Af hverju bjóðum við ekki listhneigðum Eyfirðingum, sem eiga af einhverjum ástæðum erfitt með að koma sér á framfæri, að troða upp endurgjaldslaust í Hofi? Er ekki Hof hús okkar allra óháð kynþætti, kynferði, trúarbrögðum (og aðgengi að fjármagni)? Skiljanlega verða peningar að ráða för í þessum rekstri eins og öðrum en er ekki hægt að búa þannig um hnútana að allir sitji við sama borð, ja svona eins og eitt kvöld í mánuði? Skapa aðstæður fyrir óuppgötvaðar eyfirskar stjörnur með ótvíræða listhæfileika sem hafa ekki yfir miklu kapítali að ráða, tilheyra ekki ákveðnum hópum innan listasamfélagsins og öðlast fá tækifæri til að freista gæfunnar á stóra sviðinu? Hver veit nema í einhverjum bílskúrnum á Brekkunni leynist önnur Of Monsters And Men? Já eða annar Ásgeir Trausti í lítilli þakíbúð í Þorpinu? Við eigum að nota hið mikla Hof okkar á sem fjölbreyttastan hátt og í þágu eins margra og mögulegt er. Bygging þess var umdeild á sínum tíma. Almenningur (sem á húsið) þarf að finna að hann eigi hlutdeild í því. Kannski gerir hann það. Kannski ekki. Í það minnsta getum við stuðlað að slíkri hlutdeild með ýmsum hætti. Opnum Hofið meira fyrir þá sem hafa yfir litlu fjármagni að ráða en þeim mun meira af hlutum eins og tónlist, leiklist, myndlist og ljóðalestri. Þetta tvennt, þ.e. list og peningar, geta sjálfsagt farið ágætlega saman en eigum við ekki að nota tækin og tólin sem við búum yfir og styðja „týnda“ hæfileikafólkið okkar? Við sláum tvær flugur í einu höggi. Við bjóðum líka þeim sem vilja koma í Hof til að njóta að gera það án endurgjalds. Viðleitni í þá átt er vissulega til staðar nú þegar. Má þar t.d. nefna Gesti út um allt með Margréti Blöndal og Felix Bergssyni þar sem gestum og gangandi er boðið að njóta dagskrárinnar án þess að greiða fyrir. Hugmyndin um greiðara aðgengi lítt þekktra listamanna
úr heimabyggð er hugsuð sem viðbót við það sem þegar er í boði. Frír fimmtudagur, Stjörnuleit í heimabyggð eða einfaldlega Opið hús í Hofi. Minni peningar, meiri list. Hverjir eiga svo að nýta sér tækifærið og troða upp fyrsta fimmtudag í mánuði? Áhugaleikfélög í heimabyggð sem og leikklúbbar framhalds- og grunnskólanna. Bílskúrsbönd, söngvarar og aðrir tónlistarmenn. Upprennandi myndlistarmenn, rithöfundar og ljóðskáld. Fleiri má nefna en látum hér staðar numið. Peningalega arðbær viðskiptahugmynd á krepputímum? Kannski ekki. Menningarlegur ávinningur er í boði ef hann er einhvers virði. Þess virði að láta á þetta reyna? Af hverju ekki?
Þann 28. janúar 1913 birtist grein eftir St.D. Í greininni vitnar undirritaður í [vestfirzkan mann] en sá hinn síðarnefndi hafði áður og á öðrum vettvangi borið saman Akureyri og Ísafjörð. Íbúafjöldi í bæjunum tveimur var svipaður í upphafi árs 1913.
Skyldu einhverjir vera á sömu skoðun í dag og St.D. varðandi miðbæ Akureyrar eins og hann lítur út núna?

„Að frátekinni innsiglingunni að Akureyri, sem er hin fegursta á landi hér, en ófögur og eyðileg á ísafirði, er Ísaf. mikin lögulegri og bæjarlegri að útliti og formi heldur en Akureyri. Veldur því hin bratta brekka fyrir ofan Akureyri, svo bærinn sýnist eins og ein ræma langs með ströndinni allan þann veg frá Gróðrarstöð og fremst út á Oddeyrartanga. En á Ísaf. stendur bærinn í einni heild á sléttum Tanganum, sem er breiður efst, þar er tekur við fögur og há fjallshlíð. Göturnar þar eru því beinar og sléttar og liggja ekki upp neinar brekkur, eins og á Akure.yri. Og er miðbærinn á Akure. mjög ógeðsleg gata rétt við sjóinn, svo að um flóð með sjógangi hlýtur að skella þar upp. Furðar mig, að ekki er þar settur rimagarður (stakit) sjávarmegin, svo fólk falli þar ekki ofan fyrir.“
Norðri, 8. árgangur 1913, 2. Tölublað (28.01.1913), blaðsíða 6

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu, hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.
