main image

Fyrir 100 árum síðan

 

Akureyringar og nærsveitamenn kunnu svo sannarlega að gera sér glaðan dag fyrir 100 árum síðan ekki síður en nú tíðkast. Í Norðurlandi birtist eftirfarandi texti þann 21. febrúar árið 1914:

 „Grímu dansleik hélt Verslunarmannafélag Akureyrar á laugardagskvöldið var á Hótel Akureyri. Búningarnir voru margir mjög góðir, sérstaklega kvenfólksins eins og vant er að vera. Þátt-takendur voru um 90 og hornaflokkurinn sló „Rammalag“ og „Faldafeyki“ svo skemmtun var góð og dansinn fjörugur. Um miðnætti settist fólk að matborði og hafði þá tekið niður grímurnar. Var þar mælt fyrir ýmsum minnum en síðan var farið að dansa aftur og stóð skemmtunin fram á sunnudagsmorgun.“

Norðurland 14. árg. 1914, 8. tölublað (21.02.1914), blaðsíða 23.

Fyrir 100 árum síðan!

 

Í Norðurlandi birtist eftirfarandi texti þann 14 febrúar árið 1914. Textahöfundur telur úrslit komandi þingkosninga ráðin með afgerandi hætti tveimur mánuðum áður en kosningarnar fara fram.

 „H. Hafstein sendi með síðasta pósti til oddvita yfirkjörstjórnar Eyjafjarðarsýslu framboð sitt sem þingmannsefnis við kosningarnar 11. apríl í vor. Sjaldan eða aldrei mun fylgi H. H. Hafa verið jafneindregið hér í sýslunni eins og einmitt nú, og er enginn efi á að hann verður kosinn fyrsti þingmaður kjördæmisins með all miklum meirihluta atkvæða.“

 Norðurland 14. árg. 1914, 7. tölublað (14.02.1914), blaðsíða 20.

Fyrir 100 árum síðan!

 


„Höfrungaflokkur kom hér inn á Pollinn á þriðjudaginn. Voru þeir víst mörg hundruð saman og féll 
sjórinn í hvítum fossföllum undan þeim. Þeir fóru alveg inn að marbakka, en þegar þeir ráku sig þar á, 
snéru þeir við með miklum gauragangi og héldu aftur út fjörð. Jóhann Havsteen skaut einn höfrung 
og lagði sá sig á 75 krónur.“ 
 Norðurland 13. árg. 1913, 24. tölublað (21.06.1913), blaðsíða 89

Fyrir 100 árum síðan!

Í Norðurlandi birtist grein eftir Brutus þann 31. maí árið 1913. Greinina kallar hann Skemmtilegt ferðalag. Brutus fer fögrum orðum um Akureyri og Eyjafjörð.

„..Á meðan eg dvaldi á Akureyri,mátti heita að alt rynni saman í eitt, nótt og dagur, því hin íslenzka, bjarta nótt er enn bjartari á Norðurlandi en á Suðurlandi, því þar gengur sól aldrei til viðar um hásumarið. Veður var hið ákjósanlegasta allan tímann, sem eg dvaldi á Akureyri, varla að sæist ský á lofti, sunnan landgola á morgnana og logn þegar fram á daginn kom; suma daga mjög sterkur hiti, en þegar leið fram undir miðaftan, kom hafræna, stundum tasvert sterk, en um náttmál dró gjarnast úr henni og um miðnætti var komið logn. Þannig er oftast veðurlag á Norðurlandi á vorin og framan af sumri…“

 Norðurland 13. árg. 1913, 20. tölublað (31.05.1913), blaðsíða 78

Fyrir 100 árum síðan!

 Í Norðurlandi þann 10 maí árið 1913 birtist grein eftir héraðslækninn Steingrím Matthíasson sem hann kallaði Heilsufar í Akureyrarhéraði 1912. Þar rekur hann í stuttu máli hvernig heilsufari fólks í heimabyggð var háttað á því herrans ári 1912.

 „Slysfarir voru þessar helstar: 2 menn biðu bana af falli þannig, að höfuðkúpan klofnaði að neðanverðu (fractura baseos cranii). Rotaðist annar strax, og dó þjáningarlaust eftir stutta stund, en hinn fékk heilabólgu og andaðist eftir nokkurra daga þunga legu. Maður varð undir miklum þunga, er féll ofan á brjóstholið við uppskipun úr lest. Hann rifbrotnaði á tveim rifjum og stungust rifbrotin inn í lungað; beið hann  bana af þessu samdægurs. Maður féll af hestbaki, skaddaðist á höfðinu og fékk síðan heilabólgu er leiddi  hann til dauða. Af minni slysum voru þessi hin helztu.

 6 fótbrot.

4 viðbeinsbrot

4 handleggsbrot

4 rifbrot

7 liðhlaup (3  í öxl, hin minni)

Öll þessi meiðsli gréru vel.

Konur í barnsnauð:16 sinnum var okkar læknanna vitjað við erfiðar fæðingar. Í 5 tilfellum þurfti að taka barnið með töngum. Öll börnin komu lifandi og konunum heilsaðist yfirleitt vel.“

Norðurland 13. árg. 1913, 17. tölublað (10.05.1913), blaðsíða 63

Fyrir 100 árum síðan!

„Samsöng héldu nýlega þeir Geir vígslubiskup, læknarnir Steingrímur og Valdimar og Sigurður dýralæknir, en frú Kristín Matthíasson lék undir á slaghörpu. Þetta var gert til ágóða fyrir fátækan mann á sjúkrahúsinu sem fótur var tekinn af.“

 Norðurland 13. árg. 1913, 16. tölublað (03.05.1913), blaðsíða 62

Fyrir 100 árum síðan!

Í grein sem birtist í Norðurlandi þann 5. apríl árið 1913 segir frá þreifingum Reykvíkinga um að taka jarnbrautir í notkun og jafnframt möguleikann á að leggja þær frá Reykjavík og í nágrannabyggðarlög. Segir frá tveimur brautum sem verið er að leggja frá Öskjuhlíð og niður að höfn sem flytja eiga efni til að fylla upp í varnargarða hennar. Í niðurlagi greinarinnar gælir greinarhöfundur við þá hugmynd að lögð verði járnbraut til Akureyrar í því skyni að draga úr umferð báta!

Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan.

„…Máske þess verði ekki mjög langt að bíða, að járnbraut verði lögð frá Reykjavík norður um land, yfir fjöll og firnindi til Akureyrar. Að þvi marki hlýtur að verða stefnt og unnið. Betra að draga úr flóabátaflækingnum, inn á hverja vík og hvern krók með ströndum fram, og koma heldur brautinni fyr í framkvæmd.“

 Norðurland 13. árg. 1913, 12. tölublað (05.04.1913), blaðsíða 44

Fyrir 100 árum síðan!

Í Norðra birtist grein þann 1. mars árið 1913 undir heitinu Steinsteypubyggingar. Í greininni er sagt frá Magnúsi Sigurðssyni bónda og kaupmanni á Grund í Eyjafjarðarsveit og ákvörðun hans um að byggja hús úr steinsteypu. Meðal annars er sagt frá stóru steinsteyptu fjósi og steinsteypuhlöðu fyrir um 100 hross sem Magnús reisti á jörðinni. Magnús var framsýnn maður og að mörgu leyti á undan sinni samtíð. Fleiri áttu eftir að feta í fótspor Magnúsar með því að reisa sér hús úr steypu.

Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan!

„…og þessar byggingaframkvæmdir Magnúsar verða eflaust til að vekja menn og hvetja til þess að fara smátt og smátt að byggja bæði íbúðarhús, geymsluhús og peningshús úr steinsteypu. Þó mun enn eigi tími til að yfirgefa torfbyggingar með öllu og tel eg skaða að jafnhliða og hinar nýju byggingaraðferðir eru að ryðja sér til rúms er ekkert er gert til að endurbæta torfveggjagerð, því það er ætlun mín að þeir geti víða komið að góðu gagni t. d. sem skjólveggir utan við þunna steinsteypuveggi, veggir við geymsluhús o. s. frv.“

Norðri 8. árg. 1913, 6. tölublað (01.03.1913), blaðsíða 21

Fyrir 100 árum síðan!

Fyrir 100 árum ræddu Akureyringar um mikilvægi þess að fá vatnsleiðslu í bæinn svo tryggja mætti aðgengi bæjarbúa að hreinu vatni. Í Norðra birtist grein þann 22. febrúar 1913 undir nafninu Vatnsleiðslumálið. Þar gagnrýnir greinarhöfundur fyrirhuguð áform bæjaryfirvalda að sækja vatn til Vaðlaheiðar, telur ekki tryggt að um nægilegt magn vatns sé að ræða auk þess sem ekki sé búið að rannsaka gæði þess. Í staðinn stingur hann upp á Glerá. Undir greinina skrifar Vald. Steffensen.

 

„Mér er alveg sama hvaðan gott vatn kemur og eg býst við að við séum allir sammála um það; en eg get eigi leynt því, að mér er óskiljanlegt hversvegna enginn lítur við Glerá. – Þar er nóg vatn og sennilega jafn gerilssneytt og í heiðinni; Jafnvel svo að notast má við afaródýra síu, og mun hægra að leiða það ofan í bæinn; enn má þar hafa raflýsingu í sambandi við vatnið. Eg hefi átt tal um þetta við marga mæta menn og fróða í þessum efnum þar á meðal Guðmund landlækni Björnsson. Var hann eindregið á því, að Glerá væri bezta vatnsbólið. Því er eigi fenginn  sérfræðingur í þessari grein, sem látinn er gjöra allar rannsóknir, sem gjöra skal, þegar um vatnsveitu er að ræða? Fyr verður ekkert úr þesskonar framkvæmdum hjá oss nema kákið eitt. Reynslan er búin að sýna það og sanna! Það margborgar sig að bíða hálfu til heilu ári lengur og hafa þá tryggingu fyrir að nú sé bæði nóg og gott vafn fengið. Engum væri það meira gleðiefni en okkur læknunum, að vatn væri svo sem æskilegt væri hér; því að mikið af sjúkdómum hér, á að meiru eða minna leyti, rót sína í vatnsskorti og ræsaleysi. Má þar til sérstaklega nefna taugaveiki. Hún mundi að mestu hverfa þegar vatnsleiðslan væri komin i lag. En borgarar þessa bæjar, sem gjöldin af vatnsleiðslunni eiga að greiða, hafa heimtingu á því að trygging sé næg fyrir því að vatnið verði nægilegt bæði til innan og utan húss þarfa, og svo til þess að slökkva eld, sem hér er helzt of tíður. Fyrir þessu er engin trygging enn og eg trúi því ekki fyr en eg tek á aðAkureyrarbúar láti leiða sig í gönur í vatnsleiðslumálinu enn.“

 

Norðri 8. árg. 1913, 5. tölublað (22.02.1913), blaðsíða 17

Fyrir 100 árum síðan!

Menningin blómstraði á Akureyri fyrir 100 árum síðan – dramatískar bíómyndir og Guðs orð. Eftirfarandi tilkynning birtist á forsíðu Norðurlands þann 15. febrúar árið 1913:

 Kvikmyndaleikhúsið.

 Þar er sýnd um þessar mundir, mynd er sýnir áhrif morfíns á þá er neyta þess, svo að notkun þess verður að þungri óviðráðanlegri ástríðu, eins og oft ber við erlendis. — Myndin er annars langur atburðaþráður er lýsir æfiferli ungrar stúlku, sem lendir í ástaræfintýri með giftum manni er hún heldur að sé ógiftur og ætli að eiga sig, en verður svo örvingluð er hún kemst að því, að hún er táldregin, að hún sleppir sér enn dýpra í lauslætislifnað og er þar margt áhrifa mikið. Að lokum getur hún hefnt sín grimmlega á þeim er tældi hana frá meyjar-sakleysi sínu. Myndin endar með sjálfsmorði.

 Kirkjan.

 Hádegismessa á morgun.“

 

Norðurland 13. árg. 1913, 4. tölublað (15.02.1913), blaðsíða 13