main image

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 4. Íslandsdvölin

Þann 12. desember 1941, fimm dögum eftir árásina á Pearl Harbor, lagði herskip af stað frá Bandaríkjunum áleiðis til Íslands. Fáir um borð vissu hvert stefnan yrði tekin. Stór hópur bandarískra hermanna var á leið til eyjunnar afskekktu í Atlantshafi. Ethel Hague Rea og tíu samstarfskonur hennar í ameríska Rauða krossinum voru um borð í skipinu, klæddar gráum einkennisbúningi og tilbúnar að gleðja ameríska setuliðsmenn hvar sem borið yrði niður. Meðal þeirra voru Mary Dolliver, Elizabeth Clark og Nancy Duncan.

Eitt af því sem ég rak augun í á netinu í leit minni að upplýsingum um Ethel, er bók sem kom út árið 1943. Hún heitir They sent me to Iceland og er skrifuð af einni úr hópnum. Í bókinni lýsir Jane Goodell sjóferðinni til Íslands og vistinni hér á landi. Ég hugsa með mér; „ja, þarna er líklega komin heimild sem varpar einhverju ljósi á dvöl Ethel Hague Rea á Íslandi á stríðsárunum – sópransöngkonunnar með nótnaheftið“. Kannski leynist eitthvað þarna sem útskýrir hvernig nótnaheftið hennar lenti hjá Ingimari Eydal. Ég finn eintak af bókinni á netinu og sé fljótt að Ethel kemur nokkuð við sögu. Ég gleymi mér við lesturinn…

Þessi ellefu manna hópur kvenna sem starfaði fyrir ameríska Rauða krossinn var hinn fyrsti til að sigla yfir hafið með það að markmiði að skemmta bandarískum hermönnum í seinni heimsstyrjöldinni. Enginn úr þeirra röðum vissi hvernig ætti að hafa ofan fyrir hermönnunum á Íslandi. Ethel og hinir frumkvöðlarnir í hópnum renndu blint í sjóinn með förinni hingað til lands. Þær fengu þó að spreyta sig á leiðinni því það kom í þeirra hlut að halda jólin hátíðleg um borð og bjóða upp á skemmtiatriði t.d. söng. Skipið, sem hafði áður gegnt hlutverki farþegaskips og verið í siglingum til Puerto Rico, lagðist við höfn í Reykjavík í janúar 1942. Þegar hér er komið sögu, gef ég mér að nótnaheftið sé komið til Íslands, kannski geymt í einu af þeim þremur koffortum sem Ethel hafði með sér.

Ethel kom sér fyrir í frekar óvistlegum bragga í höfuðborginni og hóf að undirbúa þjónustu við setuliðsmenn hér. Um tíma starfaði hún ásamt samstarfskonu sinni Doris Thain í fiskiþorpi skammt frá braggahverfinu. Á Íslandi átti hún eftir að dveljast til haustsins 1943, samtals í 21 mánuð. Meðal verkefna hennar hér var að bæta tómstundaaðstöðu setuliðsmanna og tryggja aðgengi þeirra að afþreyingu og menningu sem var af skornum skammti þegar Rauðakross-konur komu til landsins.

Ein af þeim áskorunum sem stöllurnar stóðu frammi fyrir var skortur á húsnæði. Hvert skúmaskot var því nýtt til að setja upp leikrit, koma fyrir spilum eða annað til að létta setuliðsmönnum lundina. Allt voru þetta skammtímalausnir og ljóst að tómstundastarfsemi fyrir þá hér kallaði á varanlegt húsnæði. Það varð að veruleika 16. september 1942 þegar fyrsta tómstundamiðstöðin á vegum ameríska Rauða krossins var tekin í notkun í Reykjavík, tveimur árum upp á dag áður en Marlene Dietrich spásseraði um braggahverfi Reykjavíkur.

Snemma árs 1943 fengu Ethel og vinkonur hennar góðan liðsauka þegar einn efnilegasti píanóleikari Bandaríkjanna kom hingað til starfa á vegum ameríska Rauða krossins. Þannig má telja líklegt að leiðir þeirra, þ.e. Ethel og píanóleikarans, hafi legið saman mánuðina sem eftir lifðu áður en Ethel fór af landi brott. Grenndargralið hefur undir höndum heimildir sem staðfesta heimsókn unga píanóleikarans og samstarfsaðila Ethel hjá Rauða krossinum, til Akureyrar í ársbyrjun 1944.

Er hugsanlegt að nótnahefti sópransöngkonunnar hafi leynst í fórum píanóleikarans við komuna til Akureyrar?

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 1. Fundurinn

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 2. Söngbókin

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 3. Ethel

Framhald…

Mynd af Rauðakross-starfsfólkinu eftir komuna til Íslands í janúar 1942. Myndin er tekin í maí sama ár. Líklega er Ethel Hague Rea á myndinni. Grenndargralið getur sér til að hún sé fyrir miðri mynd í öftustu röð. Myndin er tekin úr bók Jane Goodell, The sent me to Iceland.

 

Heimildir:

Goodell, J. (1943). They sent me to Iceland. Ives Washburn Inc.

Korson, G. (1945). At His Side – The Story of The American Red Cross Overseas in World War II. Coward-McCann Inc.

Ethel fær ásjónu

Ethel Hague Rea starfaði hér á landi á vegum ameríska Rauða krossins á stríðsárunum. Meðfylgjandi ljósmynd er af Ethel að skenkja kaffi í bolla fyrir tvo setuliðsmenn í tómstundamiðstöð Rauða krossins á Íslandi árið 1942. Myndin er sú hin sama og nefnd hefur verið til sögunnar í umfjöllun Grenndargralsins um „Nótnahefti sópransöngkonunnar“. 

Nótnahefti merkt Ethel í bak og fyrir, fannst í  fórum tónlistarmannsins Ingimars Eydal að honum látnum. Í samstarfi við Ástu Sigurðardóttur ekkju Ingimars, reynir Grenndargralið að komast að því hver sagan á bak við sópransöngkonuna og Rauðakross-starfsmanninn Ethel Hague Rea er og hvernig Ingimar eignaðist nótnahefti sem tilheyrði henni.

Heimildir um Ethel Hague Rea eru af skornum skammti. Eftir því sem Grenndargralið best veit er hér um einu myndina að ræða af Ethel sem fáanleg er á veraldarvefnum. Myndin er fengin af eBay.com en hún er dagsett 4. október 1942. Þar má finna hana undir yfirskriftinni 1942 Press Photo Miss Ethel Hague Rea Services Hot Coffee To Soldiers In Iceland. Myndin er verðlögð á 34 dollara.

Ef einhver telur sig hafa upplýsingar um Ethel Hague Rea, t.d. ljósmyndir, er rétt að benda á facebook-síðu Grenndargralsins. Allar upplýsingar eru vel þegnar.

Bakhlið myndarinnar.

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 3. Ethel

Að svo komnu máli liggur beinast við að byrja á að rifja upp athuganir sem ég gerði á síðasta ári á veru setuliðsins í Hlíðarfjalli. Ég rakst á mörg erlend nöfn í tengslum við þá vinnu. Að mestu leyti var þar um nöfn karlmanna að ræða. Þá má slá því föstu að Ethel Hague Rea er ekki dulnefni yfir hina heimsþekktu Marlene Dietrich sem kom nokkuð við sögu. Ég minnist þess að hafa lesið mér til um skemmtun sem ameríski Rauði krossinn stóð fyrir á Akureyri á umræddu tímabili. Meira hafði ég ekki í höndunum þegar Ásta hafði samband og ekki um annað að ræða en að kanna málið nánar.

Fátt er um fína drætti þegar nafnið „Ethel Hague Rea“ er slegið inn á leitarsíðum alnetsins. Fáar síður birtast, litlar upplýsingar og svo gott sem engar myndir utan fyrrnefndrar ljósmyndar af Ethel og setuliðsmönnunum tveimur á Íslandi. Stundum getur borgað sig að leita í hyldýpi alnetsins eftir upplýsingum, svo ég freista þess að grafa örlítið dýpra. Ég finn vísbendingar sem mér þykja álitlegar. Þær leiða mig á slóðir tónlistartímaritsins Radio Mirror. Útgáfa þess hófst í Bandaríkjunum á millistríðsárunum en tímaritið kom út til ársins 1977. Þar finn ég umfjöllun um mína konu.

Ef marka má greinina „Do you remember?“ í febrúar-útgáfu tímaritsins frá árinu 1945, átti Ethel  farsælan feril sem söngkona á millistríðsárunum. Rödd hennar heyrðist á öldum ljósvakans í Bandaríkjunum og hún kom fram á fjölsóttum tónleikum. Svo virðist sem hún hafi horfið af sjónarsviðinu því blaðið spyr „hvað orðið hafi um hana“ (What´s become of her?). Hún er sögð hafa sagt skilið við „skemmtanabransann“ í aðdraganda styrjaldar en viljað þjóna föðurlandinu í stríðinu og helst á þann hátt sem hún kunni best – að koma fram og skemmta. Því hefði hún boðið fram þjónustu sína við að skemmta bandarískum hermönnum.

Í október 1941 lá fyrir að hún yrði send með skipi á óþekktar slóðir. „Hvað má ég hafa mikinn búnað með mér?“ spurði Ethel í aðdraganda sjóferðarinnar. „Nóg er plássið“ var svarið sem hún fékk svo hún tók með sér þrjú koffort og fjórtán handtöskur. Hver hirsla var nýtt til hins ítrasta. Meðal þess sem finna mátti í farangri hennar var útvarp, grammófónn, 250 plötur, straubretti, klappstóll, kommóða full af ullarfatnaði, ýmiskonar spil og gestaþrautir, kreppappír til föndurgerðar fyrir særða hermenn og… söngbækur (song sheets)!

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 1. Fundurinn

                   Nótnahefti sópransöngkonunnar – 2. Söngbókin

Framhald…

Umsögn um sópransöngkonuna Ethel Hague Rea eftir tónleika sem hún hélt á tónlistarhátíð í Bandaríkjunum í september árið 1918 (The American Artists Composers And Managers Festival). Umsögnin birtist í tímaritinu Music News.

 

Heimild:

Doris McFerran [ritstjóri]. (1945, febrúar). Do you remember? Radio Mirror(vol.23 no.3), 17. https://archive.org/details/radiomirro00mac/page/n111/mode/2up

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 2. Söngbókin

Eftir að hafa lesið skilaboðin frá Ástu, velti ég fyrir mér hvers vegna hún ákvað að leita í viskubrunn Grenndargralsins vegna söngkonu sem söng fyrir gesti í Boston árið 1918. Ég var hins vegar fljótur að átta mig þegar ég skoðaði „neðri“ myndina sem fylgdi skilaboðunum.

Myndin sýnir konu í einkennisbúningi að skenkja kaffi í bolla fyrir tvo hermenn sem sitja við borð. Ekki fer á milli mála þegar rýnt er í myndina að merki Rauða krossins er á vinstri handlegg konunnar sem kynnt er til sögunnar sem Ethel Hague Rea. Í útskýringum sem fylgja með, kemur fram að myndin er tekin í tómstundamiðstöð ameríska Rauða krossins (American Red Cross Recreation Center) á Íslandi árið 1942. Þarna er kominn grunnur sem byggja má á við heimildaleit. Einhvers konar upphafspunktur.

Þar sem ég er vongóður um að nafnið og ljósmyndin muni leiða mig á rétta braut við að finna út hver konan er, legg ég rólegur allar slíkar hugleiðingar til hliðar í bili. Ég hef minna til að reiða mig á þegar kemur að nótnaheftinu og því vil ég reyna að afla mér upplýsinga um það áður en lengra er haldið. Ég veit að það var gefið út í Boston en ég veit ekki hvenær. Ég heyri í Ástu og fæ hana til að lýsa heftinu betur fyrir mér og senda mér myndir af því.

Lýsingin dugar mér til að finna upplýsingar um sambærilegt nótnahefti á netinu frá árinu 1937. Ég get ekki betur séð en heftin tvö séu nákvæmlega eins, af myndunum að dæma. Þannig fæ ég ágætis yfirsýn yfir heftið sem Ásta fann í kassa heima hjá sér – heftið sem svo mikil leynd hvílir yfir.

Vissulega er um að ræða nótnahefti. En þar með er ekki öll sagan sögð. Heftið er aukinheldur söngbók með yfir 150 sígildum sálmum, samtals 144 blaðsíður. Kápan bókarinnar er appelsínugul, með yfirskriftina SING! Á fyrstu blaðsíðu segir að „söngbókin nýtist við ýmis tækifæri, á heimilum og í skólum, á almenningssamkomum, fundum og hátíðum. Með bókinni fylgja nótur fyrir píanó. Bókin er sett saman og ritstýrð af David Stevens og Peter W. Dykema. Martha Powell Setchell ber ábyrgð á útliti bókarinnar.“ Útgefandi er C.C. Birchard & company í Boston. Bókin er prentuð hjá John Worley Company í sömu borg.

Ég hef núna glögga mynd af nótnaheftinu sem Ásta geymir og innihaldi þess. Ég veit að kona að nafni Ethel Hague Rea átti heftið á einhverjum tímapunkti. Stimplar með nafni hennar og ameríska Rauða krossins á forsíðu, bakhlið og á blaðsíðum bera þess glöggt vitni. Ég veit líka að umrædd Ethel var á Íslandi árið 1942 og margt sem bendir til þess að hún hafi verið starfsmaður Rauða krossins. Ég sé að nú er rétt að kynnast konunni betur.

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 1. Fundurinn.

Framhald…

Nótnaheftið sem Ásta fann í dóti Ingimars Eydal, merkt Ethel Hague Rea og ameríska Rauða krossinum. 

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 1. Fundurinn

Grenndargralinu bárust á dögunum tvær myndir með tölvupósti. Önnur er svarthvít með konu og tveimur karlmönnum, öll í einkennisbúningum. Hin er litmynd af, að því er virðist, forsíðu á gamalli bók. Með myndunum fylgdu skilaboð.

„Takk fyrir góð skrif og skemmtileg. Ástæða þess að ég set þessar myndir inn eru frásagnir af hernum og Hlíðarfjalli, þar var komið inn á söngkonur sem komu til að skemmta hermönnunum. Sú fyrri er af nótnahefti sem ég fann í dóti mannsins míns Ingimars Eydal. Það er margstimplað með Ethel Hague Rea, American red cross. Sannarlega hef ég velt fyrir mér hvaðan það hafi komist í mitt hús. Neðri myndin er af konu með þessu nafni, fann hana á netinu. Það er líklegast að einhver hafi gefið IE nótnabókina. Ef einhver telur sig eiga tilkall til bókarinnar, þætti mér gott að fá að vita um það. Það er ekki á henni ártal, útgáfustaður er Boston og ég hef fundið sópransöngkonu með þessu nafni á netinu sem söng í Boston árið 1918. Nú er spurningin, hefur þú í grúskinu um herinn hugsanlega rekist á þetta nafn? Með kveðju, Ásta Sigurðardóttir.“

Setuliðsmenn og skemmtikraftar á stríðstímum. Gömul nótnabók með stimplum sem leynd hvílir yfir. Akureyri og Hlíðarfjall. Gersemar í sögu og menningu heimabyggðar sem teygja sig alla leið til Boston. Forvitni Grenndargralsins er vakin.

Ýmsar spurningar vakna. Eftir því sem fleiri steinum er velt, verða spurningarnar fleiri. Svo ekki sé nú talað um sjálfan fundinn. Að Ásta skuli finna hlut í eigu eiginmanns síns – hins ástsæla tónlistarmanns Ingimars Eydal, tæpum 30 árum eftir lát hans, hlut sem hún kann engar útskýringar á hvernig lenti inn á heimili þeirra hjóna en má mögulega tengja við veru setuliðsins á Akureyri – er áhugaverður efniviður í sögu svo ekki sé meira sagt.

Hver skyldi sagan vera á bak við nótnahefti ameríska Rauða krossins? Hver var Ethel Hague Rea, líklegur eigandi heftisins og hvernig lenti það hjá Ingimari Eydal? Þetta eru spurningarnar sem Ásta leitar nú svara við. Grenndargralinu er ljúft og skylt að aðstoða við lausn ráðgátunnar um hið dularfulla nótnahefti óþekktu sópransöngkonunnar og hvernig það komst til Akureyrar og í hendur Ingimars Eydal.

Framhald…

Ásta Sigurðardóttir og Ingimar Eydal á 9. áratugnum. Myndin er í eigu Ástu.

Sagan á bak við nótnahefti ameríska Rauða krossins?

 

Grenndargralinu bárust á dögunum tvær myndir með tölvupósti. Önnur er svarthvít með konu og tveimur karlmönnum, öll í einkennisbúningum. Hin er litmynd af forsíðu á gömlu nótnahefti. Með myndunum fylgdu skilaboð. 

Fylgist með umfjöllun Grenndargralsins…

Ímynd – mynd

 

Eftirfarandi hugleiðingar Þorvaldar Þorsteinssonar um ungmennabækur og bókalestur birtust í Degi þann 27. mars árið 1981.

 

Ímynd – mynd

Sögubrot það er hér fylgir telst ekki til tímamótaverka í gerð íslenskra barnasagna. Aftur á móti er það dæmi um þá hryggilegu stefnu sem nú ríkir í barnabókagerð hér á landi.

Ekki er langt síðan börn lásu bækur. Jafnskjótt og þau urðu þokkalega stautandi gátu þau sest með sögubók og lesið hana sér til ánægju. Þau hurfu inn í heim sögunnar, drógu upp myndir í huganum af persónum og umhverfi og sáu fyrir sér atburðarásina. Imyndunaraflið hjálpaði þeim þannig að njóta bókanna. Sumar myndirnar sem urðu til i litla kollinum gleymdust aldrei þeim er þær skóp. Þessar sögubækur byggðust nær eingöngu á textanum, — myndir voru aðeins ein og ein á stangli. Barnið þjálfaðist því nokkuð í lestri við hverja bók. Það æfðist í að lesa og skilja.

Á síðustu árum hefur mikil breyting orðið á. Bókaforlög sem eingöngu miða útgáfu sína við peningagróðann, æla yfir börnin Strumpum, Lukkulákum, Súpermönnum og alls kyns rusli sem engum er til gagns nema þeim er gróðann hirðir. Jafnvel fegurstu ævintýri og sögur eru ekki lengur gefin út nema með mjög takmörkuðum litlausum texta. Stórar litríkar myndir eru látnar sýna allt er áður var sagt og meira til. Þessar „bókmenntir” eru nær algerlega ráðandi á barnabókamarkaðnum og varla finnst það barn serri ekki hrífst rhéð. Bæktir þessar eru auglýstar með miklum fyrirgangi, þær líta fallega út, eru í skærum litum og fullar af myndum sem segja nær allt er þarf. Hljóð fylgja með (sbr. dæmið sem hér fylgir). Þannig er allt lagt upp í hendur „lesarans”, — fyrirhöfnin verður engin. Hvers vegna ættu börnin ekki að hrífast með?                                                                                                                                                       

Skaðsemi þessarar ruslframleiðslu er margþætt.                                                                                     

Myndirnar sjá til þess að nær óþarfi er að lesa bækurnar. Barninu nægir að skoða þær.                               

Sá litli texti sem finnst er lágkúrulegur og oft hrein vitleysa.                                                                         

Barnið þarf aldrei að beita ímyndunaraflinu, allt er matreitt fyrir það. — Persónurnar og umhverfið lítur svona út og ekkert öðru vísi —. Teiknarinn afmarkar fyrirfram hugmyndir „lesarans“.                                 

Ánægjan er oftast skammvinn. Hún varir aðeins á meðan bókin er skoðuð. Þegar því er lokið þarf að kaupa nýja.                                                                                                                                                                         

Ekki er ástæða til að ætla annað en framleiðsla þessara bóka aukist enn frekar. Eftirspurnin sér til þess.   

Hvers eiga börnin að gjalda?

 

Heimild:

Þorvaldur Þorsteinsson. (1981, 27. mars). Ímynd – mynd. Dagur, bls. 3.

Verður Leitin að Grenndargralinu endurvakin?

 

Leitin að Grenndargralinu verður valgrein í Menntaskólanum á Akureyri næsta skólaár. Þó er alls óvíst hvort Leitin mun fara fram meðal menntskælinga. Það veltur á vali þeirra seinna á yfirstandandi önn. Ljóst er þó að hér eru um ákveðin tíðindi að ræða í sögu Grenndargralsins, ekki síst í ljósi þess sem Gralið lét hafa eftir sér á upphafsárum Leitarinnar fyrir rúmum áratug síðan.

Vaxandi áhugi er meðal skólafólks nú um mundir að finna leiðir til að rjúfa með einhverjum hætti skil milli skólastiga. Gera námið meira fljótandi þannig að viðbrigðin verði minni þegar farið er af einu skólastigi yfir á annað. Velta má fyrir sér hvort verkefni eins og Leitin að Grenndargralinu sé ákjósanlegur valkostur í þeirri viðleitni. Skotið hafa upp kollinum hugmyndir þess efnis að skoða beri kosti þess að færa verkefnið upp á framhaldsskólastig. Þannig mætti bjóða upp á viðfangsefni sem nemendur grunn- og framhaldsskólans ynnu samtímis og hefðu jafnframt sameiginleg markmið. Allar slíkar vangaveltur eru þó enn á algjöru frumstigi. Tíminn mun leiða í ljós hvort hugmyndir sem þessar teljist raunhæfar.

Leitin að Grenndargralinu fór fram í grunnskólum Akureyrar á árunum 2008 – 2017. Grenndargral fjölskyldunnar var hluti af dagskrá á vegum Akureyrarbæjar árið 2012 í tilefni af því að þá voru 150 ár liðin frá því að bærinn fékk kaupstaðarréttindi.

Er þetta fjarstæðukennd hugmynd?

Grenndargralið vill leggja til við þá sem starfa í ferðaþjónustu í heimabyggð að eftirfarandi hugmynd verði skoðuð af fullri alvöru svo svala megi þörfum ævintýraþyrstra ferðamanna þegar covid lýkur.

Á Oddeyrartanga verði byggður ca. 20 metra hár stálturn með lyftu. Úr toppi þessa turns liggur stáltaug yfir Eyjafjörð og alla leið upp á Vaðlaheiðarbrún og til baka aftur. Á þessari stáltaug hanga tvær stórar körfur sem taka ca. 20—30 manns hvor. Á miðri leið, eða sem næst þjóðveginum, verði hús sem körfurnar ganga í gegnum og mætast í svo farþegar geti bæði farið úr og í á þessum viðkomustað. Uppi á heiðinni komi veitingahús eða jafnvel lítið hótel. Fólk myndi streyma þarna upp allt árið, sér í lagi útlendingar, til að sjá miðnætursólina og skíðafólk að vetrinum til skíðaiðkana. Þá mætti auglýsa Akureyri um allan heim sem fyrsta flokks skíðabæ og athyglisverðan sumardvalarstað. Hvílík lyftistöng þetta yrði fyrir allt atvinnu- og fjármálalíf bæjarins. Hugmyndin er mjög fjárfrek í byrjun en hún skilar fljótlega miklum arði til baka. Væri ekki athugandi fyrir Akureyri að kynna sér að minnsta kosti kostnaðinn við byggingu slíks fyrirtækis og líkurnar fyrir rekstursafkomu þess?

