„Hlíðarfjallsmynt“ undir grænni torfu í New York
Sumarið 2019 fannst íslenskur bronspeningur í heimabyggð, n.t.t. í Hlíðarfjalli. Vegna oxunar hefur hann tekið á sig fallega grænan blæ eftir áratugadvöl í fjallinu. Myntin vegur þrjú grömm. Hún er slegin árið 1940, í tíð Kristjáns 10. konungs, skreytt kórónu og rómverska tölustafnum X. Myntin fannst á stað í fjallinu þar sem norskir, breskir og bandarískir setuliðsmenn settu upp æfingabúðir á árum seinni heimsstyrjaldar. Við fund sem þennan vakna ýmsar spennandi spurningar t.a.m. hvernig peningurinn lenti þarna, hver eigandinn var o.s.frv. Líklega hefur dáti misst peninginn úr vasanum á meðan hann dvaldist í fjallinu við æfingar í vetrarhernaði. En íslenska tvíeyringa frá hernámsárinu 1940 er að finna víðar en í fjallshlíðinni ofan Akureyrar – og jafnvel á furðulegri stöðum.
Feðgin frá Bandaríkjunum hafa um nokkurra ára skeið leitað sér til gamans að smágripum sem leynast undir grænni torfu á heimaslóðum, vopnuð málmleitartæki. Þau Mike og Emma kalla sig Diggin´Duo. Þau halda úti youtube-síðu þar sem hægt er að fylgjast með þeim að störfum. Í leiðöngrum sínum hafa þau fundið mikið magn smápeninga, suma hverja mjög gamla, og aðra forvitnilega málmgripi af ýmsu tagi. Fyrir jólin fundu Mike og Emma íslenskan tvíeyring, sömu tegundar og fannst í Hlíðarfjalli, undir grænni torfu á tilteknum stað í New York borg. Gaman er að fylgjast með því þegar feðginin finna íslenska peninginn sem eðlilega er þeim framandi og ekki síður táknin og orðin sem á honum standa. Hér að neðan má sjá myndskeið af því þegar þau finna íslenska tvíeyringinn.
Ósjálfrátt veltir maður fyrir sér hver saga tvíeyringsins í New York er. Hvernig lenti peningurinn þarna. Hver var eigandinn? Við fáum líklega engin svör.
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd