main image

Æskuslóðirnar mínar

Ég var staddur í ljóðagöngu í Kristnesskógi fyrir nokkrum árum og spurður hvort mér hefði ekki fundist yndislegt að alast upp við Kristnes. Ég gat ekki svarað spurningunni enda hafði ég ekki leitt hugann að þessu. Ég ólst náttúrulega bara upp þarna og veit ekki hvort þetta eru yndislegri æskuslóðir en aðrar. Eru ekki allar æskuslóðir þær bestu svo framarlega sem æskuárin hafi verið það líka? Þar fyrir utan getur maður að takmörkuðu leyti borið æskustöðvar sínar saman við æskustöðvar annarra. Þær bara eru einhvern veginn þarna: æskustöðvarnar, þangað til þær hætta að vera manns eigin æskustöðvar.

Þegar ég fékk þessa spurningu voru æskustöðvarnar reyndar nær mér í tíma og rúmi en þessa dagana. Ég bjó á Akureyri og gat keyrt á 10 mínútum að Kristnesi. Þar fyrir utan fannst mér svo stutt síðan ég bjó þar og ólst þar upp, að ég átti ekki til vott af nostalgíu til að mála þá mynd af svæðinu að það væri yndislegra en eitthvað annað sem ég hafði kynnst eða mun kynnast. En málin horfa að nokkru leyti öðruvísi við.

Þetta er nefnilega nokkuð sérstakur staður, Kristnes við Eyjafjörð. Kristnes er vissulega landnámsjörð Helga Magra en þar fyrir utan er nafn staðarins í hugum margra órofa tengt nafni Kristnesshælis og Kristnessskógar. Þetta er kyrrlátur rólegheitastaður og þar gerast sjaldan tíðindi. Það eftirminnilegasta, sögulega séð, er væntanlega að þar sigruðust menn hægt og bítandi á Hvíta dauðanum, berklum – auk þess sem Vigdís Finnbogadóttir kom þar í opinbera heimsókn á níunda áratugnum.

Kristnesþorp samanstendur af allnokkrum húsum, bæði einbýlis- og fjölbýlishúsum. Þegar ég ólst þar upp bjó þar fjöldi fólks en þegar ég flutti þaðan stóðu þar fyrst og fremst tóm hús. Kristneshæli var enda lagt niður á uppvaxtarárum mínum og sameinað Fjórðungssjúkrahúsi Akureyri. Fyrir vikið var viðbygging hælisins, sem m.a. hýsir sundlaug og heitan pott í dag, lengi vel draugabygging. Þar voru nokkrar hæðir af nöktum óunnum steinsteypuveggjum og staflar af steinull sem ekki var notuð.

Skógurinn var ræktaður af vistmönnum hælisins í áföngum. Hann var frá stofnun hælisins 1927 hugsaður til að efla heilsu berklasjúklinga og annarra sem þar hafa dvalist. Á árunum 1994-1999 voru þar lagðir nokkrir göngustígar sem gaman er að fara um nú til dags, en á uppvaxtarárum mínum var í minningunni aðeins ein leið inn í skóginn. Þannig hefur nærumhverfi Kristneshælisins, þorpið og skógurinn, breyst talsvert á undanförnum áratugum.

En þó ég nefni Kristnes sem æskuslóðir mínar í þessari grein, þá er þar með ekki nema hálfur sannleikurinn sagður. Staðreyndin er flóknari en svo. Ég ólst nefnilega upp í húsinu Reykhúsum I eða Syðri-Reykhúsum í Eyjafirði, en húsið stendur á jörð Reykhúsa. Kristnes og Reykhús eru aðliggjandi jarðir.

Á bænum Kristnesi ólst móðir mín, Rósa Sigríður Aðalsteinsdóttir, upp. Á bænum Reykhúsum dvaldist faðir minn, Brynjólfur Ingvarsson, mörg sumur á uppvaxtarárum sínum, en annars ólst hann upp í Reykjavík. En það er ekki nóg með að foreldrar mínir hafi verið nágrannar á sumrin og alist upp saman að vissu leyti. Báðar ömmur mínar, Sigríður Hallgrímsdóttir og Aðalbjörg Stefánsdóttir, voru líka nágrannar og leiksystur. Þær deildu líka þeirri reynslu að eignast báðar fjögur börn, þar af þrjá stráka hvor og eina dóttur hvor. Enn fremur átti föðuramma mín þrjá bræður og af þeim eignaðist einungis einn afkvæmi. Móðuramma mín átti þrjár systur og af þeim eignaðist einungis ein afkvæmi. Bróðir pabba tók við búinu og varð bóndi í Reykhúsum, bróðir mömmu tók við búinu og varð bóndi í Kristnesi. Það er því margt sameiginlegt í sögum þessara tveggja fjölskylda sem voru og eru nágrannar. Foreldrar mínir bundu þær svo endanlega saman 17. júní 1966 þegar þau giftu sig, sex mánuðum áður en elsti bróðir minn, Ingvar Guðni, fæddist.

Eftir að þau tóku saman og eignuðust börn reistu þau hús í Reykhúsum, stundum nefnt Reykhús I og stundum nefnt Syðri-Reykhús. Fyrir utan mig áttu þau fjóra stráka, semsagt alls fimm stráka. Þeir eru allir miklu eldri en ég, það munar 10 árum á mér og yngsta bróður mínum Brynjólfi. Ég tók því við öllu dótinu þeirra og ógrynni sagna af krökkunum úr þorpinu. Fékk í arf margar sögur af leikjum þeirra og frændfólki af næstu Reykhúsabæjum eða Kristnesbænum. Allt svæðið var sagnaþorpið þeirra og undirlagt fortíðinni. Pleimóland, strumpaland, limmóland og tröllaland voru örnefni fyrir einstaka leiki þessa hóps. Ég rétt náði að upplifa kvöldleikina, þ.e. þegar krakkar fóru í leiki í þorpinu: eina krónu og tvítví. Þetta var algengt á árunum 1985-1990. Svo dó það út með vídeói, sjónvarpi og tölvuleikjum, held ég.

En leikirnir eru mér ekki minnisstæðastir af uppvaxtarárunum. Ekki heldur þegar ég var bitinn í hendina af mús í Reykhúsafjósinu og þurfti að fara í stífkrampasprautu. Og ekki þegar ég skar mig á löppinni í indjánaleik með því að stíga ofan á fiskabúrið hans Jonna bróður og þurfti að fara á spítalann í aðra sprautu. Eða þegar ég hljóp svo hratt niður brekkuna við Reykhúsafjósið að ég gat ekki stoppað mig og endaði í fjóshaugnum, fastur upp að hné í mykju þar til bróðir minn togaði upp úr sjálfheldunni.

Mér er af einhverjum ástæðum minnisstæðast þegar krakkarnir á næstu bæjum veiddu hornsíli í Eyjafjarðará með krukkum og litlum netum í kringum 1990-1992. Smám saman varð til góður forði af hornsílum í plasttunnu við eitt húsið og þar syntu sílin eins og dálítið glitlausir litlir gullfiskar um einhverja tíð. Þetta endaði líklega með því að þau drápust. Ég man bara eftir orðaskiptum á milli mín og veiðimannanna um það hvar gjöfulustu hornsílamiðin lágu. Mér finnst eitthvað svo skemmtileg tilhugsun um að nokkrir krakkar úr þorpinu og af Reykhúsabæjunum hafi verið búin að kortleggja Eyjafjarðarána svo vel að þau vissu hvar hægt var að moka upp hornsílum.

Svo reyndar á ég aðra sambærilega draumkennda minningu. Á árunum 1996-1999 lenti ég í því aftur og aftur að finna fjögurralaufasmárabeð. Ég held að það séu um það bil 6 staðir sem ég get nefnt, annars vegar í Kristnesi eða við Kristneshæli og hins vegar á Reykhúsalóðinni þar sem ég fann sumar eftir sumar fjögurralaufasmára. Þeir uxu alltaf á sama stað og af því ég vissi hvar staðirnir voru gat ég týnt upp smára, ár eftir ár. Þetta uppátæki vatt upp á sig og brátt átti ég heilu hirslurnar af fjögurralaufasmárum, pressaða og þurrkaða í bókum. Þeir skiptu hundruðum og með mér vaknaði von um að komast kannski í heimsmetabók Guinness fyrir þetta fjögurralaufasmárasafn. Sú von varð að engu þegar ég komst að því að fangi í Indiana í Bandaríkjunum átti stærsta staðfesta fjögurralaufasmárasafn í heiminum, en safnið taldi nokkur þúsund smára. Hann hafði fundið sín beð í fangelsisgarðinum og safnað þessu upp á nokkrum áratugum. Ég taldi mig eiga við ofurefli að etja og pakkaði því safninu í litla kassa sem ég á einhvers staðar ennþá. Hef einu sinni eða tvisvar reynt að leita uppi þessi sex beð sem ég fann á sínum tíma en hef ekki endurheimt þau ennþá.

Þarna bjó ég mín uppvaxtarár, þar liggja mínar æskuslóðir. Ég var lengst af í næstsyðsta herberginu í Reykhúsum, við hliðina á eldhúsinu. Þegar ég vaknaði á sumrin á unglingsárunum blasti við mér þessi lagskipta mynd út um gluggann: Efst tróna Súlur, svo Kristnesskógurinn, þá koma byggingar hælisins og loks bílarnir á hlaðinu. Svo fylgja minningunni þung spor á fætur til að fá sér hunangshnetuseríós og mjólk.

 

 

 

Reykjavík, 13. maí 2013.

Hjálmar Stefán Brynjólfsson