main image

Jólavagn, áramótatónleikar og málverk Helga í Kristnesi

Hann trúði á Krist. Einn vetur mikinn í aðdraganda jóla helgaði hann sér blett fyrir framan Flóru í Hafnarstræti á Akureyri. Þar kom hann sér upp búi í jólavagni einum. Hann sat frá miðjum desember og fram að jólum og seldi gestum og gangandi jólatré og handverk. Á Þorláksmessu færði hann bú sitt aftur í Kristnes. Í búfærslunni horfði hann inn til fjarðarins er kallaður var Eyjafjörður af eyjum þeim er þar lágu úti fyrir. Þá sá hann að svartara var yfir. Í skugga farsóttar naut hann jóla í Kristnesi. Eftir þetta varð honum hugsað til áramóta og þess hvort Landnám hans og hljóðfæraleikaranna myndi óma að hans ráði eins og undanfarin áramót.

Úr Grenndargrálu

 

Helgi Þórsson frá Kristnesi í Eyjafjarðarsveit er fjöllistamaður. Hann smíðar gripi úr járni, sker muni úr tré, hannar og saumar fatnað og málar myndir svo eitthvað sé nefnt. Fjölbreytileikinn hefur líklega ekki farið framhjá þeim sem lögðu leið sína í jólavagn þeirra Helga og Beate Stormo eiginkonu hans á aðventunni. Í hverju skúmaskoti vagnsins úði og grúði af smáum og stórum handverksmunum.

Málverk sem Helgi var með til sölu í vagninum og sýnir andstæðar kynjaverur vakti athygli Grenndargralsins; dökkt kattardýr og ljóst dýr af héraætt, hauskúpa og ávöxtur. Þannig hefur náttúran verið áberandi í listsköpun Helga í gegnum tíðina þar sem andstæður takast á, gjarnan í formi dýra og beina, lífs og dauða. Í huga undirritaðs vekur málverkið upp hugrenningatengsl við fortíðina, n.t.t. við ákveðna hirslu sem er í fórum Gralsins og inniheldur tæplega 40 ára gamalt „helgiskrín“.

Aukinheldur er Helgi söngvari hljómsveitarinnar Helgi og hljóðfæraleikararnir. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum væru þeir félagar núna að gera sig klára fyrir árlega áramótatónleika. Helgi, Atli, Beggi, Bobbi og allir hinir sem hafa staldrað við í bandinu um lengri eða skemmri tíma hafa um langt árabil staðið á sviðinu á næstsíðasta degi ársins og þannig kvatt ófá árin með söng og hjóðfæraleik.

Í ljósi aðstæðna má gera ráð fyrir að heimsóknum í jólavagn Helga og Beate í desember hafi fækkað frá fyrri árum. Þá er spurning hvort Helgi og hljóðfæraleikarar hans ná að kveða burt árið 2020 – og öll leiðindin sem því árinu fylgja. Grenndargralið hafði samband við Helga og spurði hann út í þennan óvenjulega desembermánuð í jólavagninum og hvernig tónleikahaldi H&H verði háttað um áramótin.

Salan í vagninum gekk vel. Það var reitingur af fólki alla dagana, en maður saknaði svolítið að geta ekki verið með smá Þorláksmessu partístemmingu. Við vorum með opið, helgina 12. desember og svo frá 16. – 23. des. Eins og venjulega voru þetta jólatré úr eigin ræktun og greinar ásamt handverki eftir okkur hjónin og reyndar fleiri fjölskyldumeðlimi.

Já tónleikar verða með minna móti um þessi áramót. En Haukur á Græna vill fá okkur í janúar. Ef til vill spilum við bara fyrir hann og dyravörðinn. Líklega er hann kominn með fráhvarfseinkenni.

Hvað með málverkið með kisunni, héranum, hauskúpunni og ávextinum. Hver er sagan á bak við það og er það selt eða falt?

Hvernig sem á því stendur þá eru nokkur stef sem æfinlega hafa gengið í gegnum mína myndlist. Það eru blóm, dýr, hálfnaktar konur, hauskúpur og augu sem stara beint á áhorfandann. Á Þessari mynd er auk þess appelsína en hún er sótt í gullöld hollenskra kyrralífsmálara, en því miður var ekki pláss fyrir nakta konu enda er myndin svo lítil. Já myndin kostar 15000 krónur. Útsölurnar eru hafnar.

Listaverk Helga síðustu áratuga eru orðin fjölmörg rétt eins og þau eru fjölbreytt. Eitt er það listaverk eftir fjöllistamanninn sem verður að teljast einstakt í sinni röð. Undirritaður fékk jólakort á Litlu jólum í grunnskólanum í Hrafnagilshreppi í desember 1981. Hann var þá á yngsta ári. Kortið var frá nemanda á elsta ári. Á gulum pappír er máluð mynd af einhvers konar fígúru sem líkist helst ungum skógarbirni. Hún minnir þó einnig á einhvern óræðan hátt á gamlan elg, hverju sem sætir. Fígúran heldur á priki. Á kortinu stendur; Gleðileg jól. Til Brynjars. Frá Helga Þó.

Ekki var algilt að jólakort væru teiknuð af gefandanum sjálfum árið 1981 þegar stimplar og glansmyndir réðu för við kortagerð. Síður en svo. Það að teikningin bæri vott um hæfileika þess sem gerði og gaf jólakortið var kannski enn fágætara og því vakti það mikla kátínu viðtakandans á sínum tíma. Svo mikla að því var strax helgaður sérstakur bústaður í fallegri hirslu með helgum munum úr æsku svo sem gúmmí-fígúrunum He-Man og Beina og appelsínugulu kisulórunni Gretti.

Allar götur síðan 1981 hefur þetta litla málverk Helga, sem mögulega er í hópi elstu málverka listamannsins, legið í hirslunni góðu. Grenndargralið hefur nýlega tekið í notkun vinnuaðstöðu til grúsks í Kristnesi. Kannski er við hæfi að ramma málverkið inn og hengja það upp þar. Vinnuaðstaðan er í gömlu æfingahúsnæði Helga og hljóðfæraleikaranna.

 

Myndir eru úr safni Helga Þórssonar.

Jólin sigldu framhjá

Fyrir jólin 1974 hafði blaðamaður Íslendings samband við tvo þekkta bæjarbúa á Akureyri og bað þá um að deila minningum frá eftirminnilegum æskujólum með lesendum blaðsins. Afraksturinn birtist í jólablaði sem kom út 19. desember þetta sama ár undir liðnum Jól sem aldrei gleymast. Minningar Fríðu Sæmundsdóttur kaupkonu (1908-1998), Jól allsnægtanna, má lesa á sagnalist.is. Grenndargralið rifjar upp frásögn Kristjáns frá Djúpalæk (1916-1994), Jólin sigldu framhjá.

Jólin sigldu framhjá

Það er aðfangadagur jóla. Lítill drengur er á rölti úti við, því veðrið er gott og hann er friðlaus af tilhlökkun. Kvöldið framundan býr yfir miklum fögnuði. Í huga hans vakir óljós minning frá síðustu jólum, helgibirta, óumræðanleg gleði. Einstök atriði man hann ekki. Hann starir upp í blábjartan himininn, leitar stjörnu, hugsar um komu jólanna. Og nú ber nokkuð sérstakt fyrir augu hans. Upp frá suðurfjöllunum siglir stórt, gullið skip vestur yfir himininn. Drengurinn starir bergnuminn á þennan glæsiknörr. Hvert getur skipið verið að fara? Hvað mun vera þar innanborðs? Þetta var ægifögur sýn og litbrigðin margvísleg. Eldskip, gullskip undir dökkbláum, flöktandi seglum. Hvað var það?

Í þessum svifum kemur Stóri-bróðir út á hlaðið. Drengurinn þýtur til hans og spyr flaumósa: — Hvaða skip er þarna uppi, hvert ætlar það, hvað flytur það? Stóri-bróðir gerir sig alvarlegan og svarar eins og ekkert væri hversdagslegra en svona skip: — Þetta eru jólin, ef ég þekki rétt. — En koma þau ekki hingað, fara þau framhjá? Drengurinn starir opineygur á hinn alvitra bróður sinn. — Ja, hver veit, þú verður að hafa gát á því hvert skipið fer. Svo er hann farinn.

Og drengurinn mænir á hinn glæsta knörr jólanna og þykir hann sigla með ólíkindum hratt. Hann tekur að óttast mjög að skip þetta muni ekki sveigja niður á haf myrkursins, sem nú lykur jörð, né taka höfn á hlaði þessa bæjar. Í huganum reynir hann að toga skipið niður til sín. Hann hrópar á það í örvænting, biður og skipar. En skip jólanna lætur ekki að orðum hans, það hraðar för sinni vestur, leysist upp og hverfur.

Með ósegjanlegan harm í huga gengur drengurinn inn í bæinn og segir snöktandi frá því ,að jólin séu farin hjá og aldrei verði gaman meir á þessum bæ. Huggunarorð móður hans hafa ekkert að segja í svo stórri sorg. Hann grætur þar til svefninn kemur og ber hann inn á þau lönd, þar sem aldrei þrýtur jól.

En aðfangadagskvöldið kom. Og þegar drengurinn vaknaði, viss um, að ekkert væri fram undan nema leiði, þá vaknaði ný von, er hann varð þess var, að allir voru í önnum við undirbúning hátíðarinnar. Kannski kæmu þau, þrátt fyrir allt, jólin hans?

Og þegar börnin voru afklædd hvert af öðru og böðuð í stórum þvottabala, síðan færð í hrein föt, ný eða viðgerð. Og þegar fullorðna fólkið klæddist einnig sparifötum og borðin svignuðu undan hátíðarmat, vék efi drengsins smátt og smátt. Og vonin varð að vissu, er hann stóð með litla, rauða jólakertið í höndunum og horfði á flöktandi Ijós þess. Öll börnin fengu kerti og spil. Og nú fékk drengurinn litli fyrsta jólakortið sitt. Það var frá Stóra-bróður, og á því var fögur kirkja, að baki blikaði stjörnuskari á bláum himni. Svona gat heimurinn verið góður.

En á bak kortsins var skrifað: — Jólin komu til þín, litli bróðir, þó skipið, sem ég sagði þér að flytti þau, færi hjá. En það var ekki neitt skip, aðeins ský, roðið geislum frá lágri sól.

Já, jólin komu. Undarlegur niður fyllti baðstofuna, allt var bjart og gott. Og þegar fegursta ævintýri allra ævintýra var Iesið, sagan um fjárhirðana, sem vöktu í haganum og birta drottins ljómaði kringum þá, og síðan frásagan um móðurina og barnið í fjárhúsinu, þá varð sál drengsins upp numin og hún sameinaðist fegurð allrar fegurðar.

Löngu síðar, þegar drengurinn var orðinn talandi, rímaði hann þessa minningu sína, svo hún mætti geymast sem dæmi um gæsku almættisins.

Jól

Ég man hve ég ungur til jólanna hlakkaði heitt

og hræddist um leið, að þau gleymdu að koma til mín.

Ég horfði eftir þeim út í sortann og sá ekki neitt

nema sveimandi skýin og Ijós, er í vestrinu dvín.

 

Einn aðfangadag, er ég reikaði rökkrinu í

og rýndi án afláts og hvíldar á himnanna tjöld.

Hann bróðir minn sýndi mér blóðrautt og geislandi ský:

— Þenna bát eiga jólin. Nú sigla þau framhjá í kvöld.

 

Þá bað ég til Guðs, að báturinn sneri nú við,

en bróðir minn hló, og skýið hélt áfram sinn veg.

Ég hrópaði á jólin og fann hvorki huggun né frið,

en felldi mín tár, þá var enginn svo hryggur sem ég.

 

Og skýið sveif burt, og það bliknaði, smækkaði ótt,

en barnaspil fékk ég og kerti, því nú voru jól.

Og ljósin mín brunnu svo björt þessa heilögu nótt.

Og baðstofukitruna lýsti mín hamingjusól.

 

Heimild:

Kristján Einarsson. (1974, 19. desember). Jólin sigldu framhjá. Íslendingur, bls. 2.

Mynd af Kristjáni: Málverk frá 1966, málað af Kristjáni Friðrikssyni. http://listvinir.is/erindi-um-kristjan-fra-djupalaek/

Skilaboð frá skáldi finnast á viðarplötu í Hamarstíg eftir 75 ár

Á árunum 1931-32 byggðu Jóhann Frímann (1906-1990) og Kristinn Þorsteinsson (1904-1987) parhús við Hamarstíg á Akureyri ásamt eiginkonum sínum, systrunum Sigurjónu (1909-1981) og Lovísu (1907-2002) Pálsdætrum. Húsið var reisulegt og af stærri gerðinni enda gert ráð fyrir tveimur fjölskyldum undir sama þaki. Fjölskyldur þeirra Jóhanns og Kristins bjuggu í húsinu á umbrotatímum í sögu þjóðarinnar, allt þar til Jóhann og Sigurjóna byggðu sér hús við Ásveg árið 1957. Rétt eins og önnur hús sem komin eru á virðulegan aldur, geymir húsið við Hamarstíg sögur og minningar fólksins sem í því bjó – sögur sem hverfa inn í eilífðina þegar sögupersónurnar hverfa á vit forfeðra sinna. Einstöku sinnum rata þó örsögur sögupersónanna til okkar sem eftir lifum fyrir einskæra tilviljun. Ritaðar heimildir koma fram í dagsljósið og færa okkur ný sannindi um veröld sem var eða gamlir munir sem koma í leitirnar og varpa ljósi á löngu liðna atburði. Einn slíkur fundur átti sér stað í Hamarstíg 6 ekki alls fyrir löngu.

Hverfum rétt sem snöggvast aftur til kreppuáranna. Árið 1929, um það bil tveimur árum áður en byggingaframkvæmdir hófust í Hamarstíg, var matvörudeild KEA stofnuð. Kristinn var ráðinn deildarstjóri svo þau hjónin fluttu frá Ólafsfirði þar sem þau höfðu búið. Gegndi Kristinn stöðunni til ársins 1978 þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Kristinn og Lovísa eignuðust þrjú börn. Um það leyti sem þau hugðu á vistaskipti, haustið 1928, var Jóhann ráðinn skólastjóri Iðnskólans. Ári síðar, sumarið 1929 gengu Jóhann og Sigurjóna í hjónaband. Þegar Jóhann festi ráð sitt var hann orðinn lífsreyndari en margur jafnaldri hans þrátt fyrir ungan aldur; nám við lýðháskóla í Danmörku, ferðalag um Evrópu og dvöl í klausturskóla í Luxemborg segir allt sem segja þarf. Þá ferðaðist hann um Sovétríkin árið 1933. Jóhann gegndi stöðu skólastjóra Iðnskólans til ársins 1955 þegar hann tók við stöðu skólastjóra Gagnfræðaskóla Akureyrar þar sem hann starfaði til ársins 1963. Jóhanni og Sigurjónu varð þriggja barna auðið.

Menning og listir hafa líklega einkennt fjölskyldulífið í Hamarstíg um miðja 20. öldina. Kristinn var annálaður söngmaður og söng gjarnan með öðrum kunnum söngmanni, Jóhanni Konráðssyni. Þá spilaði Kristinn einnig á píanó. Jóhann var skáld og rithöfundur. Hann sendi frá sér ljóðabækur, samdi texta við kórlög og skrifaði leikrit sem sýnt var bæði hjá Leikfélagi Akureyrar og Reykjavíkur og flutt í útvarpi. Menning og listir svífa enn yfir vötnum í Hamarstíg 6. Stundum finnst manni sem tíminn standi í stað. Ætli rithöfundinum sem býr í húsi þeirra félaga í dag hafi ekki liðið svo eitt augnablik þegar hún fann skilaboð nú á dögunum – rituð af Jóhanni Frímann á gamla viðarplötu – skilaboð sem legið hafa í leyni í 75 ár? Brynhildur Þórarinsdóttir sagði frá fundinum á fésbókarsíðu sinni. Með leyfi Brynhildar birtir Grenndargralið færsluna þar sem hún lýsir samtali skáldanna, svona nokkurs konar skáldatali, háð stað en ekki stund.

„margt áhugavert rekst maður á í framkvæmdabrasi. Þessi ljóðrænu hughrif komu í ljós aftan á stigaþrepi þegar gömul plata var rifin af. „Hugfanginn þann 1. apríl 1945 af lagi sem Kr. Þ. er að leika á slaghörpu kl. 10.30 e.h.“ Í húsinu bjuggu þá upphaflegir eigendur, Jóhann Frímann, skólastjóri Iðnskóla Akureyrar, sem þetta ritar, og píanóleikarinn Kristinn S. Þorsteinsson, útibússtjóri hjá KEA, ásamt konum sínum, systrunum Sigurjónu og Lovísu. Stiginn skiptir húsinu í tvennt og bjuggu fjölskyldurnar austan og vestan megin. Áletrunin er í kjallarastiganum svo þar hefur skólastjórinn staðið andaktugur og hlustað á svila sinn. Ef til vill lagði hann leið sína sérstaklega niður til að hlusta því gólfin voru einangruð með sagi og tímaritum(!) svo ómarnir úr píanóstofunni hafa borist vel niður en síður milli helminga. Við verðum bara að ímynda okkur hvaða tónverk Kristinn var að leika að kvöldi páskadags fyrir 75 árum. Ætli það hafi endurspeglað innra eða ytra líf? Bjartsýni eða trega? Það er 1. apríl 1945: Fréttir herma að Bandamenn séu að ná undirtökunum í stríðinu mikla, Bandaríkjamenn hafa ráðist á Okinawa. Engum er þó enn ljóst að síðasti mánuður Hitlers er runninn upp. Hörmungar stríðsins hafa skekið Íslendinga; nýafstaðin er minningarathöfn um þau sem fórust þegar Dettifossi var sökkt. Reynum að heyra fyrir okkur hvað Kristinn lék. Það er páskadagskvöld, upprisuhátíð, tími vonar. Ber tónlistin þess merki eða er treginn alsráðandi?“

 

 

 

 

 

Heimildir:

Arnór Bliki Hallmundsson. (2017, 12. mars). Hús dagsins: Hamarstígur 6. https://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/2192171/

Húsa og íbúaskrá Ólafsfirði. (e.d.).  https://sites.google.com/site/sveinnolafsfirdi/research?tmpl=%2Fsystem%2Fapp%2Ftemplates%2Fprint%2F&showPrintDialog=1

Kristinn Pálsson. (1987, 19. júní). Minning: Kristinn S. Þorsteinsson. Morgunblaðið, bls. 48-49.

Sverrir Pálsson. (1990, 6. mars). Minning. Jóhann Frímann fyrrverandi skólastjóri. Dagur, bls. 14.

Myndir:

Brynhildur Þórarinsdóttir og Héraðsskjalasafn Austur Húnavatnssýslu.

Mannbætandi jólaplata með merkilega sögu

Plötuútgáfan SG-hljómplötur gaf út jólaplötuna Oss berast helgir hljómar árið 1968. Hér er um margt mjög athyglisverð hljómplata á ferðinni. Platan er 33 snúninga og inniheldur 14 sálma og helgilög í flutningi Kirkjukórs Akureyrar. Hugmyndina að útgáfu plötunnar átti Fríða Sæmundsdóttir. Stafsetning á nafni kirkjunnar þar sem platan var tekin upp vekur athygli. „Hljóðritun fór fram í Mattíasarkirkju, Akureyri“.

Stjórnandi Kórsins er Jakob Tryggvason og orgelleikari Haukur Guðlaugsson. Haukur spilar á pípuorgel Kirkjunnar sem þá var í notkun en það var af mörgum álitið „eitt bezta hljóðfæri sinnar tegundar hérlendis.“ Þrír Akureyringar komu að hönnun plötuumslagsins sem er teiknað af Kristjáni Kristjánssyni. Ljósmyndina af kirkjunni sem prýðir framhliðina tók Eðvarð Sigurgeirsson en myndina af kórnum á bakhliðinni tók Matthías Gestsson.

Platan er einstök fyrir margra hluta sakir. Um er að ræða fyrstu sálmasöngplötu af þessari stærð sem gefin er út hér á landi auk þess sem platan er sú fyrsta á vegum SG-hljómplatna sem tekin er upp í stereo. Pétur Steingrímsson sá um hljóðritun. Þá er gaman að segja frá því að hljómplatan, eða öllu heldur efni hennar, kom við sögu í fyrsta skipti sem útvarpað var beint frá guðsþjónustu í Akureyrarkirkju í útvarpi allra landsmanna, Rás 1. Þessir tímamótaútsending fór í loftið á jóladag 1968, nokkrum dögum eftir að platan kom í verslanir. Kirkjukór Akureyrar söng við undirleik Jakobs. Séra Pétur Sigurgeirsson þjónaði fyrir altari.

Platan fékk góða dóma hjá Hauki Ingibergssyni í Morgunblaðinu þann 20. desember 1968. Í lokaorðum ritar hann: „Gott er að geta gengið að hljómplötu þessari, er amstur hins daglega lífs er að kaffæra þreyttar sálir. Er þá fátt betra en draga sig í hlé um stund, setja plötuna á fóninn, og tónar hennar munu vissulega færa mann ögn nær guði sínum. Þökk sé Kirkjukór Akureyrar fyrir mannbætandi hljómplötu.“

 

Heimildir:

Haukur Ingibergsson. (1968, 20. desember). Hljómplötur, Morgunblaðið, bls. 15.

Oss berast helgir hljómar [plötuumslag]. (1968). SG-hljómplötur.

SJ. (1968, 29. desember). Messuðu í kirkjum fullum af fólki á jólunum. Tíminn, bls. 16.

Dæmdi úrslitaleikinn meiddur og veikur

Fyrsta Evrópumót kvennalandsliða í handknattleik fór fram árið 1994 í Þýskalandi. Danir stóðu uppi sem sigurvegarar. Evrópumót kvenna, hið fjórtánda röðinni stendur nú sem hæst í Danmörku. Mótinu lýkur 20. desember þegar tvö bestu liðin á mótinu munu berjast um gullið. Norðmenn mæta Dönum í undanúrslitum á morgun, 18. desember. Í hinum undanúrslitaleiknum etja Frakkar kappi við Króata.

Um þessar mundir eru nákvæmlega 24 ár síðan Evrópumót kvenna í handbolta fór fram öðru sinni. Danir og Norðmenn spiluðu til úrslita um Evrópumeistaratitilinn þann 15. desember árið 1996. Danir hrósuðu sigri annað Evrópumótið í röð og að þessu sinni á heimavelli. Dómarar í leiknum voru þeir Stefán Arnaldsson og Rögnvald Erlingsson.

Meira en áratugur er liðinn frá því að Stefán lagði flautuna á hilluna eftir langan og glæsilegan feril. Sjálfsagt á hið sama við um íþróttadómara og íþróttamenn sem leggja skóna á hilluna. Lífið heldur áfram að hverfast um leikinn í einhverri mynd, þótt úr fjarlægð sé.

Nú þegar Danir og Norðmenn undirbúa sig fyrir rimmuna á morgun er við hæfi að fá dómarann sem dæmdi úrslitaleikinn fyrir 24 árum síðan til að spá í spilin. Grenndargralið hafði upp á Stefáni Arnaldssyni hjá Útfararþjónustu Kirkjugarða Akureyrar þar sem hann starfar. Þrátt fyrir annríki í aðdraganda jóla gaf Stefán sér tíma til að rifja upp leikinn eftirminnilega í desember árið 1996. Þá lék Grenndargralinu forvitni á að vita hvaða lið Stefán telji að standi uppi sem sigurvegari á sunnudaginn.

„Þessi leikur var auðvitað merkilegur í flesta staði. Fyrsti úrslitaleikur hjá mér á stórmóti en ég tók milliríkjadómaraprófið aðeins nokkrum árum fyrr eða 1989. Þarna var um nágrannaslag að ræða, tvö frábær lið með mikla snillinga innanborðs. Heiðurinn var því mikill að fá að dæma fyrir fullu húsi á heimavelli Dana. Auðvitað var pressan mikil að standa sig sem ég tel að við félagarnir höfum gert.

Þessi leikur var einnig mjög merkilegur vegna þess að enginn leikmaður var rekinn útaf í tvær mínútur. Það þótti og þykir væntanlega enn mjög undarlegt. Við náðum að leggja leikinn þannig upp, leyfa leikmönnum að takast hæfilega á og af heiðarleika, þannig að við værum ekki í aðalhlutverki. Í góðri samvinnu við leikmenn tókst það. Jafnvel Anja Andersen leikmaður Dana var mjög sátt en hún kom sér ætíð í vandræði gagnvart dómurum á þessum tíma.

Í þriðja lagi var svolítið merkilegt að ég dæmdi þennan leik meiddur og veikur. Ég segi frá því núna. Ég hafði fengið brunasár á vinstra hné stuttu fyrir þennan leik þegar við dómararnir vorum í knattspyrnu innanhúss. Ég fékk sýkingu og þurfti að leita á sjúkrahús kvöldið fyrir leikinn. Greiningin var blóðeitrun í fæti! Ég fékk aðhlynningu og hitalækkandi lyf. Ég tók mikla áhættu að mæta svona til leiks, kæmist varla upp með það í nútímanum!  Hver vill missa af úrslitaleik sem þessum? En þetta fór mjög vel, ég get sagt það svona eftir á. Um 5.000 áhorfendur voru líka ótrúlegir og mikil upplifun í leik sem Danir unnu 25 – 23 eftir að staðan í leikhléi var 10 – 10.

Ég held að Frakkland og Noregur muni leika um gullið í þetta sinn. Þetta eru sterkustu liðin núna, Noregur það besta sem gerir mikið tilkall til sigurs á mótinu. Það eru þó ekki alltaf bestu liðin sem sigra að lokum. Það er svo margt sem hefur áhrif og allt þarf að ganga upp. En kannski er það bara óskhyggja að Noregur vinni….sjáum til.“

Dómaraferill Stefáns Arnaldssonar spannaði rúma þrjá áratugi með vel á þriðja þúsund leiki. Síðasti leikur Stefáns sem milliríkjadómari var úrslitaleikur í Evrópukeppni félagsliða kvenna árið 2006.

Rangt að vekja falskar vonir um nýtt lyf

Í upphafi árs 1952 birtust fréttir þess efnis að von væri á nýju lyfi til landsins. Miklar vonir voru bundnar við lyfið í stríði gegn alvarlegum sjúkdómi sem hafði herjað á heimsbyggðina með hörmulegum afleiðingum. Almenningur sá fyrir endann á berklafaraldrinum á meðan læknar reyndu að stilla væntingum um virkni lyfsins í hóf. Í apríl 1952 var sagt frá því í Degi að fyrstu sjuklingarnir á Kristneshæli og Vífilsstöðum hefðu fengið hið nýja lyf, Rimifon.

Rimifon – nýja berklalyfið tekið í notkun í Kristneshæli

Rimifon, nýja berklalyfið sem mest hefur verið umtalað síðustu mánuðina, var tekið í notkun á Kristnesi nú nýlega og um svipað leyti á Vífilsstöðum. „Við erum rétt að byrja með þetta“, sagði Jónas Rafnar yfirlæknir á Kristnesi í viðtali við blaðið, „fengum smáskammt, handa 5—6 manns, en meira mun væntanlegt á næstunni. Og um árangur er að sjálfsögðu ekkert hægt að segja. Það eitt er víst, að lyfið er ekki skaðlegt ef það er tekið í hæfilegum skömmtum, en um áhrif þess á sjúkdóminn get ég ekkert sagt að svo stöddu. Fólk virðist vera ákaflega spennt að fá fregnir af því, sem vonlegt er, en rangt væri að vekja falskar vonir í brjóstum hinna sjúku.“

Ummæli erlendra lækna

Þessi ummæli yfirlæknisins hníga mjög í sömu átt og erlendra lækna, er rætt hafa þetta nýja lyf. Nokkrar vonir tengdar við það, en allt of snemma að fagna sigri. Bezt að búast við vonbrigðum, því miður. Einn kunnasti berklalæknir Dana, dr. Tage Hyge, yfirlæknir við berklahælið í Lyngby, sagði t.d. á þessa leið í viðtali við Berlingske Tidende í vikunni sem leið: „Rimifon er efni – töflur sem við vitum ekkert um ennþá. Fyrstu fregnir um lyf þetta bárust bingað frá Ameríku fyrir tveim mánuðum og síðan höfum við hér og fleiri berklahæli fengið nokkrar töflur til reynslu. Maður sér nú til hvað kemur út úr þessu.“

Þekkt þegar 1912

Sjálft efnið hefur verið þekkt síðan 1912, en tilraunir í berklarannsóknum eru nýjar. Rimifon drepur berklabakteríuna. Önnur kunn efni – Streptomycin og PAS – verka öðruvísi, en takmarkið er hið sama: að reyna að stöðva berklana. Fyrir liggur reynsla, m.a. í Bandaríkjunum og Sviss, snotur árangur að sjá á blaði, en enn er ekki hægt að byggja á honum að því marki, að unnt sé að segja að nýja lyfið sé betra en þau gömlu. Enn segir þessi danski yfirlæknir: „Gamli yfirmaðurinn minn, dr. Permin yfirlæknir, sagði eitt sinn við mig: „Maður getur gefið hvaða efni sem er út fyrir að vera berklalyf og náð mikilli frægð um hálfs árs skeið, því að það tekur svo langan tíma að sannreyna að efnið sé einskis nýtt.“ Dr. Permin hafði rétt fyrir sér. Ég lít með eftirvæntingu til nýja lyfsins Rimifon, en reynsla áranna hefur kennt mér varúð í þessum efnum. Versta, sem hægt er að gera gagnvart sjúklingum, er að vekja hjá þeim falskar vonir.

Rimifon bættist í hóp berklalyfjanna Streptomycin sem hafði verið í notkun í nokkur ár og PAS sem var nýrra af nálinni. Skemmst er frá því að segja að ekkert þessara lyfja markaði endalok berklafaraldursins. Þau hins vegar flýttu fyrir bata og áttu stóran þátt í að kveða niður berkladrauginn í lok sjötta áratugarins og í upphafi þess sjöunda.

 

Heimildir:

Helgi Ingvarsson. (1953). Nýju berklalyfin. Reykjalundur, 7. árgangur(1), 30-31.

Rimifon – nýja berklalyfið tekið í notkun í Kristneshæli. (1952, 17. apríl). Dagur, bls. 1.

Einstakar peysur frá Bergdísdesign

Víða vinnur fólk verkin sín í hljóði, jafnvel þó þau eigi erindi við almenning. Dæmi um vandaðan heimilisiðnað í heimabyggð sem lítið fer fyrir en verðskuldar athygli eru prjónaafurðir Bergdísar Kristmundsdóttur. Bergdís er menntaður kjólameistari og kennari. Hún lauk sveinsprófi í kjólasaumi árið 1984 eftir þriggja ára nám við fataiðnaðardeild Iðnskólans í Reykjavík og öðlaðist meistararéttindi í greininni árið 1990. Í millitíðinni starfaði hún um nokkurra ára skeið á hönnunardeild ullariðnaðar SÍS á Akureyri.

Bergdís er búsett á Akureyri þaðan sem hún stjórnar prjónasprotanum sínum Bergdísdesign. Hún hannar og prjónar flíkur úr íslenskri ull í öllum stærðum og gerðum – peysur og tátiljur jafnt sem eyrnabönd og vettlinga. Viðskiptin fara að miklu leyti í gegnum facebook-síðu Bergdísdesign. Einnig hefur Bergdís verið með vörurnar sínar í umboðssölu í ullarvöruversluninni Fold-Önnu og fleiri verslunum.

Grenndargralið sló á þráðinn til Bergdísar og spurði hana út í prjónaskapinn í jólavertíðinni og hvaða valkostir standa áhugasömum viðskiptavinum Bergdísdesign til boða. „Það hefur verið einhver sala núna fyrir þessi jól en þó ekki svo mikið. Valkostir, ja það eru t.d. engar tvær peysur eins og því má segja að hver og ein peysa sé einstök. Þá er hægt að panta tátiljur, eyrnabönd og vettlinga í öllum mögulegum litum, allt eftir smekk hvers og eins. Áhugasamir geta haft samband við mig í gegnum síðuna mína.“

Fleiri myndir af hönnun og prjónaafurðum Bergdísar má nálgast á facebook-síðu Bergdísdesign.

Hver getur treyst á smokkinn ef hann er settur á hausinn?

Orðin „eyðni“ og „smokkur“ voru mikið á milli tannanna á fólki árið 1987. Litið var á smokkinn sem helsta vopnið í baráttunni gegn HIV-sjúkdómnum þó sumir hefðu efasemdir um ágæti verjunnar.

Fullorðinn maður á Eyrinni, eins og hann var titlaður í Degi, hafði samband við blaðið í ársbyrjun 1987 vegna ummæla Reynis Valdimarssonar læknis um smokkinn nokkrum dögum fyrr. Í grein sem ber yfirskriftina Smokkurinn er ekki afgerandi vörn varar Reynir fólk við að leggja allt sitt traust á ílangan gúmmípokann. Þó vissulega væri hann liður í vörninni þyrfti fleira að koma til, t.a.m. breytt kynferðishegðun. „Hann [smokkurinn] nær nú tiltölulega skammt því það er vitað mál að undir vissum kringumstæðum vill hann gleymast eða er ekki rétt notaður“ segir Reynir í viðtali við Dag þann 28. janúar 1987.

Fullorðna manninum á Eyrinni var ekki alveg rótt og sá ástæðu til að koma athugasemdum á framfæri vegna greinarinnar. Þær birtust í Lesendahorni Dags þann 2. febrúar. Þó hann segðist ekki sjálfur hafa mikla reynslu af notkun smokksins hefði hann fram að þessu talið hann vera sæmilega örugga getnaðarvörn.

„Mér brá því nokkuð þegar ég las fyrirsögnina á fréttinni: „Smokkurinn er ekki afgerandi vörn“ hafða eftir Reyni Valdimarssyni lækni. í fréttinni kemur síðan skýringin, sem sagt að smokkurinn er ekki örugg getnaðarvörn vegna þess að „undir vissum kringumstæðum vill hann gleymast eða er ekki rétt notaður.“ Þykir nokkrum skrítið. Hver ætli geti svo sem treyst á smokkinn ef hann á engan smokk eða setur hann á hausinn á sér „þegar á hólminn er komið“ eins og stóð í fréttinni. Ég vildi bara koma þessu á framfæri þannig að menn hættu ekki að treysta á þetta verkfæri,” sagði maðurinn og vildi benda á að yfirleitt er að finna notkunarleiðbeiningar.“

Heimildir:

Stefán Þór Sæmundsson. (1987, 28. janúar). Smokkurinn er ekki afgerandi vörn. Dagur, bls. 12.

Rétt notkun á smokkum [Lesendahornið]. (1987, 2. febrúar). Dagur, bls. 5.

Vísukorn lífskúnstnersins Elmars Sindra

Samkvæmt nútímamálsorðabók Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er lífskúnstner „einstaklingur, t.d. listamaður eða menntamaður, sem lifir frjálsu lífi óbundinn af reglufestu vinnandi manna“. Lýsingin á ágætlega við grunnskólakennarann og tónlistarmanninn Elmar Sindra Eiríksson.

Elmar Sindri tilkynnti á facebook þann 2. nóvember sl. að hann ætlaði sér að birta frumsamin vísukorn daglega út árið, þrátt fyrir enga eftirspurn. 60 dagar eftir af þér einstaka og eftirminnilega 2020. Vegna engrar áskorunar ætla ég að telja niður til áramóta og setja inn vísnasnöpp eða vísnamyndir sem ég hef hnoðað saman undanfarin ár.

Tveir þriðjungar daganna 60 eru nú liðnir og Elmar hefur staðið skil á 40 skömmtum í bundnu máli á fésbókinni sinni. Kennir ýmissa grasa í ljóðum Elmars og óhætt er að segja að þau fylli allan tilfinningaskalann, allt frá sorginni yfir dauða Diego Maradona til gleðinnar sem fylgir því að gæða sér á góðum sviðakjamma. Ljóðin eru myndskreytt.

Hér getur að líta nokkur vel valin sýnishorn af ljóðum Elmars Sindra.

 

Myndir:

Atli Rúnar Halldórsson. (2016). Elmar Sindri spilar á gítar fyrir Guðna Th. Jóhannesson og Elizu Reid á göngu þeirra um Dalvík á Fiskidaginn mikla 6. ágúst 2016. Myndin birtist í Morgunblaðinu. Svarfdælasýsl – um Svarfdælinga í blíðu og stríðu. https://svarfdaelasysl.com/2016/08/11/herra-rokk-forsetahjon-og-senuthjofur-a-asvegi/

Aðrar myndir eru í eigu Elmars Sindra Eiríkssonar.

Þegar Stekkjastaur var stolið og Bjúgnakrækir brotinn

Það eru ekki alltaf jólin hjá kaupmönnum í desember. Allavega var það ekki tilfellið um aldamótin síðustu. Eigendur verslana í miðbæ Akureyrar voru rasandi yfir níðingsverkum sem framin voru í Jólabænum, sem svo var kallaður, eftir næturbrölt skemmtanaglaðra skemmdarvarga á aðventu árið 1999. Kaupmenn þurftu að takast á við síendurtekin skemmdarverk á jólaskrauti þar sem vargarnir eyrðu engu. Stekkjastaur stóð styrkum fótum í Hafnarstræti, stinnur eins og tré en var engu að síður rifinn upp með rótum. Honum var stolið í skjóli nætur. Þrátt fyrir að vera brögðóttur og snar náði Bjúgnakrækir ekki að forða sér undan skemmdarvörgunum sem brutu hann í mél og grýttu líkamspörtunum í nærliggjandi hús.

Dagur Akureyri-Norðurland ræddi við starfsfólk Jólabæjarins og Borgarsölunnar Turninum, þau Ólaf Hilmarsson og Jónu Margréti Sighvatsdóttur um ástandið í miðbænum.

Ólafur lét hafa eftir sér að brottnám vesalings Stekkjastaurs hefði ekki átt að fara framhjá neinum þar sem hann stóð utan gáttar húsnæðis Landssímans í Hafnarstræti. Ekki minna en pallbíl hefði þurft til að fjarlægja Sveinka. „Hann var bara tekinn í heilu lagi. Ef hann hefði verið skemmdur þá hefðu sést þarna flísar og annað. Það er mjög leiðinlegt að fólk skuli ekki geta látið þetta í friði“ sagði Ólafur við blaðamann Dags.

Jóna Margrét kvaðst vera orðin langþreytt á ódæðisverkunum. Raddir þess efnis að Jólabærinn stæði ekki undir nafni vegna fátæklegra jólaskreytinga ætti sér skýringar í skemmdarverkunum. Eftir að endurtekið hafði verið fiktað við jólaseríur utan á Turninum var gripið til þeirra örþrifaráða að taka þær niður. Til að kóróna framgöngu skemmdarvarganna var hönnunarverk myndlistarnema brotið þegar Bjúgnakrækir fékk að finna til tevatnsins. Það var þó lán í óláni að nokkrir úr hópi myndlistarnemanna voru staddir í miðbænum og urðu vitni að því þegar Bjúgnakrækir varð fyrir líkamsárás. Í þetta skiptið náðust skemmdarvargarnir.

Af afdrifum Stekkjastaurs er það að segja að hann fannst eftir mikla leit. Kom í ljós að tveir menn í leit að afmælisgjöf handa sameiginlegri vinkonu höfðu fengið þá hugmynd að gefa henni jólasvein, sem og þeir gerðu – og höfðu býsna mikið fyrir því.

Heimild:

HI. (1999, 7. desember). Stekkjastaur stolið á Akureyri. Dagur Akureyri-Norðurland, bls. 1.