main image

Konan sem skuggi föðurins faldi – lokaorð

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því Morris-grúsk Grenndargralsins hófst eftir sprengilægð í aðdraganda síðustu jóla. Síðan þá hafa vondar fréttir dunið yfir okkur, lægðir á lægðir ofan, loðnubrestur og kórónaveira svo eitthvað sé nefnt. May Morris – konan sem skuggi föðurins faldi hefur staðið allar slíkar hræringar af sér og fylgt Gralinu og lesendum Vikudags undanfarnar vikur eins og leiðarljós. En nú er hins vegar komið að leiðarlokum. Í bili.

May Morris var merkileg kona fyrir ýmissa hluta sakir. Saga hennar teygir anga sína víða, m.a. hingað í heimabyggð sem öðru fremur skýrir áhuga Grenndargralsins. May fæddist árið 1862, sama ár og Akureyri fékk kaupstaðaréttindi og rúmum áratug síðar ferðaðist faðir hennar, hinn kunni William Morris um Eyjafjörð. Tíðar ferðir May til Íslands og Akureyrar á þriðja og fjórða áratugnum vöktu sérstaka eftirtekt þegar Grenndargralið hóf grúskið. Hitt sem vekur þó meiri athygli Gralsins er að því er virðist mikil og góð vinátta hennar og hjónanna Sigurjóns Sumarliðasonar og Guðrúnar Jóhannsdóttur og bréfaskipti þeirra á tímabilinu 1926-1938. Bjó May á heimili þeirra, fyrst á Ásláksstöðum og síðar í Munkaþverárstræti, á meðan hún dvaldist á Akureyri og ferðaðist um  Norðurland.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Eins og gjarnan vill verða þegar farið er af stað í þeirri viðleitni að finna svör, vakna fleiri spurningar. Að mati Grenndargralsins telst saga May Morris og tengsl hennar við Akureyri og nágrenni til gleymdra gersema í sögu og menningu heimabyggðar – saga sem verðskuldar umfjöllun. Grenndargralið hefur vissulega gert sögunni skil síðustu vikur en betur má ef duga skal. Mörgum spurningum er enn ósvarað. Eru bækur þær sem May Morris gaf sýslubókasafni á Húsavík ennþá til? Hafa bréf, myndir og bókakassar sem hún sendi vinum sínum á Akureyri varðveist? Eru bækur úr fórum May, sem Vivian Lobb gaf Amtsbókasafninu á Akureyri að May látinni, glataðar? Grenndargralið ber þá von í brjósti að einhver grípi boltann á lofti og varpi ljósi á málið.

Vinkona vor May Morris fer á hilluna góðu um stundarsakir. Grenndargralið heldur áfram að grafa upp gersemar úr sögu og menningu heimabyggðar.

Konan sem skuggi föðurins faldi – fimmti hluti

May kemur út úr skugganum

May kom til Akureyrar árið 1931. Sem fyrr var Vivian Lobb með í för sem og tvær hefðarkonur frá Ameríku. Allar líkur eru á að þar sé um systurnar Mary og Margaret Pierce að ræða en May kynntist þeim þegar hún hafði áður ferðast um Norður-Ameríku. Að þessu sinni kom May sem handhafi hinnar íslensku fálkaorðu. Hún var sæmd orðunni árið 1930 vegna starfa og vinarþels í þágu íslensku þjóðarinnar. Þegar May kom í bæinn að morgni 4. júlí voru hjónin Sigurjón og Guðrún á Ásláksstöðum flutt í nýbyggt húsnæði í Munkaþverárstræti. Þau fóru niður að höfn til að taka á móti vinkonum sínum sem höfðu ekkert sofið þá nóttina. Þær vildu ekki missa af neinu meðan skipið sigldi meðfram Íslandsströndum á leið sinni til Akureyrar í fallegri birtu sumarnæturinnar. Birtan yfir bænum þennan sólríka sumarmorgun lýsti upp andlit May þegar hún steig frá borði á Lagarfossi. Akureyri var áfangastaður hennar enn eitt skiptið n.t.t. Munkaþverárstræti 3. Þar dvöldust May og Lobb í góðu yfirlæti hluta úr sumrinu.

Vitað er að í a.m.k. einni af ferðum May til Íslands kom hún til Húsavíkur og heimsótti sýslubókasafn bæjarins. Ekki er ólíklegt að hún hafi heimsótt safnið í ferð sinni um landið sumarið 1931. Á safninu sá hún bækur eftir William Morris. Þótti henni mikið til þess koma að finna bækur frá föður sínum á bókasafni á hjara veraldar. Ekki varð hún minna hissa þegar kom í ljós á spjalli við starfsmann bókasafnsins, Benedikt Jónsson, að hann hafði hitt William Morris þegar hann gisti á heimili foreldra Benedikts að Þverá í Laxárdal sumarið 1873. Svo mikið þótti henni til þessara tíðinda koma að hún færði safninu veglega gjöf nokkrum árum síðar. Hún hafði þó ekki tök á því að afhenda gjöfina í eigin persónu en sendi hana þess í stað með skipi frá Englandi. Ferðalagið sumarið 1931 var þannig að öllum líkindum hennar síðasta til Íslands. Áfram hélt hún tengslum við vini sína á Akureyri.

Næstu árin héldu Sigurjón og Guðrún í Munkaþverárstræti og May Morris og Vivian Lobb á Kelmscott-setrinu góðu sambandi. Þau skrifuðust á og virðist sem bréfasendingar hafi verið nokkuð reglulegar. May og Lobb voru duglegar að hvetja hjónin til að heimsækja þær á Kelmscott-setrið. Í einu bréfinu skrifuðu þær; „Nú eruð þið laus við búskapinn og frjáls eins og fuglar himinsins.“ Ekkert varð af heimsókn hjónanna til May. Smám saman fór heilsu hennar hrakandi. Hún var komin á áttræðisaldur og hafði dregið verulega úr ferðalögum. Hugur hennar var þó áfram hjá vinum hennar og kunningjum á Norðurlandi. Sumarið 1936 barst Bókasafni Þingeyinga á Húsavík gjöf frá May, yfir 400 bækur enskra höfunda og skálda, fræðibækur og listabækur. Þá sendi hún Sigurjóni og Guðrúnu einnig bækur og myndir að gjöf.

May Morris lést 17. október 1938 á heimili sínu. Sigurjón og Guðrún fengu tilkynningu þess efnis frá Vivian Lobb. May var jarðsett á heimaslóðum hennar í Oxfordskíri. Auk May hvíla William, Jane og Jenny Morris í fjölskyldugrafreitnum í Kelmscott. Eftir fráfall May fengu vinirnir á Akureyri, Sigurjón og Guðrún, sendingu frá Kelmscott-setrinu. Þau fengu stóra kassa fulla af bókum sem flestar lentu síðar á Amtsbókasafninu á Akureyri. Aðeins fimm mánuðum eftir dauða May var Lobb öll.

Þann 14. apríl 1939 birtist greinarkorn í dagblaðinu Íslendingi undir heitinu Gjöf til Amtsbókasafnsins. Greinina skrifar Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi, þá bókavörður á Amtsbókasafninu. Hann rekur í stuttu máli samskipti Sigurjóns og Guðrúnar við May og Lobb liðin ár og hvernig vinátta þeirra skýri öðru fremur gjöf sem safninu hefði nýlega borist frá Vivian Lobb. Gjöfin var í formi 400 bóka, sumar hverjar afar merkilegar bækur og vandaðar. Í niðurlagi greinarinnar flytur Davíð frú Lobb „innilegustu þakkir fyrir hina fögru og höfðinglegu gjöf.“ Það sem Davíð var ekki kunnugt um var að Lobb var látin þegar bækurnar frá henni bárust Amtsbókasafninu. Lobb lést á Kelmscott-setrinu þann 27. mars 1939.

Ljóst er að May ánafnaði Lobb stóran hluta eigna sinna. Þá liggur einnig fyrir að Lobb sendi hluti úr eigu May til hinna ýmsu aðila þá fimm mánuði sem hún lifði eftir andlát hennar. Þannig sendi Lobb m.a. skartgripi á safn í Wales og muni sem tengjast Íslandi á safn í Exeter. Eftir að hafa erft May voru eignir Lobb metnar á 12.000 pund á þávirði. Í erfðaskrá hennar frá 19. mars 1939, átta dögum fyrir andlát hennar, er virði eigna hennar hins vegar ekki metið á nema 3.910 pund. Þetta er umtalsverð rýrnun á ekki lengri tíma sem gæti skýrst af gjafasendingum vítt og breitt um Bretlandseyjar og út fyrir landsteinana. Og svo virðist sem ein síðasta gjöfin frá Lobb, úr fórum May Morris, hafi verið bækurnar 400 sem hún sendi til Akureyrar.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi hafði ekki heyrt um örlög Lobb þegar bækurnar frá henni bárust honum á Amtsbókasafnið. Sigurjón Sumarliðason og Guðrún Jóhannsdóttir frá Ásláksstöðum höfðu hins vegar frétt af andláti hennar. Viku eftir að grein Davíðs birtist í Íslendingi kom tilkynning í sama dagblaði frá Guðrúnu þar sem hún benti Davíð og lesendum blaðsins á hvernig í pottinn var búið. Við fráfall þeirra [May og Lobb] hefir komið skarð í vinahóp okkar hjóna, sem ekki verður fyllt. Bjart er um minningu þeirra í hugum allra, sem áttu því mikla láni að fagna að kynnast þeim. Og með þeim eru til moldar gengnir sannir vinir íslands og aðdáendur.

May Morris var 76 ára þegar hún lést. Stóran hluta ævinnar helgaði hún sig listum og ferðalögum. Ung að árum fetaði hún sömu slóð og faðir hennar við listsköpun. Síðar fór hún í fótspor hans vítt og breitt um Ísland og var nafn hennar vel þekkt hér á landi sem og víðar. Svo lengi sem hún lifði var May konan sem skuggi föðurins faldi. Eftir dauða May Morris fennti jafnt og þétt yfir nafn hennar, svo mjög að hún er mörgum gleymd sem nú yrkja jörðina. Seinni tíma uppgötvanir hafa dregið hana fram í dagsljósið sem listakonu í fremstu röð og hefur hún jafnt og þétt verið að öðlast þá viðurkenningu sem henni ber, óháð afrekum föðurins. May sjálf vissi hvers hún var megnug. Árið 1936 skrifaði hún í bréfi til George Bernard Shaw; „I’m a remarkable woman – always was, though none of you seemed to think so.“ May var þúsundþjalasmiður eins og William Morris á sviði listsköpunar og hönnunar. Mikið liggur eftir hana svo sem teikningar, útsaumur og skartgripir svo eitthvað sé nefnt. Rannsóknir hafa leitt í ljós að sum af vinsælum veggfóðursmynstrum sem talin voru hönnuð af William Morris, eru í raun sköpunarverk May. Nú, 80 árum eftir að hún kvaddi þessa jarðvist er sem May sé að koma út úr skugganum. Grenndargralið leggur sitt lóð á vogarskálarnar með því að heiðra minningu „Akureyrarvinarins“ May Morris – konunnar sem birta bæjarins lýsti.

 

Heimildir:

Curran, S. (2017. 6. nóvember). May Morris: Art & Life (& Lesbian Erasure…. again). Sótt af https://towardsqueer.blogspot.com/2017/11/may-morris-art-life-lesbian-erasure.html?fbclid=IwAR0wntXzzWbyqdxGXqePkBaDyYA6ZBrmwnabnSkw1dBC5E4pzywi4cu3CAk

Dagur (16.07. 1931) bls. 140

Gudrún Jónsdottir. (e.d.). May Morris and Miss Lobb in Iceland. Sótt af http://www.morrissociety.org/JWMS/07.1Autumn1986/AU86.7.1.Jonsdottir.pdf

Íslendingur (16.07. 1926) bls. 3

Jan Marsh. (2017, 20. september). Feminist, socialist, embroiderer: the untold story of May Morris. Sótt af https://www.royalacademy.org.uk/article/may-morris-art-and-life-william-morris-gallery

Jón Guðnason tók saman. (1976). Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1965. Reykjavík: Hið ízlenska bókmenntafélag.

Lesbók Morgunblaðsins (23.12. 1968) bls. 52-53

Nikola Davison. (2017, 20. nóvember). May Morris, the overlooked star of Arts and Crafts movement. Sótt af https://www.ft.com/content/344542be-be33-11e7-823b-ed31693349d3

Simon Evans. (e.d.) The Eclectic Collection Of Miss M.F.V. Lobb. Sótt af https://www.yumpu.com/en/document/read/56900023/the-eclectic-collection-of-miss-mfv-lobb

Vísir (28.08. 1924) bls. 3

Vísir (03.09. 1924) bls.3

Vísir (12.12. 1925) bls. 3

Vísir (07.06. 1926) bls. 3

Vísir (18.08. 1926) bls. 3

Vísir (25.08. 1926) bls. 3

Vísir (29.07. 1936) bls. 4

Örn Gíslason. (e.d.). With May Morris in Iceland. Sótt af http://morrisedition.lib.uiowa.edu/icelandicdiariesgislason.html

Mynd: © William Morris Gallery, London Borough of Waltham Forest

Konan sem skuggi föðurins faldi – fjórði hluti

„Þetta er móðir mín“ mælti May

Dömurnar voru eins ólíkar og tvær manneskjur geta verið. Önnur frekar lítil, grannvaxin og gráhærð. Hún skipti um föt fyrir kvöldverð, klæddist pilsi, peysu og treyju og setti um hálsinn glitrandi gulgræna perlufesti. Hún talaði lágum rómi, hló ekki en brosti blíðlega, sat og málaði blóm í vatnslitum og skrifaði hitt og þetta í minnisbókina sína. Nafn hennar var ungfrú May Morris. Hin daman var hávaxin og frekar feitlagin með stutt, svart hár og krullað sem rammaði inn þriflegt andlit hennar. Hún skipti ekki um föt fyrir kvöldverð nema hún fór í aðrar buxur. Hún talaði frekar hátt og hló mikið. Nafn hennar var ungfrú Lobb. [Þýðing úr ensku]

Þannig lýsti Guðrún Jónsdóttir þeim stöllum May Morris og Vivian Lobb í grein árið 1981. Þá voru liðin tæp 60 ár frá heimsókn May og Lobb til foreldra Guðrúnar á ferðalagi þeirra tveggja um Ísland. May og Lobb dvöldu á heimilinu í nokkra daga áður en þær fóru ríðandi til Reykjavíkur. Líkast til er þarna um fyrstu ferð May Morris til Íslands að ræða. Og víst er að áhugi May á að feta í fótspor föður hennar hafði lengi látið á sér kræla áður en hún lét það eftir sér að koma hingað til Íslands. May var komin með aðstoðarkonu upp á arminn og mögulega hefur það átt sinn þátt í því að hún lét verða af því að sigla yfir hafið sumarið 1922. May og Lobb komu aftur til Íslands árið 1924. Um sumarið ferðuðust þær um Austfirði, skruppu vestur í Dali og skoðuðu Breiðafjörð. Áður en May yfirgaf landið og steig um borð í Gullfoss í lok ágúst gaf hún 600 krónur í Landspítalasjóð en hornsteinn að spítalanum hafði verið lagður um það leyti sem May og Lobb komu til landsins í júní. May hélt áfram að láta gott af sér leiða, í það minnsta voru uppi sögusagnir um að hún hefði látið senda tunnu af eplum frá Kanada til Reykjavíkur í lok árs 1925. Engum sögum fer af viðtakandanum þó Vísir hafi gert tilraun til að auglýsa eftir honum undir fyrirsögninni Hver á eplin? Siglingarnar til Íslands áttu eftir að verða fleiri næstu árin sem og heimsóknir í höfuðstað Norðurlands. Á Akureyri eignuðust þær May og Lobb vini, vináttu sem átti eftir að vara allt þar til May féll frá árið 1938.

Mary Frances Vivian Lobb var fædd árið 1878. Hún var næstelst af fimm systkinum. Þrettán ára var Lobb send í fámennan einkaskóla fyrir stúlkur en samkvæmt manntölum bjó hún hjá foreldrum sínum árið 1911. Árið 1917 skráði hún sig í nýstofnuð samtök kvenna sem gengu í hefðbundin karlastörf þess tíma í Bretlandi (Women´s Land Army) meðan þeir börðust á vígvellinum. Seinna sama ár hætti hún störfum fyrir samtökin og réði sig sem garðyrkjukona hjá May Morris. Hún flutti inn á Kelmscott-setrið þar sem þær áttu eftir að búa saman næstu tvo áratugina. Fljótlega varð Lobb annað og meira en hjálparhella við garðyrkjustörfin. Auk þess sem hún  gegndi stöðu aðstoðarkonu May var hún þó fyrst og fremst vinkona og lífsförunautur hennar um tveggja áratuga skeið. Þær nutu þess að rækta garðinn saman á Kelmscott, fóru á samkomur og ferðuðust mikið innan lands sem utan. Þær fóru gjarnan á milli staða á hestbaki og höfðust við í tjöldum þegar þess var kostur. Þessi mikla samvera þeirra tveggja vakti upp spurningar meðal vina May og voru skiptar skoðanir um ágæti aðstoðarkonunnar. George Bernard Shaw gekk svo langt að lýsa henni sem „hræðilegri veru“ (terrifying creature).

May og Lobb komu til Íslands í júní 1926, hið þriðja sinn á fimm árum. Þær leigðu herbergi í Reykjavík þar sem þær dvöldust fyrstu daga ferðarinnar. Hugur þeirra stefndi þó út fyrir borgarmörkin, þær hugðust m.a. skoða Dettifoss og Ásbyrgi með viðkomu á Akureyri. Þær komu til Akureyrar um miðjan júní. Leiðsögumaður þeirra á ferðalaginu norðan heiða var Sigurjón Sumarliðason (1867-1954), póstur og bóndi á Ásláksstöðum í Kræklingahlíð ofan Akureyrar. Kona hans var Guðrún Sigríður Jóhannsdóttir (1878-1960). Þeim varð ekki barna auðið en ólu upp dreng, Vigni Guðmundsson (1926-1974). Guðrúnu var brugðið þegar Sigurjón tilkynnti henni að tvær enskar hefðarfrúr, sem hann hefði aðstoðað á ferð þeirra um landið, væru staddar á Akureyri og að von væri á þeim í Ásláksstaði til dvalar í nokkra daga. Guðrúnu fannst sem hún væri ekki í stakk búin að taka á móti svo virðulegum og ríkum konum. Allur ótti í garð Þeirra May og Lobb hvarf þegar Guðrún tók í höndina á ensku ferðalöngunum. Þessi fyrstu kynni urðu upphafið að áralangri vináttu Sigurjóns Sumarliðasonar og Guðrúnar Jóhannsdóttur annars vegar og May Morris og Vivian Lobb hins vegar.

Við komuna í Kræklingahlíð buðu hjónin Sigurjón og Guðrún May og Lobb að ganga í bæinn. Þær gengu milli lítilla herbergjanna á Ásláksstöðum og skoðuðu sig um. Í einu herberginu staldraði May við fyrir framan mynd sem hékk á einum veggnum. Myndin var af fallegri konu sem var umvafin trjágróðri. „Þetta er móðir mín“ mælti May furðu lostin yfir því að rekast á móður sína, Jane Morris á mynd af þekktu málverki Dante Gabriel Rosetti, The Day Dream, í húsi á norðanverðu Íslandi. Myndina hafði Guðrún klippt út úr ensku tímariti til að glæða stofuna lífi. Þegar May kvaddi heimilisfólkið á Ásláksstöðum áður en hún hélt för sinni áfram mælti hún svo við Guðrúnu; „Seint gleymi ég litlu, fallegu stofunum þínum með rósailminum“. May og Lobb sigldu til Reykjavíkur um miðjan ágúst og viku síðar með skipinu Tjaldi til Englands. Getgátur um að May hafi komið til Íslands árið 1929 hafa sprottið fram. Heimildir þess efnis eru þó af skornum skammti.

