Af hverju ekki?
Af hverju nýta Ólafsfirðingar sér ekki kosti Ólafsfjarðarvatns til eflingar menningartengdrar ferðamennsku á sumrin? Ólafsfjörður er fallegur staður en má vissulega muna fífil sinn fegurri. Síldin er farin, Leiftur er fallinn og Kristinn hættur að skíða. Á meðan nágrannarnir á Siglufirði hafa staðið að uppbyggingu á menningartengdri ferðamennsku undanfarin ár, og sér ekki fyrir endann á því, hafa Ólafsfirðingar að nokkru leyti setið eftir. Með sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar árið 2006 og tilkomu Héðinsfjarðarganganna árið 2010 hefði mátt ætla að staðirnir tveir fylgdust að. Eða hvað? Hvað sem því líður skulum við skoða hvaða tækifæri felast í Ólafsfjarðarvatni. Alltaf má finna eitthvað til að efla menningu í heimabyggð sem byggja má á óháð fjárhagslegri stöðu. Eins og víðar í Eyjafirði er náttúran eitt helsta aðdráttarafl Ólafsfjarðar. Hún er nú þegar til staðar og ekki þarf að taka lán fyrir henni. Náttúran myndar þannig grunn sem hægt er að byggja á. Heimamenn meta svo í framhaldinu hversu miklum fjármunum þeir vilja og geta varið til að byggja á þessum grunni. Eitt af því sem einkennir Ólafsfjörð er Ólafsfjarðarvatn. Vatnið er um 2,5 ferkílómetrar að stærð, u.þ.b. 3,5 km að lengd og 1 km á breidd. Sérstaða Ólafsfjarðarvatns felst í nálægð þess við sjó en í Vatninu má finna sjófiska svo sem þorsk, ufsa og kola. Svo mjög þótti Frökkum þetta merkilegt að þeir sendu herskip til Ólafsfjarðar með hóp franskra vísindamanna árið 1891 til að rannsaka Vatnið. Voru niðurstöður rannsóknarinnar birtar í virtu frönsku vísindariti. Vatnið er fallegt og setur sterkan svip á bæjarstæðið. Frá því er fjallasýnin tignarleg í austur- jafnt sem vesturátt. Dæmi um afþreyingu sem þarf ekki að vera svo kostnaðarsöm og flókin í framkvæmd er sigling á Vatninu. Hér er ekkert nýtt undir sólinni. Ólafsfirðingar hafa lengi siglt á Vatninu. En væri kannski hægt að gera meira úr því t.d. með því að bjóða upp á ólíka upplifun og með mismunandi markmið í huga? Gúmmíbátar, árabátar, spíttbátar, sæsleðar, sjóskíði o.s.frv. Veiði, adrenalín, sögukennsla, náttúruupplifun o.s.frv. Svo getum við leikið okkur með möguleikana ef fjármagn fæst. Hér erum við farin að tala um flotta bryggju þar sem fleyin stór og smá verða gerð út. Við erum að tala um komu sjóflugvéla á Vatnið. Við erum að tala um veitingastað við Vatnið sem byggir á fersku hráefni úr heimabyggð, með áherslu á fiskmeti úr Ólafsfjarðarvatni. Við erum að tala um kaffihús við Vatnið með frönsku ívafi þar sem tengingunni við frönsku vísindamennina er haldið á lofti.
Síðast en ekki síst erum við að tala um hótelbyggingu við Vatnið til að anna eftirspurn forvitinna ferðamanna. Þannig mun þungamiðja bæjarins færast með tíð og tíma að þeim stað við Ólafsfjarðarvatn þar sem menningin í bænum blómstrar – þar sem hjartað slær. Þaðan á bærinn kost á því að stækka í fjarlægri framtíð í suðurátt meðfram Ólafsfjarðarvegi eystri. Hver veit nema Frakkar sendi þá leiðangur til Ólafsfjarðar til að rannsaka áhrif stöðuvatns á menningu? Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd