Af hverju ekki?

Af hverju nýtir sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps sér ekki fyrirhuguð Vaðlaheiðargöng til að efla menningu sveitarfélagsins? Felast einhver sóknarfæri í því, kynnu einhverjir að spyrja? Að fá göng sem eru töluvert sunnan við Svalbarðseyri, eina þéttbýliskjarnann á svæðinu? Munu göngin ekki draga svo verulega úr umferð um svæðið að öll áform um uppbyggingu ferðaiðnaðar reynast andvana fædd hugmynd? Stórt er spurt. Svalbarðseyri hefur hingað til, eða í það minnsta mörg undanfarin ár, ekki laðað ferðamenn að í miklu magni þrátt fyrir mikla umferð um þjóðveg 1 austan Svalbarðseyrar. Þar liggur kannski hundurinn grafinn. Staðurinn er einfaldlega of nálægt Akureyri til þess að fólk sjái hag í því að staldra við. Ýmist er fólk nýlagt af stað frá Akureyri á leið austur fyrir eða það er komið svo nálægt bænum að austan að það sér í hyllingum möguleikann á að klára langt og strangt ferðalag og brunar því í bæinn. Þegar við bætist skortur á afþreyingu, þjónustu eða öðru sem fólk kallar eftir er ekki nema von að bílarnir þjóti hjá. En hvernig geta göngin hjálpað til við að koma Svalbarðsstrandarhreppi á kortið þegar þau beina umferðinni frá svæðinu? Jú, í spurningunni felst einmitt svarið. Nú er lag fyrir Svalbarðsstrandarhrepp. Þegar staðurinn er ekki lengur í alfaraleið, þar sem ekkert annað kemst að hjá ferðalöngunum en að komast sem hraðast til eða frá Akureyri, má draga upp nýja og ferskari mynd af staðnum sem ekki var framkvæmanlegt áður. Og hvernig yrði hin nýja ímynd Svalbarðseyrar og nágrennis? Meginþemað yrði rólegheit, þægindi, sveitarómantík og annars konar „kósíheit“ en þó jafnframt með iðandi mannlífi. Hinn rólegi áfangastaður Svalbarðseyri þar sem gesturinn fær frið frá hraðanum og látunum á þjóðveginum og í þéttbýlinu. Þó Svalbarðseyri standi ekki lengur við þjóðveginn er nálægðin við hann nægilega mikil til að hægt sé að fá fólk á staðinn. Grunnurinn er þannig lagður án þess að stinga niður skóflu. Framkvæmdir af þeirri stærðargráðu sem Vaðlaheiðargöng eru hlýtur að vera hægt að nýta til að vekja athygli á svæðinu. Það er svo bara í höndum heimamanna hvort og þá hvernig þeir grípa tækifærið. Nú þegar er ýmislegt til staðar sem sveitarfélagið getur boðið upp á. Alltaf má nýta íslenska náttúru til sjálfbærrar ferðamennsku þó ekki væri nema að bjóða upp á gönguferðir og náttúruupplifun. Gaman væri að geta sest niður á notalegu kaffihúsi á Svalbarðseyri eða keypt sér rjómaís í ísbúðinni sem notast við hráefni úr heimabyggð. Af hverju ekki að bjóða upp á skipulagðar gönguferðir í Vaðlaheiði með óviðjafnanlegu útsýni yfir fjörðinn? Hver veit nema göngufók rekist á sjálfan Þorgeirsbola! Af hverju ekki að búa til einhverskonar atvinnuskapandi ferðamennsku yfir vetrartímann t.d. á svæðinu þar sem snjósleðafólk þeysist um á Víkurskarðinu? Auðvitað þarf sveitarfélagið að vinna með nágrannasveitarfélögum og leggja til fjármagn en það má sníða sér stakk eftir vexti í þessu eins og öðru. Gæti sveitarstjórnin aðstoðað íbúa sveitarfélagsins við að fjármagna litlar eða meðalstórar framkvæmdir til eflingar ferðamennsku á svæðinu? Með því myndi skapast grundvöllur fyrir sameiginlegu átaki yfirvalda og einstaklinga til að glæða svæðið lífi. Nú þegar framkvæmdir eru hafnar við göngin er tækifæri fyrir Svalbarðsstrandarhrepp að snúa vörn í sókn. Sveitarstjórnin hefur nú þegar auglýst verkefnislýsingu vegna vinnu við deiliskipulag Vaðlaheiðarganga og vinnubúða verktaka. Búast má við að gildistaka skipulagsins verði kynnt um svipað leyti og byrjað verður að grafa þ.e. í júní 2013. Áætlað er að göngin verði tekin í notkun seinni hluta ársins 2016. Það er því ekki seinna vænna fyrir íbúa Svalbarðsstrandarhrepps að hefja undirbúning að menningarátaki í heimabyggð í skjóli Vaðlaheiðarganga. Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

 

3 Athugsemdir »

  1. Hallmundur Kristinsson

    “Að fá göng sem eru töluvert norðan við Svalbarðseyri, eina þéttbýliskjarnann á svæðinu?”
    Afsakið, átti ekki að stand þarna sunnan við?

    Comment — May 5, 2013 @ 14:30

  2. Brynjar Karl Óttarsson

    Að sjálfsögðu átti að standa sunnan við. Takk kærlega fyrir ábendinguna Hallmundur. Bestu kveðjur, Brynjar Karl.

    Comment — May 5, 2013 @ 15:45

  3. Hallmundur Kristinsson

    a

    Comment — May 5, 2013 @ 14:31

Skrifa athugasemd