Hugmyndin er líklega að margra mati í besta falli háleit, í versta falli óraunhæf með öllu. Eða hvað? Grenndargralið hefur á undanförnum árum lagt til stórhuga hugmyndir til eflingar sögu og menningu heimabyggðar – til gamans eða í fullri alvöru eftir aðstæðum. Umrædd hugmynd er þó ekki runnin undan rifjum Grenndargralsins. Hún er tæplega 70 ára gömul. Lítið fór fyrir henni þegar hún birtist í Degi þann 21. maí árið 1952 undir heitinu Bréf: Er þetta fjarstæðukennd hugmynd? Undir bréfið skrifar K.

Er þetta fjarstæðukennd hugmynd?

Sæapar í blöðum frá Jónasi og Huld

Grenndargralið rakst nýlega á grein í blaði þar sem rifjuð var upp leikfangahugmynd bandarísks uppfinningmanns að nafni Harold Von Braunhut frá sjötta áratugnum. Von Braunhut setti svokallaða sæapa (sea monkeys) á markað árið 1957 og var þeim ætlað að höfða sérstaklega til barna. Það sem vakti athygli við þessa nýju vöru en kom fólki jafnframt spánskt fyrir sjónir voru loforð um að með réttri meðhöndlun myndu sæaparnir lifna við (instant life). Rúsínan í pylsuendanum var að sæaparnir áttu að líkjast mannfólki.

Innifalið í kaupunum var plastílát og tvö bréf sem innihéldu duft. Samkvæmt leiðbeiningum átti að fylla ílátið af vatni og blanda innihaldi annars bréfsins saman við. Var það gert til að hreinsa vatnið. Að sólarhring liðnum átti vatnið að vera orðið svo tandurhreint að hægt væri að hella úr seinna bréfinu. Það innihélt sæapaegg. Í kjölfarið átti bókstaflega að færast líf í leik barnanna og litlir, manngerðir sæapar að birtast í vatninu.

Auglýsingar um þennan litla, heimatilbúna „sjávardýragarð“ voru birtar í vinsælum teiknimyndablöðum þessa tíma og í mörg ár eftir 1957. Auglýsingarnar voru lifandi og sýndu – að því er virtist – hamingjusamar, persónugerðar fígúrur í fiskabúri. Grenndargralið man vel eftir slíkum auglýsingum í hasarmyndablöðum í Bókabúðum Jónasar og Huld á sjöunda og áttunda áratugnum og hversu mikið aðdráttarafl þessar litríku auglýsingar höfðu. Já, Grenndargralið man en hafði ekki alltaf skilning á því hvað verið var að auglýsa. Skiljanlega kannski.

Þó vissulega hafi meintir sæapar bærst um í vatninu eftir að leiðbeiningum var fylgt, líktust þeir með engu móti fyrirmyndunum í fyrrnefndum auglýsingum. Vonbrigðin voru því oftar en ekki mikil hjá þeim sem reiknuðu með að eignast syndandi lífsförunaut í mannslíki. En hvað var þarna raunverulega á ferðinni? Jú, um var að ræða örsmá krabbadýr af ættbálki tálknfætlna, svokallaðir saltkefar (Artemia salina). Von Braunhut vissi að egg saltkefa þyldu það að þorna og ferðast á milli staða í umbúðum án þess að verða fyrir skemmdum. Innihald fyrra bréfsins var þannig til þess fallið að blekkja neytendur. Þar var sannarlega ekki um hreinsiefni að ræða heldur litarefni sem gerði saltkefana sýnilegri í vatninu.

Af saltkefum í seinni tíð er það að segja að þeir hafa mikið verið notaðir sem fiskeldisfóður þar sem þeir eru taldir góðir prótíngjafar.

Heimild:

Jón Már Halldórsson. (2006, 19. apríl). Hvernig dýr eru sæapar? Vísindavefurinn. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5827