Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fær Akureyri-vikublað. Blaðið hefur frá því í nóvember 2011 birt reglulega greinar eftir grunnskólanemendur á Akureyri, ýmist í blaðinu sjálfu, netútgáfu eða hvoru tveggja. Greinarnar eru orðnar tæplega tuttugu talsins og hafa vakið nokkra athygli. Ekki hefur tíðkast að rödd unglinga heyrist með þessum hætti í fjölmiðlum. Því gætti ákveðins óöryggis við upphaf vegferðarinnar. Nú, rúmu ári síðar, hafa greinaskrif grunnskólanemenda vonandi fest sig í sessi og eðli málsins samkvæmt á Akureyri-vikublað stóran þátt í því. Krakkarnir hafa öðlast sjálfstraust og sjá að þeir eiga erindi inn á þennan vettvang ekki síður en þeir sem eldri eru. Með framtaki sínu hefur Akureyri-vikublað opnað leið fyrir unga fólkið til að koma skoðunum sínum á framfæri og þannig lagt sitt af mörkum við að efla menningu heimabyggðar.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd