main image

Af hverju ekki?

Af hverju bjóða Grenvíkingar og aðrir íbúar Grýtubakkahrepps ekki erlendum skólabörnum, sem vilja heimsækja landið í sérstökum námsferðum, að koma til sín? Kom ekki frétt þess efnis nýverið að Ísland væri vinsælt land í hugum breskra nemenda á aldrinum 14-19 ára? Í það minnsta er von á 3000 nemendum að utan til landsins í 80 hópum ásamt kennurum á nokkurra vikna tímabili fram að páskum. Gallinn er bara sá að þeir dveljast allir á Suðurlandi. Hvað er það? Af hverju koma þessir krakkar ekki til okkar? Íbúar Grýtubakkahrepps eru vel til þess fallnir að bjóða upp á slíkar námsferðir. Fyrir utan að vera duglegir og úrræðasamir hafa þeir allt sem erlend ungmenni sækjast eftir í ævintýraferð sem þessari. Skoðum þetta aðeins nánar. Til að byrja með þarf að koma fólkinu fyrir. Getur ekki Grenivíkurskóli hýst hópinn rétt eins og margir aðrir skólar gera þegar íslensk börn fara á milli landshluta í æfinga- og keppnisferðir? Þar er mötuneyti og þá er samkomuaðstaða, íþróttahús og sundlaug sambyggð við skólann. Svo ekki sé nú talað um ferðaþjónustuaðila á svæðinu svo sem að Ártúni og Nolli. Hvað eiga svo erlendu gestirnir að gera annað en að slappa af í heita pottinum eða hanga í Jónsabúð? Í Grýtubakkahreppi er glettilega margt í boði fyrir ævintýraþyrsta unglinga frá fjarlægum löndum. Þeir koma nefnilega ekki hingað með sömu óskir og ef um íslensk ungmenni væri að ræða. Fyrir þessa krakka eru það hlutir eins og náttúran, friðurinn, sagan, harðfiskurinn og skyrið, álfar og tröll o.s.frv.  Í fyrrnefndri frétt kom fram að meðal þess sem hóparnir óska eftir er að fá einhverskonar kynningu á jarðfræði svæðisins sem þeir heimsækja. Látraströnd ber þess merki að hafa lent í klóm ísaldarajöklanna með sínum dölum og fjöllum til skiptis. Betra verður það varla fyrir jarðfræðiþyrsta nemendur. Auk þess sem náttúrufegurðin og friðurinn þarna er engu öðru líkt og þó víðar væri leitað. Kynna mætti fyrirtækin á staðnum en þau hafa án nokkurs vafa sinn sjarma í augum aðkomufólks. Pharmarctica; lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á blautvörum. Harðfiskverkunin Darri; Heimir sýnir réttu handtökin við að herða fisk. Sveitabæina mætti heimsækja. Áshóll og kartöfluræktin. Lómatjörn og  loðdýraræktin. Laufás. Ekki þarf að hafa fleiri orð um þann ágæta stað. Enn er ótalin afþreying eins og hestaferð með Pólarhestum, snjótroðaraferð á Kaldbak, sigling til Hríseyjar og hinar ýmsu gönguleiðir í nágrenni Grenivíkur. Ef þetta er ekki nóg er ekki langt að renna til Akureyrar og sækja það sem upp á vantar. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá Berglind Júdith Jónasdóttir, Guðrún Eyjólfsdóttir og Ingibjörg Björnsdóttir. Þær stofnuðu fyrirtækið Mublur húsgagnaviðgerðir á síðasta ári en það er staðsett í Brekkugötu á Akureyri.

Mublur húsgagnaviðgerðir sérhæfir sig í að gera upp og gera við gömul húsgögn. Þær stöllur hafa  þó sérstakt dálæti á mublum frá húsgagnaverksmiðjunni Valbjörk. Valbjörk var stofnuð á Akureyri árið 1953 af sex ungum húsgagnasmiðum en hætti starfsemi tæpum 20 árum síðar. Með framtaki sínu leggja þær  Berglind, Guðrún og Ingibjörg sitt af mörkum við að glæða nýju lífi í gamla framleiðslu frá Akureyri og forða þannig að menningarverðmæti úr heimabyggð glatist. Flott framtak.               

Fyrir 100 árum síðan!

Fyrir 100 árum ræddu Akureyringar um mikilvægi þess að fá vatnsleiðslu í bæinn svo tryggja mætti aðgengi bæjarbúa að hreinu vatni. Í Norðra birtist grein þann 22. febrúar 1913 undir nafninu Vatnsleiðslumálið. Þar gagnrýnir greinarhöfundur fyrirhuguð áform bæjaryfirvalda að sækja vatn til Vaðlaheiðar, telur ekki tryggt að um nægilegt magn vatns sé að ræða auk þess sem ekki sé búið að rannsaka gæði þess. Í staðinn stingur hann upp á Glerá. Undir greinina skrifar Vald. Steffensen.

 

„Mér er alveg sama hvaðan gott vatn kemur og eg býst við að við séum allir sammála um það; en eg get eigi leynt því, að mér er óskiljanlegt hversvegna enginn lítur við Glerá. – Þar er nóg vatn og sennilega jafn gerilssneytt og í heiðinni; Jafnvel svo að notast má við afaródýra síu, og mun hægra að leiða það ofan í bæinn; enn má þar hafa raflýsingu í sambandi við vatnið. Eg hefi átt tal um þetta við marga mæta menn og fróða í þessum efnum þar á meðal Guðmund landlækni Björnsson. Var hann eindregið á því, að Glerá væri bezta vatnsbólið. Því er eigi fenginn  sérfræðingur í þessari grein, sem látinn er gjöra allar rannsóknir, sem gjöra skal, þegar um vatnsveitu er að ræða? Fyr verður ekkert úr þesskonar framkvæmdum hjá oss nema kákið eitt. Reynslan er búin að sýna það og sanna! Það margborgar sig að bíða hálfu til heilu ári lengur og hafa þá tryggingu fyrir að nú sé bæði nóg og gott vafn fengið. Engum væri það meira gleðiefni en okkur læknunum, að vatn væri svo sem æskilegt væri hér; því að mikið af sjúkdómum hér, á að meiru eða minna leyti, rót sína í vatnsskorti og ræsaleysi. Má þar til sérstaklega nefna taugaveiki. Hún mundi að mestu hverfa þegar vatnsleiðslan væri komin i lag. En borgarar þessa bæjar, sem gjöldin af vatnsleiðslunni eiga að greiða, hafa heimtingu á því að trygging sé næg fyrir því að vatnið verði nægilegt bæði til innan og utan húss þarfa, og svo til þess að slökkva eld, sem hér er helzt of tíður. Fyrir þessu er engin trygging enn og eg trúi því ekki fyr en eg tek á aðAkureyrarbúar láti leiða sig í gönur í vatnsleiðslumálinu enn.“

 

Norðri 8. árg. 1913, 5. tölublað (22.02.1913), blaðsíða 17

Af hverju ekki?

Af hverju notum við ekki innbæinn sem tímavél á sumrin? Hvernig? Jú, við hverfum 100-200 ár eða svo aftur í tímann. Við klæðum innbæinn í sín upprunalegu klæði eins og mögulegt er og keyrum með farþegana af skemmtiferðaskipunum um hinn forna „danska“ bæ áður en þeir halda áfram austur yfir heiðar. Allt í lagi. Byrjum á byrjuninni. Innbærinn er elsti hluti bæjarins. Þar höfðu dönsku kaupmennirnir bækistöðvar og þar var tenging Akureyringa við Kaupmannahöfn þegar dönsku kaupskipin komu með farm – sjálf lífæðin. Þessa sögu þekkja allir. En er þetta aðeins saga liðins tíma og genginna manna? Ekki endilega. Við höfum nú þegar tekið eitt hænuskref í þessa átt. Í ágúst á síðasta ári var svokallaður danskur sunnudagur. Danskir fánar blöktu við hún og gestum og gangandi var boðið í garðveislu. Þetta tók fjórar klukkustundir. Hvað með að lengja danska sunnudaginn í nokkrar vikur og jafnvel lungann úr sumrinu? Við afmörkum danska bæinn t.d. frá skautahöllinni í suðri að Samkomuhúsinu í norðri. Við einbeitum okkur að gömlu timburhúsunum á svæðinu, Nonnahúsi, Gudmanns Minde, Laxdalshúsi og fleiri slíkum byggingum auk íbúðarhúsanna í eigu einstaklinga. Gudmanns Minde hýsir sýningu að einhverju tagi og Laxdalshús verður notað sem verslun þar sem danskir kaupmenn selja ferðamönnunum ullarpeysur, roðskó og harðfisk. Nonnahús heldur sínu hlutverki. Minjasafnið verður stjórnstöð tímavélarinnar, hjartað í danska bænum. Um verður að ræða samstarf íbúa og eigenda lóða og fasteigna í Aðalstræti og Hafnarstræti annars vegar og bæjaryfirvalda hins vegar. Hvað eigum við svo að gera? Fólk klæðist fatnaði 19. aldar, slær upp garðveislum, útimarkaðir á götunum, danska fánanum flaggað sem víðast, Hestakerra, minjagripasala í Hoepfnershúsi, handverksmenn, börn að leik, gamaldags guðsþjónusta í Minjasafnskirkjunni. Listinn er ekki tæmandi. Við smíðum eftirlíkingu í fullri stærð af einu kaupskipanna sem sigldi með vörur milli Akureyrar og Kaupmannahafnar á 19. öld. Til dæmis Herthu en það var í eigu danska kaupmannsins Gudmann og sigldi þessa leið í meira en 50 ár. Við leggjum það við Höepfners-bryggju og notum það sem veitingahús þar sem boðið verður upp á danska smárétti í bland við íslenskan og þjóðlegan mat. Seljum hugmyndina til Danmerkur: Danskur 19. aldar bær á norðanverðu Íslandi. Þannig rennum við frekari stoðum undir reglulegar ferðir milli Akureyrar og Kaupmannahafnar rétt eins og þegar Hertha var og hét. Nema hvað, núna veljum við flugleiðina! Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá aðstandendur sýningarinnar Dagatalsdömurnar eftir Tim Firth sem Freyvangsleikhúsið sýnir þessa dagana. Þriðju sýningarhelgi lýkur með aukasýningu sunnudaginn 17. febrúar. Hluti af miðaverði rennur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Á heimasíðu Freyvangsleikhússins segir:                                         

 „Dagatalsdömurnar er frásögn af sannsögulegum atburðum sem áttu sér stað í uppsveitum Englands rétt fyrir aldamótin.  Um þessa sögu var skrifað handrit að bíómynd og seinna handrit að leikriti.  Það leikrit var, árið 2010, valið besti gamaleikur á Englandi og nú hefur Freyvangsleikhúsið keypt sýningarréttinn og mun sýna á stóra sviðinu í Freyvangi næstu vikurnar.  Það er þörf upplifun fyrir landsmenn að skreppa í Freyvang og sjá hvernig alvöru ástvinir fórnarlambs krabbameins, heiðra minningu þess sem lést og létta sína eigin lund í leiðinni.“                                                                                                                                                                                                                                                                                 

Flott framtak þarna á ferðinni. Leikhúslífið blómstrar í Freyvangi þar sem boðið er upp á skemmtilega afþreyingu og stuðning við gott málefni í einum og sama pakkanum.

Breytingar á Leitinni að Grenndargralinu!

Eins og glöggir gestir heimasíðunnar hafa tekið eftir eru breytingar að eiga sér stað á síðunni og færslur eru orðnar algengari en tíðkast hefur á þessum tíma árs. Fyrir því liggja ákveðnar ástæður. Upphaf Leitarinnar að Grenndargralinu má rekja aftur til ársins 2008 þegar fyrst var leitað að Gralinu. Leitin hefur þannig verið í boði fyrir grunnskólanemendur á Akureyri í samtals fimm skipti. Sjö skólar hafa tekið þátt, sumir oftar en aðrir. Árið 2010 var heimasíðan tekin í notkun. Síðan þá hefur hún fyrst og fremst verið notuð sem upplýsingaveita á meðan sjálfri Leitinni stendur en legið að mestu leyti niðri þess á milli. Sumarið 2012 var boðið upp á sérstaka hátíðarútgáfu af Leitinni að Grenndargralinu í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar. Gekk hún undir nafninu Grenndargral fjölskyldunnar. Í kjölfarið spruttu fram nýjar og spennandi hugmyndir um frekari landvinninga Leitarinnar. Í desember 2012 var tekið fyrsta skrefið í átt til nýrra áskorana. Verkefnið gengur nú í gegnum ákveðnar breytingar sem eiga sér ekki fordæmi í sögu Leitarinnar. Leitin hefur þannig slitið barnsskónum og horfir til framtíðar. Frá og með 1. janúar 2013 er Leitin að Grenndargralinu undir formerkjum Grenndargralsins en áfram verður boðið upp á Leitina fyrir grunnskólanemendur á haustin. Grenndargralið mun ennfremur fjalla um sögu og menningu heimabyggðar á lifandi og skemmtilegan hátt fyrir alla áhugasama, jafnt unga sem aldna. Með þessu skapast ný tækifæri við að bera sögu og menningu heimabyggðar á borð sem flestra um leið og haldið verður í ræturnar. Bolti Grenndargralsins er farinn að rúlla…

Fyrir 100 árum síðan!

Menningin blómstraði á Akureyri fyrir 100 árum síðan – dramatískar bíómyndir og Guðs orð. Eftirfarandi tilkynning birtist á forsíðu Norðurlands þann 15. febrúar árið 1913:

 Kvikmyndaleikhúsið.

 Þar er sýnd um þessar mundir, mynd er sýnir áhrif morfíns á þá er neyta þess, svo að notkun þess verður að þungri óviðráðanlegri ástríðu, eins og oft ber við erlendis. — Myndin er annars langur atburðaþráður er lýsir æfiferli ungrar stúlku, sem lendir í ástaræfintýri með giftum manni er hún heldur að sé ógiftur og ætli að eiga sig, en verður svo örvingluð er hún kemst að því, að hún er táldregin, að hún sleppir sér enn dýpra í lauslætislifnað og er þar margt áhrifa mikið. Að lokum getur hún hefnt sín grimmlega á þeim er tældi hana frá meyjar-sakleysi sínu. Myndin endar með sjálfsmorði.

 Kirkjan.

 Hádegismessa á morgun.“

 

Norðurland 13. árg. 1913, 4. tölublað (15.02.1913), blaðsíða 13

Af hverju ekki?

Af hverju opnum við ekki  vaxmyndasafn á Dalvík með þekktum heimamönnum? Svona nokkurs konar Madame Tussauds. Enn eitt safnið? Er þetta ekki komið gott? Nú þegar eru um 100 söfn á Íslandi og þau eru vægast sagt ólík eins og þau eru mörg!  Sum endurspegla sögu og menningu heimabyggðar. Sjáið bara Síldarminjasafnið á Siglufirði. Þar er merkilegum kafla í sögu Siglufjarðar gert hátt undir höfði. Fáskrúðsfjörður. Safn um veru franskra skútusjómanna á Íslandi. Reykjavík. Hið íslenzka reðasafn. Já, eða allavega þá eru mörg athyglisverð söfn þarna úti. Myndi vaxmyndasafn á Dalvík ekki sóma sér vel innan um flott söfn eins og Fuglasafnið í Mývatnssveit, Fiskasafnið í Vestmannaeyjum og svo aftur önnur söfn sem eru hvorki fugl né fiskur? Ég meina, Dalvíkurbyggð telur ekki nema u.þ.b. 2000 manns en samt „framleiða“ Dalvíkingar ógrynni af frægðarfólki. Hægt væri að skipta safninu í tvo hluta; frægir Dalvíkingar (Svarfdælingar) – lífs eða liðnir. Meðal lifenda mætti svo skipta niður í hópa eftir því fyrir hvað viðkomandi er þekktur. Fjölmennasti flokkurinn yrði sennilega flokkur listamanna: Eyþór Ingi, Hjálmar Hjálmarsson, Matti Matt, Friðrik Ómar, Þórarinn Eldjárn o.fl. Í hópi íþróttamanna má nefna skíðakappana Björgvin Björvinsson og Daníel Hilmarsson og svo auðvitað fótboltamennina Heiðar Helguson og Sigurbjörn Hreiðarsson. Ekki eru nú minni nöfn hjá þeim sem farnir eru yfir móðuna miklu: Freymóður Jóhannsson, Jóhann risi, Kristján Eldjárn og þeir Ljótólfur goði og Þorsteinn svörfuður söguhetjur úr Svarfdælu. Já það er með eindæmum hvernig svona lítið samfélag fer að því að gefa af sér svona mikið af þekktu og vinsælu fólki. Dalvíkingar eiga líka mikið af duglegum og skapandi einstaklingum sem þora að láta drauma sína rætast. Með hóp af slíku fólki og Júlíus fiskikóng þar fremstan í flokki er allt hægt. Logi Bergmann yrði án efa til í að beita sínum áhrifum í fjölmiðlaheiminum við að koma hinu nýja og glæsilega safni á framfæri. Spurning reyndar hvað jafnréttissinnar segja við hugmyndinni. Hér hallar nokkuð á hlut kvenna og það er eitthvað sem gera þyrfti úrbætur á. Mikill styrkur yrði fólginn í því fyrir Júlíus að fá duglegan kvenskörung með sér í hugstormun og til að leiða vinnuna. Hvað með Svanhildi Hólm? Viðskiptahugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar að þessu sinni fá Freyjurnar. Freyjurnar opnuðu heimasíðu á síðasta ári þar sem þær birta greinar um allt milli himins og jarðar. Þær tala opinskátt um ýmis hugðarefni og eru óhræddar við að gagnrýna menn og málefni. Freyjurnar taka fyrir álitamál sem vekja upp viðbrögð og draga fram ólíkar skoðanir fólks. Þarna eru á ferðinni ungar, ákveðnar stúlkur sem hafa skoðanir á málefnum, þora að koma þeim á framfæri opinberlega og rökstyðja mál sitt. Á heimasíðu Freyjanna segir:

„Freyjurnar er hópur ungra kvenna með munninn fyrir neðan nefið. Freyjurnar tóku eftir skorti á fjölbreyttri umræðu í flóru íslensku netheimanna og ákváðu að bæta úr því með þessari forláta bloggsíðu að láta skoðanir sínar í ljós og hvetja þar með til fjölbreytileika, opinnar umræðu, fallegra ummæla og þroskaðra tilsvara.“

Slóð Freyjanna: http://freyjur.wordpress.com/2012/11/15/fosturlandsins-freyjur/

Fyrir 100 árum síðan!

Þann 8. febrúar 1913 birtist grein í Norðra undir heitinu Ýmislegt  um Akureyri. Þar segir frá óánægju með fræðsluyfirvöld á Akureyri vegna bruðls og of hárra fjárframlaga til barnaskólans í bænum.

Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan!

 

„Fræðslumálanefnd kaupstaðarins hefir með barnaskólamálið að gera, þykir mörgum hún nokkuð eyðslusöm á fé og hafa gert hina almennu og fyrirskipuðu barnafræðslu i bænum dýrari en brýna nauðsyn ber til og þurft hefði til þess þó að geta fylgt fyrirmælum fræðslulaganna. Það sem mörgum þykir að skólanum er fyrst og fremst þetta:

 1. Laun sumra föstu kennaranna séu of há, töluvert hærri en ákvæði fræðslu laganna geri ráð fyrir. Launin hafa verið bundin við persónur, sem hafa sætt lagi að fá samþyktar launaviðbætur í bæjarstjórninni, þegar vinir þeirra hafa verið fjölmennari á fundi en afturhaldsmennirnir svo kölluðu hafa verið fjarverandi. Kennarastöðurnar með fastákveðnum hæfilegum launum hafa eigi verið auglýstar lausar og mönnum verið gefinn kostur á að sækja um þær.

 2. Sumum kennurum skólans, sem virðast sæmilega launaðir, sé leyft að hafa kenslu annarstaðar síðari hluta dags, þetta telja sumir ekki heppilegt, því nóg sé að kenna 4 til 5 tíma á dag sé kent með áhuga, vilji kennarinn vinna meira eigi hann að fá sér önnur störf en kenslustörf að vinna síðari hluta dagsins.

 3. Föstu kennararnir séu óþarflega margir. Tímakennararnir reynist oftast eins vel, en ásóknin eftir að verða fastur kennari sé launanna vegna.

 4. Barnaskólinn hafi síðustu árin verið gerður að nokkurskonar tilraunaskóla. Hann hafi tekið upp kenslu í handavinnu o. fl. sem fræðslustjórn landsins gerir eigi að skyldu fyrir styrkveitingu, og inn á þessa tilraunabraut hafi verið gengið fulllangt. Akureyrarbær hafi hvorki fé né yfirburðakennara til þess að gera skóla sinn að fyrirmyndarskóla, há laun séu eigi einhlít til að afla skólanum ágætiskennara. Skriftarkensla reikningsfræðsla og það að láta börnin Iæra ýmislegt utanbókar hafi aftur fremur verið vanrækt síðustu árin, sem sé þó eitt hið nauðsynlegasta. Menn vantreysta skólanum að geta rétt við og lífgað heimilisiðnaðinn, til þess þurfi önnur ráð en þetta flingur í skólanum.

 5. Mönnum þykir ískyggilegt að 3 eða 4 efnaðar og barnmargar fjölskyldur senda eigi börn sín á skólann en hafa húskennara, í gamla daga fóru öll efnamannabörn á barnaskólann til að læra þar skrift, reikning, dönsku og til að láta hlýða sér yfir kver og biblíusögur og spyrja sig sig út úr og hafði skólastjóri þá ekki nema 6 til 800 kr. laun.

 6. Mönnum þykir undarlegt að barnaskólarnir í ýmsum kauptúnum landsins, sem eingöngu binda laun kennaranna við það sem fræðsluögin ákveða, þótt fremur sé dýrara að lifa á þessum stöðum en á Akureyri, skila börnum á fermingaraldri eins vel eða betur skrifandi, reiknandi, lesandi og hugsandi eins og barnaskólinn á Akureyri. Þó skal því eigi neitað að sum börn á Akureyri hafa lært meira í teikning og söng en í kauptúnunum. En hvortveggja það vekur og eykur fegurðartilfinningu.

 Það verður aldrei eingöngu féð eða aukin kennaralaun og fjölgun fastra kennara, sem efla álit barnaskólans á Akureyri og auka traust á honum og aðsókn til hans, heldur hitt, að það sem kent er sé kent vel, kennararnir kunni tökin á börnunum og gætilega sé farið inn á tilraunabrautir, gömlu aðferðunum eigi kastað fyrir borð fyr en talsverð reynsla er fengin fyrir að þær nýju séu eins góðar eða betri. Það réttasta sem stjórn kaupstaðarins gerði, væri að fá skólanefndinni sæmilega mikið fé til að láta kenna fyrir ákveðnar námsgreinar í barnaskóla á Akureyri, sem hefði 3 eða 4 fastakennara og tímakennara eftir þörfum. Tel eg þá sjálfsagt að minka mætti tillagið til skólans um 6 til 800 kr. á ári án þess að skólinn væri vanræktur.“

Norðri 8. árgangur 1913, 3. tölublað (08.02.1913), blaðsíða 9-10