main image

Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar að þessu sinni fá Freyjurnar. Freyjurnar opnuðu heimasíðu á síðasta ári þar sem þær birta greinar um allt milli himins og jarðar. Þær tala opinskátt um ýmis hugðarefni og eru óhræddar við að gagnrýna menn og málefni. Freyjurnar taka fyrir álitamál sem vekja upp viðbrögð og draga fram ólíkar skoðanir fólks. Þarna eru á ferðinni ungar, ákveðnar stúlkur sem hafa skoðanir á málefnum, þora að koma þeim á framfæri opinberlega og rökstyðja mál sitt. Á heimasíðu Freyjanna segir:

„Freyjurnar er hópur ungra kvenna með munninn fyrir neðan nefið. Freyjurnar tóku eftir skorti á fjölbreyttri umræðu í flóru íslensku netheimanna og ákváðu að bæta úr því með þessari forláta bloggsíðu að láta skoðanir sínar í ljós og hvetja þar með til fjölbreytileika, opinnar umræðu, fallegra ummæla og þroskaðra tilsvara.“

Slóð Freyjanna: http://freyjur.wordpress.com/2012/11/15/fosturlandsins-freyjur/