin. Lómatjörn og loðdýraræktin. Laufás. Ekki þarf að hafa fleiri orð um þann ágæta stað. Enn er ótalin afþreying eins og hestaferð með Pólarhestum, snjótroðaraferð á Kaldbak, sigling til Hríseyjar og hinar ýmsu gönguleiðir í nágrenni Grenivíkur. Ef þetta er ekki nóg er ekki langt að renna til Akureyrar og sækja það sem upp á vantar. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd