Lesendahornið logaði vegna tónleika rokkgoðs í Sjallanum

Mikil eftirvænting ríkti norðan heiða í ársbyrjun 1987 vegna fyrirhugaðrar heimsóknar Fats Domino til Akureyrar. Óhætt er að segja að píanósnillingurinn frá New Orleans hafi verið mikill hvalreki fyrir áhugafólk um klassíska rokktónlist. Hann var einn af frumkvöðlum rokksins í Bandaríkjunum á sjötta áratug 20. aldar og var þar í hópi með mönnum eins og Chuck Berry, Bill Haley, Little Richard og Elvis Presley.

Fats Domino seldi heilu bílfarmana af plötum á ferli sínum sem spannaði áratugi. Til marks um afköst og vinsældir hans sem tónlistarmanns má nefna á fjórða tug platna á topp 40 á bandaríska Billboard listanum og á annan tug laga á topp 10 listanum þar í landi á árunum 1955-60. Meðal þekktra laga hans eru Ain´t That A Shame, Blueberry Hill og I´m Walkin.

Spennan var því mikil þegar fyrstu fregnir bárust af komu Fats til bæjarins. Loksins gafst Akureyringum og nærsveitungum tækifæri til að fara á tónleika með heimsfrægum tónlistarmanni í heimabyggð og losna jafnframt við ferðalag suður yfir heiðar. Eitthvað virðast þó dagsetningar á þrennum tónleikum Domino í Sjallanum 2. – 4. febrúar hafa farið illa í suma. Lesendahorn Dags logaði fyrir og eftir tónleikana.

„Nú er ég svo sár og reið að ég verð bara að fá útrás! Ég tilheyri þeim hópi Norðlendinga sem glöddust ákaflega þegar fréttir bárust af því að Fats Domino væri á leið til landsins öðru sinni og myndi halda þrenna tónleika í Sjallanum á Akureyri. Ég hugsaði með mér: „Loksins, loksins. Þar kom að því. Nú þarf maður ekki lengur að fara í helgarpakka til Reykjavíkur til að sjá þessa gömlu garpa, sem alltaf eru að heimsækja landann. Þökk sé Ólafi Laufdal!“ Á fimmtudaginn hringdi ég svo í Sjallann, ég ætlaði nefnilega að tryggja mér miða í tíma. En ég varð fyrir miklum og sárum vonbrigðum. Mér var nefnilega tjáð að Fats Domino kæmi til með að halda 9 tónleika á landinu að þessu sinni – og haldið ykkur nú: Gamli garpurinn spilar í Broadway á föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöldi; í Sjallanum á mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöldi og síðan aftur í Broadway á fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöldi. Já takk, kærlega. Það á sem sagt að bjóða Akureyringum og nágrönnum upp á tónleika á virkum kvöldum en Reykvíkingar sitja einir að helgartónleikunum. Ég lýsi hér með vanþóknun minni á þessu fyrirkomulagi. Svo mikið er víst að ég læt ekki bjóða mér þetta og hef ákveðið að sitja heima. Það er vinnudagur daginn eftir alla tónleikana hér hjá þorra fólks og auk þess skilst mér að aðgöngumiðinn sé jafndýr á tónleikana í Sjallanum og Broadway. Ég ætla bara að vona að fleiri fylgi fordæmi mínu og láti ekki bjóða sér þetta.“

„Hér er heimsfrægur maður á ferð og fólki gefst einstakt tækifæri til að sjá hann á tónleikum hér á Akureyri. Ólafur Laufdal eigandi Sjallans hefur sýnt fram á að líklega verði tap á þessum tónleikum, en sig hafi engu að síður langað til að bjóða Akureyringum upp á þessa skemmtun. Mér verður hugsað til þess núna, að í fyrra, þegar Fats Domino var með tónleika í Broadway, fór fjöldi manns héðan suður, sérstaklega til að sjá kappann skemmta. Samt kostaði það talsverða peninga, flugfarið, gistingin o.fl. Svo eru menn að setja það fyrir sig hversu „dýrt“ sé inn á tónleikana hér. Miðað við það að hér er heimsfrægur skemmtikraftur á ferðinni, finnst mér aðgöngumiðaverðið bara alls ekkert hátt. Og eitt enn. Margir setja það fyrir sig að tónleikarnir eru allir á virkum kvöldum, þ.e. að vinnudagur er daginn eftir. þeir sem það gera, hljóta að rugla tveimur óskyldum hlutum saman: Tónleikum með Fats Domino annars vegar og fylleríi um helgar hins vegar. Ég sé ekki að menn þurfi að vera undir áhrifum áfengis til að njóta þessarar skemmtunar. Fyrir skömmu hélt Sinfóníuhljómsveit Íslands tónleika á Akureyri á fimmtudagskvöldi. Ég man ekki til þess að nokkur maður hafi kvartað, þótt vinnudagur væri daginn eftir. Þótt Fats Domino spili allt annars lags tónlist en Sinfóníuhljómsveitin finnst mér þetta alveg sambærilegt. Ég skora því á alla þá sem unna tónlist Fats Domino að láta nú sjá sig og tryggja þannig að Akureyringar verði áfram inni í myndinni þegar stórstjörnur utan úr heimi heimsækja landið og halda tónleika.“

Á meðan ólík sjónarmið tókust á í dagblöðunum kepptust skipuleggjendur við að undirbúa komu rokkstjörnunnar goðsagnakenndu og tónleikana í Sjallanum. Forsala miða gekk ekki nægilega vel, hverju sem sætti. „Því miður verð ég að segja að aðsóknin mætti vera meiri“ sagði Inga Hafsteinsdóttir í samtali við Dag þann 29. janúar, aðeins fjórum dögum fyrir fyrstu tónleikana. Staðan var litlu betri þegar Domino steig út úr flugvél sinni á snævi þöktum Akureyrarflugvelli þann 2. febrúar. Með í för var Björgvin Halldórsson.

Fats Domino (í hvítum frakka með kúrekahatt) með samferðamönnum við komuna til Akureyrar þann 2. febrúar 1987

 

„Fine, fine“ svaraði Domino sígildri spurningu blaðamanns um álit rokkarans á landi og þjóð og lýsti yfir ánægju með snjóinn. Hann kvaðst aldrei hafa spilað og skemmt fólki á jafn norðlægum slóðum. Með því sama settist hann inn í Benz glæsibifreið og hvarf af vettvangi. Nokkrum klukkustundum síðar var hann mættur ásamt hljómsveit sinni í Sjallann, í fyrsta gigg af þremur.

Blaðamaður Dags var á staðnum og hélt ekki vatni yfir sýningunni sem Domino bauð upp á. „Það er erfitt að finna hin réttu lýsingarorð sem ná yfir þá gríðarlegu stemmningu sem ríkti í Sjallanum á mánudagskvöldið er hinn heimsfrægi Fats Domino hélt þar sína fyrstu tónleika ásamt hinni stórkostlegu hljómsveit sinni. Þessir kappar heilluðu gesti hússins gjörsamlega upp úr skónum og þegar blásarahópurinn hélt í gönguferð út í salinn í lok tónleikanna og blés í leiðinni kröftuglega hið þekkta „When The Saints…“ ætlaði þakið bókstaflega að rifna af húsinu. Þakið hélt þó að þessu sinni enda ýmsu vant, en aldrei hefur önnur eins sveifla dunað í Sjallanum.“

Grenndargralið hafði samband við Björgvin Halldórsson og spurði hann út í heimsókn Domino til Akureyrar og hvernig það kom til að hann sjálfur var með í för.

„Það eru margar sögurnar með Fats. Ég sá um komu hans til landsins sem og komu Jerry Lee Lewis. Það eru fleiri sögur af Fats þegar hann var í Reykjavík. Ég man bara eftir því þegar hann var á Akureyri, þá sagði hann mér persónulega að hann hefði alltaf haldið að Iceland væri í Nova Scotia. Hann stoppaði stutt á Akureyri. Ég var með einu einkaþotuna sem til var á landinu svo þetta var bara „in and out“ ferð.“

Áfram héldu lesendur Dags að láta í sér heyra á síðum blaðsins löngu eftir að Fats Domino kvaddi Akureyri. Viku eftir þriðju og síðustu tónleikana birtust eftirfarandi skilaboð frá manni sem hafði samband við lesendahorn blaðsins.

„Grátkerlingarnar sem vældu sem mest í þessum lesendadálki ykkar vegna þess að tónleikar Fats Domino í Sjallanum voru á virkum dögum en ekki um helgi eru nú þagnaðar og er það vel. Það er líka vonandi að þær haldi sig á mottunni næst þegar boðið verður upp á heimsfræga skemmtikrafta á Akureyri, þótt það verði í miðri viku. Þessi grátkonukór hafði hátt og ein kerlingin hvatti meira að segja fólk til að sitja heima, það væri ekki hægt að bjóða upp á þessa skemmtun þegar vinnudagur væri daginn eftir. Það var ekki þessi tónninn í Akureyringum þegar Ólafur Laufdal opnaði Sjallann með viðhöfn fyrir áramótin og bauð Akureyringum í hundraðatali til veislu. Þá gátu Akureyringar mætt þótt á fimmtudegi væri og annar hver maður var „på skallinn“. Nei þá var ekki vælt, en nú var sveitapólitíkin höfð uppivið. Það eina góða við þetta var það að grátkerlingarnar misstu af þessari frábæru skemmtun, það var gott á þær. Ég vil bara ráðleggja Akureyringum að hugsa málið næst.“

Antoine Dominique “Fats” Domino Jr. lést árið 2017. Hann var 89 ára gamall.

 

Heimildir:

Fats Domino. (2021, 4. janúar). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Fats_Domino

Fyllerí og Fats Domino. [Lesendahornið – Alfreð hringdi] (1987, 2. febrúar). Dagur, bls. 5.

„Grátkórinn“ er þagnaður. [Lesendahornið – Gummi hringdi] (1987, 11. febrúar). Dagur, bls. 5.

Gylfi Kristjánsson. (1987, 29. janúar). „Aðsókn mætti vera meiri“. Dagur, bls. 12.

Stefán Sæmundsson. (1987, 3. febrúar). Fats Domino heilsaði með breiðu brosi. Dagur, bls. 1.

„Þetta læt ég ekki bjóða mér“. [Lesendahornið – Sjallagestur skrifar] (1987, 20. janúar). Dagur, bls. 5.

Mynd af Fats Domino: https://www.nepm.org/post/fats-domino-rip-1928-2017#stream/0

Mynd af Sjallanum: https://restaurantguru.com/Sjallinn-Akureyri

Mynd af Fats Domino og samferðamönnum á Akureyrarflugvelli: http://samflug.com/Flug/Icejet.jpg

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd