main image

Silfurgaffall frá breska hernum fannst í Hlíðarfjalli

Silfurgaffall af gerðinni Old English fannst við rætur Hlíðarfjalls í gær. Varðveislumenn minjanna  voru við sínar reglulegu athuganir í hlíðunum ofan Akureyrar á slóðum bandarískra, breskra og norskra hermanna á stríðsárunum þegar gaffallinn varð óvænt á vegi þeirra. Margir þekkja útlitið á gafflinum enda borðbúnaður af þessari gerð algengur á íslenskum heimilum á 20. öld. Þegar rýnt er í merkingar kemur hins vegar í ljós að þessi tiltekni gaffall er ekki kominn frá íslensku heimili.

Enginn vafi leikur á því að gaffallinn kemur úr fórum bresks hermanns á stríðsárunum. Hann er merktur sérstakri ör (Broad Arrow) sem táknar eign breska hersins (War Department). Athygli vekur að gaffallinn er framleiddur fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldar eins og merking á honum ber með sér, árið 1937. Greina má merkingarnar C Bros S með skrautstöfum en þar er vísað til fyrirtækisins Cooper Brothers & Sons í Sheffield í Englandi. BP stendur fyrir Britannia Plate.

Bræðurnir Tom og John William Cooper fæddust í Sheffield fyrir miðja 19. öld. Þeir stofnuðu Cooper Brothers & Sons árið 1866. Við andlát þeirra tóku synir Tom við rekstrinum. Þeir voru við stjórnvölinn þegar Hlíðarfjallsgaffallinn var framleiddur. Undir þeirra stjórn var Cooper Brothers & Sons í fararbroddi með tilraunir á ryðfríum hnífum og árið 1929 markaðssetti fyrirtækið áhöld úr ryðfríu stáli. Cooper-fjölskyldan stýrði fyrirtækinu fram yfir stríð. Fyrirtækið Frank Cobb & Co keypti reksturinn árið 1983.

Silfurbúnaður frá Cooper Brothers & Sons er vandaður og eftirsóttur af söfnurum um allan heim. Silfurgaffallinn úr Hlíðarfjalli bætist nú í hóp fjölmargra gripa frá árum seinni heimsstyrjaldar sem Varðveislumenn minjanna hafa fundið í heimabyggð og tekið til varðveislu.