Akureyri 1862
Akureyri. Bærinn sem dregur nafn sitt af akri og/eða akuryrkju. Ritaðar heimildir þar sem Akureyrar er getið má rekja aftur til 16. aldar. Með einokunarversluninni 1602 eykst umferð skipa um höfnina. Akureyri leysir Gáseyri af hólmi sem aðalhöfnin í Eyjafirði.
Fyrsta íbúðarhúsið rís á Akureyri árið 1778. Danskur kaupmaður að nafni Friðrik Lynge reisir húsið við Hafnarstræti. Einokunarverslun líður undir lok árið 1786. Í kjölfarið eru sex kaupstaðir stofnaðir á Íslandi, þ.á.m. einn á Akureyri. Ætlunin er að efla hag þjóðarinnar. Tilraunin mistekst og Akureyri missir kaupstaðarréttindin árið 1836.
Tæp 26 ár líða þar til Akureyri hlýtur kaupstaðarréttindi öðru sinni. Það gerist þann 29. ágúst árið 1862.
„Hingað til amtsins er komið brjef frá stjórninni um, að Akureyrar bær sje aðskilinn frá Hrafnagilshrepp og jafnframt því öðlast kaupstaðarjettindi, sem Reykjavík. Það eru þá orðnir 2 heilir kaupstaðir á landinu.“
Norðanfari, 1. árgangur 1862 – 19.-20. tbl, bls. 77. Eigandi og ábyrgðarmaður Björn Jónsson. Prentsmiðjan á Akureyri, B.M. Stephánsson.
Árið 1862 eru íbúar 294 talsins, þar af 16 verslunarmenn, 24 iðnaðarmenn og 53 bæjarbúar teljast til vinnufólks. Rúmlega 40 íbúðarhús eru í bænum.
Bænum má skipta í þrjá hluta; Fjaran er syðsti hlutinn, Sjálf Akureyrin norðan við Fjöruna og Búðargilið þar fyrir vestan. Oddeyri er ekki orðin hluti af bænum.
Bærinn er farinn að taka á sig mynd lítils kaupstaðar þar sem m.a. má finna verslanir, bókasafn, prentsmiðju og veitingasölu. Félagslíf dafnar – bæjarbúar fjölmenna á dansleiki og leikrit.
Smíði er hafin á kirkju í Fjörunni en hún hófst í maí. Um er að ræða fyrstu kirkju bæjarbúa. Áætlað er að vígja hana næsta ár.
Í bænum búa meðal annarra; Bernhard August Steincke verslunarstjóri, Mad. Geirþrúður Thorarensen ekkjufrú, Jóhannes Halldórsson barnakennari, Jón Finsen læknir, Jón Kristinn Stephánsson timburmaður, Kristbjörg Þórðardóttir húskona, Mad. Vilhelmína Lever borgarinna.
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd