Munir úr fórum Nordahl og Gerd Grieg í Davíðshúsi og í Menntaskólanum

Sagnalist hefur undanfarnar vikur fjallað um norska skáldið og andspyrnuhetjuna Nordahl Grieg og eiginkonu hans, leikkonuna Gerd Grieg. Þrír þættir í hlaðvarpsþáttaröðinni Sagnalist með Adda & Binna varpa ljósi á sterk tengsl hjónanna við Ísland og þá ekki síst tengsl við Akureyri (Grieg-undir heroki kúgunarvalds, Grieg-þú varst heiða og hreina hjartalindin mín og Grieg-elskendur sem aldrei geta mæst). Addi og Binni reyna að rekja slóð þeirra þar sem þeir staldra m.a. við Samkomuhúsið, Davíðshús og Menntaskólann auk þess sem dularfullur sumarbústaður í útjaðri bæjarins kemur við sögu. Nokkrir áhugaverðir gripir úr fórum Grieg-hjónanna, sem dagað hafa uppi á Akureyri, urðu á vegi þáttastjórnenda við undirbúning þáttanna. Hér að neðan getur að líta nokkur sýnishorn. Sjón er sögu ríkari.

 

Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin, útgáfa frá 1913. Bókin var í eigu Nordahl Grieg og er merkt honum árið 1918. Bókin er með stimpil Amtsbókasafnsins á Akureyri. Hún er í eigu manns á höfuðborgarsvæðinu.

 

Ljóðabókin Ættmold og Ástjörð kom út á Íslandi árið 1942 í 175 tölusettum eintökum. Bókin geymir ljóð Nordahl Grieg á íslensku, í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Grieg skrifar formála. Menntaskólinn á Akureyri á eintak með áritun skáldsins.

 

Bækur Nordahl Grieg, áður í eigu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Nú varðveittar í Davíðshúsi. Gjöf til Davíðs frá Gerd Grieg.

 

Málverk, áður í eigu Davíðs Stefánssonar. Nú varðveitt í Davíðshúsi. Gjöf til Davíðs frá Gerd Grieg. Máluð af Ferdinand Finne, norskum listmálara og vini Gerd.

 

Ljóðabókin Friheten kom út á Íslandi þann 17. maí 1944. Bókin geymir ljóð Nordahl Grieg á norsku. Menntaskólinn á Akureyri á eintak, áritað af Gerd Grieg sem hún gaf skólanum árið sem bókin kom út.

 

Ljósmynd af Nordahl Grieg í ramma. Myndin er í eigu Menntaskólans á Akureyri. Ekki er vitað hvenær og af hvaða tilefni myndin kom í Menntaskólann. Komið hafa fram hugmyndir um að Gerd Grieg hafi fært skólanum hana að gjöf um leið og Friheten.

 

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd