Af hverju ekki?
Af hverju bjóðum við ekki upp á kaffihús á Akureyri þar sem nemendur koma saman til að læra? Akureyri er örugglega einn flottasti skólabær landsins. Öll lífsins gæði og allt það. Við höfum ekki enn rekist á þann leikskóla í bænum sem ekki hefur öfluga skólastefnu, grunnskóla sem er ekki með a.m.k. eitt skólaþróunarverkefni í gangi og í framhaldsskólanum er deigla sem við heyrum alltof lítið af. Við getum stutt við skólabraginn í bænum okkar á margvíslegan hátt. Hugmyndin er sú að búa til miðpunkt. Við vitum að sumir framhaldsskólanemar sjá hag sinn í að læra á kaffihúsi. Flestum grunnskólanemum finnst notalegast að læra við eldhúsborðið. Háskólanemum finnst ómissandi að fá kaffisopann sinn á löngum dögum. Þarna er óplægður akur. Mannauðshaf. Af hverju ekki lexíukaffihús á Akureyri? Staður þar sem nemendur í eldri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla koma saman til að læra. Á staðnum yrði góð kaffivél og lítill djúsbar. Vinalegt starfsfólk og gestir skapa í sameiningu stemningu fyrir námi, hópavinnu, aukatímum og
eflingu. Eldri nemendur aðstoða yngri nemendur. Nemendur sækja aukatíma til háskólanema. Stór auglýsingatafla með alls konar hagnýtum upplýsingum fyrir leitandi námsmenn. Vettvangur fyrir unga tónlistarmenn til að buska svolítið. Ljóðskáld framtíðarinnar troða upp. Örfyrirlestrar um allt milli himins og jarðar. Frítt net en lokað á niðurhal. Opið frá 11 til 20 alla virka daga. Rauði krossinn hefur boðið upp á heimanámsaðstoð fyrir unglinga á höfuðborgarsvæðinu með dyggri aðstoð sjálfboðaliða. Sú góða hugmynd er hér færð nokkuð í stílinn. Hugsunin er sú sama. Að hjálpa hvert öðru að styðja við skólabæinn Akureyri á skemmtilegan og lifandi hátt. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Hlynur Hallsson
Bíddu nú við. Á strax að ala börnin sem eitthvert lattelepjandilopapeysulið!!!
Comment — February 5, 2013 @ 16:44
Arnar Már Arngrímsson
Frábær hugmynd. Þá er bara að finna húsnæði. Ég skora á bæjarstjóra að ganga í málið.
Comment — February 8, 2013 @ 10:03