Gral nýafstaðinnar viku fá nemendur í Naustaskóla og starfskonur í Giljaskóla. Lið Naustaskóla sigraði í First Lego – tækni- og hönnunarkeppni grunnskólabarna. Liðið, sem kallar sig Molten, hefur þannig áunnið sér rétt til þátttöku í Evrópumóti First Lego Leaque sem fer fram í Þýskalandi í vor. Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim. Starfskonur í Giljaskóla lögðu á sig á bóndadaginn að gleðja karlana sem starfa við skólann. Auk hákarls og annarra veitinga í tilefni dagsins var körlunum skemmt með söng og fögrum orðum. Skemmtileg uppákoma í Giljaskóla.
Af hverju komum við ekki Akureyri á kortið með hjálp Jóns Sveinssonar? Áttar yngri kynslóðin sig á því hvað Nonni var frægur í Evrópu og víðar á fyrri hluta 20. aldar? Kannski er eldri kynslóðin farin að gleyma. Hefur Arnaldur Indriðason ekki selt yfir sex milljónir eintaka og bækur hans verið þýddar á tugi tungumála? Bækur Nonna hafa verið gefnar út í milljónum eintaka og verið þýddar á yfir 30 tungumál. Við erum allavega ekkert að bera saman epli og appelsínur. Í ár eru liðin 100 ár frá því að fyrsta bókin hans Nonna (Nonni) kom út í Þýskalandi. Það er fullt af öldnum Þjóðverjum sem elska Nonna. Hey, hér er hugmynd. Við heiðrum minningu Nonna og bjóðum upp á pílagrímsför á norðurhjara veraldar. Auglýsum grimmt erlendis. Yfirskriftin: Riðið um heimahaga Nonna (þýsk þýðing óskast). Markhópurinn: Þýskir aðdáendur á eftirlaunum og aðrir áhugasamir. Svona förum við að: Við keyrum ferðamennina frá Akureyri að Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem förin hefst. Þar tekur Nonni sjálfur á móti þeim ásamt öðrum meðlimum fjölskyldunnar. Sveinn og Sigríður bjóða upp á hressingu að hætti hússins auk þess sem ferðamennirnir fá klæðnað við hæfi, íslenska ullarpeysu, sok
ka og annað í þeim dúr (séra Hannes Blandon yrði flottur sem Sveinn Þórarinsson með alla sína leikreynslu og þýskukunnáttu). Því næst stíga allir á bak, þýskir ferðalangar og heimilisfólk á bænum og ríða til Akureyrar þar sem vegleg akureyrsk garðveisla í anda 19. aldar bíður þreyttra ferðalanganna við Nonnahús. Ekki verður það til að draga úr áhuga Þjóðverjanna þegar þeir átta sig á að pakkinn sameinar Nonna og íslenska hestinn og tækifæri til að sjá og upplifa hvoru tveggja á vettvangi. Þegar þarna er komið sögu deyr Sveinn. Eftir hressilegt „garden party“ gengur svo Nonni með hópinn upp höfðann ofan við Nonnahús og inn í kirkjugarðinn þar sem Nonni fer að leiði föður síns. Þaðan leiðir hann hópinn að
steininum fræga þar sem hann horfir yfir Pollinn og hugsar um útlönd og fyrirhugaðan aðskilnað frá móður sinni. Að lokum fer hópurinn niður að höfn þar sem árabátur bíður þess að flytja Nonna um borð í skip sem flytur hann í burtu frá heimahögunum. Sigríður horfir á eftir syninum í hinsta sinn. Upplifun ferðalanganna er lokið. Eftir stendur virðingarvottur við Nonna og fjölskyldu hans, krydd í tilveruna og fullt af gjaldeyri. Viðskiptahugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Þann 23. janúar 1913 birtist í dagblaðinu Norðurland, sem gefið var út á Akureyri, grein eftir Steingrím Matthíasson lækni. Greinin birtist undir sérstökum lið í blaðinu sem kallast Heilsa og langlífi. Steingrímur gerir móðurmjólkina að umtalsefni sínu en hann vitnar í danska heilsutímaritið Ugeskrift for Læger. Mjólkin lét víst eitthvað standa á sér fyrir 100 árum en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi eins og greinin ber með sér!
Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan!

„Eins og tekið var fram í síðustu grein, (í ,Gjh.’) er enginn vafi að móðurmjólkin er langhollasta fæðan handa ungbörnum. Á seinni árum hefir það kveðið við í öllum löndum, að konur gætu ekki haft börnin á brjósti vegna mjólkurleysis, og margir lærðir vísindamenn hafa verið á sama máli um, að konur væru yfirleitt að geldast í öllum siðuðum löndum. Nýjustu rannsóknir virðast þó benda á að þetta sé nokkuð orðum aukið, og að konur muni yfirleitt mjólka eins vel nú og áður, ef góður vilji er með, og sýnd er alúð við að leggja barnið að brjóstinu og gefast ekki upp við fyrstu tilraunir.“
Norðurland 1913, 1. tölublað (23.01.1913), blaðsíða 2
Af hverju er ekki þriðja kvikmyndahúsið á Akureyri? Eins og tvö sé ekki nóg. Jú kannski þar sem nýjustu myndirnar eru sýndar. En hvað með að grafa upp gamlar gersemar úr kvikmyndaheiminum? Sko…sumt af því sem er gamalt er ekki kúl, inni, vinsælt o.s.frv. Til dæmis gamlar borðtölvur með floppy-drifi. Þær eru ekki líklegar til að slá í gegn á markaðnum ef einhverjum skyldi detta í hug að koma þeim aftur í sölu. Annað heldur sínu striki þrátt fyrir ellikerlingu. Dæmi um þetta eru klassískar bíómyndir. Myndir sem hreyfa við fólki k
ynslóð eftir kynslóð. Myndir sem vekja upp hlýjar minningar frá bernskuárum eða úr tilhugalífinu og kveikja jafnvel í gömlum glæðum. Vissulega er margt gott í boði í bíóhúsunum en það er líka margt ekki eins gott. Fólk sem komið er af léttasta skeiði ákveður ekkert sisvona að drífa sig í bíó án þess að vita hvað er á boðstólnum. Við verðum kröfuharðari eftir því sem árin líða og við erum einfaldlega ekki „að kaupa“ fólk eins og Miley Cyrus og Chris Brown (step up o.fl.). Með fullri virðingu og allt það. Er ekki markaður fyrir lítið og notalegt kvikmyndahús í bænum þar sem stemningin er heimilisleg, myndirnar gamlar og miðaverðið kannski eftir því. Íburðurinn þarf ekki að vera í hámarki þegar manni langar bara að setjast niður í rólegheitum með popp og Coke og gleyma sér með Tom Cruise og Kelly McGillis í háloftunum. Viðskiptahugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Tannlækningar og taugaveiki á Akureyri voru á forsíðu Vísis sunnudaginn 19. janúar 1913.

„Hjer [Akureyri] hefur enginn tannlæknir verið síðan fröken Torup fór í fyrra vor. En nú hefur Friðjón læknir Jensson á Eskifirði ákveðið, að setjast hjer að sem tannlæknir. Kemur væntanlega alfluttur með vorinu.”
„Taugaveiki liggur altaf í landi á Oddeyri og er hún nú í 5 húsum þar.”
Vísir 1913, 512. tölublað (19.01.1913), blaðsíða 1
Akureyri. Bærinn sem dregur nafn sitt af akri og/eða akuryrkju. Ritaðar heimildir þar sem Akureyrar er getið má rekja aftur til 16. aldar. Með einokunarversluninni 1602 eykst umferð skipa um höfnina. Akureyri leysir Gáseyri af hólmi sem aðalhöfnin í Eyjafirði.
Fyrsta íbúðarhúsið rís á Akureyri árið 1778. Danskur kaupmaður að nafni Friðrik Lynge reisir húsið við Hafnarstræti. Einokunarverslun líður undir lok árið 1786. Í kjölfarið eru sex kaupstaðir stofnaðir á Íslandi, þ.á.m. einn á Akureyri. Ætlunin er að efla hag þjóðarinnar. Tilraunin mistekst og Akureyri missir kaupstaðarréttindin árið 1836.
Tæp 26 ár líða þar til Akureyri hlýtur kaupstaðarréttindi öðru sinni. Það gerist þann 29. ágúst árið 1862.
„Hingað til amtsins er komið brjef frá stjórninni um, að Akureyrar bær sje aðskilinn frá Hrafnagilshrepp og jafnframt því öðlast kaupstaðarjettindi, sem Reykjavík. Það eru þá orðnir 2 heilir kaupstaðir á landinu.“
Norðanfari, 1. árgangur 1862 – 19.-20. tbl, bls. 77. Eigandi og ábyrgðarmaður Björn Jónsson. Prentsmiðjan á Akureyri, B.M. Stephánsson.
Árið 1862 eru íbúar 294 talsins, þar af 16 verslunarmenn, 24 iðnaðarmenn og 53 bæjarbúar teljast til vinnufólks. Rúmlega 40 íbúðarhús eru í bænum.
Bænum má skipta í þrjá hluta; Fjaran er syðsti hlutinn, Sjálf Akureyrin norðan við Fjöruna og Búðargilið þar fyrir vestan. Oddeyri er ekki orðin hluti af bænum.
Bærinn er farinn að taka á sig mynd lítils kaupstaðar þar sem m.a. má finna verslanir, bókasafn, prentsmiðju og veitingasölu. Félagslíf dafnar – bæjarbúar fjölmenna á dansleiki og leikrit.
Smíði er hafi
n á kirkju í Fjörunni en hún hófst í maí. Um er að ræða fyrstu kirkju bæjarbúa. Áætlað er að vígja hana næsta ár.
Í bænum búa meðal annarra; Bernhard August Steincke verslunarstjóri, Mad. Geirþrúður Thorarensen ekkjufrú, Jóhannes Halldórsson barnakennari, Jón Finsen læknir, Jón Kristinn Stephánsson timburmaður, Kristbjörg Þórðardóttir húskona, Mad. Vilhelmína Lever borgarinna.
Í dagblaðinu Vísi birtist grein um ökufærni Reykvíkinga þann 16. janúar árið 1913. Greinin ber heitið Ökumenn bæarins og undir hana skrifar Bæarbúi. Í greininni fer greinarhöfundur hörðum orðum um glannaskap hestamanna í Reykjavík og hættuna sem af þeim stafar fyrir gangandi vegfarendur. Í niðurlagi greinarinnar fer hann hins vegar svo fögrum orðum um ökufærni Akureyringa að hann líkir þeim við annan þjóðflokk. Ætli Bæarbúi sé nokkuð að norðan?
Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan!

„Það er eigi að furða, þó mönnum, sem sjeð hafa til ökumanna á Akureyri bregði í brún við að sjá framferði stjettarbræðra þeirra hjer. Þar eru þeir ólíkt rösklegri og snarari í snúningunum, og það sem mest er um vert, eru vakandi um verk sitt, og vita hvað þeir eru að gera, hafa vit og vilja á að stjórna hestunum. Þar kunna þeir að víkja sjer til hliðar eftir ástæðum, enda eru það Norðlendingar, sem Dr. Ehlers segir svo um í ferðasögu sinni: »Man skulde tro det var en hel anden Nation.«“
Vísir 1913, 510. tölublað (16.01.1913), blaðsíða 1
Í greininni sem birtist 15. janúar árið 1913 fer höfundur yfir fiskveiðar Íslendinga á árinu 1912 eftir landshlutum. Greinin er á forsíðu en auk síldveiða fjallar höfundur um strandveiðar, þilskipaveiði og botnvörpunga. Heitasta slúðrið á kaffistofum landsmanna fyrir 100 árum síðan!

„29 skip lögðu afla sinn á land á Eyjafirði og veiddu af saltaðri síld til útsendingar rúm 71 þúsund tunnur. Auk þess hafa þessi sömu skip selt til áburðarverksmiðjanna um 80 þúsund tunnur. Á Siglufirði mun tala skipa hafa verið lítið eitt meiri…“
Ísafold 1913, 4. tölublað (15.01.1913), blaðsíða 13