Grenndargralið 10 ára – stiklað á stóru í sögunni

Grenndargralið fagnar 10 ára afmæli í ár. Haustið 2008 fór Giljaskóli á Akureyri af stað með tilraunaverkefni í grenndarkennslu hjá nemendum í 8.-10. bekk. Tilgangurinn með verkefninu var að auka áhuga og vitund nemenda á þeirra nánasta umhverfi í gegnum skemmtilegar og spennandi vettvangsferðir og rannsóknarleiðangra utan skólatíma. Boltinn var farinn að rúlla. Síðuskóli tók þátt í verkefninu haustið 2009 ásamt Giljaskóla. Glerárskóli bættist í hópinn haustið 2010, Brekkuskóli, Lundarskóli og Oddeyrarskóli haustið 2011 og að lokum Naustaskóli haustið 2012. Haustið 2013 var fyrirkomulagi Leitarinnar breytt þegar boðið var upp á hana sem valgrein. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðastliðinn áratug og hefur Grenndargralið fært út kvíarnar jafnt og þétt á tímabilinu. Fleiri egg eru nú í sögu- og menningarkörfunni og fjölbreytnin eykst ár frá ári. Allt byrjaði þetta þó með leit grunnskólanemenda að hinu svokallaða Grenndargrali.

Leitin að Grenndargralinu

Leitin að Grenndargralinu hófst sem þróunarverkefni á unglingastigi með áherslu á sögu og menningu heimabyggðar í fortíð og nútíð. Upphaf verkefnisins má rekja til Brynjars Karls Óttarssonar kennara og reynslu hans af vinnu með börnum og unglingum í samfélagsgreinum í grunnskóla. Sjálfur hafði hann ekki lagt sérstaka áherslu á grenndarkennslu áður en til nýja verkefnisins kom enda bæði skort tíma og kennsluefni við hæfi. Fyrir vikið var grenndarvitund nemenda við lok grunnskólanáms í mörgum tilfellum ábótavant að hans mati. Þá vantaði áþreifanlegri tengingu samfélagsfræðinnar við hið daglega líf nemenda og of lítið lagt upp úr því að færa kennsluna og námið út fyrir sjálfa kennslustofuna (Learning by doing e. John Dewey). Í Aðalnámskrá grunnskóla segir orðrétt: Leitaraðferðir henta vel til að kynna nemendum vísindaleg vinnubrögð og veita þeim þjálfun í að afla upplýsinga og vinna úr þeim með skipulögðum hætti. Dæmi um slíkar aðferðir eru heimildavinna, vettvangsferðir og viðtöl (bls. 204). Vissulega má ná slíkum markmiðum fram að einhverju leyti innan kennslustofunnar. Þau öðlast þó fyrst líf þegar viðfangsefnið er fært út fyrir hana, á vettvang atburðanna sem nemendur læra um hverju sinni. Með vangaveltur sem þessar hóf Brynjar undirbúningsvinnu að verkefninu sumarið 2008. Fór af stað ákveðin hugstormun sem miðaðist að því að svara nokkrum lykilspurningum. Ein þeirra var þessi: Hvaða leiðir eru færar við að auka áherslu á grenndarkennslu með virkri þátttöku nemenda og það á vettvangi þeirra sögulegu atburða sem kennslan nær yfir? Niðurstaðan varð Leitin að Grenndargralinu.

Hvað er Grenndargralið?

Annars vegar vísar heitið í þann fjársjóð sem leynist í heimabyggð í formi ævintýraríkrar sögu og fjölbreyttrar menningar. Hins vegar er um bikar að ræða sem þátttakendur Leitarinnar að Grenndargralinu keppast við að finna en hann er staðsettur á Akureyri.

Orðið er samsett, sett saman úr orðunum grennd og gral. Grennd er kvenkynsorð og hefur sömu merkingu og orðin nágrenni og/eða umhverfi. Orðið gral er ýmist notað í karlkyni eða hvorugkyni. Upphaf þess má rekja til notkunar á enska orðinu grail sem þýðir kaleikur og/eða heilagur bikar.

Grenndargralið dregur fram í sviðsljósið leyndar gersemar í sögu og menningu heimabyggðar á lifandi og skemmtilegan hátt. Markmið þeirra sem taka þátt í Leitinni að Grenndargralinu er að finna Gralið. Þátttakendur þurfa að leysa hin og þessi verkefni, ráðgátur og þrautir. Með því öðlast þeir rétt til að leita að Gralinu sem er falið innan bæjarmarkanna. Verkefnið og nafn bikarsins eru tilvísun í hina klassísku goðsögu um hið heilaga gral Krists. Segir sagan að Jesús hafi drukkið af gralinu þegar hann snæddi síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinunum.

Öldum saman hafa menn leitað gralsins. Ýmsar áhugaverðar kenningar um dvalarstað þess hafa verið settar fram t.d. í bókum og kvikmyndum. Þrátt fyrir mikla leit ævintýramanna víða um heim gegnum aldirnar hefur hvorki tekist að draga gralið fram í dagsljósið né sanna tilvist þess. Er sagan um hið heilaga gral uppspuni frá rótum eða leynist það einhversstaðar og bíður þess að líta dagsins ljós? Erfitt er um slíkt að spá. Grenndargralið er hins vegar enginn lygasaga. Það leynist á vísum stað í heimabyggð og bíður þess að ungir ævintýrarmenn leiti það uppi.

Umfang Leitarinnar vex

Sumarið 2010 urðu tímamót í sögu Leitarinnar. Þrennt kemur þar til. Við lok skólaárs var tilkynnt um viðurkenningu skólanefndar Akureyrarbæjar til handa Brynjari fyrir metnaðarfulla framkvæmd á verkefninu eins og segir í úrskurði dómnefndar. Ennfremur segir þar: Brynjar hefur lagt mikla vinnu og metnað í verkefnið um Grenndargralið sem hann hefur fengið nemendur til að taka þátt í utan skólatíma. Í verkefninu felst mikil fræðsla m.a. grenndarfræðsla og saga. Leitin að grenndargralinu er byggt upp sem nokkurs konar ratleikur og er allur bærinn undir. Verkefni sem þessi efla skapandi og gagnrýna hugsun hjá nemendum auk þess sem reynir á þolinmæði og úthald þar sem leikurinn tekur nokkrar vikur. Frábært og metnaðarfullt framtak hjá Brynjari. Þá hlaut verkefnið styrk frá Sprotasjóði en sjóðurinn er á vegum Menntamálaráðuneytisins. Hlutverk hans er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi. Styrkurinn var mikilvæg vítamínssprauta á þessum tímapunkti sem og viðurkenningin þegar staðið var frammi fyrir ákvörðun um að ýmist halda áfram þróun verkefnsins eða draga saman seglin. Að lokum var heimasíða tekin í notkun (www.grenndargral.is) en ekki þarf að fjölyrða um þá möguleika sem hún hefur fært umsjónarmönnum verkefnisins við þróun þess.

Árið 2011 hófst nýr kafli í sögu Grenndargralsins með greinaskrifum grunnskólanemenda. Meira um það seinna.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd