main image

Fyrir 100 árum síðan!

Þann 8. febrúar 1913 birtist grein í Norðra undir heitinu Ýmislegt  um Akureyri. Þar segir frá óánægju með fræðsluyfirvöld á Akureyri vegna bruðls og of hárra fjárframlaga til barnaskólans í bænum.

Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan!

 

„Fræðslumálanefnd kaupstaðarins hefir með barnaskólamálið að gera, þykir mörgum hún nokkuð eyðslusöm á fé og hafa gert hina almennu og fyrirskipuðu barnafræðslu i bænum dýrari en brýna nauðsyn ber til og þurft hefði til þess þó að geta fylgt fyrirmælum fræðslulaganna. Það sem mörgum þykir að skólanum er fyrst og fremst þetta:

 1. Laun sumra föstu kennaranna séu of há, töluvert hærri en ákvæði fræðslu laganna geri ráð fyrir. Launin hafa verið bundin við persónur, sem hafa sætt lagi að fá samþyktar launaviðbætur í bæjarstjórninni, þegar vinir þeirra hafa verið fjölmennari á fundi en afturhaldsmennirnir svo kölluðu hafa verið fjarverandi. Kennarastöðurnar með fastákveðnum hæfilegum launum hafa eigi verið auglýstar lausar og mönnum verið gefinn kostur á að sækja um þær.

 2. Sumum kennurum skólans, sem virðast sæmilega launaðir, sé leyft að hafa kenslu annarstaðar síðari hluta dags, þetta telja sumir ekki heppilegt, því nóg sé að kenna 4 til 5 tíma á dag sé kent með áhuga, vilji kennarinn vinna meira eigi hann að fá sér önnur störf en kenslustörf að vinna síðari hluta dagsins.

 3. Föstu kennararnir séu óþarflega margir. Tímakennararnir reynist oftast eins vel, en ásóknin eftir að verða fastur kennari sé launanna vegna.

 4. Barnaskólinn hafi síðustu árin verið gerður að nokkurskonar tilraunaskóla. Hann hafi tekið upp kenslu í handavinnu o. fl. sem fræðslustjórn landsins gerir eigi að skyldu fyrir styrkveitingu, og inn á þessa tilraunabraut hafi verið gengið fulllangt. Akureyrarbær hafi hvorki fé né yfirburðakennara til þess að gera skóla sinn að fyrirmyndarskóla, há laun séu eigi einhlít til að afla skólanum ágætiskennara. Skriftarkensla reikningsfræðsla og það að láta börnin Iæra ýmislegt utanbókar hafi aftur fremur verið vanrækt síðustu árin, sem sé þó eitt hið nauðsynlegasta. Menn vantreysta skólanum að geta rétt við og lífgað heimilisiðnaðinn, til þess þurfi önnur ráð en þetta flingur í skólanum.

 5. Mönnum þykir ískyggilegt að 3 eða 4 efnaðar og barnmargar fjölskyldur senda eigi börn sín á skólann en hafa húskennara, í gamla daga fóru öll efnamannabörn á barnaskólann til að læra þar skrift, reikning, dönsku og til að láta hlýða sér yfir kver og biblíusögur og spyrja sig sig út úr og hafði skólastjóri þá ekki nema 6 til 800 kr. laun.

 6. Mönnum þykir undarlegt að barnaskólarnir í ýmsum kauptúnum landsins, sem eingöngu binda laun kennaranna við það sem fræðsluögin ákveða, þótt fremur sé dýrara að lifa á þessum stöðum en á Akureyri, skila börnum á fermingaraldri eins vel eða betur skrifandi, reiknandi, lesandi og hugsandi eins og barnaskólinn á Akureyri. Þó skal því eigi neitað að sum börn á Akureyri hafa lært meira í teikning og söng en í kauptúnunum. En hvortveggja það vekur og eykur fegurðartilfinningu.

 Það verður aldrei eingöngu féð eða aukin kennaralaun og fjölgun fastra kennara, sem efla álit barnaskólans á Akureyri og auka traust á honum og aðsókn til hans, heldur hitt, að það sem kent er sé kent vel, kennararnir kunni tökin á börnunum og gætilega sé farið inn á tilraunabrautir, gömlu aðferðunum eigi kastað fyrir borð fyr en talsverð reynsla er fengin fyrir að þær nýju séu eins góðar eða betri. Það réttasta sem stjórn kaupstaðarins gerði, væri að fá skólanefndinni sæmilega mikið fé til að láta kenna fyrir ákveðnar námsgreinar í barnaskóla á Akureyri, sem hefði 3 eða 4 fastakennara og tímakennara eftir þörfum. Tel eg þá sjálfsagt að minka mætti tillagið til skólans um 6 til 800 kr. á ári án þess að skólinn væri vanræktur.“

Norðri 8. árgangur 1913, 3. tölublað (08.02.1913), blaðsíða 9-10

 

 

Fyrir 100 árum síðan!

Þann 28. janúar 1913 birtist grein eftir St.D. Í greininni vitnar undirritaður í [vestfirzkan mann] en sá hinn síðarnefndi hafði áður og á öðrum vettvangi borið saman Akureyri og Ísafjörð. Íbúafjöldi í bæjunum tveimur var svipaður í upphafi árs 1913.

Skyldu einhverjir vera á sömu skoðun í dag og St.D. varðandi miðbæ Akureyrar eins og hann lítur út núna?

„Að frátekinni innsiglingunni að Akureyri, sem er hin fegursta á landi hér, en ófögur og eyðileg á ísafirði, er Ísaf. mikin lögulegri og bæjarlegri að útliti og formi heldur en Akureyri. Veldur því hin bratta brekka fyrir ofan Akureyri, svo bærinn sýnist eins og ein ræma langs með ströndinni allan þann veg frá Gróðrarstöð og fremst út á Oddeyrartanga. En á Ísaf. stendur bærinn í einni heild á sléttum Tanganum, sem er breiður efst, þar er tekur við fögur og há fjallshlíð. Göturnar þar eru því beinar og sléttar og liggja ekki upp neinar brekkur, eins og á Akure.yri. Og er miðbærinn á Akure. mjög ógeðsleg gata rétt við sjóinn, svo að um flóð með sjógangi hlýtur að skella þar upp. Furðar mig, að ekki er þar settur rimagarður (stakit) sjávarmegin, svo fólk falli þar ekki ofan fyrir.“

 

Norðri, 8. árgangur 1913, 2. Tölublað (28.01.1913), blaðsíða 6

Fyrir 100 árum síðan!

Þann 23. janúar 1913 birtist í dagblaðinu Norðurland, sem gefið var út á Akureyri, grein eftir Steingrím Matthíasson lækni. Greinin birtist undir sérstökum lið í blaðinu sem kallast Heilsa og langlífi. Steingrímur gerir móðurmjólkina að umtalsefni sínu en hann vitnar í danska  heilsutímaritið Ugeskrift for Læger. Mjólkin lét víst eitthvað standa á sér fyrir 100 árum en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi eins og greinin ber með sér!

Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan!

 „Eins og tekið var fram í síðustu grein, (í ,Gjh.’) er enginn vafi að móðurmjólkin er langhollasta fæðan handa ungbörnum. Á seinni árum hefir það kveðið við í öllum löndum, að konur gætu ekki haft börnin á brjósti vegna mjólkurleysis, og margir lærðir vísindamenn hafa verið á sama máli um, að konur væru yfirleitt að geldast í öllum siðuðum löndum. Nýjustu rannsóknir virðast þó benda á að þetta sé nokkuð orðum aukið, og að konur muni yfirleitt mjólka eins vel nú og áður, ef góður vilji er með, og sýnd er alúð við að leggja barnið að brjóstinu og gefast ekki upp við fyrstu tilraunir.“

 Norðurland 1913, 1. tölublað (23.01.1913), blaðsíða 2

Fyrir 100 árum síðan!

Tannlækningar og taugaveiki á Akureyri voru á forsíðu Vísis sunnudaginn 19. janúar 1913.

„Hjer [Akureyri] hefur enginn tannlæknir verið síðan fröken Torup fór í fyrra vor. En nú hefur Friðjón læknir Jensson á Eskifirði ákveðið, að setjast hjer að sem tannlæknir. Kemur væntanlega alfluttur með vorinu.”

 „Taugaveiki liggur altaf í landi á Oddeyri og er hún nú í 5 húsum þar.”

Vísir 1913, 512. tölublað (19.01.1913), blaðsíða 1

Fyrir 100 árum síðan!

Í dagblaðinu Vísi birtist grein um ökufærni Reykvíkinga þann 16. janúar árið 1913. Greinin ber heitið Ökumenn bæarins og undir hana skrifar Bæarbúi. Í greininni fer greinarhöfundur hörðum orðum um glannaskap hestamanna í Reykjavík og hættuna sem af þeim stafar fyrir gangandi vegfarendur. Í niðurlagi greinarinnar fer hann hins vegar svo fögrum orðum um ökufærni Akureyringa að hann líkir þeim við annan þjóðflokk. Ætli Bæarbúi sé nokkuð að norðan?

Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan!

„Það er eigi að furða, þó mönnum, sem sjeð hafa til ökumanna á Akureyri bregði í brún við að sjá framferði stjettarbræðra þeirra hjer. Þar eru þeir ólíkt rösklegri og snarari í snúningunum, og það sem mest er um vert, eru vakandi um verk sitt, og vita hvað þeir eru að gera, hafa vit og vilja á að stjórna hestunum. Þar kunna þeir að víkja sjer til hliðar eftir ástæðum, enda eru það Norðlendingar, sem Dr. Ehlers segir svo um í ferðasögu sinni: »Man skulde tro det var en hel anden Nation.«“

Vísir 1913, 510. tölublað (16.01.1913), blaðsíða 1

Fyrir 100 árum síðan!

Í greininni sem birtist 15. janúar árið 1913 fer höfundur yfir fiskveiðar Íslendinga á árinu 1912 eftir landshlutum. Greinin er á forsíðu en auk síldveiða fjallar höfundur um strandveiðar, þilskipaveiði og botnvörpunga. Heitasta slúðrið á kaffistofum landsmanna fyrir 100 árum síðan!

„29 skip lögðu afla sinn á land á Eyjafirði og veiddu af saltaðri síld til útsendingar rúm 71 þúsund tunnur. Auk þess hafa þessi sömu skip selt til áburðarverksmiðjanna um 80 þúsund tunnur. Á Siglufirði mun tala skipa hafa verið lítið eitt meiri…“

Ísafold 1913, 4. tölublað (15.01.1913), blaðsíða 13

Fyrir 100 árum síðan!

Menn björguðu sér hér áður fyrr. Ef aðstæður til skautaiðkunar voru ekki góðar hópaðist fólk bara innandyra og renndi sér á gólfinu eða fékk sér snúning á skrautskóm frá Guðlögi. Jafnvel þó nóg sé af svellbunkum til að renna sér á þessa dagana (og meira en góðu hófi gegnir kynnu einhverjir að segja) mættu Akureyringar og nærsveitamenn kannski gera meira af því að koma saman um hábjartan dag til að dansa á skrautskóm. Textabrotið að neðan birtist á prenti 14. janúar 1913.

Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan!

„Skautafélag er til á Akureyri eins og í öðrum norðlægum borgum. Það hefur verið mjög óheppið með glæra ísa í vetur og til þess að stirna ekki um of fór það á dögunum að reyna hálkuna á salgólfinu hjá Vigfúsi hotelvert og reyndist hún allvel og varð glaðvær dansleikur úr öllu saman og þar reyndir skrautskórnir frá Guðlögi o. fl. Það er líka eitthvað notalegra að glansa í blúslampasölum bæjarins en flækjast á skautum í misjöfnu veðri og svo hefir Guðlögur líka betra upp úr því, en skautafélag má það eins heita fyrir það.”

 Norðri 8. árgangur 1913, 1. tölublað (14.01.1913), blaðsíða 2

Fyrir 100 árum síðan!

Í þá gömlu góðu daga þegar innheimtuaðgerðir voru á tíðum mildari en þekkist í dag. Í auglýsingunni, sem birtist á gamlársdag árið 1913, má sjá að ekki hafa allir viðskiptavinir J.V. Havsteensverslunarinnar á Oddeyri staðið í skilum á réttum tíma. Þeir eru minntir á skuldina og er fastlega vonast eftir að þeir greiði skuldir sínar innan ákveðins tíma. Í dag er hörðum innheimtuaðgerðum hótað á mjög svo ópersónulegan hátt bréfleiðis nánast áður en gjalddagi rennur sitt skeið á enda.

Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan!

„J. V. Havsteensverzlunar á Oddeyri verður    lokuð   nú   í   nokkra   daga  að mestu vegna vörukönnunar. Þó verður þar stöðugt selt  gegn   peningum   út   í hönd   og   eins   veitt   móttöka   borgun upp í skuldir. Þar sem ýmsir urðu heldur seinir fyrir með að greiða skuldir sínar fyrir árslokin, tilkynnist þeim hinum sömu að reikningum ársins 1912 verður ekki lokað fyr er 20 januar 1913 og er fastlega vonast eftir að þeir greiði skuldir sínar innan þess tíma.”

Norðri 7.  árgangur 1912, 43. tölublað (31.12.1912), blaðsíða 163