Breytingar á Leitinni að Grenndargralinu!
Eins og glöggir gestir heimasíðunnar hafa tekið eftir eru breytingar að eiga sér stað á síðunni og færslur eru orðnar algengari en tíðkast hefur á þessum tíma árs. Fyrir því liggja ákveðnar ástæður. Upphaf Leitarinnar að Grenndargralinu má rekja aftur til ársins 2008 þegar fyrst var leitað að Gralinu. Leitin hefur þannig verið í boði fyrir grunnskólanemendur á Akureyri í samtals fimm skipti. Sjö skólar hafa tekið þátt, sumir oftar en aðrir. Árið 2010 var heimasíðan tekin í notkun. Síðan þá hefur hún fyrst og fremst verið notuð sem upplýsingaveita á meðan sjálfri Leitinni stendur en legið að mestu leyti niðri þess á milli. Sumarið 2012 var boðið upp á sérstaka hátíðarútgáfu af Leitinni að Grenndargralinu í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar. Gekk hún undir nafninu Grenndargral fjölskyldunnar. Í kjölfarið spruttu fram nýjar og spennandi hugmyndir um frekari landvinninga Leitarinnar. Í desember 2012 var tekið fyrsta skrefið í átt til nýrra áskorana. Verkefnið gengur nú í gegnum ákveðnar breytingar sem eiga sér ekki fordæmi í sögu Leitarinnar. Leitin hefur þannig slitið barnsskónum og horfir til framtíðar. Frá og með 1. janúar 2013 er Leitin að Grenndargralinu undir formerkjum Grenndargralsins en áfram verður boðið upp á Leitina fyrir grunnskólanemendur á haustin. Grenndargralið mun ennfremur fjalla um sögu og menningu heimabyggðar á lifandi og skemmtilegan hátt fyrir alla áhugasama, jafnt unga sem aldna. Með þessu skapast ný tækifæri við að bera sögu og menningu heimabyggðar á borð sem flestra um leið og haldið verður í ræturnar. Bolti Grenndargralsins er farinn að rúlla…