main image

Æskuslóðirnar mínar

 

Niður í eyrar – út í hólma.  Minningabrot

Ég er fæddur og uppalinn frammi í firði – eins og við Eyfirðingar segjum, um það bil í miðri byggðinni, þar sem kallað er Grundarpláss. Austan árinnar, þar sem ég átti heima er ekki mikið flatlendi, það er allt Grundarmegin, Grundarnesið sjálft.  Að austanverðu var þó hólminn, u.þ.b. 6-7 hektara spilda þegar best lét, en Eyjafjarðaráin braut jafnt og þétt af honum.

            Dálítil kvísl úr Eyjafjarðaránni myndaði þennan hólma og eyrar talsvert miklar sunnan við hann. Kvíslin var stundum nokkur farartálmi, oftast mátti þó komast yfir hana með því að vaða og nógu smávaxinn kúasmali stalst stundum til að klifra á bak síðustu kúnni þegar kýrnar voru sóttar niður í eyrar. Í kvíslinni voru dálitlir hyljir á tveim stöðum. Á allra heitustu sumardögum var hægt að baða sig í hyljunum, einkum þeim norðari þar sem vatnið hafði hlýnað heldur meir á leið sinni eftir kvíslinni. Samt var betra að busla í Sílapollinum sem var sunnar á nesinu, þar var líka hægt að veiða hornsíli, kvótalaust. Rétt hjá var Síkið, oft hlýtt og hálffullt af fergini – en bæði við systkinin og kýrnar vissum að það var botnlaust og því fékk ferginið að vaxa í friði fyrir baðgestum og gráðugum nautgripum.

            Á þessum slóðum var mikið af fuglum og daglegt brauð að finna hreiður. Þarna verptu lóa og spói, stelkur og hrossagaukur, grænhöfði og rauðhöfðiog grátittlingur uppi í brekkunum. Á eyrunum var sandlóan sem kveinkaði sér svo mikið ef komið var nærri hreiðrinu. Í hólmanum og þó meir í Kríuhólmanum, sem var norðurendi stóra hólmans, var gæsavarp og þar var líka krían. Það var í senn spennandi og hættulegt að fara um kríuvarpið en gaman að sjá stóru gæsareggin.

            Hólminn var oftast nær sleginn eftir túnaslátt, þótt hann væri svo sem eitt af túnunum. Það var lengi gert að slá alla þessa hektara með gamla W4, Ferguson eða álíka vél og ekki var til að flýta fyrir að margar spóafjölskyldur voru gjarna að þvælast með unga sína í óslægjunni. Talsvert var á sig leggjandi til að forða þeim öllum frá ljánum en spóar eru erfiðir í smölun og rekstri, það veit ég af reynslu.

            Að sama skapi var tímafrekt að þurrka og taka saman, þarna var mikil spretta og völlurinn stór. En það var samt ævinlega gaman. Þegar komið var fram á síðsumarið voru oftast góðir þurrkar – eins og reyndar oftast í Grundarplássinu – og hvað er skemmtilegra en heyskapur á flötu túni í góðu veðri?

            Þótt ekki væri engjavegurinn langur, líklega innan við 2 km, var lengi siður að færa engjakaffi í hólmann, því fylgdi sérstakur hátíðarbragur. Það gat líka verið ljómandi tilbreyting að spenna hest frá rakstrarvél og fara á honum yfir kvíslina, suður allt nesið og upp gamla bæjarhólinn til að sækja kaffið og allt sem því fylgdi. Aðeins þurfti að varast eitt á þessu slóðum, það var áin sem oft var holbekkt því hún sló sér frá Grundarnesinu norðaustur og gróf sífellt úr hólmabakkanum. Reyndar minnist ég þess að hafa séð hálfslegnar torfur sem höfðu fallið í ána milli sláttar og hirðingar, þetta minnti á að engu var að treysta.

            Þessi á sýnist vera heldur meinleysisleg en oft varð hún býsna hrikaleg í vorleysingum. Í Grundarplássinu fellur hún frá austurlandinu vestur að Grundarnesinu og síðan frá því austur að Bringuhólma og Stórhamarshólma og loks norðan við hinn síðarnefnda alveg upp undir bæina á Stóra-Hamri áður en hún tekur aftur strikið til vesturs langa leið undir brekkurnar vestan ár. Þessir sífelldu krókar töfðu mikið fyrir jakaburði þegar áin var að hreinsa sig á vorin og stundum mynduðust gríðarmiklar jakastíflur í henni. Þá gat svo farið að hún flæddi upp á eyrarnar og hólmana með öllum þeim leirburði sem vorleysingum fylgja. Þá var stundum talsvert ryk í heyinu og jafnvel stóð mökkurinn upp af snúningsvélinni.

            En oftast var áin kyrrlát, átti að vísu nokkrar raddir, einkum á kvöldin, Suður af eyrunum var dálítið brot og þar mátti heyra niðinn – misjafnan eftir veðri og vindum. Þarna á brotinu var einatt silungur á ferðinni, allt upp í 6 punda sjóbirting. Slíkan fisk er ótrúlega gaman að draga á land og fátt smakkast betur. Ofan við brotið var hylur í ánni, afskaplega veiðilegur, en þar held ég hafi verið hvíldarheimili fiskanna – ef þeir voru þá nokkurn tíma þar. Áin er meiri en svo að menn geri sér að leik að vaða hana enda var sjaldan farið milli bæja austan og vestan ár. Þó átti Bringa kirkjusókn að Grund fyrr á árum en þangað var aldrei farið – nema þegar fermt var í eitt skipti.

            Þegar ég var lítill var ég frekar hræddur við ána, einkum bakkana, enda þótti mér nógu hræðilegt að detta í kvíslina þótt ekki væri meira vatnsfall. Samt var þetta svæði að mörgu leyti lokkandi, kílarnir og pollarnir í Nesinu, hólminn með öllum sínum fuglum. Eftir vöxt í ánni var líka hægt að fara í rannsóknarleiðangra og finna ýmislegt dót sem áin hafði borið upp á eyrarnar. Stundum hafði landslagið líka breyst í vatnavöxtunum, þannig var hver ferð ný á sinn hátt og landið ókunnugt að einhverju leyti en alltaf uppspretta ævintýra og gleði.

                                                                                              Valdimar Gunnarsson frá Bringu

 

Fyrir 100 árum síðan!

 


„Höfrungaflokkur kom hér inn á Pollinn á þriðjudaginn. Voru þeir víst mörg hundruð saman og féll 
sjórinn í hvítum fossföllum undan þeim. Þeir fóru alveg inn að marbakka, en þegar þeir ráku sig þar á, 
snéru þeir við með miklum gauragangi og héldu aftur út fjörð. Jóhann Havsteen skaut einn höfrung 
og lagði sá sig á 75 krónur.“ 
 Norðurland 13. árg. 1913, 24. tölublað (21.06.1913), blaðsíða 89

Af hverju ekki?

 

Af hverju flikkum við ekki upp á annars fallegan skúlptúr, Heim vonar, sem stendur við Menntaskólann á Akureyri? Þetta stóra listaverk á lóð skólans stingur nokkuð í stúf við hin árlegu tímamót þegar nýstúdentar setja upp hvíta kollinn í fallegu sumarveðri. Ekki það að verkið sjálft sé ljótt. Listaverkið hans Nóa er vissulega tignarlegt og setur sterkan svip á skólalóðina. Það er bara eitthvað við þennan ryðlit á verkinu sem passar ekki á tímamótum þar sem gleði, líf og litir eru allsráðandi. Yfir vetrartímann er upprunalegur litur kúlunnar í takt við annað í umhverfinu. Þegar vorar, allt lifnar við og litirnir fara að koma í ljós stendur þessi risakúla eftir með sitt litlausa fas. Hún stendur eins og minnisvarði um forna tíma; þegar kúlan var helsta kennileiti skólans – þegar kúlan gladdi vegfarendur með litum sínum – þegar allt lék í lyndi, áður en menn hættu að halda kúlunni við og hún fór að drabbast niður. Vitaskuld er þetta  ekki eins og málum er raunverulega háttað. Veruleikinn er hins vegar sá að þann 17. júní ár hvert minnir MA okkur á hve falleg vor æska er og hvað framtíðin er björt. Væri ekki rétt að glæða kúluna lífi af því tilefni og leyfa henni að klæðast sparibúningnum fram á haust? Undirritaður á til að setja hluti í samhengi við tónlist og einhvern veginn minnir kúlan um margt á risastóra diskókúlu sem má muna fífil sinn fegurri. Hin tignarlega kúla, með sinn dauða lit, minnir þannig á að allt er í heiminum hverfult og allt tekur enda. Diskótímabilið er liðin tíð og aðrar tónlistarstefnur „rúla“ núna. Nemendur sem hafa verið í Menntaskólanum undanfarin fjögur ár hverfa nú á braut og takast á við ný verkefni. Eins merkilegt og það nú er þá kemur diskóið alltaf aftur í einhverri mynd. Að sama skapi koma nýir útskriftarnemendur til með að fylla skarð þeirra sem útskrifast í ár. Svo kannski er ekki rétt að allt taki enda – sumt fer nefnilega bara í hringi eins og diskókúla. Það minnir okkur á að aldrei er of seint að breyta til. Losum Heim vonar af stallinum, setjum undir hann snúningsvél og inn í hann öflugan kastara. Klæðum hann sterku silfurlituðu glys- og glimmerefni, leggjum hann á stallinn og setjum rafmagnið á! Gefum honum von. Sjáum 17. júní fyrir okkur. Þegar nýstúdentar ganga úr Íþróttahöllinni í myndatöku í Stefánslundi verður búið aðkveikja á stóru diskókúlunni þeim til heiðurs. Það er meira táknræn athöfn þar sem ljósadýrðin nýtur sín ekki í dagsbirtunni. Annað er upp á teningnum um kvöldið þegar stúdentar leggja leið sína í miðbæ Akureyrar. Þá er farið að skyggja og diskóið frá Menntaskólanum teygir anga sína lengra en fyrr um daginn. Svona verða áhrifin af kúlunni meiri og meiri eftir því sem dagsbirtan hörfar. Og kvöldið er ungt… Svo getum við velt fyrir okkur möguleikunum þegar nær dregur hausti og fallegu, hlýju og dimmu sumarkvöldin gleðja okkur. Þá er hægt að slá upp stærsta og flottasta diskóteki á Akureyri og þótt víðar væri leitað og það á lóð Menntaskólans. Þetta mætti gera í tengslum við menningarnótt og dagskrána í Lystigarðinum. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki? 

Grenndargralið óskar nýstúdentum til hamingju með áfangann og vonar að þeir tileinki sér lífsgleði diskósins í hverju því sem  þeir taka sér nú fyrir hendur.

Æskuslóðirnar mínar

 

Í Hrísey

Ég ólst upp í Hrísey á sjöunda og áttunda áratugnum. Það var að sönnu ævintýralegt – eins og ég býst við að umhverfi flestra barna á flestum tímum sé. Uppeldisárin mörkuðust töluvert af sérstöðu eyjasamfélagsins; nokkurri einangrun og fremur einhæfum starfsháttum heimamanna. Líf barnanna var þó aldrei einhæft, þar ríkti sjálfræði og frelsi. Leikvöllurinn var stór og margt við að vera: Landaparís niðri á Sandi, draugagangur undir Plani, feluleikur í risastórri og yfirgefinni Síldarverksmiðjunni. Það var skottast í eggjatöku upp á ey, krækiber seld í bréfpokum á tröppum Gamla hússins, kanínu- og dúfnakofar byggðir og sullast um á gonnum í höfninni. Sundlaugin var opin á sumrin og þá var farið í skyldusund að morgni, leiksund síðdegis og sundæfingu eftir kvöldmat. Á veturna var yfirleitt snjóþungt og börnin byggðu margra herbergja snjóhús og lýstu upp hvern kima með logandi kertum. Skemmtilegast var að stökkva ofan af húsum í snjóskaflana. Öll hlökkuðum við líka til þess að slá köttinn úr tunnunni á Öskudaginn („kötturinn“ var nú reyndar hrafn eða jafnvel múkki). Allir komu saman vestan við frystihús í heimagerðum búningum og hengdu öskupoka aftan á þá sem ekki uggðu að sér.  Loks gengu skólabörnin öll saman í hvert einasta hús í eynni og sungu „Nú er frost á fróni“ og fleiri napra vetrarsöngva. Í ferð með var baukur sem áheyrendur lögðu smápeninga í til söfnunar fyrir skólaferðalag vorsins. Í lok sönggöngunnar fengu börnin lítinn poka af gotti hjá Ottó í búðinni. Þar lágu dísætar grænar Freyju-karamellur, perubrjóstsykur, súkkulaðivindlar, möndlur og krembrauð. Kannski Lindubuff eða Rjómatoffí. Namm.

Svo var það Barnaskólinn. Þar fengu börnin að kynnast nýjum, skrítnum kennurum á hverju skólaári. Þeir héldust aldrei lengi við í starfinu – þetta voru oft ungmenni með ævintýraþrá, í mesta lagi nýskriðin úr menntaskóla, nú eða undarlegir kvistir sem fengu hvergi annars staðar vinnu. Sennilega hefur ekki þótt fýsilegt að eyða vetrum á svona stað, í fámenni og jafnvel rafmagnsleysi svo dögum skipti. Sæstrengurinn átti til að fara í sundur í vetrarveðrum. Fyrir börnin var það nú bara spennandi tími. Í ljósleysinu var ýmislegt brasað. Ég átti forláta lukt (vasaljós) sem gagnaðist mér ágætlega  við bóklestur í myrkrinu. Þannig las ég Mein Kampf eftir sjálfan Adolf Hitler. Nei, nei, ég var ekkert lítill nasisti enda fannst mér bókin atarna alveg þrautleiðinleg. Málið var að Lestrarfélag Hríseyjar var til húsa í litla skólanum okkar og þar var hægt að skoða bækur á hverjum degi. Satt best að segja var ég bara búin að lesa allar barnabækurnar í safninu (Enid Blyton-bækurnar ótal sinnum) og þá tóku fullorðinsbókahillurnar við. 

En aftur að kennurum (kennarar hafa svo gaman af skólasögum). Ekki voru allir lærifeðurnir undarlegir aðkomumenn. Og þó, kannski þegar vel er að gáð. Sá allra skemmtilegasti var einmitt presturinn, séra Kári Valsson. Hann kom upprunalega frá Tékkóslóvakíu og átti ótrúlega sögu að baki þegar hann hóf prestsstörf í Hrísey, t.d. úr fangabúðum í seinni heimsstyrjöldinni. Kári vildi endilega að bráðung einkadóttirin lærði dönsku löngu áður en að því kom í skólanum en hún var nú ekki ýkja hrifin af þeirri hugmynd. Hann sannfærði því jafnaldrana um að takast á við verkefnið með henni. Kári hafði framúrstefnulegar aðferðir við dönskukennsluna. Löngu síðar fór ég í máladeild í menntaskóla og lagði stund á ein fimm tungumál en ekkert í þeim skóla líktist aðferðum Kára. Hann hefur kannski komist í skrif snillingsins Dewey þó sá merki kennimaður yrði ekki vinsæll meðal Íslendinga fyrr en áratugum síðar. Málið var að hann kenndi í verki og gegnum leik. Við börnin fengum að leika með orðin, þreifa og bragða á tungumálinu; bókstaflega! Eftirminnilegastir eru tímarnir þegar við lærðum orðaforðann um mat því þá fengum við að smakka ýmislegt framandi – Kári borðaði fífla og hvítlauk sem þá þótti stórfurðulegt – við supum á límonaði úr gostappa sem gekk á milli og sögðum flissandi til skiptis „limonade“. Við lærðum hvað „spøgelse“ þýddi þegar hann sveif um og baulaði draugalega undir hvítu laki. Einu sinni dró hann upp gömlu gleraugun sín til kenna okkur orðatiltækið „gå i stykker“. Án þess að orðlengja það frekar fleygði hann „brillerne“ í gólfið og stappaði kröftuglega ofan á þeim! Mest hlógum við þó þegar presturinn mætti með risastórar blúndunærbuxur af eiginkonunni og kenndi okkur að segja „trusser“. Það var mér nánast um megn. Orðið var eiginlega of líkt orði sem var harðbannað að láta sér um munn fara. Við lyppuðumst bara niður í hláturkasti.  Kári var samt glaðastur allra og greinilega hefur kennslufræðin hans virkað því orðin man ég enn.

Árný Helga Reynisdóttir

Fyrstu krukkurnar af Grenndargralsmúslí tilbúnar!

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá íbúar Hörgársveitar og aðrir sem mættu á samverukvöldstund á Möðruvöllum á föstudagskvöldið. Tilgangur samkomunnar var að sýna samstöðu vegna kalskemmda í vetur og heylítils sumars síðastliðið ár.  Á heimasíðu Hörgársveitar segir um dagskrá samkomunnar; Bjarni Guðleifsson reifaði fyrri kalár með gamansömum hætti, Doddi í Þríhyrningi rifjaði upp störf sín sem forðagæslumaður, sagði frá þeim aðferðum sem beitt var þegar tún kól fyrir hálfri öld og fór yfir sjúkrasögu nokkurra þeirra sem lágu með honum á deild í aðgerð sem hann fór í nýlega. Gestum þóttu sjúkrahússögurnar hin besta skemmtun, hversu alvarlegar sem þær nú annars kunna að vera. Sr. Sunna Dóra flutti hugvekju, Stefán í Fagraskógi fór með ljóð og Snorri Guðvarðarson klykkti út með því að fá alla til að syngja með sér jólalag við nýtt lag – og það um hásumar. Eftir dagskrána var kaffispjall í Leikhúsinu. Mæting var með ágætum og heppnaðist dagskráin afar vel.“

