Gral vikunnar
Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu, hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.
Gral vikunnar fá þeir Baldvin B. Ringsted, Bragi Finnbogason, Stefán Bjarnhéðinsson og Ragnar B. Ingvarsson. Saman mynda þeir starfshóp sem hefur síðustu mánuði unnið að mótun nýrrar námsbrautar við Verkmenntaskólann á Akureyri þar sem boðið verður upp á nám í bílamálun og bifreiðasmíði. Hingað til hafa þessar tvær greinar aðeins verið í boði sunnan heiða og því verið skortur á menntuðu starfsfólki í heimabyggð. Verkmenntaskólinn er í samstarfi við Silkeborg Teknisk Skole í Danmörku. Þangað munu nemendur fara á fjórðu og síðustu önn námsins þar sem þeir verða í verknámi við bestu mögulegu aðstæður. Menntamálaráðuneytið styrkir framtakið og reiknað er með að kennsla hefjist næsta haust.
Á tímum mikils brottfalls nemenda úr framhaldsskólanámi eru nýjungar sem þessar kærkomnar. Verkgreinar hafa átt undir högg að sækja á kostnað bóknámsgreina en hin nýja námsbraut í VMA stuðlar vonandi að frekara jafnvægi milli greinanna. Flott framtak.
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd