main image

Þegar boðflennur birtust á símalínunni

Hver man ekki eftir að hafa fengið óvænta boðflennu á línuna í símtali á tímum snúrusímanna? Eða ratað óvart inn í símtal sem þriðji aðili og hlustað á samtalið án þess að láta vita af sér? Línum sló gjarnan saman hér áður fyrr og var það kjörinn vettvangur fyrir kjaftasögur. Með tilkomu þráðlausra síma og síðar snjallsíma hefur sögum af þriggja manna samtölum í gegnum síma snarfækkað. Hið sama verður ekki sagt um kjaftasögurnar. Þær finna sér nýjan farveg.

 

Árið 1974 kom upp alvarlegur tæknigalli í símkerfinu á Akureyri. Dagur flutti fréttir af málinu.

„Að undanförnu hafa margir Akureyringar óvart orðið áheyrendur að samtölum samborgara sinna, þegar þeir hafa ætlað að nota síma til innanbæjarsamtala. Bregst fólk eðlilega misjafnlega vel við þessum truflunum, þar sem menn eru því vanastir að aðeins tveir ræði saman í einu í gegnum síma.

Af þessu tilefni hafði blaðið samband við Maríus Helgason, umdæmisstjóra Landssímans og sagði hann að mikil brögð hefðu verið að því undanfarið að línur slægjust saman. Gerist þetta vegna flókins tæknigalla í kerfinu. Er verið að leita að biluninni en verkið gengur seint, bæði vegna erfiðra vinnuskilyrða og mannfæðar.

Sagði Maríus að samskonar bilun hefði orðið á símakerfinu á Akureyri í vetur. Þá tókst 3 starfsmönnum Landssímans að finna bilunina eftir að vera búnir að hringja 6000 símtöl á einni nóttu. Sagði hann að auðveldara væri að finna tæknigallann að degi til þegar símalínurnar væru í notkun. Hvetur hann því fólk til að taka vel símaviðgerðarmönnum, sem kunna að rjúfa samtöl fólks.“

 

Heimild:

Þriðji maður á línunni. (1974, 8. ágúst). Dagur, bls. 8.