Þegar áföllin dynja yfir er fátt mikilvægara en vita af stuðningi samferðamanna. Við ráðum ekki við náttúruöflin en við getum alltaf sýnt samstöðu og stutt hvert annað. Það gerðu íbúar Hörgársveitar með því að koma saman yfir kaffisopa og fara yfir stöðu mála. Flott hjá þeim.

Grenndargralsmúslí á markað

 

Grenndargralið var stofnað sumarið 2008. Upphaflega var eingöngu um ratleik fyrir grunnskólanemendur að ræða og gekk hann undir nafninu Leitin að Grenndargralinu. Síðan þá hefur Leitin farið fram ár hvert en eitt að því sem nemendur þurfa að kljást við í Leitinni er stafarugl sem tengist heimabyggð. Grenndargralið hefur fært út kvíarnar undanfarin ár og hafa reglulega skotið upp kollinum hugmyndir um sölu á varningi ýmiskonar undir merkjum Grenndargralsins. Nú, fimm árum síðar, er þróun á þremur vörutegundum komin vel á veg og innan tíðar mun sú fyrsta líta dagsins ljós. Grenndargralið mun þannig hefja sölu á neysluvöru í takmörkuðu magni, ætlaða þeim sem vilja fá gott veganesti fyrir átök líðandi stundar. Hér er á ferðinni næringarríkt múslí og með í kaupbæti fylgir stafarugl tengt heimabyggð. Varan nærir þannig bæði líkama og sál.

Grenndargralsmúslí er í senn holl og bragðgóð heilsuvara, búin til úr sjö hráefnistegundum. Uppskriftin er afrakstur þrotlausrar þróunarvinnu í eldhúsinu heima. Múslíið er ólíkt öðrum sambærilegum vörum vegna sérstaks framleiðsluferlis. Eitt er að blanda saman hráefninu, annað er að draga fram keim Grenndargralsmúslísins sem á sér engan sinn líkan. Aðferðin er ekki til á prenti, aðeins í höfðum fjögurra grúskara í heimabyggð. Huga þarf að mikilvægum atriðum eins og réttu hitasigi og ferskleika. Á það bæði við um matseldina og þá sem sjá um hana. Þá er rétt hugarfar í eldhúsinu lykilatriði þegar kemur að gæðum Grenndargralsmúslísins.

Grenndargralsmúslíið er í glerkrukkum en hver krukka inniheldur 100 grömm. Í lokinu er gáta. Gátan er í formi stafarugls þar sem neytandi múslísins reynir að raða bókstöfunum þannig að þeir myndi nafn á bóndabæ í heimabyggð. Í þessu tilfelli nær heimabyggð alla leið frá Ólafsfirði í norðri og til innstu bæja Eyjafjarðar í suðri. Bæirnir eru ýmist í byggð eða komnir í eyði. Spurningin er svo bara hvort gátan leysist áður en innihald krukkunnar klárast.

Grenndargralsmúslíið er dæmi um hágæða heimilisiðnað. Grenndargralið stefnir að því að vera leiðandi á markaði þegar kemur að þróun múslís sem inniheldur stafarugl um bóndabæi í heimabyggð. Til að ná því markmiði er áhrifaríkustu aðferðum beitt í eldhúsinu heima við framleiðslu og gæðaeftirlit. Aukinheldur er múslíið ávallt framleitt í samræmi við ríkjandi staðla meðaleldhúss í raðhúsi. Allt hráefni sem og framleiðsluferlið er rætt reglulega yfir kaffibolla í eldhúsinu heima svo hugsanlega vankanta megi sníða af og mögulegar umbætur komist til framkvæmda. Eins og sjá má er varan umvafin ást og umhyggju fólksins sem býr hana til. Þannig leggjum við okkur fram um að hið notalega andrúmsloft eldhússins heima skili sér í krukkunni til neytandans.

Aðeins 227 krukkur verða á boðstólnum, ein fyrir hvert ár sem liðið er frá því að Akureyri fékk kaupstaðarréttindi í fyrra skiptið.