Hall skildi eftir spor á Akureyri

Bandaríkjamaðurinn James Norman Hall er góðkunningi Grenndargralsins. Þekktasta bók rithöfundarins er Mutiny on the Bounty sem hann skrifaði með Charles Nordhoff og gaf út árið 1932. Sumarið 1922 ferðaðist Hall til Íslands og hélt til í nokkra mánuði á Hótel Oddeyri á Akureyri hjá Kristínu Eggertsdóttur hótelstýru. Hann lærði íslensku hjá Vernharði Þorsteinssyni sem þá kenndi við Gagnfræðaskólann. Grenndargralið fjallaði ítarlega um dvöl Hall á Akureyri í grein sem bar yfirskriftina Bjó á Oddeyri áður en heimsfrægðin knúði dyra.

Tíðindi bárust nýlega frá Menntaskólanum á Akureyri um að bók eftir James Norman Hall, árituð af höfundinum, hefði fundist í geymslu skólans. Á vef skólans ma.is segir:

Ekki alls fyrir löngu fannst rykfallin bók í MA, skrifuð af Hall og Nordhoff og gefin út af Harper & Brothers í Bandaríkjunum árið 1921, ári áður en Hall kom til Akureyrar. Bókin er sú fjórða í röðinni sem Hall skrifaði og heitir Faery Lands of the South Seas. Finnandi bókarinnar varð heldur betur hissa þegar hann opnaði hana og sá að bókin er árituð af sjálfum James Norman Hall. Ekki nóg með það, heldur er áritunin persónuleg kveðja til Vernharðs og virðist sem bókin hafi verið persónulegur áramótaglaðningur frá Hall til Vernharðs, gjöf frá nemanda til kennara síns. Fremst í bókina skrifar James Norman Hall með svörtum blekpenna:

To Mr. Thorsteinsson
With the best wishes for a Happy new year
James N. Hall
Akureyri, December 31, 1922.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd