Þegar stórir siga litlum – saga af stríðni og illkvitni
Eftirfarandi grein birtist í Alþýðumanninum í mars 1935. Titill greinarinnar er Þegar stórir siga litlum. Höfundur er Sigurður Kristinn Harpan. Saga af stríðni og illkvitni fyrri tíma.
–
Þegar stórir siga litlum
Ég geng í hægðum mínum niður Kaupvangsstræti. Nokkur fótmál á undan mér trítla tvær smástelpur og leiðast. Þær eru að koma úr barnaskólanum og labba þarna áfram í sakleysi sínu, háttprúðar og kátar.
Ég hefi eigi lengi gengið, er ég tek eftir því, að nokkrir menn hafa numið staðar í skjóli við vagn, sem stendur á strætinu. Þeir eru eitthvað að pískra sín á milli og benda agnarlitlum strákhnokka, sem hjá þeim stendur. Hnokkinn snýr sér við og glápir heldur vígalegur á litlu telpurnar, sem nú eru að fara fram hjá vagninum. Þegar þær eru komnar spölkorn áfram, hleypur hann eins og kólfi væri skotið á eftir þeim, þrífur handfylli sína í hárið á annari þeirra og lumbrar á henni með kreftum hnefa, talsvert duglega. Því næst snýr hann skjótlega til baka, þangað sem mennirnir fela sig á bak við vagninn og hlægja. En telpurnar halda áfram, furðu hressar eftir árásina.
Ég nem staðar eigi mjög fjarri hinum lífsglöðu mönnum. Mig langar til að kynnast hátterni þeirra nokkru nánar. Það gefst líka tækifæri til þess. Þarna koma tvær ungar, fullvaxta stúlkur, niður strætið. Mennirnir bak við vagninn hlægja, og segja við snáðann: „Þarna koma stúlkur! Hlauptu nú!“ Drengur lætur ekki segja sér þetta tvisvar. Hann hleypur spölkorn á móti stúlkunum, grípur snjó og hnoðar kúlu, en bíður á meðan þær fara fram hjá. Svo sendir hann kúluna og hún kemur í bak annari stúlkunni. Þær snúa sér báðar við, rétt sem snöggvast, en taka svo á rás og hlaupa niður strætið. Mennirnir bak við vagninn hlægja og segja: „Hlauptu! Hlauptu!“ Og snáðinn er þegar rokinn af stað. Hann nær stúlkunum fljótlega, þrífur í kápulaf annarar og rassskellir hana af öllum mætti. Stúlkurnar herða hlaupin, en drengur snýr aftur.
Enn koma tvær ungar stúlkur niður strætið. „Hlauptu!“ segja mennirnir bak við vagninn. Drengur sendir snjókúlu en geigar, því hún flýgur yfir höfuð stúlkunum. Þær heyra hvininn og skima kringum sig nokkuð gustmiklar. Þá espast strákur, æðir á eftir þeim og nær í kápulaf, sem hann hangir hraustlega í, uns stúlkunum tekst að hrista hann af sér.
Mennirnir bak við vagninn ganga hlægjandi burtu, því skemtuninni er lokið. Ég geng líka burtu, og er óneitanlega miklu fróðari en áður, því að nú veit ég, fyrir eigin sjón, hvaða aðferðir þroskaðir drengskaparmenn beita, til að innræta bernskulýðnum mannlund og kurteisi!!
Sigurður Kristinn Harpan
–
Heimild:
Sigurður Kristinn Harpan. (1935, 26. mars). Þegar stórir siga litlum. Alþýðumaðurinn, bls. 2.
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd