Fyrir 100 árum síðan!

Þann 8. febrúar 1913 birtist grein í Norðra undir heitinu Ýmislegt  um Akureyri. Þar segir frá óánægju með fræðsluyfirvöld á Akureyri vegna bruðls og of hárra fjárframlaga til barnaskólans í bænum.

Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan!

 

„Fræðslumálanefnd kaupstaðarins hefir með barnaskólamálið að gera, þykir mörgum hún nokkuð eyðslusöm á fé og hafa gert hina almennu og fyrirskipuðu barnafræðslu i bænum dýrari en brýna nauðsyn ber til og þurft hefði til þess þó að geta fylgt fyrirmælum fræðslulaganna. Það sem mörgum þykir að skólanum er fyrst og fremst þetta:

 1. Laun sumra föstu kennaranna séu of há, töluvert hærri en ákvæði fræðslu laganna geri ráð fyrir. Launin hafa verið bundin við persónur, sem hafa sætt lagi að fá samþyktar launaviðbætur í bæjarstjórninni, þegar vinir þeirra hafa verið fjölmennari á fundi en afturhaldsmennirnir svo kölluðu hafa verið fjarverandi. Kennarastöðurnar með fastákveðnum hæfilegum launum hafa eigi verið auglýstar lausar og mönnum verið gefinn kostur á að sækja um þær.

 2. Sumum kennurum skólans, sem virðast sæmilega launaðir, sé leyft að hafa kenslu annarstaðar síðari hluta dags, þetta telja sumir ekki heppilegt, því nóg sé að kenna 4 til 5 tíma á dag sé kent með áhuga, vilji kennarinn vinna meira eigi hann að fá sér önnur störf en kenslustörf að vinna síðari hluta dagsins.

 3. Föstu kennararnir séu óþarflega margir. Tímakennararnir reynist oftast eins vel, en ásóknin eftir að verða fastur kennari sé launanna vegna.

 4. Barnaskólinn hafi síðustu árin verið gerður að nokkurskonar tilraunaskóla. Hann hafi tekið upp kenslu í handavinnu o. fl. sem fræðslustjórn landsins gerir eigi að skyldu fyrir styrkveitingu, og inn á þessa tilraunabraut hafi verið gengið fulllangt. Akureyrarbær hafi hvorki fé né yfirburðakennara til þess að gera skóla sinn að fyrirmyndarskóla, há laun séu eigi einhlít til að afla skólanum ágætiskennara. Skriftarkensla reikningsfræðsla og það að láta börnin Iæra ýmislegt utanbókar hafi aftur fremur verið vanrækt síðustu árin, sem sé þó eitt hið nauðsynlegasta. Menn vantreysta skólanum að geta rétt við og lífgað heimilisiðnaðinn, til þess þurfi önnur ráð en þetta flingur í skólanum.

 5. Mönnum þykir ískyggilegt að 3 eða 4 efnaðar og barnmargar fjölskyldur senda eigi börn sín á skólann en hafa húskennara, í gamla daga fóru öll efnamannabörn á barnaskólann til að læra þar skrift, reikning, dönsku og til að láta hlýða sér yfir kver og biblíusögur og spyrja sig sig út úr og hafði skólastjóri þá ekki nema 6 til 800 kr. laun.

 6. Mönnum þykir undarlegt að barnaskólarnir í ýmsum kauptúnum landsins, sem eingöngu binda laun kennaranna við það sem fræðsluögin ákveða, þótt fremur sé dýrara að lifa á þessum stöðum en á Akureyri, skila börnum á fermingaraldri eins vel eða betur skrifandi, reiknandi, lesandi og hugsandi eins og barnaskólinn á Akureyri. Þó skal því eigi neitað að sum börn á Akureyri hafa lært meira í teikning og söng en í kauptúnunum. En hvortveggja það vekur og eykur fegurðartilfinningu.

 Það verður aldrei eingöngu féð eða aukin kennaralaun og fjölgun fastra kennara, sem efla álit barnaskólans á Akureyri og auka traust á honum og aðsókn til hans, heldur hitt, að það sem kent er sé kent vel, kennararnir kunni tökin á börnunum og gætilega sé farið inn á tilraunabrautir, gömlu aðferðunum eigi kastað fyrir borð fyr en talsverð reynsla er fengin fyrir að þær nýju séu eins góðar eða betri. Það réttasta sem stjórn kaupstaðarins gerði, væri að fá skólanefndinni sæmilega mikið fé til að láta kenna fyrir ákveðnar námsgreinar í barnaskóla á Akureyri, sem hefði 3 eða 4 fastakennara og tímakennara eftir þörfum. Tel eg þá sjálfsagt að minka mætti tillagið til skólans um 6 til 800 kr. á ári án þess að skólinn væri vanræktur.“

Norðri 8. árgangur 1913, 3. tölublað (08.02.1913), blaðsíða 9-10

 

 

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd