main image

Fyrir 100 árum síðan!

Í Norðurlandi birtist grein eftir Brutus þann 31. maí árið 1913. Greinina kallar hann Skemmtilegt ferðalag. Brutus fer fögrum orðum um Akureyri og Eyjafjörð.

„..Á meðan eg dvaldi á Akureyri,mátti heita að alt rynni saman í eitt, nótt og dagur, því hin íslenzka, bjarta nótt er enn bjartari á Norðurlandi en á Suðurlandi, því þar gengur sól aldrei til viðar um hásumarið. Veður var hið ákjósanlegasta allan tímann, sem eg dvaldi á Akureyri, varla að sæist ský á lofti, sunnan landgola á morgnana og logn þegar fram á daginn kom; suma daga mjög sterkur hiti, en þegar leið fram undir miðaftan, kom hafræna, stundum tasvert sterk, en um náttmál dró gjarnast úr henni og um miðnætti var komið logn. Þannig er oftast veðurlag á Norðurlandi á vorin og framan af sumri…“

 Norðurland 13. árg. 1913, 20. tölublað (31.05.1913), blaðsíða 78

Æskuslóðirnar mínar

Ég var staddur í ljóðagöngu í Kristnesskógi fyrir nokkrum árum og spurður hvort mér hefði ekki fundist yndislegt að alast upp við Kristnes. Ég gat ekki svarað spurningunni enda hafði ég ekki leitt hugann að þessu. Ég ólst náttúrulega bara upp þarna og veit ekki hvort þetta eru yndislegri æskuslóðir en aðrar. Eru ekki allar æskuslóðir þær bestu svo framarlega sem æskuárin hafi verið það líka? Þar fyrir utan getur maður að takmörkuðu leyti borið æskustöðvar sínar saman við æskustöðvar annarra. Þær bara eru einhvern veginn þarna: æskustöðvarnar, þangað til þær hætta að vera manns eigin æskustöðvar.

Þegar ég fékk þessa spurningu voru æskustöðvarnar reyndar nær mér í tíma og rúmi en þessa dagana. Ég bjó á Akureyri og gat keyrt á 10 mínútum að Kristnesi. Þar fyrir utan fannst mér svo stutt síðan ég bjó þar og ólst þar upp, að ég átti ekki til vott af nostalgíu til að mála þá mynd af svæðinu að það væri yndislegra en eitthvað annað sem ég hafði kynnst eða mun kynnast. En málin horfa að nokkru leyti öðruvísi við.

Þetta er nefnilega nokkuð sérstakur staður, Kristnes við Eyjafjörð. Kristnes er vissulega landnámsjörð Helga Magra en þar fyrir utan er nafn staðarins í hugum margra órofa tengt nafni Kristnesshælis og Kristnessskógar. Þetta er kyrrlátur rólegheitastaður og þar gerast sjaldan tíðindi. Það eftirminnilegasta, sögulega séð, er væntanlega að þar sigruðust menn hægt og bítandi á Hvíta dauðanum, berklum – auk þess sem Vigdís Finnbogadóttir kom þar í opinbera heimsókn á níunda áratugnum.

Kristnesþorp samanstendur af allnokkrum húsum, bæði einbýlis- og fjölbýlishúsum. Þegar ég ólst þar upp bjó þar fjöldi fólks en þegar ég flutti þaðan stóðu þar fyrst og fremst tóm hús. Kristneshæli var enda lagt niður á uppvaxtarárum mínum og sameinað Fjórðungssjúkrahúsi Akureyri. Fyrir vikið var viðbygging hælisins, sem m.a. hýsir sundlaug og heitan pott í dag, lengi vel draugabygging. Þar voru nokkrar hæðir af nöktum óunnum steinsteypuveggjum og staflar af steinull sem ekki var notuð.

Skógurinn var ræktaður af vistmönnum hælisins í áföngum. Hann var frá stofnun hælisins 1927 hugsaður til að efla heilsu berklasjúklinga og annarra sem þar hafa dvalist. Á árunum 1994-1999 voru þar lagðir nokkrir göngustígar sem gaman er að fara um nú til dags, en á uppvaxtarárum mínum var í minningunni aðeins ein leið inn í skóginn. Þannig hefur nærumhverfi Kristneshælisins, þorpið og skógurinn, breyst talsvert á undanförnum áratugum.

En þó ég nefni Kristnes sem æskuslóðir mínar í þessari grein, þá er þar með ekki nema hálfur sannleikurinn sagður. Staðreyndin er flóknari en svo. Ég ólst nefnilega upp í húsinu Reykhúsum I eða Syðri-Reykhúsum í Eyjafirði, en húsið stendur á jörð Reykhúsa. Kristnes og Reykhús eru aðliggjandi jarðir.

Á bænum Kristnesi ólst móðir mín, Rósa Sigríður Aðalsteinsdóttir, upp. Á bænum Reykhúsum dvaldist faðir minn, Brynjólfur Ingvarsson, mörg sumur á uppvaxtarárum sínum, en annars ólst hann upp í Reykjavík. En það er ekki nóg með að foreldrar mínir hafi verið nágrannar á sumrin og alist upp saman að vissu leyti. Báðar ömmur mínar, Sigríður Hallgrímsdóttir og Aðalbjörg Stefánsdóttir, voru líka nágrannar og leiksystur. Þær deildu líka þeirri reynslu að eignast báðar fjögur börn, þar af þrjá stráka hvor og eina dóttur hvor. Enn fremur átti föðuramma mín þrjá bræður og af þeim eignaðist einungis einn afkvæmi. Móðuramma mín átti þrjár systur og af þeim eignaðist einungis ein afkvæmi. Bróðir pabba tók við búinu og varð bóndi í Reykhúsum, bróðir mömmu tók við búinu og varð bóndi í Kristnesi. Það er því margt sameiginlegt í sögum þessara tveggja fjölskylda sem voru og eru nágrannar. Foreldrar mínir bundu þær svo endanlega saman 17. júní 1966 þegar þau giftu sig, sex mánuðum áður en elsti bróðir minn, Ingvar Guðni, fæddist.

Eftir að þau tóku saman og eignuðust börn reistu þau hús í Reykhúsum, stundum nefnt Reykhús I og stundum nefnt Syðri-Reykhús. Fyrir utan mig áttu þau fjóra stráka, semsagt alls fimm stráka. Þeir eru allir miklu eldri en ég, það munar 10 árum á mér og yngsta bróður mínum Brynjólfi. Ég tók því við öllu dótinu þeirra og ógrynni sagna af krökkunum úr þorpinu. Fékk í arf margar sögur af leikjum þeirra og frændfólki af næstu Reykhúsabæjum eða Kristnesbænum. Allt svæðið var sagnaþorpið þeirra og undirlagt fortíðinni. Pleimóland, strumpaland, limmóland og tröllaland voru örnefni fyrir einstaka leiki þessa hóps. Ég rétt náði að upplifa kvöldleikina, þ.e. þegar krakkar fóru í leiki í þorpinu: eina krónu og tvítví. Þetta var algengt á árunum 1985-1990. Svo dó það út með vídeói, sjónvarpi og tölvuleikjum, held ég.

En leikirnir eru mér ekki minnisstæðastir af uppvaxtarárunum. Ekki heldur þegar ég var bitinn í hendina af mús í Reykhúsafjósinu og þurfti að fara í stífkrampasprautu. Og ekki þegar ég skar mig á löppinni í indjánaleik með því að stíga ofan á fiskabúrið hans Jonna bróður og þurfti að fara á spítalann í aðra sprautu. Eða þegar ég hljóp svo hratt niður brekkuna við Reykhúsafjósið að ég gat ekki stoppað mig og endaði í fjóshaugnum, fastur upp að hné í mykju þar til bróðir minn togaði upp úr sjálfheldunni.

Mér er af einhverjum ástæðum minnisstæðast þegar krakkarnir á næstu bæjum veiddu hornsíli í Eyjafjarðará með krukkum og litlum netum í kringum 1990-1992. Smám saman varð til góður forði af hornsílum í plasttunnu við eitt húsið og þar syntu sílin eins og dálítið glitlausir litlir gullfiskar um einhverja tíð. Þetta endaði líklega með því að þau drápust. Ég man bara eftir orðaskiptum á milli mín og veiðimannanna um það hvar gjöfulustu hornsílamiðin lágu. Mér finnst eitthvað svo skemmtileg tilhugsun um að nokkrir krakkar úr þorpinu og af Reykhúsabæjunum hafi verið búin að kortleggja Eyjafjarðarána svo vel að þau vissu hvar hægt var að moka upp hornsílum.

Svo reyndar á ég aðra sambærilega draumkennda minningu. Á árunum 1996-1999 lenti ég í því aftur og aftur að finna fjögurralaufasmárabeð. Ég held að það séu um það bil 6 staðir sem ég get nefnt, annars vegar í Kristnesi eða við Kristneshæli og hins vegar á Reykhúsalóðinni þar sem ég fann sumar eftir sumar fjögurralaufasmára. Þeir uxu alltaf á sama stað og af því ég vissi hvar staðirnir voru gat ég týnt upp smára, ár eftir ár. Þetta uppátæki vatt upp á sig og brátt átti ég heilu hirslurnar af fjögurralaufasmárum, pressaða og þurrkaða í bókum. Þeir skiptu hundruðum og með mér vaknaði von um að komast kannski í heimsmetabók Guinness fyrir þetta fjögurralaufasmárasafn. Sú von varð að engu þegar ég komst að því að fangi í Indiana í Bandaríkjunum átti stærsta staðfesta fjögurralaufasmárasafn í heiminum, en safnið taldi nokkur þúsund smára. Hann hafði fundið sín beð í fangelsisgarðinum og safnað þessu upp á nokkrum áratugum. Ég taldi mig eiga við ofurefli að etja og pakkaði því safninu í litla kassa sem ég á einhvers staðar ennþá. Hef einu sinni eða tvisvar reynt að leita uppi þessi sex beð sem ég fann á sínum tíma en hef ekki endurheimt þau ennþá.

Þarna bjó ég mín uppvaxtarár, þar liggja mínar æskuslóðir. Ég var lengst af í næstsyðsta herberginu í Reykhúsum, við hliðina á eldhúsinu. Þegar ég vaknaði á sumrin á unglingsárunum blasti við mér þessi lagskipta mynd út um gluggann: Efst tróna Súlur, svo Kristnesskógurinn, þá koma byggingar hælisins og loks bílarnir á hlaðinu. Svo fylgja minningunni þung spor á fætur til að fá sér hunangshnetuseríós og mjólk.

 

 

 

Reykjavík, 13. maí 2013.

Hjálmar Stefán Brynjólfsson

 

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá þeir Valdimar Gunnarsson og Þórir Haraldsson, kennarar við Menntaskólann á Akureyri. Föstudagurinn 24. maí sl. var síðasti kennsludagur þeirra félaga eftir að hafa kennt við skólann í 40 ár. Á heimasíðu skólans segir: „…Þórir hóf störf haustið 1973 og hefur kennt líffræði, erfðafræði og skyldar náttúrufræðigreinar ævinlega síðan. Valdimar hefur verið við skólann frá hausti 1974 en hafði áður kennt eitt ár. Hann hefur aðallega kennt íslensku en einnig sögu auk þess að taka að sér stjórunarstörf, umsjón öldungadeildar um skeið og hann gegndi stöðu skólameistara eitt ár…“

Valdimar og Þórir hafa mótað ófá ungmennin á liðnum áratugum og ljóst að skarð þeirra verður vandfyllt. Allt hefur sinn tíma og nú taka aðrir við keflinu við mótun ungdómsins. Tvímenningarnir munu þó án efa halda áfram að móta nærumhverfið á nýjum vígstöðvum.

Af hverju ekki?

 

Af hverju segjum við ekki kuldatíðinni stríð á hendur og útbúum okkar eigin mini-útgáfu af Benidorm við Glerá á Akureyri? Ég meina, hvað er málið með þetta tíðarfar? Við fáum 1-2 daga inn á milli þar sem sést til sólar en annars blæs bara kaldur vindur. Snjóhvítar Súlurnar blasa við manni öllum stundum svona til að koma endanlega í veg fyrir að maður komist í sumargírinn. Sumarþyrstir Akureyringar gera þó sitt til að skapa sumarstemningu. Löngunin eftir hlýindum er slík að þegar hitastigið nær 7-8 gráðum rýkur íssala upp úr öllu valdi, fólk sest niður fyrir utan kaffihúsin með sólgleraugu og á stuttermabolum með svalandi drykk í hendi og ungir ökumenn þeysast um götur bæjarins með blæjuna niðri. Í versta falli leggjum við öll plön tímabundið til hliðar á meðan við fjármögnum sólarlandaferð til þess eins að fylla forðabúrið af D-vítamíni því óvíst er hvort íslenska sumarið nái að fylla á tankinn. Við erum stöðugt minnt á hversu dynttóttir veðurguðirnir eru og þar sem okkur þyrstir svo mjög  í raunverulega suðræna upplifun hljótum við að velta því fyrir okkur hvort við ættum ekki hreinlega að búa til heita ylströnd í heimabyggð. Er það hægt? Af hverju ekki? Hugmyndin er svo sem ekki ný af nálinni þar sem bent hefur verið á pollinn milli Drottningarbrautar og Aðalstrætis. Hér skal nefndur annar kostur til sögunnar. Lónið fyrir ofan Glerárvirkjun gæti orðið vinsælasti staðurinn á Akureyri yfir sumartímann. Til að byrja með er staðurinn að mörgu leyti heillandi í þeirri mynd sem hann er núna. Skemmtilegur pollur með fallegri göngubrú og vísi að klettum í suðri en aflíðandi graslendi og vísi að sandströnd í norðri. Og þetta er nú þegar allt til staðar, samspil náttúru og manna. Engu að síður þarf að taka verulega til hendinni á svæðinu ef hugmyndin um suðræna ylströnd á að komast á koppinn. Hvað þurfum við að gera? Við búum til stórt og öflugt  glervirki sem virkar eins og skjöldur gagnvart köldum vindi en hleypir sólinni í gegn. Aflangur glerkúpull sem staðsettur verður norðan lónsins, þeim megin sem sandströndin er. Já ég veit, slíkt mannvirki tekur á sig mikinn vind og snjó og jarijarija. Ég minni einfaldlega á hugvit og tækniþekkingu mannsins en umfram allt viljann til að vinna framsæknum hugmyndum brautargengi. Glervirkið þarf vissulega að þola íslenska veðráttu. Færir verkfræðingar ráða fram úr því. Sunnanáttin er okkur að mestu hliðholl auk þess sem hækkandi landslag veitir skjól. Lónið er hins vegar berskjaldað gagnvart norðanáttinni og því kæmi glervirkið að góðum notum þar. Kúpullinn er aðeins opinn í suður þ.e. í átt að volgu lóninu. Já, við getum ekki boðið fólki að upplifa alvöru strandarstemningu ef vatnið er jökulkalt. Við dælum því heitu vatni í lónið og jöfnum út hitastigið þannig að hægt verði að taka sér sundsprett án þess að krókna úr kulda. Nú þegar búið er að tryggja notalegt hitaastig í lofti, láði og legi er hægt að klára það sem upp á vantar til að gera ströndina okkar samkeppnisfæra við Spánarstrendur. Fólk getur valið um að liggja á sólbekkjum inni í glerhýsinu eða á sandinum við lónið ef hitinn verður óbærilegur innandyra. Sandurinn er enn eitt lykilatriðið í að skapa rétta stemningu. Með því að lengja sandströndina og gera hana snyrtilega má laða fólk að. Á graslendinu ofan við sandströndina má reisa smáhýsi þar sem boðið verður upp á þjónustu af ýmsu tagi. Ís til sölu, svalandi drykkir, léttir réttir, sólarvörn, sundkútar, leiga á ýmiskonar varningi svo sem smábátum og sæsleðum. Ekki má nú gleyma salernisaðstöðunni fyrir þambandi gesti í spreng. Setja mætti upp aðstöðu fyrir fólk til að grilla pylsur og sykurpúða. Ekki er lengi verið að útbúa strandblakvöll. Jafnvel mætti koma fyrir hljóðkerfi  á svæðinu og annarri aðstöðu fyrir tónlistarmenn til að troða upp. Hver vill ekki upplifa 30 gráðu hita við Glerána á sundfötunum einum með svífandi sæsleða fyrir framan sig og lifandi tónlist sumarhljómsveita á borð við Síðan skein sól, Á móti sól og Sóldögg í eyrunum? Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?  

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá Lilja Björk Jónsdóttir, Sunna Valsdóttir og aðrir „ólátabelgir“ sem standa að hátíðinni Ólæti sem haldin verður í fyrsta skipti á Ólafsfirði í sumar. Um er að ræða tónlistar- og menningarhátíð fyrir ungt fólk. Á fundi menningarnefndar Fjallabyggðar í vikunni  voru kynntar til sögunnar menningarhátíðir í sveitarfélaginu sumarið 2013. Bókað er í fundargerð að hátíðin fari að mestu fram í húsnæði gamla frystihússins og að nefndin fagni framtakinu. Á heimasíðu Fjallabyggðar segir: Ólæti byggist upp á fjölbreyttum tónlistaratriðum og mikilli afþreyingu. Hátíðin byrjar fimmtudaginn 4. júlí með upphitunarkvöldi og lýkur á sunnudeginum 7. júlí.“  Hátíðin er með sína eigin facebook-síðu þar sem hægt er að fylgjast með gangi mála.

Tónlistar- og menningarhátíðin Ólæti er gott dæmi um einstaklingsframtak þar sem sýnd er viðleitni til að gera gott menningarlíf í heimabyggð enn betra. Flott framtak ungra kvenna í Fjallabyggð sem sitja ekki með hendur í skauti þegar á reynir heldur láta verkin tala.

Æskuslóðirnar mínar

 

Svarfaðardalur

Ég er heimaalið barn og hleypti vart heimdraganum út fyrir Eyjafjörðinn að nokkru ráði fyrr en 19 ára gömul.  Fyrstu fjórtán árin var ég nánast algerlega innilokuð og varin af fjöllunum í Svarfaðardal. Það er erfitt að horfa ósnortinn á það umhverfi sem ég ólst upp í án þess að hrífast. Fjallasýnin er einstök, ég skora á ykkur að reyna á hrifnæmi ykkar og líta dalinn augum, ég held að allir hljóti að vera sammála mér! Lengi eftir að ég flutti úr sveitinni saknaði ég útsýnisins, fjallanna, lækjanna. Æskuslóðirnar voru náttúran og árstíðabundið stúss við skepnur, sauðburður að vori, heyskapur að sumri, göngur að hausti, fjós og fjárhús að vetri. Náttúran var oft býsna harðneskjuleg. Vetur voru snjóþungir, vegir vondir, bílar lélegir og þess vegna var bara lítið farið. Á Dalvík var kaupfélagið, bókabúðin, það þurfti ekki að fara lengra.

Ferðalag til Akureyrar var ekki einfalt mál. Tók langan tíma, á vondum vegi og kostaði bílveiki og óþolinmæði. Hvílík dýrð að komast á malbikið sem byrjaði við Hlíðarbæ. Hlíðarbær hefur alltaf skipað sérstakan heiðurssess í mínum huga. Ferðir til Akureyrar voru eins fáar og hægt var fram að því að ég fór í Menntaskólann á Akureyri og Akureyri takmarkaðist við Einilund hjá ömmusystur minni, Teríuna með smurbrauðssneiðum, rúllustigann í kaupfélaginu og búðina hjá Sigga Gúmm.

Ég ólst upp í gamla daga, í orðsins fyllstu merkingu. Dráttarvélar án  grindar eða húss, litlu stærri en fólksbílar, heyblásara sem þurfti að moka í, beðjur sem heyinu var ýtt í.  Þegar nálgaðist unglingsárin fór maður að upplifa að sveitin væri að færast í átt til einhvers nútíma, heyhleðsluvagn og heybindivél, stærri dráttarvélar með útvarpi og allt og mjólkurtankur bættist smátt og smátt við tæknilítinn búskap. Jafnvel henti það að einhver brygði búi og aðrar jarðir stækkuðu. Fram að því voru öll bú lítil. Og svo var meira að segja keypt litasjónvarp.

Það var samt ekki tæknin í búskapnum sem ég tengdi við innreið nútímans. Árið 1979 var kaldasta vor og sumar í manna minnum. Norðanáttin stöðug allt sumarið, með þeirri köldu þokusúld sem henni fylgir. Það var vart að sæi til sólar allt sumarið. En þetta sumar var kvikmyndin Land og synir tekin upp í sveitinni. Myndin sem markaði upphaf íslenska kvikmyndavorsins.  Seinnipart sumars og haustið, sem var kalt og blautt, var hópur kvikmyndatökumanna og leikara í sveitinni að fást við eitthvað sem maður vissi eiginlega ekkert hvað var. Aðeins elsta kynslóðin á heimilinu tók þó einhvern þátt í myndinni, afi og amma dönsuðu á Þinghúsinu ásamt fjölda sveitunga þegar tekið var upp ball og þeim bregður aðeins fyrir í þeirri senu. Svo hljóp afi undir bagga ásamt hestinum Blakki sem var geðgóður hestur frænda míns þegar þurfti að taka upp senu þar sem maður teymir hest með kerru yfir brú. Hesturinn sem átti að nota trylltist við tökur en afi og Blakkur björguðu senunni.  Þeir héldu báðir ró sinni við kvikmyndatökuna og högguðust ekki þótt þeir smökkuðu á heimsfrægðinni.

Sumarið eftir var sólríkara og hlýrra og þá var sjálfvirkur sími lagður í sveitina og sveitasíminn kvaddur. Því miður held ég að svarta símtækinu sem til var heima hafi verið hent. Það hékk upp á vegg, tólið níðþungt en stundum stalst maður til að lyfta því hljóðlega upp og hleraði en fékk skammir fyrir, ef ekki frá mömmu þá frá konunum á línunni sem heyrðu í manni. „Farðu af línunni krakki!” En þetta sumar kom vinnuflokkur frá Símanum og í minningunni var hann margar vikur við verkið. Það voru kornungir strákar í hópnum, ég var 13 ára og hafði aldrei áður séð svona fallega karlmenn. Ég er lítið fyrir hesta en stundaði reiðtúra grimmt þetta sumar með vinkonum mínum enda var símalínan lögð við veginn þannig að við þurftum alltaf að vera á ferðinni nálægt þeim.

Eftir þessa nútímavæðingu var ekki aftur snúið, það var til veröld utan fjallanna háu. Hvorki bíó né sími bar þó reyndar ábyrgð á því, það beið allra unglinga í sveitinni að fara burt í skóla eða vinnu.

Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fær barnakór Lundarskóla ásamt kórstjóranum Margréti Árnadóttur. Kórinn hóf tveggja daga heimsókn sína til Grenivíkur á föstudaginn og var ýmislegt brallað. Barnakór Grenivíkur tók á móti krökkunum. Kórarnir tveir heimsóttu dvalarheimilið Grenilund þar sem krakkarnir borðuðu hádegismat með heimilismönnum og tóku fyrir þá lagið. Án efa hefur eldri borgurum á Grenivík þótt vænt um að fá hóp af syngjandi krökkum í heimsókn.

Flott hjá krökkunum í barnakór Lundarskóla að heimsækja nágrannabyggðarlag til að svala menningarþörfinni og gleðja eldri kynslóðina með söng. Heimsókn þeirra er kannski gott dæmi um möguleikana sem eru til staðar í heimabyggð í stað þess að sækja vatnið yfir lækinn.

Fyrir 100 árum síðan!

 Í Norðurlandi þann 10 maí árið 1913 birtist grein eftir héraðslækninn Steingrím Matthíasson sem hann kallaði Heilsufar í Akureyrarhéraði 1912. Þar rekur hann í stuttu máli hvernig heilsufari fólks í heimabyggð var háttað á því herrans ári 1912.

 „Slysfarir voru þessar helstar: 2 menn biðu bana af falli þannig, að höfuðkúpan klofnaði að neðanverðu (fractura baseos cranii). Rotaðist annar strax, og dó þjáningarlaust eftir stutta stund, en hinn fékk heilabólgu og andaðist eftir nokkurra daga þunga legu. Maður varð undir miklum þunga, er féll ofan á brjóstholið við uppskipun úr lest. Hann rifbrotnaði á tveim rifjum og stungust rifbrotin inn í lungað; beið hann  bana af þessu samdægurs. Maður féll af hestbaki, skaddaðist á höfðinu og fékk síðan heilabólgu er leiddi  hann til dauða. Af minni slysum voru þessi hin helztu.

 6 fótbrot.

4 viðbeinsbrot

4 handleggsbrot

4 rifbrot

7 liðhlaup (3  í öxl, hin minni)

Öll þessi meiðsli gréru vel.

Konur í barnsnauð:16 sinnum var okkar læknanna vitjað við erfiðar fæðingar. Í 5 tilfellum þurfti að taka barnið með töngum. Öll börnin komu lifandi og konunum heilsaðist yfirleitt vel.“

Norðurland 13. árg. 1913, 17. tölublað (10.05.1913), blaðsíða 63

Af hverju ekki?

 Af hverju bjóðum við ekki Sigmundi Davíð og Bjarna að koma norður í Eyjafjörð til að halda stjórnarmyndunarviðræðum áfram? Eins og alltaf þegar tveir einstaklingar draga sig saman getur samvera í nýju og framandi umhverfi gefið af sér góðar og árangursríkar hugmyndir.  Fréttir herma reyndar að þeim Bjarna og Sigmundi gangi ágætlega að ná saman þó Eyjafjörður sé ekki vettvangur viðræðanna. Hugsanlega er því farsælt samband í farvatninu. Við fáum ekki miklar fréttir af tilhugalífi þeirra félaga. Þeir eru komnir aftur í Borgina eftir að hafa látið vel hvor af öðrum síðustu daga í fallegu umhverfi. Við vitum að þeir sáu sameiginlega um matarinnkaupin eins og góðra para er siður.  Við vitum líka að Bjarni bakaði vöfflur fyrir Sigmund svo ljóst er að hann er tilbúinn að selja sig dýrt með einhverskonar samband í huga. Til að ganga í augun á Sigmundi fékk Bjarni svo lánaðan sumarbústað hjá pabba sínum. Eins og aðrir ungir menn með markmið er hann eflaust búinn að heilla Sigmund með sögum af hetjudáðum, grilla fyrir hann á 4 brennara gasgrillinu og sýna honum heita pottinn. Þá hafa þeir snætt saman kvöldverð á Hótel Nesjavöllum. Hvers eigum við svo að gjalda, íbúar þessa lands? Annar eltist við hinn eins og unglingspiltur með hormónaflæðið í botni. Hinn lætur stjana við sig vitandi að aðrir bíða á kantinum ef potturinn bilar eða lambakjötið brennur á gasgrillinu sem keypt var á Tax Free-degi í Hagkaupum. Hér gætir ákveðins ójafnvægis. Vöfflurnar og sumarbústaðurinn skipa of stóran sess í þessum þreifingum tveggja turtildúfna. Til þess að hugsanlegt samband þessara tveggja landsfeðra verði að veruleika er æskilegt að það eigi sér upphaf á hlutlausum stað. Stað þar sem báðir aðilar sitja við sama borð. Stað þar sem þriðji aðili bakar vöfflurnar og lánar parinu sumarbústað. Eyjafjörður er vel til þess fallinn að vera þessi staður þar sem heimamenn eru þriðji aðilinn. En hvert yrði þá okkar framlag? Við myndum finna eitthvað sem þeir Sigmundur og Bjarni eiga sameiginlegt og nýta okkur það til að þjappa þeim saman. Þeir eru báðir bjartsýnir, með háleitar hugmyndir og stefna á toppinn. Fjallaferðir kæmu því vel til greina. Við gætum byrjað á Súlum sem nokkurs konar upphitun. Ekki mjög erfið ganga á toppinn og góð yfirsýn yfir heimilin í firðinum. Þaðan væri ferðinni heitið á topp Blámannshatts. Við myndum senda Sigmund þangað á meðan Bjarni myndi klífa Bónda í Eyjafjarðarsveit. Í lokin færu þeir svo saman á Kerlingu, hæsta fjall Eyjafjarðar, áður en þeim yrði kippt snögglega niður á jörðina aftur! Á þessum tímapunkti blasir blákaldur raunveruleikinn við eftir að hafa um skeið svifið um í draumaheimi háloftanna. Eyfirsku fjöllin myndu þannig veita þeim sameiginlega yfirsýn yfir verkefnin framundan, auðvelda þeim að sjá hlutina út frá sjónarhorni hvors annars og hjálpa þeim við að átta sig á að mikilvægar ákvarðanir verður að taka með fast land undir fótum sér en ekki uppi í háloftunum þar sem hætta er á hruni. Þá fyrst ætti parið von um langa og farsæla sambúð byggða á raunhæfum markmiðum, Eyfirðingum og öðrum landsmönnum til hagsbóta. Áður en hveitbrauðsdagarnir við Austurvöll tækju við myndu þeir Sigmundur og Bjarni þiggja veitingar á Bláu könnunni  og Græna hattinum. Til dæmis vöfflur! Menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá þeir Baldvin B. Ringsted, Bragi Finnbogason, Stefán Bjarnhéðinsson og Ragnar B. Ingvarsson. Saman mynda þeir starfshóp sem hefur síðustu mánuði unnið að mótun nýrrar námsbrautar við Verkmenntaskólann á Akureyri þar sem boðið verður upp á nám í  bílamálun og bifreiðasmíði. Hingað til hafa þessar tvær greinar aðeins verið í boði sunnan heiða og því verið skortur á menntuðu starfsfólki í heimabyggð. Verkmenntaskólinn er í samstarfi við Silkeborg Teknisk Skole í Danmörku. Þangað munu nemendur fara á fjórðu og síðustu önn námsins þar sem þeir verða í verknámi við bestu mögulegu aðstæður. Menntamálaráðuneytið styrkir framtakið og reiknað er með að kennsla hefjist næsta haust.    

Á tímum mikils brottfalls nemenda úr framhaldsskólanámi eru nýjungar sem þessar kærkomnar. Verkgreinar hafa átt undir högg að sækja á kostnað bóknámsgreina en hin nýja námsbraut í VMA stuðlar vonandi að frekara jafnvægi milli greinanna. Flott framtak.