Póstkort frá May Morris fannst í húsi á Akureyri

Merkilegt póstkort kom í leitirnar við tiltekt í húsi á Akureyri í síðasta mánuði. Grenndargralið komst á snoðir um fundinn og þótti mikið til hans koma enda sendandi kortsins góðkunningi Gralsins. May Morris, listakona og skartgripahönnuður með meiru og dóttir hins kunna Íslandsvinar William Morris, skrifaði á kortið og sendi til Íslands jólin 1934. Eins og faðir hennar, hafði May sterk tengsl við Ísland og heimsótti land og þjóð nokkrum sinnum á millistríðsárunum. Sagan hennar er ekki síður áhugaverð en saga föður hennar. May lést árið 1938. Á kortinu er málverk af William Morris. Hinum megin skrifar May eitthvað á þessa leið; „Alúðarkveðjur frá Kelmscott. Ég hef verið með flensu og get ekki skrifað. May Morris. Jól 1934.” Ekki er vitað á hvern póstkortið var stílað og hverjum það var ætlað en Grenndargralinu er kunnugt um vini sem May eignaðist á Akureyri á þriðja og fjórða áratugnum. Grenndargralið fjallaði ítarlega um frú Morris fyrir nokkrum árum í greinaflokknum Konan sem skuggi föðurins faldi.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd