main image

Eru til ljósmyndir af Nordahl Grieg á Akureyri?

Fyrir rúmum 20 árum birtist grein í Morgunblaðinu undir liðnum Bréf til blaðsins. Norðmaður að nafni Torleif Lyngstad sendi bréfið. Torleif hafði heyrt vin sinn, Knut Johannes Aspelund, segja sögur af dvöl hans á Íslandi á stríðsárunum. Aspelund fékk það skemmtilega verkefni á Íslandi sumarið 1942 að fylgja og hjálpa samlanda sínum Nordahl Grieg í nokkra daga á meðan hann dvaldist á Akureyri. Grieg var þekkt skáld og því mikill heiður fyrir Aspelund að fá að fylgja honum hvert fótmál á Akureyri og í nágrenni bæjarins þessa daga í júnímánuði.

Í bréfinu sem birtist í Morgunblaðinu óskar Torleif eftir aðstoð Íslendinga við að hafa upp á ljósmyndum sem Aspelund vildi meina að hefðu verið teknar af honum og Grieg á Akureyri. Að sögn Aspelund hittu hann og Grieg nokkur ungmenni um tvítugt í og við sumarbústað í nágrenni bæjarins og höfðu þau myndavél meðferðis. Aspelund fékk nöfn ungmennanna en auðnaðist ekki að koma á sambandi við ungu Íslendingana. Aspelund lést árið 2001. Nöfn þeirra sem tóku myndir af Knut Johannes Aspelund og Nordahl Grieg – ef marka má Aspelund – eru Hjördís Guðmundsdóttir, Guðrún Guðmundsdóttir, Gunnar Jóhannesson, Hjálmar Guðmundsson og Hulda Guðmundsdóttir.

Sagnalist vinnur að hlaðvarpsþætti um Nordahl Grieg, eiginkonu hans Gerd Grieg og dvöl þeirra á Akureyri á stríðsárunum. Ef þú telur þig hafa upplýsingar um fólkið sem nafngreint er hér að ofan máttu gjarnan koma upplýsingum á borð Grenndargralsins eða Sagnalistar.

 

Morgunblaðið 290. tölublað (26.10.2003)

Póstkort frá May Morris fannst í húsi á Akureyri

Merkilegt póstkort kom í leitirnar við tiltekt í húsi á Akureyri í síðasta mánuði. Grenndargralið komst á snoðir um fundinn og þótti mikið til hans koma enda sendandi kortsins góðkunningi Gralsins. May Morris, listakona og skartgripahönnuður með meiru og dóttir hins kunna Íslandsvinar William Morris, skrifaði á kortið og sendi til Íslands jólin 1934. Eins og faðir hennar, hafði May sterk tengsl við Ísland og heimsótti land og þjóð nokkrum sinnum á millistríðsárunum. Sagan hennar er ekki síður áhugaverð en saga föður hennar. May lést árið 1938. Á kortinu er málverk af William Morris. Hinum megin skrifar May eitthvað á þessa leið; „Alúðarkveðjur frá Kelmscott. Ég hef verið með flensu og get ekki skrifað. May Morris. Jól 1934.” Ekki er vitað á hvern póstkortið var stílað og hverjum það var ætlað en Grenndargralinu er kunnugt um vini sem May eignaðist á Akureyri á þriðja og fjórða áratugnum. Grenndargralið fjallaði ítarlega um frú Morris fyrir nokkrum árum í greinaflokknum Konan sem skuggi föðurins faldi.