main image

Af hverju ekki?

Af hverju opnum við ekki  vaxmyndasafn á Dalvík með þekktum heimamönnum? Svona nokkurs konar Madame Tussauds. Enn eitt safnið? Er þetta ekki komið gott? Nú þegar eru um 100 söfn á Íslandi og þau eru vægast sagt ólík eins og þau eru mörg!  Sum endurspegla sögu og menningu heimabyggðar. Sjáið bara Síldarminjasafnið á Siglufirði. Þar er merkilegum kafla í sögu Siglufjarðar gert hátt undir höfði. Fáskrúðsfjörður. Safn um veru franskra skútusjómanna á Íslandi. Reykjavík. Hið íslenzka reðasafn. Já, eða allavega þá eru mörg athyglisverð söfn þarna úti. Myndi vaxmyndasafn á Dalvík ekki sóma sér vel innan um flott söfn eins og Fuglasafnið í Mývatnssveit, Fiskasafnið í Vestmannaeyjum og svo aftur önnur söfn sem eru hvorki fugl né fiskur? Ég meina, Dalvíkurbyggð telur ekki nema u.þ.b. 2000 manns en samt „framleiða“ Dalvíkingar ógrynni af frægðarfólki. Hægt væri að skipta safninu í tvo hluta; frægir Dalvíkingar (Svarfdælingar) – lífs eða liðnir. Meðal lifenda mætti svo skipta niður í hópa eftir því fyrir hvað viðkomandi er þekktur. Fjölmennasti flokkurinn yrði sennilega flokkur listamanna: Eyþór Ingi, Hjálmar Hjálmarsson, Matti Matt, Friðrik Ómar, Þórarinn Eldjárn o.fl. Í hópi íþróttamanna má nefna skíðakappana Björgvin Björvinsson og Daníel Hilmarsson og svo auðvitað fótboltamennina Heiðar Helguson og Sigurbjörn Hreiðarsson. Ekki eru nú minni nöfn hjá þeim sem farnir eru yfir móðuna miklu: Freymóður Jóhannsson, Jóhann risi, Kristján Eldjárn og þeir Ljótólfur goði og Þorsteinn svörfuður söguhetjur úr Svarfdælu. Já það er með eindæmum hvernig svona lítið samfélag fer að því að gefa af sér svona mikið af þekktu og vinsælu fólki. Dalvíkingar eiga líka mikið af duglegum og skapandi einstaklingum sem þora að láta drauma sína rætast. Með hóp af slíku fólki og Júlíus fiskikóng þar fremstan í flokki er allt hægt. Logi Bergmann yrði án efa til í að beita sínum áhrifum í fjölmiðlaheiminum við að koma hinu nýja og glæsilega safni á framfæri. Spurning reyndar hvað jafnréttissinnar segja við hugmyndinni. Hér hallar nokkuð á hlut kvenna og það er eitthvað sem gera þyrfti úrbætur á. Mikill styrkur yrði fólginn í því fyrir Júlíus að fá duglegan kvenskörung með sér í hugstormun og til að leiða vinnuna. Hvað með Svanhildi Hólm? Viðskiptahugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?