Af hverju ekki?
Af hverju markaðssetjum við ekki Eyjafjarðarsveit sem spennandi áfangastað fyrir erlenda ferðamenn? Fjöldi skemmtiferðaskipa sem heimsækir Akureyri á sumrin er gríðarlegur. Við fögnum því vissulega en Laufás og Mývatnssveit taka ekki endalaust við. Auðvitað er Mývatnssveit einstakur staður. Straumurinn mun því áfram liggja þangað þó aðrir spennandi áfangastaðir bætist í hópinn. Með því að beina fjöldanum í fleiri en eina átt dreifist álagið. Þannig skapast svigrúm til að taka áfram við ört vaxandi fjölda ferðamanna. Með fleiri valkostum fyrir túristana ætti að reynast auðveldara að koma til móts við mismunandi þarfir þeirra auk þess sem fleiri aðilar í ferðamennsku fá bita af kökunni. En hvað er það sem Eyjafjarðarsveit hefur upp á að bjóða fyrir erlenda ferðamenn? Fyrir utan að vera einhver fallegasta sveit landsins drýpur sagan af hverju strái í Eyjafjarðarsveit. Ekki síst á kirkjujörðunum sex! Þar leynast sögulegar gersemar sem geta kveikt áhuga aðkomufólks ef rétt er haldið á spöðunum. Gersemar sem undirstrika sérstöðu byggðarlagsins. Gersemar sem hægt er að tengja við Íslendingasögurnar. Síðast en ekki síst gersemar sem hægt er að tengja við reynsluheim þeirra erlendu gesta sem heimsækja kirkjurnar. Hvernig? Jú, saga þeirra nær svo langt aftur í tímann að tiltölulega einfalt er að tengja sögu þeirra á einn eða annan hátt við aðrar þjóðir. Skoðum örfáar staðreyndir um guðshúsin sem hægt er að nota til að búa til bragðmikinn kokteil fyrir þyrsta ferðamenn: Óvenjulegt byggin
garlag Kaupangskirkju og tenging við kaþólskan sið. Munkþverárkirkja, Jón Arason og Sturlunga. Merkilegt klukknaport við Möðruvallakirkju og altarisbrík frá Notthingham í Englandi. Hólakirkja helguð Jóhannesi skírara og tenging við eitt ljótasta glæpamál á Íslandi á 17. öld. Saurbæjarkirkja er ein örfárra torfkirkna á landinu og þar var klaustur í kringum árið 1200. Grundarkirkja, Magnús Sigurðsson og Þórunn Jónsdóttir (Arasonar). Hér mætti telja upp mikið mun meira í sambandi við kirkjurnar sex. Við skulum þó láta hér staðar numið en nefnum vettvang nokkurra sögulegra atburða í sveitinni til viðbótar sem hafa alla burði til að vekja athygli erlendra ferðamanna: Kálfagerði og morðsaga bræðranna, Gnúpufell og prentsmiðjan á 16. öld, Melgerðismelar og saga hernámsliðsins, Möðrufell og holdsveikraspítalinn, Espihóll og saga Jóns Espólín sagnaritara, Kristnes og berklahælið. Til að krydda sannleikann má notast við krydd úr heimabyggð sem útlendingar elska – þjóðsögurnar um Hleiðargarðsskottu og álfkonuna í Konuklöpp sunnan Kristness. En það er ekki bara sagan sem heillar. Menningin er aðdráttarafl og hún blómstrar í Eyjafjarðarsveit. Jólagarðurinn, smámunasafnið, Helgi og Beate með eldsmíðina í Kristnesi og fjölmargir aðrir handverksaðilar og gallerý svo eitthvað sé nefnt. Hér hafa ekki verið nefnd til sögunnar öll þau tækifæri sem náttúran og landslagið bjóða upp á í formi fræðslu og upplifunar; fjöllin, jarðsagan, Hólavatn, Leyningshólar, jarðhiti, Möðrufellshraun. Já, ljóst er að Eyjafjarðarhringurinn er vannýtt auðlind. Samgöngur eru greiðar í Eyjafjarðarsveit, hringurinn er auðveldur yfirferðar og allt sem að ofan er nefnt er í seilingarfjarlægð frá veginum. Þannig er einfalt að sníða umfang ferðalagsins eftir þörfum ferðamannsins. Hægt er að fara hr
inginn á broti úr degi með því að stoppa lítið sem ekkert og leyfa ferðamanninum að njóta gegnum bílrúðuna undir styrkri stjórn leiðsögumanns. Einnig er hægt að fara hringinn á nokkrum klukkustundum með því að staldra við á nokkrum stöðum m.a. til að gæða sér á veitingum úr heimabyggð. Lambalærið á Öngulsstöðum og ísinn í Holtsseli svíkja engan. Brettum upp ermar og kynnum gersemar Eyjafjarðarsveitar fyrir erlendum ferðamönnum. Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd