Æskuslóðirnar mínar
Af bökkum Eyjafjarðarár
Minningar eru skrýtinn hlutur. Því lengra sem líður því betur man maður það sem liðið er.
Þegar ég var barn fór ég oft að renna fyrir silung í Eyjafjarðará. Þar var hægt að fá veiðileyfi á viðráðanlegu verði og þar var og er alltaf gott veður. Ég man vel þegar við bræðurnir vorum að veiða stuttu neðan við ármynni Núpár. Þetta var um miðjan ágúst og veður hið besta sól og stilla. Þar fundum við nokkrar bleikjur og mig minnir að ég fengi þá fyrstu á maðk en svo fengi Halldór bróðir minn sjö á flugu. Þá var mér misboðið og kastaði eins langt út og ég gat og gekk niður í strauminn með færið og þar með yfir allar bleikjurnar. Halldóri fannst þetta víst ekki gáfuleg veiðiaðferð en stuttu eftir að straumurinn greip færið þá greip vænn sjóbirtingur maðkinn og ég landaði honum. Hann vó rúm sex pund. Bleikjurnar voru allar eitt og hálft til tvö pund. Það lyftist á mér brúnin og við fórum heim með góðan afla eftir hálfan dag. Seinni partinn hófum við veiðar á sama stað og náðum nokkrum fiskum til. Mig minnir að ég fengi tvo minni sjóbirtinga og Halldór eitthvað af bleikju.
Eftir þetta fékk ég oft fiska þarna. Mikið oftar settist ég þó þarna niður með nesti og horfði yfir Möðruvallaplássið og langt upp í Sölvadalinn. Þarna sagði faðir minn mér síðar að Sölvadalur héti eftir gelti sem Helgi magri hefði misst í land við Galtarhamar/Festarhamar, ekki langt frá Kaupangi, ásamt einni gyltu og hann fann þau síðar fram í Sölvadal en þá voru þar 70 svín saman.
Nú liðu mörg ár og þá fór ég að ræða þennan veiðistað við Halldór og þá sagði hann að hann hefði eiginlega ekki ætlað eftir hádegi því veðrið var svo leiðinlegt, sunnan hvassviður og rigning.
Þegar ég fluttist aftur norður þá átti ég dreng sem hafði gaman af að fara og veiða á bökkum Eyjafjarðarár. Ég nýtti þá tækifærið til að troða á hann staðarþekkingu, þeirri hinni sömu og ég lærði þar einum mannsaldri fyrr. Það var einu sinni að við vorum að veiða skömmu fyrir hádegi lítið eitt neðan við Espihól. Þarna er djúpur hylur og grynningar með töluverðu straumköstum neðan við. Ég var að kasta flugu og þetta var seinni hluta ágústmánaðar. Drengurinn var farinn að kvarta um kulda og ég sagði honum að kasta um stund og sest sjálfur niður. Hann kastar en verður ekki var og kvartar áfram enda höfðum bæði ég og Sigurður sem var með hina stöngina fengið tvær bleikjur hvor. Ég greip af honum stöngina og gekk nokkuð uppeftir ánni með hann með mér. Ég beitti nýjum maðki og setti flotholt á áður en ég kastaði út í miðjan hylinn og rétti honum stöngina og sagði honum að lappa með flotholtinu niður að bíl og þá mætti hann fara inn í bílinn og ylja sér. Ég stökk nú niður eftir og hellti kaffi í bollann og greip kexköku. Ég ræddi nú við Sigurð sem kastaði flugunni vilt og galið. Við spjölluðum um fjöllin og bæina þar til drengurinn var kominn niður á grynningar og strauminn með færið. Þá sagði Sigurður: “Flotið er löngu sokkið”. Ég svaraði að bragði: “Þetta er búið að vera fast í botni lengi.” Þá tók stærðarfiskur sig upp út í miðri á með flotholtið í eftirdragi. Mér varð nokkuð um og kastaði bollanum og kexinu frá mér í grasið og tók nokkur stökk niður að drengnum sem var þá búinn að ná sambandi við fiskinn. Eftir nokkra stund landaði hann 9 punda sjóbirting. Ég rölti uppeftir og tók saman kaffidótið en ekki fann ég kexkökuna þrátt fyrir mikla leit og leið ekki vel með að skilja hana eftir en þó varð svo að vera. Þegar við nálguðumst Akureyri þrífur Sigurður aftan í úlpuna mína og kemur með hálfa kexköku en ég hafi hent henni ofan í hettuna í flýtinum.
Drengurinn minn sem nú er 19 ára er sjálfsagt af síðustu kynslóð þeirra sem læra að þekkja staðhætti í Eyjafirði af föður sínum meðan þeir veiða á bökkum Eyjafjarðarár. Nú er búið að banna alla maðkveiði af því að vitrir menn telja að börn veiði meira á maðk en fullorðnir á flugu.
Sigfús Aðalsteinsson
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd