
Þó rúm 70 ár séu liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldar berast enn fregnir af fundum stríðsminja vítt og breitt um landið. Vegna frostlyftingar grafa sprengjur og skothylki sér leið upp úr jörðu og bíða þess að göngu- og útivistarfólk finni þessa litlu minnisvarða. Einn slíkur fundur átti sér stað síðastliðið haust við rætur Hlíðarfjalls ofan Akureyrar. Í einni af mörgum menningar- og sögugöngum Grenndargralsins í heimabyggð var gengið fram á hina ýmsu smámuni frá setuliðinu. Á tiltölulega litlum bletti innan svæðis sem merkt er númer 2 á myndinni hér til hliðar blöstu m.a. við hátt á annað hundrað skothylkja og leifar af tveimur sprengjum. Grenndargralið hafði umsvifalaust samband við Hörð Geirsson safnvörð ljósmyndadeildar Minjasafnsins á Akureyri og áhugamann um seinni heimsstyrjöldina. Hörður gat sér til út frá myndum að um væri að ræða breskar tveggja tommu sprengjuvörpusprengjur af gerðinnni Mortar. Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar var upplýst um fundinn sem staðfesti eftir að hafa skoðað myndir frá vettvangi að engin hætta stafaði af sprengjuleifunum. Að beiðni Landhelgisgæslunnar fóru útsendarar Grenndargralsins, þeir Brynjar Karl Óttarsson og Arnar Birgir Ólafsson, á vettvang til að sækja sprengjuleifarnar og eru þær nú í vörslu Lögreglunnar.

Líklegt er að svæðið sé að miklu leyti ókannað þar sem lítið er um mannaferðir á þessum slóðum. Sögugrúskararnir tveir, Bombu-Binni og Atóm-Addi, hugsa sér gott til glóðarinnar á vordögum þegar frost fer úr jörðu. Þó skal aðgát höfð í nærveru sprengjuleifa.
„Stöku herjeppar í spássitúr“
Dvöl erlendra hermanna hér á landi hefur orðið mörgum rithöfundinum yrkisefni allt frá lokum seinna stríðs. Árið 2015 gaf Grenndargralið út bókina Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt eftir Hildi Hauksdóttur. Í bókinni rekur Hildur lífshlaup ömmu sinnar Helgu Guðrúnar Sigurðardóttur en hún fæddist í Teigi í Eyjafjarðarsveit árið 1927. Helga Guðrún var dóttir Sigurðar Hólm Jónssonar frá Núpufelli og Helgu Pálmadóttur frá Teigi. Tvöfaldur móðurmissir, fósturvist og aðskilnaður frá fjölskyldu settu sitt mark á æsku Helgu. Síðar rak hún heimili á Akureyri, ól upp fimm börn auk þess sem hún fór að vinna úti, þá komin á miðjan aldur.
Konur eru í aðalhlutverki frásagnarinnar sem spannar rétt um hundrað ár. Sagan hefst um aldamótin 1900 í torfbæ í Eyjafirði en lýkur á Akureyri árið 2009. Hildur dregur upp svipmynd af uppvaxtarskilyrðum alþýðunnar á millistríðsárunum og tíðarandanum á eftirstríðsárunum. Þegar íslenska þjóðin braust úr fjötrum fátæktar og skömmtunar með vinnusemi og dirfsku til samfélags sem einkenndist af velmegun. Hér skal gripið niður í einn kafla bókarinnar þar sem fjallað er um Akureyri á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og samskipti heimamanna við setuliðið.
Sambúðin við heimamenn gekk brösuglega til að byrja með. Í upphafi hernámsins urðu tvær stúlkur fyrir árás breskra hermanna þar sem þær voru á heimleið upp Oddeyrargötuna. Eftir það voru bresku dátarnir settir í útgöngubann og urðu að vera komnir inn fyrir kl. 21. Fóru akureyskar meyjar í ,,ástandið” – tóku upp daður og jafnvel ástarsambönd við breska dáta? Mikið var skrafað um slíka ósiðlega hegðun í bænum og víst bera kirkjubækur vitni um að einhver börn hermanna hafi fæðst á Akureyri á hernámsárunum. Í blöðin var skrifað um léttúðardrósir og þjóðarósóma. Kannski komu íslenskar stúlkur Bretunum á óvart? Einn hermaður lét hafa eftir sér að þær væru framúrskarandi vel klæddar og afar frábrugðnar eskimóakonunum sem hann og félagar hans áttu von á!
Þrátt fyrir skömmtunarseðla og skort af ýmsu tagi gáfust tækifæri til skemmtunar. Harmonikkuböll voru algeng en félagsheimili eins og þekktust í sveitum fóru að taka á sig nýja mynd í þéttbýlinu. Nýja Bíó sýndi kvikmyndir frá Hollywood nokkrum sinnum í viku og verslanir bæjarins fengu annað slagið munaðarvöru sem slegist var um.
Hlátrasköllin úr herbergi ungu konunnar í Oddeyrargötunni heyrast út á götu. Henni hefur tekist að lauma útvarpinu úr eldhúsinu upp á herbergi og nú söngla hún og Bogga með Bing Crosby milli þess sem þær veltast um af hlátri yfir öllu og engu. Come on hear! Come on hear! Alexander’s ragtime band! Silkisokkarnir liggja þvert yfir dívaninn – langþráðir. Hún fékk sokkana frá pabba sínum í sautján ára afmælisgjöf. Hún hefði svo sem getað safnað sér fyrir þeim sjálf en kaupið er ekki hátt hjá Sigtryggi og Jóni auk þess sem sokkarnir kostuðu 5,50 krónur! Þeir voru ekkert að gefa eftir í dömudeild London-verslunarinnar í miðbæ Akureyrar. Eftir norðanáhlaup dagana eftir áramót er komin sunnanþíða. Óvænt tækifæri gefst til að viðra sokkana með Boggu vinkonu. Vegfarendur þennan janúardag 1944 hafa mögulega rekist á tvær vinkonur sem ganga dömulega niður Oddagötuna niður í miðbæ til að skoða í glugga meðan á stuttri dagskímunni stendur. Ferðin hefur margskonar tilgang. Ekki síst er þetta liður í tilveru ungs fólks á Akureyri að spássera örlítið í miðbænum, nikka til kunningja og kannski taka vini á tal. Bílarnir keyra löturhægt í gegnum miðbæinn, hring eftir hring. Ford, Volvo, Willys og stöku herjeppar í spássitúr. Á leiðinni heim krækja vinkonurnar saman olnbogunum og halda í Sniðgötuna í tíu dropa. Á tröppunum við Sniðgötu þegar stúlkurnar eru um það bil að ganga inn getur unga konan ekki stillt sig. Hún beygir sig niður og strýkur með fingrunum yfir annan fótlegginn. Silkisokkar, þvílík gæði!