Af hverju flikkum við ekki upp á annars fallegan skúlptúr, Heim vonar, sem stendur við Menntaskólann á Akureyri? Þetta stóra listaverk á lóð skólans stingur nokkuð í stúf við hin árlegu tímamót þegar nýstúdentar setja upp hvíta kollinn í fallegu sumarveðri. Ekki það að verkið sjálft sé ljótt. Listaverkið hans Nóa er vissulega tignarlegt og setur sterkan svip á skólalóðina. Það er bara eitthvað við þennan ryðlit á verkinu sem passar ekki á tímamótum þar sem gleði, líf og litir eru allsráðandi. Yfir vetrartímann er upprunalegur litur kúlunnar í takt við annað í umhverfinu. Þegar vorar, allt lifnar við og litirnir fara að koma í ljós stendur þessi risakúla eftir með sitt litlausa fas. Hún stendur eins og minnisvarði um forna tíma; þegar kúlan var helsta kennileiti skólans – þegar kúlan gladdi vegfarendur með litum sínum – þegar allt lék í lyndi, áður en menn hættu að halda kúlunni við og hún fór að drabbast niður. Vitaskuld er þetta ekki eins og málum er raunverulega háttað. Veruleikinn er hins vegar sá að þann 17. júní ár hvert minnir MA okkur á hve falleg vor æska er og hvað framtíðin er björt. Væri ekki rétt að glæða kúluna lífi af því tilefni og leyfa henni að klæðast sparibúningnum fram á haust? Undirritaður á til að setja hluti í samhengi við tónlist og einhvern veginn minnir kúlan um margt á risastóra diskókúlu sem má muna fífil sinn fegurri. Hin tignarlega kúla, með sinn dauða lit, minnir þannig á að allt er í heiminum hverfult og allt tekur enda. Diskótímabilið er liðin tíð og aðrar tónlistarstefnur „rúla“ núna. Nemendur sem hafa verið í Menntaskólanum undanfarin fjögur ár hverfa nú á braut og takast á við ný verkefni. Eins merkilegt og það nú er þá kemur diskóið alltaf aftur í einhverri mynd. Að sama skapi koma nýir útskriftarnemendur til með að fylla skarð þeirra sem útskrifast í ár. Svo kannski er ekki rétt að allt taki enda – sumt fer nefnilega bara í hringi eins og diskókúla. Það minnir okkur á að aldrei er of seint að breyta til. Losum Heim vonar af stallinum, setjum undir hann snúningsvél og inn í hann öflugan kastara. Klæðum hann sterku silfurlituðu glys- og glimmerefni, leggjum hann á stallinn og setjum rafmagnið á! Gefum honum von. Sjáum 17. júní fyrir okkur. Þegar nýstúdentar ganga úr Íþróttahöllinni í myndatöku í Stefánslundi verður búið aðkveikja á stóru diskókúlunni þeim til heiðurs. Það er meira táknræn athöfn þar sem ljósadýrðin nýtur sín ekki í dagsbirtunni. Annað er upp á teningnum um kvöldið þegar stúdentar leggja leið sína í miðbæ Akureyrar. Þá er farið að skyggja og diskóið frá Menntaskólanum teygir anga sína lengra en fyrr um daginn. Svona verða áhrifin af kúlunni meiri og meiri eftir
því sem dagsbirtan hörfar. Og kvöldið er ungt… Svo getum við velt fyrir okkur möguleikunum þegar nær dregur hausti og fallegu, hlýju og dimmu sumarkvöldin gleðja okkur. Þá er hægt að slá upp stærsta og flottasta diskóteki á Akureyri og þótt víðar væri leitað og það á lóð Menntaskólans. Þetta mætti gera í tengslum við menningarnótt og dagskrána í Lystigarðinum. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Grenndargralið óskar nýstúdentum til hamingju með áfangann og vonar að þeir tileinki sér lífsgleði diskósins í hverju því sem þeir taka sér nú fyrir hendur.
Af hverju segjum við ekki kuldatíðinni stríð á hendur og útbúum okkar eigin mini-útgáfu af Benidorm við Glerá á Akureyri? Ég meina, hvað er málið með þetta tíðarfar? Við fáum 1-2 daga inn á milli þar sem sést til sólar en annars blæs bara kaldur vindur. Snjóhvítar Súlurnar blasa við manni öllum stundum svona til að koma endanlega í veg fyrir að maður komist í sumargírinn. Sumarþyrstir Akureyringar gera þó sitt til að skapa sumarstemningu. Löngunin eftir hlýindum er slík að þegar hitastigið nær 7-8 gráðum rýkur íssala upp úr öllu valdi, fólk sest niður fyrir utan kaffihúsin með sólgleraugu og á stuttermabolum með svalandi drykk í hendi og ungir ökumenn þeysast um götur bæjarins með blæjuna niðri. Í versta falli leggjum við öll plön tímabundið til hliðar á meðan við fjármögnum sólarlandaferð til þess eins að fylla forðabúrið af D-vítamíni því óvíst er hvort íslenska sumarið nái að fylla á tankinn. Við erum stöðugt minnt á hversu dynttóttir veðurguðirnir eru og þar sem okkur þyrstir svo mjög í raunverulega suðræna upplifun hljótum við að velta því fyrir okkur hvort við ættum ekki hreinlega að búa til heita ylströnd í heimabyggð. Er það hægt? Af hverju ekki? Hugmyndin er svo sem ekki ný af nálinni þar sem bent hefur verið á pollinn milli Drottningarbrautar og Aðalstrætis. Hér skal nefndur annar kostur til sögunnar. Lónið fyrir ofan Glerárvirkjun gæti orðið vinsælasti staðurinn á Akureyri yfir sumartímann. Til að byrja með er staðurinn að mörgu leyti heillandi í þeirri mynd sem hann er núna. Skemmtilegur pollur með fallegri göngubrú og vísi að klettum í suðri en aflíðandi graslendi og vísi að sandströnd í norðri. Og þetta er nú þegar allt til staðar, samspil náttúru og manna. Engu að síður þarf að taka verulega til hendinni á svæðinu ef hugmynd
in um suðræna ylströnd á að komast á koppinn. Hvað þurfum við að gera? Við búum til stórt og öflugt glervirki sem virkar eins og skjöldur gagnvart köldum vindi en hleypir sólinni í gegn. Aflangur glerkúpull sem staðsettur verður norðan lónsins, þeim megin sem sandströndin er. Já ég veit, slíkt mannvirki tekur á sig mikinn vind og snjó og jarijarija. Ég minni einfaldlega á hugvit og tækniþekkingu mannsins en umfram allt viljann til að vinna framsæknum hugmyndum brautargengi. Glervirkið þarf vissulega að þola íslenska veðráttu. Færir verkfræðingar ráða fram úr því. Sunnanáttin er okkur að mestu hliðholl auk þess sem hækkandi landslag veitir skjól. Lónið er hins vegar berskjaldað gagnvart norðanáttinni og því kæmi glervirkið að góðum notum þar. Kúpullinn er aðeins opinn í suður þ.e. í átt að volgu lóninu. Já, við getum ekki boðið fólki að upplifa alvöru strandarstemningu ef vatnið er jökulkalt. Við dælum því heitu vatni í lónið og jöfnum út hitastigið þannig að hægt verði að taka sér sundsprett án þess að krókna úr kulda. Nú þegar búið er að tryggja notalegt hitaastig í lofti, láði og legi er hægt að klára það sem upp á vantar til að gera ströndina okkar samkeppnisfæra við Spánarstrendur. Fólk getur valið um að liggja á sólbekkjum inni í glerhýsinu eða á sandinum við lónið ef hitinn verður óbærilegur innandyra. Sandurinn er enn eitt lykilatriðið í að skapa rétta stemningu. Með því að lengja sandströndina og gera hana snyrtilega má laða fólk að. Á graslendinu ofan við sandströndina má reisa smáhýsi þar sem boðið verður upp á þjónustu af ýmsu ta
gi. Ís til sölu, svalandi drykkir, léttir réttir, sólarvörn, sundkútar, leiga á ýmiskonar varningi svo sem smábátum og sæsleðum. Ekki má nú gleyma salernisaðstöðunni fyrir þambandi gesti í spreng. Setja mætti upp aðstöðu fyrir fólk til að grilla pylsur og sykurpúða. Ekki er lengi verið að útbúa strandblakvöll. Jafnvel mætti koma fyrir hljóðkerfi á svæðinu og annarri aðstöðu fyrir tónlistarmenn til að troða upp. Hver vill ekki upplifa 30 gráðu hita við Glerána á sundfötunum einum með svífandi sæsleða fyrir framan sig og lifandi tónlist sumarhljómsveita á borð við Síðan skein sól, Á móti sól og Sóldögg í eyrunum? Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Af hverju bjóðum við ekki Sigmundi Davíð og Bjarna að koma norður í Eyjafjörð til að halda stjórnarmyndunarviðræðum áfram? Eins og alltaf þegar tveir einstaklingar draga sig saman getur samvera í nýju og framandi umhverfi gefið af sér góðar og árangursríkar hugmyndir. Fréttir herma reyndar að þeim Bjarna og Sigmundi gangi ágætlega að ná saman þó Eyjafjörður sé ekki vettvangur viðræðanna. Hugsanlega er því farsælt samband í farvatninu. Við fáum ekki miklar fréttir af tilhugalífi þeirra félaga. Þeir eru komnir aftur í Borgina eftir að hafa látið vel hvor af öðrum síðustu daga í fallegu umhverfi. Við vitum að þeir sáu sameiginlega um matarinnkaupin eins og góðra para er siður. Við vitum líka að Bjarni bakaði vöfflur fyrir Sigmund svo ljóst er að hann er tilbúinn að selja sig dýrt með einhverskonar samband í huga. Til að ganga í augun á Sigmundi fékk Bjarni svo lánaðan sumarbústað hjá pabba sínum. Eins og aðrir ungir menn með markmið er hann eflaust búinn að heilla Sigmund með sögum af hetjudáðum, grilla fyrir hann á 4 brennara gasgrillinu og sýna honum heita pottinn. Þá hafa þeir snætt saman kvöldverð á Hótel Nesjavöllum. Hvers eigum við svo að gjalda, íbúar þessa lands? Annar eltist við hinn eins og unglingspiltur með hormónaflæðið í botni. Hinn lætur stjana við sig vitandi að aðrir bíða á kantinum ef potturinn bilar eða lambakjötið brennur á gasgrillinu sem keypt var á Tax Free-degi í Hagkaupum. Hér gætir ákveðins ójafnvægis. Vöfflurnar og sumarbústaðurinn skipa of stóran sess í þessum þreifingum tveggja turtildúfna. Til þess að hugsanlegt samband þessara tveggja landsfeðra verði að veruleika er æskilegt að það eigi sér upphaf á hlutlausum stað. Stað þar sem báðir aðilar sitja við sama borð. Stað þar sem þriðji aðili bakar vöfflurnar og lánar parinu sumarbústað. Eyjafjörður er vel til þess fallinn að vera þessi staður þar sem heimamenn eru þriðji aðilinn. En hvert yrði þá okkar framlag? Við myndum finna eitthvað sem þeir Sigmundur og Bjarni eiga sameiginlegt og nýta okkur það til að þjappa þeim saman. Þeir eru báðir bjartsýnir, með háleitar hugmyndir og stefna á toppinn. Fjallaferðir kæmu því vel til greina. Við gætum byrjað á Súlum sem nokkurs konar upphitun. Ekki mjög erfið ganga á toppinn og góð yfirsýn yfir heimilin í firðinum. Þaðan væri ferðinni heitið á topp Blámannshatts. Við myndum senda Sigmund þangað
á meðan Bjarni myndi klífa Bónda í Eyjafjarðarsveit. Í lokin færu þeir svo saman á Kerlingu, hæsta fjall Eyjafjarðar, áður en þeim yrði kippt snögglega niður á jörðina aftur! Á þessum tímapunkti blasir blákaldur raunveruleikinn við eftir að hafa um skeið svifið um í draumaheimi háloftanna. Eyfirsku fjöllin myndu þannig veita þeim sameiginlega yfirsýn yfir verkefnin framundan, auðvelda þeim að sjá hlutina út frá sjónarhorni hvors annars og hjálpa þeim við að átta sig á að mikilvægar ákvarðanir verður að taka með fast land undir fótum sér en ekki uppi í háloftunum þar sem hætta er á hruni. Þá fyrst ætti parið von um langa og farsæla sambúð byggða á raunhæfum markmiðum, Eyfirðingum og öðrum landsmönnum til hagsbóta. Áður en hveitbrauðsdagarnir við Austurvöll tækju við myndu þeir Sigmundur og Bjarni þiggja veitingar á Bláu könnunni og Græna hattinum. Til dæmis vöfflur! Menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Af hverju nýtir sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps sér ekki fyrirhuguð Vaðlaheiðargöng til að efla menningu sveitarfélagsins? Felast einhver sóknarfæri í því, kynnu einhverjir að spyrja? Að fá göng sem eru töluvert sunnan við Svalbarðseyri, eina þéttbýliskjarnann á svæðinu? Munu göngin ekki draga svo verulega úr umferð um svæðið að öll áform um uppbyggingu ferðaiðnaðar reynast andvana fædd hugmynd? Stórt er spurt. Svalbarðseyri hefur hingað til, eða í það minnsta mörg undanfarin ár, ekki laðað ferðamenn að í miklu magni þrátt fyrir mikla umferð um þjóðveg 1 austan Svalbarðseyrar. Þar liggur kannski hundurinn grafinn. Staðurinn er einfaldlega of nálægt Akureyri til þess að fólk sjái hag í því að staldra við. Ýmist er fólk nýlagt af stað frá Akureyri á leið austur fyrir eða það er komið svo nálægt bænum að austan að það sér í hyllingum möguleikann á að klára langt og strangt ferðalag og brunar því í bæinn. Þegar við bætist skortur á afþreyingu, þjónustu eða öðru sem fólk kallar eftir er ekki nema von að bílarnir þjóti hjá. En hvernig geta göngin hjálpað til við að koma Svalbarðsstrandarhreppi á kortið þegar þau beina umferðinni frá svæðinu? Jú, í spurningunni felst einmitt svarið. Nú er lag fyrir Svalbarðsstrandarhrepp. Þegar staðurinn er ekki lengur í alfaraleið, þar sem ekkert annað kemst að hjá ferðalöngunum en að komast sem hraðast til eða frá Akureyri, má draga upp nýja og ferskari mynd af staðnum sem ekki var framkvæmanlegt áður. Og hvernig yrði hin nýja ímynd Svalbarðseyrar og nágrennis? Meginþemað yrði rólegheit, þægindi, sveitarómantík og annars konar „kósíheit“ en þó jafnframt með iðandi mannlífi. Hinn rólegi áfangastaður Svalbarðseyri þar sem gesturinn fær frið frá hraðanum og látunum á þjóðveginum og í þéttbýlinu. Þó Svalbarðseyri standi ekki lengur við þjóðveginn er nálægðin við hann nægilega mikil til að hægt sé að fá fólk á staðinn. Grunnurinn er þannig lagður án þess að stinga niður skóflu. Framkvæmdir af þeirri stærðargráðu sem Vaðlaheiðargöng eru hlýtur að vera hægt að nýta til að vekja athygli á svæðinu. Það er svo bara í höndum heimamanna hvort og þá hvernig þeir grípa tækifærið. Nú þegar er ýmislegt til staðar sem sveitarfélagið getur boðið upp á. Alltaf má nýta íslenska náttúru til sjálfbærrar ferðamennsku þó ekki væri nema að bjóða upp á gönguferðir og náttúruupplifun. Gaman væri að geta sest niður á notalegu kaffihúsi á Svalbarðseyri eða keypt sér rjómaís í ísbúðinni sem notast við hráefni úr heimabyggð. Af hverju ekki að bjóða upp á skipulagðar gönguferðir í Vaðlaheiði með óviðjafnanlegu útsýni yfir fjörðinn? Hver veit nema göngufók rekist á sjálfan Þorgeirsbola! Af hverju ekki að búa til einhverskonar atvinnuskapandi ferðamennsku yfir vetrartímann t.d. á svæðinu þar sem snjósleðafólk þeysist um á Víkurskarðinu? Auðvitað þarf sveitarfélagið að vinna með nágrannasveitarfélögum og leggja til fjármagn en það má sníða sér stakk eftir vexti í þessu eins og öðru. Gæti sveitarstjórnin aðstoðað íbúa sveitarfélagsins við að fjármagna litlar eða meðalstórar framkvæmdir til eflingar ferðamennsku á svæðinu? Með því myndi skapast grundvöllur fyrir sameiginlegu átaki yfirvalda og ein
staklinga til að glæða svæðið lífi. Nú þegar framkvæmdir eru hafnar við göngin er tækifæri fyrir Svalbarðsstrandarhrepp að snúa vörn í sókn. Sveitarstjórnin hefur nú þegar auglýst verkefnislýsingu vegna vinnu við deiliskipulag Vaðlaheiðarganga og vinnubúða verktaka. Búast má við að gildistaka skipulagsins verði kynnt um svipað leyti og byrjað verður að grafa þ.e. í júní 2013. Áætlað er að göngin verði tekin í notkun seinni hluta ársins 2016. Það er því ekki seinna vænna fyrir íbúa Svalbarðsstrandarhrepps að hefja undirbúning að menningarátaki í heimabyggð í skjóli Vaðlaheiðarganga. Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Af hverju markaðssetjum við ekki Eyjafjarðarsveit sem spennandi áfangastað fyrir erlenda ferðamenn? Fjöldi skemmtiferðaskipa sem heimsækir Akureyri á sumrin er gríðarlegur. Við fögnum því vissulega en Laufás og Mývatnssveit taka ekki endalaust við. Auðvitað er Mývatnssveit einstakur staður. Straumurinn mun því áfram liggja þangað þó aðrir spennandi áfangastaðir bætist í hópinn. Með því að beina fjöldanum í fleiri en eina átt dreifist álagið. Þannig skapast svigrúm til að taka áfram við ört vaxandi fjölda ferðamanna. Með fleiri valkostum fyrir túristana ætti að reynast auðveldara að koma til móts við mismunandi þarfir þeirra auk þess sem fleiri aðilar í ferðamennsku fá bita af kökunni. En hvað er það sem Eyjafjarðarsveit hefur upp á að bjóða fyrir erlenda ferðamenn? Fyrir utan að vera einhver fallegasta sveit landsins drýpur sagan af hverju strái í Eyjafjarðarsveit. Ekki síst á kirkjujörðunum sex! Þar leynast sögulegar gersemar sem geta kveikt áhuga aðkomufólks ef rétt er haldið á spöðunum. Gersemar sem undirstrika sérstöðu byggðarlagsins. Gersemar sem hægt er að tengja við Íslendingasögurnar. Síðast en ekki síst gersemar sem hægt er að tengja við reynsluheim þeirra erlendu gesta sem heimsækja kirkjurnar. Hvernig? Jú, saga þeirra nær svo langt aftur í tímann að tiltölulega einfalt er að tengja sögu þeirra á einn eða annan hátt við aðrar þjóðir. Skoðum örfáar staðreyndir um guðshúsin sem hægt er að nota til að búa til bragðmikinn kokteil fyrir þyrsta ferðamenn: Óvenjulegt byggin
garlag Kaupangskirkju og tenging við kaþólskan sið. Munkþverárkirkja, Jón Arason og Sturlunga. Merkilegt klukknaport við Möðruvallakirkju og altarisbrík frá Notthingham í Englandi. Hólakirkja helguð Jóhannesi skírara og tenging við eitt ljótasta glæpamál á Íslandi á 17. öld. Saurbæjarkirkja er ein örfárra torfkirkna á landinu og þar var klaustur í kringum árið 1200. Grundarkirkja, Magnús Sigurðsson og Þórunn Jónsdóttir (Arasonar). Hér mætti telja upp mikið mun meira í sambandi við kirkjurnar sex. Við skulum þó láta hér staðar numið en nefnum vettvang nokkurra sögulegra atburða í sveitinni til viðbótar sem hafa alla burði til að vekja athygli erlendra ferðamanna: Kálfagerði og morðsaga bræðranna, Gnúpufell og prentsmiðjan á 16. öld, Melgerðismelar og saga hernámsliðsins, Möðrufell og holdsveikraspítalinn, Espihóll og saga Jóns Espólín sagnaritara, Kristnes og berklahælið. Til að krydda sannleikann má notast við krydd úr heimabyggð sem útlendingar elska – þjóðsögurnar um Hleiðargarðsskottu og álfkonuna í Konuklöpp sunnan Kristness. En það er ekki bara sagan sem heillar. Menningin er aðdráttarafl og hún blómstrar í Eyjafjarðarsveit. Jólagarðurinn, smámunasafnið, Helgi og Beate með eldsmíðina í Kristnesi og fjölmargir aðrir handverksaðilar og gallerý svo eitthvað sé nefnt. Hér hafa ekki verið nefnd til sögunnar öll þau tækifæri sem náttúran og landslagið bjóða upp á í formi fræðslu og upplifunar; fjöllin, jarðsagan, Hólavatn, Leyningshólar, jarðhiti, Möðrufellshraun. Já, ljóst er að Eyjafjarðarhringurinn er vannýtt auðlind. Samgöngur eru greiðar í Eyjafjarðarsveit, hringurinn er auðveldur yfirferðar og allt sem að ofan er nefnt er í seilingarfjarlægð frá veginum. Þannig er einfalt að sníða umfang ferðalagsins eftir þörfum ferðamannsins. Hægt er að fara hr
inginn á broti úr degi með því að stoppa lítið sem ekkert og leyfa ferðamanninum að njóta gegnum bílrúðuna undir styrkri stjórn leiðsögumanns. Einnig er hægt að fara hringinn á nokkrum klukkustundum með því að staldra við á nokkrum stöðum m.a. til að gæða sér á veitingum úr heimabyggð. Lambalærið á Öngulsstöðum og ísinn í Holtsseli svíkja engan. Brettum upp ermar og kynnum gersemar Eyjafjarðarsveitar fyrir erlendum ferðamönnum. Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Af hverju setjum við ekki á fót fjölmiðlasamsteypu sem borin verður uppi af duglegum og skapandi grunnskólanemum á Akureyri? Kennarar og aðrir sem starfa með börnum eru sífellt að leita leiða við að láta dvölina í skólanum endurspegla sem mest hið daglega líf utan veggja skólans. Raunveruleg og áhugaverð viðfangsefni eins og blaðaútgáfa, útvarpsrekstur, netmiðlar og sjónvarpsþáttagerð gætu skilað þeim árangri sem við erum að stefna að. En er pláss á fjölmiðlamarkaðnum? Við vitum það ekki fyrr en við látum á það reyna. Ekki eru fordæmi fyrir uppátæki sem þessu á Íslandi
og þótt víðar væri leitað og því erfitt að sjá samkeppni sem rök fyrir því að leggja ekki af stað. Er áhugi á því sem grunnskólanemendur hafa fram að færa? Með jafn stóru verkefni og hér um ræðir, með tilheyrandi metnaði og vinnuframlagi barnanna okkar, má alveg reikna með góðum undirtektum í heimabyggð. Hér yrði um ákveðna frumkvöðlastarfsemi að ræða af hálfu skólayfirvalda í bænum. Tækifæri þeirra til að glæða lífi í fögur orð á pappír. Tækifæri til að vera leiðandi í innleiðingu á nýjum og breyttum vinnubrögðum í skólunum og vera þannig í fararbroddi bæjarfélaga sem kenna sig við öflugt skólaþróunarstarf. Hvað erum við að tala um? Hér er tvennt sem liggur til grundvallar. Annars vegar nám og kennsla, hins vegar skemmtun og afþreying. Eru þessir þættir ekki allir til staðar nú þegar í skólunum? Jú, svo sannarlega eru grunnskólarnir að vinna frábært starf hvern einasta dag. Fjölmargir starfsmenn skólanna reyna eftir bestu getu að stuðla að skapandi starfi og merkingarbæru námi. En betur má ef duga skal. Jafnvel fyrir hugmyndaríka, duglega og framkvæmdaglaða kennara er erfitt að berjast gegn kerfinu, rammanum, íhaldsseminni, peningaskortinum, þægindarammanum, launakjörunum og öllu hinu sem mögulega kemur í veg fyrir að framúrstefnulegar hugmyndir komist í framkvæmd. Þetta er gömul og ný saga. Þetta hefur alltaf verið svona. Þetta er náttúrulögmál. Eigum við ekki bara að spara okkur ómakið, hætta þessari útópíuhugsun og halda okkur við bækurnar, 40 mínútna kennslustundirn
ar og töflukennslu? Eða eigum við að hætta að tala um skólabæinn Akureyri á tyllidögum og stuðla að raunverulega merkingarbæru námi? Láta verkin tala? Framkvæma? Þorum við að taka næsta skref sem við munum óhjákvæmilega þurfa að taka einhvern tímann á nýrri öld? Vissulega má færa rök fyrir því að núverandi skólaumhverfi mæti þessum þörfum að einhverju leyti. Sagan mun þó kveða upp sinn dóm hvað sem tautar og raular og hvort sem menn telja vel að verki staðið í dag eða ekki. Hvort komandi kynslóðir muni þá taka undir með þeim sem telja grunnskólana halda í við eðlilega þróun skal ósagt látið. En hvernig á fjölmiðlasamsteypa á vegum grunnskólanna að leysa vandann? Hún leysir auðvitað ekki vandann frekar en önnur einstök viðfangsefni. Hún getur þó hugsanlega lagt sitt lóð á vogarskálarnar. Skoðum hugmyndina hráa og án allrar fitu og aukaefna. Skólayfirvöld á Akureyri útvega fjármagn til að hefja rekstur á fjölmiðlasamsteypu sem grunnskólarnir hafa veg og vanda að. Allir grunnskólar á Akureyri eiga aðild að rekstrinum og þannig dreifist vinnuframlagið. Margar hendur vinna létt verk! Skólayfirvöld leggja til húsnæði og tæki sem skólarnir nýta í sameiningu utan þess sem nemendur vinna hver í sínu lagi í sínum skóla með þeim búnaði og aðstöðu sem þar er fyrir. Nemendur hvers skóla vinna saman og með nemendum annarra skóla að vissum verkefnum og nýta þá reynslu og kunnáttu sem byggst hefur upp á síðustu árum með tölvuvæðingu skólanna. Jæja, við skulum staldra aðeins við hér. Hver er svo ávinningurinn því ljóst er að tilkostnaðurinn er ærinn? Skoðum nokkur dæmi um lykilatriði í menntun á 21. öldinni: Lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, sköpun, tjáningarfrelsi, upplýsingamiðlun, stafrænt læsi, miðlamennt og miðlalæsi. Áfram með upptalninguna: Sjálfstæð vinnubrögð, ritun, framsögn, ábyrgð, samskipti,vandvirkni og gagnrýnin hugsun. Allt eru þetta hlutir sem kennarar reyna daglega að kenna, kynna, segja frá og draga fram í fari nemenda með misjöfnum árangri. Heppileg leið fyrir kennara að innræta börnum öll þessi góðu gildi er í gegnum raunveruleg viðfangsefni sem hafa tilgang í þeirra augum – verkefni sem nemendur sjá hag sinn í að leysa af metnaði. Nemendur þurfa að sjá raunverulegan tilgang með því sem þeir eru látnir gera. Þannig læra þeir, þannig efla þeir með sér löngun til að taka framförum, þannig sjá þeir tilganginn í því sem þeir eru að gera. Þetta sést best í skólunum þá daga
sem eitthvað stendur til og hefðbundið skólastarf er brotið upp. Allir vinna saman að sameiginlegu markmiði þar sem samkomulag ríkir um að gera hlutina eins vel og mögulegt er. Fjölmiðlasamsteypa grunnskólanna á Akureyri mun ýta undir vönduð vinnubrögð hvort sem um er að ræða textagerð, framsögn eða meðferð heimilda. Hún mun vekja upp hugleiðingar um sjálfsögð mannréttindi svo sem tjáningarfrelsi og lýðræði. Hún mun stuðla að skapandi og sjálfstæðum vinnubrögðum auk þess sem hún mun auka ábyrgðarkennd og gagnrýna hugsun. Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Af hverju nýta Ólafsfirðingar sér ekki kosti Ólafsfjarðarvatns til eflingar menningartengdrar ferðamennsku á sumrin? Ólafsfjörður er fallegur staður en má vissulega muna fífil sinn fegurri. Síldin er farin, Leiftur er fallinn og Kristinn hættur að skíða. Á meðan nágrannarnir á Siglufirði hafa staðið að uppbyggingu á menningartengdri ferðamennsku undanfarin ár, og sér ekki fyrir endann á því, hafa Ólafsfirðingar að nokkru leyti setið eftir. Með sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar árið 2006 og tilkomu Héðinsfjarðarganganna árið 2010 hefði mátt ætla að staðirnir tveir fylgdust að. Eða hvað? Hvað sem því líður skulum við skoða hvaða tækifæri felast í Ólafsfjarðarvatni. Alltaf má finna eitthvað til að efla menningu í heimabyggð sem byggja má á óháð fjárhagslegri stöðu. Eins og víðar í Eyjafirði er náttúran eitt helsta aðdráttarafl Ólafsfjarðar. Hún er nú þegar til staðar og ekki þarf að taka lán fyrir henni. Náttúran myndar þannig grunn sem hægt er að byggja á. Heimamenn meta svo í framhaldinu hversu miklum fjármunum þeir vilja og geta varið til að byggja á þessum grunni. Eitt af því sem einkennir Ólafsfjörð er Ólafsfjarðarvatn. Vatnið er um 2,5 ferkílómetrar að stærð, u.þ.b. 3,5 km að lengd og 1 km á breidd. Sérstaða Ólafsfjarðarvatns felst í nálægð þess við sjó en í Vatninu má finna sjófiska svo sem þorsk, ufsa og kola. Svo mjög þótti Frökkum þetta merkilegt að þeir sendu herskip til Ólafsfjarðar með hóp franskra vísindamanna árið 1891 til að rannsaka Vatnið. Voru niðurstöður rannsóknarinnar birtar í virtu frönsku vísindariti. Vatnið er fallegt og setur sterkan svip á bæjarstæðið. Frá því er fjallasýnin tignarleg í austur- jafnt sem vesturátt. Dæmi um afþreyingu sem þarf ekki að vera svo kostnaðarsöm og flókin í framkvæmd er sigling á Vatninu. Hér er ekkert nýtt undir sólinni. Ólafsfirðingar hafa lengi siglt á Vatninu. En væri kannski hægt að gera meira úr því t.d. með því að bjóða upp á ólíka upplifun og með mismunandi markmið í huga? Gúmmíbátar, árabátar, spíttbátar, sæsleðar, sjóskíði o.s.frv. Veiði, adrenalín, sögukennsla, náttúruupplifun o.s.frv. Svo getum við leikið okkur með möguleikana ef fjármagn fæst. Hér erum við farin að tala um flotta bryggju þar sem fleyin stór og smá verða gerð út. Við erum að tala um komu sjóflugvéla á Vatnið. Við erum að tala um veitingastað við Vatnið sem byggir á fersku hráefni úr heimabyggð, með áherslu á fiskmeti úr Ólafsfjarðarvatni. Við erum að tala um kaffihús við Vatnið með frönsku ívafi þar sem tengingunni við frönsku vísindamennina er haldið á lofti.
Síðast en ekki síst erum við að tala um hótelbyggingu við Vatnið til að anna eftirspurn forvitinna ferðamanna. Þannig mun þungamiðja bæjarins færast með tíð og tíma að þeim stað við Ólafsfjarðarvatn þar sem menningin í bænum blómstrar – þar sem hjartað slær. Þaðan á bærinn kost á því að stækka í fjarlægri framtíð í suðurátt meðfram Ólafsfjarðarvegi eystri. Hver veit nema Frakkar sendi þá leiðangur til Ólafsfjarðar til að rannsaka áhrif stöðuvatns á menningu? Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Af hverju eflum við ekki tengslin við vini okkar í Murmansk í Rússlandi? Er Murmansk einungis vinabær Akureyrar að nafninu til? Til hvers eru þessir vinabæir eiginlega? Já ég veit, kannski er eitthvað að gerast á bak við tjöldin sem hinn venjulegi Akureyringur veit ekki um. Kannski hafa útgerðarmenn í Murmansk keypt gamla togara frá Samherja? Kannski hafa bæjaryfirvöld á Akureyri farið í opinbera heimsókn til Murmansk? En það er allavega ekki margt í umhverfinu sem minnir okkur á vináttutengslin við Murmansk og aðra vinabæi okkar vítt og breytt um heiminn. Maður er reglulega minntur á sambandið við Randers í Danmörku með komu jólatrésins í desember ár hvert. Einhver samskipti hefur bærinn okkar átt við Álasund, vinabæinn í Noregi og þá tryggir saga vesturfaranna eilíft samband við Gimli, vinabæ okkar í Kanada. Í Svíþjóð er það Västerås og einhvern veginn finnst manni að það hljóti að vera til einhverjar bókanir í fundargerðum fyrri ára um eflingu tengsla þar á milli. Þó ekki sé nema vegna landfræðilegra og menningarlegra tengsla landanna. Þá er nú ekki langt í enn einn vinabæinn sem einnig er á Norðurlöndum. Lahti heitir hann og er í Finnlandi. En við eigum líka vinabæi sem eru lengra í burtu en standa okkur samt svo nærri menningarlega og tilfinningalega? Bæir sem tengjast sögu Akureyrar órjúfanlegum böndum og hafa margsinnis reynst okkur vel á erfiðum tímum? Þetta eru vinabæir okkar í Tyrklandi og Rússlandi; Çe?me og Murmansk. Ekki þarf að eyða mörgum orðum um vináttutengsl okkar við íbúa Çe?me, þau eru augljós! Höldum aðeins áfram með Murmansk. Við vitum alveg af hverju Murmanskar ættu að sækja okkur heim, sérstaklega á þessum árstíma. Kuldi, brennivín og mottumars. Þar með er það afgreitt. Hvað eigum við svo að sækja til Murmansk? Getur það gagnast okkur að í Murmansk búa rúmlega 300.000 manneskjur? Já, án efa. Hjálpar okkur að í Murmansk er heimahöfn eina flota kjarnorkuknúinna ísbrjóta í öllum heiminum? Ekki gott að segja. Kemur það okkur til góða að vera vinabær borgar sem er með 86 grunnskóla o
g 56 framhaldsskóla? Svari hver fyrir sig. Auk alls þessa er staðarblað, sædýrasafn og öflugur bandýklúbbur í Murmansk. Ef við viljum efla tengslin, hvar eigum við þá að byrja? Hvað með að hefja samstarf knattspyrnudeilda Þórs og KA við FC Sever Murmansk en svo heitir knattspyrnufélag borgarinnar? Liðið spilar í 2. deild í Rússlandi. Mætti ekki senda leikmenn héðan til reynslu í Murmansk og öfugt? Jú, jú einhverjir myndu eflaust fá menningarsjokk. En til hvers eru vinir ef ekki til að hjálpa þeim sem á stuðningi þurfa að halda við að aðlagast breyttum aðstæðum? Að einhverju leyti yrðu viðbrigðin þó hverfandi. Þannig þyrftu leikmenn FC Sever Murmansk og Þórs og KA ekki að láta veðurfarið á hinum nýja heimavelli koma sér svo mjög á óvart. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Af hverju bjóða Grenvíkingar og aðrir íbúar Grýtubakkahrepps ekki erlendum skólabörnum, sem vilja heimsækja landið í sérstökum námsferðum, að koma til sín? Kom ekki frétt þess efnis nýverið að Ísland væri vinsælt land í hugum breskra nemenda á aldrinum 14-19 ára? Í það minnsta er von á 3000 nemendum að utan til landsins í 80 hópum ásamt kennurum á nokkurra vikna tímabili fram að páskum. Gallinn er bara sá að þeir dveljast allir á Suðurlandi. Hvað er það? Af hverju koma þessir krakkar ekki til okkar? Íbúar Grýtubakkahrepps eru vel til þess fallnir að bjóða upp á slíkar námsferðir. Fyrir utan að vera duglegir og úrræðasamir hafa þeir allt sem erlend ungmenni sækjast eftir í ævintýraferð sem þessari. Skoðum þetta aðeins nánar. Til að byrja með þarf að koma fólkinu fyrir. Getur ekki Grenivíkurskóli hýst hópinn rétt eins og margir aðrir skólar gera þegar íslensk börn fara á milli landshluta í æfinga- og keppnisferðir? Þar er mötuneyti og þá er samkomuaðstaða, íþróttahús og sundlaug sambyggð við skólann. Svo ekki sé nú talað um ferðaþjónustuaðila á svæðinu svo sem að Ártúni og Nolli. Hvað eiga svo erlendu gestirnir að gera annað en að slappa af í heita pottinum eða hanga í Jónsabúð? Í Grýtubakkahreppi er glettilega margt í boði fyrir ævintýraþyrsta unglinga frá fjarlægum löndum. Þeir koma nefnilega ekki hingað með sömu óskir og ef um íslensk ungmenni væri að ræða. Fyrir þessa krakka eru það hlutir eins og náttúran, friðurinn, sagan, harðfiskurinn og skyrið, álfar og tröll o.s.frv. Í fyrrnefndri frétt kom fram að meðal þess sem hóparnir óska eftir er að fá einhverskonar kynningu á jarðfræði svæðisins sem þeir heimsækja. Látraströnd ber þess merki að hafa lent í klóm ísaldarajöklanna með sínum dölum og fjöllum til skiptis. Betra verður það varla fyrir jarðfræðiþyrsta nemendur. Auk þess sem náttúrufegurðin og friðurinn þarna er engu öðru líkt og þó víðar væri leitað. Kynna mætt
i fyrirtækin á staðnum en þau hafa án nokkurs vafa sinn sjarma í augum aðkomufólks. Pharmarctica; lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á blautvörum. Harðfiskverkunin Darri; Heimir sýnir réttu handtökin við að herða fisk. Sveitabæina mætti heimsækja. Áshóll og kartöfluræktin. Lómatjörn og loðdýraræktin. Laufás. Ekki þarf að hafa fleiri orð um þann ágæta stað. Enn er ótalin afþreying eins og hestaferð með Pólarhestum, snjótroðaraferð á Kaldbak, sigling til Hríseyjar og hinar ýmsu gönguleiðir í nágrenni Grenivíkur. Ef þetta er ekki nóg er ekki langt að renna til Akureyrar og sækja það sem upp á vantar. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Af hverju notum við ekki innbæinn sem tímavél á sumrin? Hvernig? Jú, við hverfum 100-200 ár eða svo aftur í tímann. Við klæðum innbæinn í sín upprunalegu klæði eins og mögulegt er og keyrum með farþegana af skemmtiferðaskipunum um hinn forna „danska“ bæ áður en þeir halda áfram austur yfir heiðar. Allt í lagi. Byrjum á byrjuninni. Innbærinn er elsti hluti bæjarins. Þar höfðu dönsku kaupmennirnir bækistöðvar og þar var tenging Akureyringa við Kaupmannahöfn þegar dönsku kaupskipin komu með farm – sjálf lífæðin. Þessa sögu þekkja allir. En er þetta aðeins saga liðins tíma og genginna manna? Ekki endilega. Við höfum nú þegar tekið eitt hænuskref í þessa átt. Í ágúst á síðasta ári var svokallaður danskur sunnudagur. Danskir fánar blöktu við hún og gestum og gangandi var boðið í garðveislu. Þetta tók fjórar klukkustundir. Hvað með að lengja danska sunnudaginn í nokkrar vikur og jafnvel lungann úr sumrinu? Við afmörkum danska bæinn t.d. frá skautahöllinni í suðri að Samkomuhúsinu í norðri. Við einbeitum okkur að gömlu timburhúsunum á svæðinu, Nonnahúsi, Gudmanns Minde, Laxdalshúsi og fleiri slíkum byggingum auk íbúðarhúsanna í eigu einstaklinga. Gudmanns Minde hýsir sýningu að einhverju tagi og Laxdalshús verður notað sem verslun þar sem danskir kaupmenn selja ferðamönnunum ullarpeysur, roðskó og harðfisk. Nonnahús heldur sínu hlutverki. Minjasafnið verður stjórnstöð tímavélarinnar, hjartað í danska bænum. Um verður að ræða samstarf íbúa og eigenda lóða og fasteigna í Aðalstræti og Hafnarstræti annars vegar og bæjaryfirvalda hins vegar. Hvað eigum við svo að gera? Fólk klæðist fatnaði 19. aldar, slær upp garðveislum, útimarkaðir á götunum, danska fánanum flaggað sem víðast, Hestakerra, minjagripasala í Hoepfnershúsi, handverksmenn, börn að leik, gamaldags guðsþjónusta í Minjasafnskirkjunni. Listinn er ekki tæmandi. Við smíðum eftirlíkingu í fullri stærð af einu kaupskipanna sem
sigldi með vörur milli Akureyrar og Kaupmannahafnar á 19. öld. Til dæmis Herthu en það var í eigu danska kaupmannsins Gudmann og sigldi þessa leið í meira en 50 ár. Við leggjum það við Höepfners-bryggju og notum það sem veitingahús þar sem boðið verður upp á danska smárétti í bland við íslenskan og þjóðlegan mat. Seljum hugmyndina til Danmerkur: Danskur 19. aldar bær á norðanverðu Íslandi. Þannig rennum við frekari stoðum undir reglulegar ferðir milli Akureyrar og Kaupmannahafnar rétt eins og þegar Hertha var og hét. Nema hvað, núna veljum við flugleiðina! Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?