Engum blöðum er hins vegar um það að flétta að May kom til Akureyrar árið 1931. Hún dvaldi um tíma í húsi á Akureyri en auk Lobb voru tvær amerískar konur með í för. Mörgum spurningum er ósvarað í tengslum við May Morris og samband hennar við heimabyggð okkar síðustu æviár hennar. Hverjar voru konurnar tvær sem ferðuðust með henni sumarið 1931? Er gjöfin sem Þingeyingar fengu frá May ennþá til? Hafa bréf, myndir og bókakassar sem hún sendi vinum sínum á Akureyri varðveist? Er tilviljun að eitt síðasta verk Lobb áður en hún dó var að senda Amtsbókasafninu á Akureyri veglega gjöf úr dánarbúi May?

Framundan er lokahluti sögunnar um May Morris – konunnar sem skuggi föðurins faldi.

 

Heimildir:

Dagur (16.07. 1931) bls. 140

Gudrún Jónsdottir. (e.d.). May Morris and Miss Lobb in Iceland. Sótt af http://www.morrissociety.org/JWMS/07.1Autumn1986/AU86.7.1.Jonsdottir.pdf

Íslendingur (16.07. 1926) bls. 3

Jón Guðnason tók saman. (1976). Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1965. Reykjavík: Hið ízlenska bókmenntafélag.

Lesbók Morgunblaðsins (23.12. 1968) bls. 52-53

Simon Evans. (e.d.) The Eclectic Collection Of Miss M.F.V. Lobb. Sótt af https://www.yumpu.com/en/document/read/56900023/the-eclectic-collection-of-miss-mfv-lobb

Vísir (28.08. 1924) bls. 3

Vísir (03.09. 1924) bls.3

Vísir (12.12. 1925) bls. 3

Vísir (07.06. 1926) bls. 3

Vísir (18.08. 1926) bls. 3

Vísir (25.08. 1926) bls. 3

Vísir (29.07. 1936) bls. 4

Örn Gíslason. (e.d.). With May Morris in Iceland. Sótt af http://morrisedition.lib.uiowa.edu/icelandicdiariesgislason.html

Konan sem skuggi föðurins faldi – þriðji hluti

Ástir og örlög

William Morris stofnaði hönnunarfyrirtækið Morris, Marshall, Faulkner & CO. árið 1861, ári áður en May kom í heiminn. Fyrirtækið stofnaði hann með sex vinum sínum, þ.á.m. þeim Edward Burne-Jones og Dante Gabriel Rosetti. Eftir að hafa sinnt ljóðagerð og málaralist, einbeitti William Morris sér í síauknum mæli að hönnun mynstra fyrir veggfóður. Handbragð hans vakti athygli og á næstu árum féll það honum í skaut að hanna veggfóður fyrir sumar af sögufrægustu byggingum Londonborgar. Hin unga May fór ekki varhluta af ástríðu föðurins. Sjálf lærði hún útsaum af móður sinni og frænku en móðursystir hennar hafði áður numið listina að sauma út hjá William Morris. Fyrirtækinu gekk vel og samband feðginanna var gott. Hjónaband þeirra William og Jane Morris virtist þó standa höllum fæti. Fljótlega eftir að Morris, Marshall, Faulkner & CO. hóf rekstur fór að bera á nánum samskiptum Jane og Rosetti innan vinahóps Morris-hjónanna. Eftir því sem leið á áratuginn fór sífellt oftar að sjást til þeirra tveggja saman þar sem þau létu vel að hvoru öðru. Sjö ára hefur May því líkast til verið farin að heyra orðróminn sem gekk um London, um samband móður hennar við fjölskylduvininn Rosetti.

William Morris hafði nýlega komið sér og fjölskyldu sinni fyrir á setri í Vestur-Oxfordskíri þegar hann lagði af stað í ferðalag til Íslands sumarið 1871. Kelmscott-setrið varð helsta athvarf William Morris þar til hann lést árið 1896 og heimili May næstu áratugina. Ætla má að Morris gamli hafi sagt sögur af Íslandsferðunum í áheyrn dætranna og mögulega sáð einhverjum fræjum. Þrátt fyrir meint náin samskipti Jane við Rosetti, fékk William Morris hann í lið með sér við að innrétta hin nýju heimkynni. Rosetti bjó með Jane og dætrunum tveimur meðan William var á Íslandi. Rosetti átti eftir að dveljast þar langdvölum næstu árin við að yrkja ljóð og mála. Ekki síst var hann duglegur að mála Jane Morris. Árið 1872 fékk Rosetti taugaáfall og tveimur árum síðar slitnaði upp úr vináttu hans og William Morris. Rosetti yfirgaf Kelmscott-setrið og kom aldrei þangað aftur eftir það. Þau Jane héldu þó kunningsskap áfram. Ári síðar keypti Morris félaga sína út og stofnaði eigið fyrirtæki; Morris % Co. Þegar þarna var komið sögu höfðu William Morris og Georgiana Burne-Jones, eiginkona Edward Burne-Jones, þróað með sér náið samband. Engir hjónaskilnaðir spruttu þó upp úr þessum hrókeringum innan vinahópsins, Willam og Jane Morris héldu heit sín þrátt fyrir þriðja hjólið sem og Edward og Georgina Burne-Jones.

Jarðvegur fyrir Íslandsáhuga hafði verið lagður þegar May sleit barnsskónum og um tvítugsaldurinn var hún farin að láta að sér kveða innan listasamfélagsins í Englandi. Hróður William Morris sem hönnuður hélt áfram að berast innan lands sem utan og ekki áttu mörg ár eftir að líða þar til May tæki við stjórnunarstöðu hjá Morris & Co. Lífið fór ekki jafn mjúkum höndum um Dante Gabriel Rosetti. Hann barðist við lyfjafíkn og einangraði sig frá vinum og vandamönnum. Þrátt fyrir erfitt hlutskipti síðustu æviárin málaði Rosetti einhverja fallegustu mynd sína á ferlinum, að eigin sögn, árið 1880. Málverkið The Day Dream sýnir fallega konu umvafna trjágróðri. Fyrirmyndin var Jane Morris. Tveimur árum síðar var Dante Gabriel Rosetti allur. Jane átti áratugum síðar eftir að verða fyrirmynd að öðru en annars konar meistaraverki í listasögunni.

Komin á þrítugsaldurinn hitti May með reglulegu millibili marga af helstu listamönnum borgarinnar þess tíma. Árum saman hópaðist listaelítan saman vikulega á heimili William Morris til skrafs og ráðagerða. Um miðjan níunda áratuginn bættist þrítugur Íri að nafni George Bernard Shaw í hópinn. Hann hafði komið til London árið 1876 til að koma sér á framfæri sem skáld og til að framfleyta sér starfaði hann sem blaðamaður. Ein helsta fyrirmynd hins unga vonarskálds var William Morris. George Bernard Shaw heillaðist af dóttur hans. Hann varð ástfanginn af May og tilfinningar hennar voru af sama toga í hans garð. Mál tóku hins vegar að flækjast þegar hún kynntist aðstoðarmanni föður síns, Henry Halliday Sparling. Rómantíkin tók völd og þau giftu sig árið 1890. Eftir sat hin rísandi írska stjarna með sárt ennið. Í hárri elli lét George Bernard Shaw hafa eftir sér að hann hefði verið of feiminn og uppburðarlítill til að bera upp bónorðið áður en Henry Halliday kom til sögunnar og þannig misst May úr greipum sér. Því hefði hann séð eftir alla ævi.

George Bernard Shaw giftist Charlotte Payne-Townsend í júní árið 1898, aðeins nokkrum vikum eftir að May og Henry skildu að borði og sæng. Reyndar hafði slitnað upp úr hjónabandinu nokkrum árum fyrr. Ástæðan var leynilegt ástarsamband May og Shaw sem upp komst um árið 1894. Sama ár kom fyrsta verk Shaw út sem fangaði athygli almennings, leikritið Arms and the Man. George Bernard Shaw var við það að leggja heiminn að fótum sér meðan veröld hins mannsins í lífi May var að hruni komin. May’s position is this, she has been seeing a good deal of a former lover [Shaw], and made her husband’s life a burden to him, he refuses to bear it any longer.“ (Úr bréfi frá Jane, móður May, dags. 26. maí 1894)

Ný öld gekk í garð. Þó William Morris væri horfinn af sjónarsviðinu var May ennþá í skugganum af föður sínum. Hún var þó farin að skapa sér nafn sem hönnuður þar sem nám í útsaumi á uppvaxtarárunum sem og reynsla af stjórnunarstarfi í fyrirtæki föðurins kom sér vel. Hún kenndi útsaum við nokkra skóla, var virk í félagsstörfum listamanna og var frumkvöðull þegar kom að hagsmunamálum kvenna í listgreinum. Þá hannaði hún og framleiddi skartgripi. May var upptekin kona og með mörg járn í eldinum. Í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldar réðist May t.a.m. í það stórvirki að gefa út rit föður síns, alls 24 bindi. Ekki svo ýkja langt frá var annað afrek í bókmenntasögunni í bígerð. Fyrrverandi elskhugi May, sá er sat eftir með sárt ennið, skrifaði leikrit árið 1912 sem kom fyrir almenningssjónir ári síðar. Í leikritinu segir af ungri stúlku sem sækir kennslustundir hjá prófessor nokkrum. Komið hafa fram kenningar þess efnis að innblástur að leikritinu hafi Shaw sótt til vinar síns Sabine Baring-Gould sem heimsótti Akureyri 1862 og ennfremur að fyrirmynd annarrar aðalpersónunnar, Elizu Doolittle, sé Jane Morris móðir May. Leikritið hét Pygmalion. Síðar áttu Hollywood-leikararnir Audrey Hepburn og Rex Harrison eftir að gera persónunum góð skil á hvíta tjaldinu í kvikmyndinni My Fair Lady sem byggð var á leikritinu. Leikritið var sett á svið í London árið 1914.

Jane Morris lést árið 1914. Nokkrum mánuðum áður hafði hún ánafnað dætrum sínum, May og Jenny, Kelmscott-setrið í því skyni að tryggja afkomu þeirra. Jenny hafði greinst með flogaveiki á barnsaldri sem ágerðist með árunum og var þannig háð umönnun. Eftir fráfall Jane sá May til þess að Jenny fengi þá aðstoð sem hún þurfti. Mitt í öllu annríkinu gaf May sér tíma til að stunda nám í íslensku hjá Dr. Jóni Stefánssyni. Hann var íslenskur ævintýramaður og vinur William Morris, búsettur í London. Ef til vill voru Íslandsfræin farin að skila árangri sem sáð hafði verið á Kelmscott setrinu og Íslandsheimsókn fyrirhuguð hjá frú Morris. Eftir ástarsamband sem slitnaði upp úr og hálf misheppnað hjónaband bauð May vinkonu sína velkomna inn á Kelmscott-setrið árið 1917. Sú átti eftir að verða lífsförunautur og aðstoðarkona May þann tíma sem hún átti eftir ólifaðan. Framundan voru ferðalög þeirra May og Lobb til Íslands þar sem fetað var í fótspor föðurins og vinir sóttir heim í smábænum Akureyri.

 

Heimildir:

BBC. (2008, 30. janúar). Famous Devonians – Sabine Baring-Gould. Sótt af http://www.bbc.co.uk/devon/discovering/famous/sabine_baring_gould.shtml

Biography.com Editors. (2019, 11. október). George Bernard Shaw Biography. Sótt af https://www.biography.com/writer/george-bernard-shaw

Cohen, R. (2017, 21. september). May Morris: A Remarkable Woman. Sótt af https://thamesandhudson.com/news/may-morris-a-remarkable-woman/

Dante Gabriel Rosetti. (2020, 7. janúar). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af

https://en.wikipedia.org/wiki/Dante_Gabriel_Rossetti

Edward Burne-Jones. (2020, 1. janúar). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Edward_Burne-Jones

George Bernard Shaw. (2019, 31. desember). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/George_Bernard_Shaw

Georgiana Burne-Jones. (2019, 27. desember). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Georgiana_Burne-Jones

Jane Alice Morris. (2019, 19. nóvember). Wikipedia. Sótt 7. janúar af https://en.wikipedia.org/wiki/Jane_Alice_Morris

Jane Morris. (2019, 28. nóvember). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Jane_Morris

Kennedy, M. (2017, 14. febrúar). A handsome Valentine’: May Morris’s love letter to George Bernard Shaw. Sótt af https://www.theguardian.com/culture/2017/feb/14/a-handsome-valentine-may-morriss-love-letter-to-george-bernard-shaw

Marsh, J. (2017, 20. september). Feminist, socialist, embroiderer: the untold story of May Morris. Sótt af https://www.royalacademy.org.uk/article/may-morris-art-and-life-william-morris-gallery

Morgunblaðið (04.11. 1950) bls. 11

Pygmalion. (2020, 6. janúar). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Pygmalion_(play)

Salmon, N.(e.d.) The William Morris Internet Archive : Chronology. Sótt af https://www.marxists.org/archive/morris/works/chrono.htm

William Morris. (2019, 28. desember). Wikipedia. Sótt 7. janúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/William_Morris

Konan sem skuggi föðurins faldi – annar hluti

Ferðalangur á tímamótum

Árið 1862 markar tímamót. Meðan Eiríkur Magnússon og samlandar hans sigldu til Englands þá um vorið til að freista gæfunnar, voru Akureyringar að leggja lokahönd á aðskilnað frá Hrafnagilshreppi. „Sjálfstæðisbarátta“ Akureyringa var að ná hámarki. Allt var í lukkunnar standi hinum megin við hafið hjá hinum 28 ára gamla William Morris. Yngri dóttirin May kom í heiminn í marsmánuði og fyrsta veggfóðursmynstur hinnar rísandi stjörnu enskrar menningar Trellis hafði nýlega litið dagsins ljós. Á meðan öllu þessu stóð var annar 28 ára gamall Englendingur að gera sig kláran fyrir langa siglingu. Hann skyldi ferðast til Íslands og einn af áfangastöðunum var lítill bær á norðanverðri eyjunni, Akureyri. Maðurinn hét Sabine Baring-Gould.

Sabine Baring-Gould sigldi frá Skotlandi þann 10. júní áleiðis til Íslands. Skipið hét Arcturus, var smíðað 1857 og var í eigu dansks skipafélags. Arcturus kom til Reykjavíkur 16. júní. Til Akureyrar kom Sabine Baring-Gould þann 5. júlí þar sem hann dvaldist næstu tvo daga. Þaðan hélt hann áleiðis til Mývatnssveitar en kom svo aftur við á Akureyri um miðjan mánuðinn. Á meðan ferðalaginu stóð skráði Gould það sem fyrir augu bar. Afraksturinn kom út árið 1863 í bókinni Iceland: Its scenes and sagas. Í bókinnni  segir hann nokkuð ítarlega frá kynnum sínum af Akureyringum og bænum sjálfum. Hann nefnir kirkjuleysi bæjarbúa. Þegar hann kemur til Akureyrar blasir við honum vísir að fyrstu kirkju bæjarins og gefur hann lítið fyrir arkitektúrinn – segir Íslendinga ekki átta sig á möguleikunum sem timbur hafi þegar kemur að fagurfræði byggingarlistar. Hann talar um afþreyingu bæjarbúa yfir vetrartímann sem sé helst sú að spila á spil og dansa við gítarundirspil og að einn stærsti viðburðurinn í bæjarlífinu sé fyrsta skipakoma ársins frá Kaupmannahöfn. Skipið flytji langþráða vor- og sumarkjóla, húsgögn og annað sem bæjarbúar hafi beðið eftir mánuðum saman.

Sabine Baring-Gould lýsir húsnæði kaupmannanna á Akureyri og segir þau notaleg þar sem myndir af Kaupmannahöfn og danska kónginum hangi á veggjum. Hann segir af kynnum sínum af kaupmanninum Jóhann G. Havsteen sem tók á móti honum þegar hann kom í bæinn laugardaginn 5. júlí. Havsteen sýndi af sér mikla gestrisni, bauð Gould velkominn og boðið var upp á kaffi og kökur að hætti danskra kaupmanna. Eftir kaffidrykkju hjá Havsteen heimsótti Gould prentara tímaritsins Norðra í litla trékofann hans eins og Gould orðar það (small wooden cottage). Eftir heimsóknina beið hans vel útilátinn kvöldverður hjá Havsteen kaupmanni. Á borðum var m.a. reyktur lax, bjúgu, skinka, kindakjöt með bláberjasósu og kartöflum, hákarl, hvalur og selur. Þá var Bavarian öl, þýskt vín og koníak til að skola öllu niður með. Gould virðist nokkuð undrandi yfir borðvenjum Akureyringa. Ekki tíðkist að fara með borðbæn fyrir eða eftir málsverð. Hins vegar takist fólk í hendur eða kyssist eftir matinn og segi; „Tak for mad“.

Gould minnist á tré í garðinum hjá Havsteen og segir það vera stærsta tré landsins. Á heitum sumardögum snæði fjölskyldan undir trénu og líki þannig eftir dönskum garðveislum. Þá nefnir hann annað tré fyrir utan annað hús í bænum (gera má því skóna að umrætt hús sé Laxdalshús). Þessi tvö tré séu eitthvað það allra merkilegasta sem bærinn bjóði upp á! Líklega er hér um sömu reynitré að ræða og vöktu athygli William Morris á ferð hans um Akureyri sumarið 1873 og hann hripaði athugasemd um í dagbókina sína. Eftir kvöldverðinn gekk Gould um fjöruna þar sem hann rakst á enskt skipsflak í flæðarmálinu sem hann segir Akureyringa endurnýta sem byggingarefni.  Gould eyddi sunnudagsmorgninum í sólbaði við kirkjubygginguna áður en hann heimsótti Svein Skúlason, ritstjóra Norðra. Sveinn sýndi honum nokkur fornhandrit þ.á.m. Sturlunga sögu.

Mánudaginn 7. júlí yfirgaf Sabine Baring-Gould Akureyri en staldraði við í bænum að nýju um miðjan mánuðinn. Kurteisi bæjarbúa er honum ofarlega í huga. Í seinni heimsókninni til Akureyrar keypti hann fornhandrit af fátækum manni í bænum. Maðurinn sá sér þann kost vænstan að selja þau til að eiga fyrir salti í grautinn.  Gould lét það ekki aftra sér þrátt fyrir að maðurinn skyldi afhenda honum handritin með tárin í augunum. Mánudaginn 14. júlí yfirgaf Gould Akureyri öðru sinni og hélt ferð sinni áfram um landið. Þegar þarna var komið sögu var May tæplega fjögurra mánaða gömul og því áratugabið eftir að hún ferðaðist um landið og gengi um götur Akureyrar. Þann 9. ágús var Sabine Baring-Gould kominn til Liverpool, tveimur mánuðum eftir að hann lagði af stað frá Skotlandi til Íslands. Tuttugu dögum síðar, þann 29. ágúst 1862, fengu Akureyringar kaupstaðarréttindi:  „Hingað til amtsins er komið brjef frá stjórninni um, að Akureyrar bær sje aðskilinn frá Hrafnagilshrepp og jafnframt því öðlast kaupstaðarjettindi, sem Reykjavík.  Það eru þá orðnir 2 heilir kaupstaðir á landinu.“ (Norðanfari bls. 77).

En hver var maðurinn sem spígsporaði um götur Akureyrar síðustu dagana áður en bærinn fékk kaupstaðarréttindi? Sabine Baring-Gould fæddist 28. janúar 1834 og fékkst hann við hin og þessi störf um ævina. Hann var kennari, prestur, þjóðminjavörður og rithöfundur. Ógrynni af textum ýmiskonar liggja eftir Gould en hann var einn afkastamesti rithöfundur síns tíma í Englandi. Þekktastur er hann sennilega fyrir tvo sálma sem hann orti árið 1865, þremur árum eftir að hann var staddur á  Akureyri. Þetta eru hinir kunnu sálmar Now The Day Is Over og Onward, Christian Soldiers (Áfram Kristsmenn, krossmenn í íslenskri þýðingu séra Friðriks Friðrikssonar). Þá kannast margir við jólasálminn Gabriel´s message en sálminn þýddi Gould úr basknesku yfir á ensku. Tengsl þessa ferðalangs á tímamótum við May Morris umfram dvöl í höfuðstað Norðurlands á sitt hvorri öldinni? Jú, sjáðu til. Sabine Baring-Gould og faðir May, William Morris voru af sömu kynslóð enskra skálda sem nutu mikillar virðingar samtímamanna. Ekki er ólíklegt að Gould hafi haft eitthvað saman við Morris að sælda. Og þó ekki liggi fyrir hvort eða hversu mikil kynni þeirra Sabine Baring-Gould og Morris-fjölskyldunnar voru í raunveruleikanum öðluðust Baring-Gould og Morris eilíft líf hjá enn einu stórskáldinu í einni af perlum bókmenntasögu 20. aldar, ef kenningar sem settar hafa verið fram þess efnis halda vatni. Skáldið sem um ræðir var persónulegur vinur Sabine Baring-Gould árin eftir Íslandsförina 1862 og síðar elskhugi May Morris. Skyldi litli bærinn á norðanverðri eyjunni hafa borið á góma yfir kaffibolla eða rómantískum kvöldverði?

 

Heimildir:

Baring Gould, Sabine. (1863). Iceland: Its Scenes and Sagas. London: Smith, Elder & co.

Norðanfari (01.10. 1862) bls 77.

Sabine Baring-Gould. (2019, 30. desember). Wikipedia. Sótt 30. desember 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/Sabine_Baring-Gould

Mynd fengin af churctimes.co.uk

Konan sem skuggi föðurins faldi – fyrsti hluti

William þáttur Morris, föðurins og Íslandsvinar 

May var fædd árið 1862. Faðir hennar hét William Morris og var fæddur í Essex í Englandi árið 1834. Hann átti eftir að verða eitt þekktasta skáld Englands á síðari hluta 19. aldar. Sem ungur maður stundaði hann nám við Oxford-háskóla ásamt listamanni að nafni Edward Burne-Jones. Tókst með þeim góð vinátta. Árið 1857 hittu þeir fyrir skáldið og listmálarann Dante Gabriel Rosetti. Bundust listamennirnir Morris, Jones og Rosetti vináttuböndum sem átti eftir að skila sér í farsælu samstarfi á sviði listsköpunar.

Móðir May hét Jane Burden og var fædd í Oxford árið 1839. Nokkru eftir að listamennirnir þrír kynntust, í október 1857, hittu þeir Jones og Rosetti Jane á samkomu. Þeir þekktu ekki þessa fallegu stúlku frá Oxford en fóru þess á leit við hana að þeir fengju að mála andlit hennar á striga. Hún sló til. Rétt eins og Jones og Rosetti, hreifst Morris af hinni 18 ára gömlu Jane. Hrifningin varð ekki endurgoldin en þó fór svo að William Morris og Jane Burden gengu í hjónaband árið 1859. Saman eignuðust þau tvær dætur. Jenny fæddist árið 1861. May kom í heiminn ári síðar, sama ár og ungur Íslendingur var sendur til Englands á vegum Hins íslenska Biblíufélags.

Eiríkur Magnússon hleypti heimdraganum og sigldi til Englands árið 1862. Í fylgd eiginkonu sinnar Sigríðar Einarsdóttur kom hann aftur til Íslands árið 1871, þá nýráðinn bókavörður við Cambridge-háskóla. Hjónin voru í hópi enskra ferðamanna um borð í danska póstskipinu Díönu sem hélt úr höfn í Edinborg í Skotlandi og stefndi á sögueyjuna í norðri. Kannski hefur söknuður verið hinni níu ára gömlu May Morris efst í huga heima á Kelmscott-setrinu í Oxfordshire þegar Díana lagði að bryggju í Reykjavík þann 14. júlí. Um borð var faðir hennar, áhugamaður um Ísland og íslenskar bókmenntir og vinur Eiríks.

Eiríkur og William Morris höfðu kynnst árið 1868. Áhugi Morris og uppruni Eiríks varð til þess að sá íslenski kenndi þeim enska íslensku. Þegar þarna var komið sögu höfðu þeir félagar einnig tekið höndum saman við að þýða íslensk bókmenntaverk yfir á ensku. Samstarf þeirra átti eftir að vara í áratugi og geta m.a. af sér þýðingar á HeimskringluGrettis söguVölsunga sögu og Gunnlaugs sögu ormstungu. Eftir sumardvöl á Íslandi sigldi William Morris aftur til Englands í september 1871. Hann hafði ferðast um Suðurland á hestbaki og hitt meðal annarra Jón Sigurðsson leiðtoga sjálfstæðisbaráttunnar. Á sama tíma dvöldu eiginkonan Jane Morris og dæturnar Jenny og May á setri fjölskyldunnar þar sem Rosetti var þá orðinn húsbóndinn á heimilinu tímabundið. Hann bjó undir sama þaki og mæðgurnar á Kelmscott-setrinu á meðan William Morris reið um íslensk héruð og kynnti sér sögusvið Íslendingasagnanna. Kom þetta sumum spánskt fyrir sjónir.

Sumarið 1873 heimsótti William Morris Ísland öðru sinni. Hann kom til landsins um miðjan júlí og í þetta skiptið ferðaðist hann yfir hálendið, norður í land. Hann dvaldi m.a. næturlangt hjá hjónunum Jóni Jóakimssyni og Herdísi Ásmundsdóttur á Þverá í Laxárdal í Þingeyjarsýslu. Úr austri birtist William Morris Eyfirðingum ríðandi á hesti yfir Vaðlaheiðina með stefnu inn Eyjafjörðinn. Morris reið svo langt sem inn að Saurbæ áður en hann snéri við og gaf sér tíma til að hripa niður nokkur stikkorð um Akureyri þegar hann kom í bæinn laugardaginn 16. ágúst; annríki, kaupmenn, reynitré, prúttari, hótel, ég að væla, leiðinlegur dagur, kalt, engin rigning [lausl. þýðing höf.]. Frá Möðruvöllum í Hörgárdal hélt hann áfram leið sinni suður yfir heiðar þar sem ferðalagi hans lauk. Síðustu dagbókarfærslu sína skráir hann í Norðurárdal þann 19. ágúst.

William Morris var Íslandsvinur og áhugamaður um Íslendingasögurnar. Hann var einnig hugsjónamaður, skáld og textílhönnuður. Sem slíkur fékk hann innblástur í ferðum sínum um Ísland sem hann nýtti sér við skáldskap og hönnun innréttinga. Hafði listsköpun hans áhrif á listamenn á borð við James Joyce, C.S. Lewis og J.R.R. Tolkien. Sennilega er William Morris þekktastur í dag fyrir veggfóðursmynstur sem hann hannaði, alls 55 ólíkar gerðir. Veggfóðrið hans prýðir húsakynni víða um heim.

William Morris lést 62 ára gamall árið 1896. May syrgði föður sinn. Hún ásetti sér að feta í fótspor hans á sviði listsköpunar sem og hún gerði. Um alllangt skeið var May í skugga föðurins. Í seinni tíð hafa þó komið fram sterkar vísbendingar um að vinsælt veggfóðursmynstur úr fórum William Morris sé í raun komið úr ranni dótturinnar May. En May fetaði ekki aðeins í fótspor föðurins þegar kom að listinni heldur einnig bókstaflega þegar hún fór á slóðir hans á sögueyjunni í norðri, áratugum eftir að hann féll frá. Og rétt eins og faðirinn, heimsótti hún Akureyri þar sem hún eignaðist vini fyrir lífstíð. Konan sem skuggi föðurins faldi var við það að láta ljós sitt skína.

 

Heimildir:

Find A Grave. (2011, 21. desember). Eiríkur Magnússon. Sótt af        https://www.findagrave.com/memorial/82238395

Jane Morris. (2019, 28. nóvember). Wikipedia. Sótt 26. desember 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/Jane_Morris

Lesbók Morgunblaðsins (15.06. 1996) bls. 10-15

Mackail, J.W. (1970). The life of William Morris. New York: Haskell House Publishers LTD.

Nýja dagblaðið (29.07. 1936) bls. 4

William Morris. (2019, 17. desember). Wikipedia. Sótt 26. desember 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/William_Morris#Kelmscott_Manor_and_Iceland:_1870%E2%80%931875

Þjóðólfur (20.07. 1871) bls. 141

 

 

Konan sem skuggi föðurins faldi – inngangsorð

Aðsend grein frá Ameríku 

„Vegna snjóþyngsla höfum við verið innilokuð í fimm daga. Okkar stutta blindgata bíður á meðan stærri götur eru hreinsaðar. Þetta hefur sína kosti, t.d. vilja nágrannar ólmir hjálpa hver öðrum og inni er notalegt og nógur tími til að lesa og hlusta á tónlist. Áðan hljómaði Vor (Thrush of Spring) eftir Sinding af geisladiski en einmitt það lag minnir mig á, þegar það með kátínu ruddist út um opna glugga verkamannabústaðanna á góðviðrisdögum þegar ég flýtti mér heim eftir Ásvallagötunni til að borða hádegismat. Elsta minning mín er þegar ég horfði á marga karlmannsfætur sparka logandi kleinupotti út dimm göng og út í snjó. Sú næstelsta er að ég horfði á konu í aðskornum, ljósköflóttum reiðfötum tala hratt og ákveðið skrítið mál við sína fylgdarmenn, sem lögðu á marga hesta í tröðunum á Hallgeirseyjarhjáleigu.“

Svo skrifar hálfáttræð kona í aðsendri grein í víðlesnu dagblaði í lok 20. aldar. Greinina skrifaði hún á heimili sínu í Bandaríkjunum þar sem hún hafði búið frá árinu 1949 þegar hún flutti frá Íslandi með eiginmanni sínum. Hafði hann gegnt herþjónustu hér á landi, þau fellt hugi saman og gengið í hjónaband á stríðsárunum.

Í greininni hugsar Adda, eins og hún var kölluð í vinahópi sínum í Ameríku, hlýlega til heimahaganna á Suðurlandi og uppvaxtaráranna þar. Í niðurlagi greinarinnar víkur hún aftur að minningunni um konuna í aðskornu, ljósköflóttu reiðfötunum sem talaði framandi tungumál. Konan, sem var erlendur ferðamaður, hafði dvalist næturlangt hjá fjölskyldu Öddu á ferðalagi sínu um Ísland á þriðja áratugnum. Þrátt fyrir ungan aldur mundi Adda eftir kynnum sínum af konunni sem hún gat nafngreint en vissi þó lengi vel engin frekari deili á.

Um það bil 74 árum síðar komst Adda yfir ævisögu „eins af merkilegustu Englendingum síðustu aldar“. Nafn mannsins (sem var hið sama og „huldukonunnar“ á Suðurlandi) og vitneskjan um að dóttir hans hafði sótt Ísland heim á millistríðsárunum vakti forvitni Öddu. Forvitninni var svalað á bls. 679. „Nú er ég þakklát fyrir að hafa lesið þessa prýðilegu bók og um leið uppgötvað að ég sá Miss Morris 1924, 62 ára gamla.“

Grenndargralið heldur áfram að grafa upp sögu konunnar sem um langt skeið féll í skuggann á föður sínum en hefur hin seinni ár öðlast þá athygli á heimsvísu sem hún á skilið. Um tíma dvaldist hún á Akureyri, á heimili hjóna sem héldu sambandi við hana allt til dauðadags. Sagan er spennandi eins og margar gleymdar gersemar í sögu heimabyggðar. Adda, eða Hallfríður Guðbrandsdóttir Schneider eins og hún hét fullu nafni, kom Grenndargralinu á sporið. Hún lést á jólanótt 2009. Greinina endar hún á þessum orðum.

„Það bólar ekkert á snjóýtum, svo nú hlusta ég á diskinn Vikivaki og byrja á nýrri bók.“

Snjómoksturstækin eru komin í Þorpið. Allt horfir til betri vegar á götunum og rétt að byrja á fyrsta kafla um konuna sem skuggi föðurins faldi.

 

Póstkort frá May Morris fannst í húsi á Akureyri

Merkilegt póstkort kom í leitirnar við tiltekt í húsi á Akureyri í síðasta mánuði. Grenndargralið komst á snoðir um fundinn og þótti mikið til hans koma enda sendandi kortsins góðkunningi Gralsins. May Morris, listakona og skartgripahönnuður með meiru og dóttir hins kunna Íslandsvinar William Morris, skrifaði á kortið og sendi til Íslands jólin 1934. Eins og faðir hennar, hafði May sterk tengsl við Ísland og heimsótti land og þjóð nokkrum sinnum á millistríðsárunum. Sagan hennar er ekki síður áhugaverð en saga föður hennar. May lést árið 1938. Á kortinu er málverk af William Morris. Hinum megin skrifar May eitthvað á þessa leið; „Alúðarkveðjur frá Kelmscott. Ég hef verið með flensu og get ekki skrifað. May Morris. Jól 1934.” Ekki er vitað á hvern póstkortið var stílað og hverjum það var ætlað en Grenndargralinu er kunnugt um vini sem May eignaðist á Akureyri á þriðja og fjórða áratugnum. Grenndargralið fjallaði ítarlega um frú Morris fyrir nokkrum árum í greinaflokknum Konan sem skuggi föðurins faldi.