Hvað varð um leikstjórann á Akureyri sem lék í James Bond?
James Bond er kominn í bíó – í 25. skipti. Hetjan 007 birtist fyrst á hvíta tjaldinu árið 1962 svo framundan er virðulegt stórafmæli hjá hinum síunga njósnara hennar hátignar. Líklega er á fárra vitorði sú skemmtilega staðreynd að fyrrverandi leikara og leikstjóra hjá Leikfélagi Akureyrar má sjá bregða fyrir í Bond-mynd, þeirri átjándu í röðinni.
James Bond hefur ferðast víða á þeim tæpu 60 árum sem liðin eru frá frumraun Sean Connery í Dr. No. Þó breskur sé og starfsmaður MI6 er Bond fyrir löngu orðinn alþjóðlegur og almenningseign. Elskaður og dáður á Íslandi og Íslandsvinur í huga sumra eftir að hafa barist við illmenni á Íslandi í myndunum A Wiew to a Kill frá árinu 1985 og Die Another Day frá 2002. En eins og áðurnefnd fullyrðing gefur til kynna eru Íslandstengingarnar víðar.
Pierce Brosnan fer með hlutverk James Bond í myndinni Tomorrow Never Dies frá árinu 1997. Í einu atriðanna ræðir M – leikin af Judi Dench – við aðmírálinn Roebuck og skipherra fylgist með samtali þeirra tveggja án þess að mæla orð af munni. Skipherrann er í svo agnarsmáu hlutverki og vel falinn að hann minnir einna helst á sögupersónu í bókunum Hvar er Valli. Með hlutverk skipherrans fer Íslandsvinurinn David Ashton. En hvað varð um þennan fyrrverandi leikstjóra hjá LA? Litlar upplýsingar er að finna um hann á netinu. Hvar er Valli? Er hann lífs eða liðinn?
David Ashton er/var Skoti, skírður David Scott. Hann hefur leikið í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta síðustu áratugi en er auk þess þekktur í heimalandinu sem rithöfundur. Meðal þekktra mynda hans má nefna The Eye of the Needle (1981) og The Last King of Scotland (2006) auk hlutverka í sjónvarpsþáttum á níunda og tíunda áratugnum eins og Monarch of the Glen, Brass og Sharpe.
David kom til Akureyrar í lok árs 1973 ásamt íslenskri eiginkonu sinni, Jónínu Ólafsdóttur og dóttur þeirra Sonju. Þau hjónin kynntust þegar þau voru við nám í Central School of Speech and Drama í London. David leikstýrði og lék í leikritinu Haninn háttprúði eftir írska skáldið Sean O´Casey sem sýnt var hjá LA. Hann dvaldist hér um sjö vikna skeið en sýningar stóðu yfir frá áramótum og fram í febrúar 1974. Meðal annarra leikara í sýningunni má nefna Aðalstein Bergdal, Arnar Jónsson og Þráin Karlsson. David talaði um samstarfið við LA og dvölina á Íslandi í samtali við blaðamann Tímans í janúar 1974.
Það er mjög skemmtilegt leikhús og ágætur vinnuhópur, sem þarna hefur myndazt. Þetta er annars mjög takmarkaður æfingartími, sem við höfðum og ekki sízt með tilliti til þess, að leikararnir smíða allt sjálfir, að heita má. Þeir smíða og mála, því að annars væri ekki hægt að sýna, því það myndi kosta of mikið. En þetta er duglegt á áhugasamt fólk og leikurinn var frumsýndur við ágætar undirtektir […] Já, ég er afskaplega ánægður með þessa Íslandsferð og vona að þetta verði ekki seinasta verkefni mitt hér á landi.
En er David á meðal vor? Þegar leiða þarf í ljós hvort þekktur einstaklingur er á lífi eða ekki er gott að fara inn á síðuna livingordead.com. Ef nafn David Ashton er slegið inn kemur í ljós að hann er sprelllifandi. „David Ashton is alive, born 10 Nov 1941, 79 years, 11 months“. Og rétt eins og James Bond á næsta ári, fagnar David stórum áfanga núna þegar sýningar á nýjustu Bond-myndinni standa yfir – No Time To Die. Hann verður áttræður í næsta mánuði.
David Ashton ásamt leikkonunni Gail Harrison í þáttaröðinni Brass frá árinu 1983
David Ashton (tv) sem skipherra í Tomorrow Never Dies frá árinu 1997 ásamt Geoffrey Palmer
David Ashton í kvikmyndinni The Last King of Scotland frá árinu 2006. Með honum eru leikararnir Barbara Raferty og James McAvoy.
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd