main image

Er flak herflugvélar grafið ofan í jörðu í Eyjafirði?

Komu eyfirskir bændur flaki herflugvélar úr seinni heimsstyrjöldinni fyrir í malarnámu eftir stríð? Grófu setuliðsmenn það í skjóli nætur? Er flakið af flugvél sem fórst á Melgerðismelum? Er einhver fótur fyrir sögunni?

Hreiðar Hreiðarsson ólst upp í Eyjafirði á sjötta áratug síðustu aldar. Hann og vinir hans léku sér oft og iðulega í námunni. Hreiðar rifjar upp áratuga gamla sögu í nýjum þáttum af Leyndardómum Hlíðarfjalls sem fara í loftið föstudaginn 3. desember.

Loftvarnarbyssan við Lónsá

Erik Jensen ólst upp og lék sér á grunnum bragganna sem breska setuliðið reisti á stríðsárunum við Lónsá utan Akureyrar. Grunnarnir hverfa nú hver af öðrum undir íbúðir sem verið er að reisa á svæðinu. Þáttastjórnandi Leyndardóma Hlíðarfjalls gekk í sumar um gamla braggasvæðið við Lónsá í fylgd Erik og hafði upptökutæki með sér. Afraksturinn má heyra í fjórum nýjum þáttum sem fara í loftið á streymissíðu Grenndargralsins föstudaginn 3. desember.

Erik segir sögur af pabba sínum sem tók þátt í átökum stríðsins í Evrópu, virkri sprengju frá setuliðinu sem notuð var sem stofustáss og loftvarnarbyssu sem hann fann sem strákur. Þessar sögur og fleiri í Leyndardómum Hlíðarfjalls 2021.

Fornleifafræðingur sem lætur sig varðveislu stríðsminja varða

Margrét Hrönn Hallmundsdóttir er fornleifafræðingur. Hún er deildarstjóri fornleifadeildar hjá Náttúrufræðistofu Vestfjarða. Margrét er frá Hveragerði, hún býr á Suðurlandi en er með skrifstofu á Selfossi. Síðast en ekki síst tilheyrir hún hópi Varðveislumanna minjanna sem hefur bækistöðvar á Akureyri. Í frítímanum sinnir hún varaformennsku í Íslenska flugsögufélaginu.

Margrét lætur sig varðveislu stríðsminja varða. Í nýjum þáttum af Leyndardómum Hlíðarfjalls segir hún frá skoðunum sínum á regluverkinu þegar kemur að varðveislu stríðsminja á Íslandi og miklum áhuga á herdóti og flugvélapörtum sem hún hefur fundið í starfi sínu sem fornleifafræðingur og tilheyrðu vélum úr seinni heimsstyrjöldinni. Fleira ber á góma svo sem niðurrif á ómetanlegum stríðsminjum og horfnar byssur setuliðsins.

Leyndardómar Hlíðarfjalls 2021 eru samstarfsverkefni Sagnalistar og Grenndargralsins. Þættirnir fara í loftið föstudaginn 3. desember.

Stuttir og langir dagar ungs setuliðsmanns

Hann var breskur setuliðsmaður á Akureyri á stríðsárunum. Hann tók þátt í D-degi í Frakklandi árið 1944 og lék síðar í Hinum lengsta degi (The Longest Day), sígildri bíómynd um innrásina. Innan við áratug eftir dvölina á Akureyri var hann tilnefndur til óskarsverðlauna. Hann hafnaði tilboði Ian Fleming um að leika njósnara hennar hátignar í fyrstu James Bond-myndinni Dr. No. Hann talaði vel um Íslendinga og þótti mikið til þeirra koma en átti erfitt með að venjast stuttum dögunum á hinni norðlægu eyju.

Áhugaverð saga ungs setuliðsmanns sem lagði heiminn að fótum sér eftir að hafa farið frá Akureyri til Normandí og þaðan til Hollywood. Leyndardómar Hlíðarfjalls fara í loftið föstudaginn 3. desember.

Sagan á bak við gripina

Rétt rúmlega ár er nú liðið frá því að fimm hlaðvarpsþættir af Leyndardómum Hlíðarfjalls fóru í loftið. Í þáttunum er athyglinni beint að dvöl setuliðsmanna í Hlíðarfjalli á hernámsárunum og æfingbúðum sem þeir settu upp þar. Þessa dagana leggur Sagnalist, í samstarfi við Grenndargralið, lokahönd á fjóra framhaldsþætti sem fara í loftið næstkomandi föstudag.

Þættirnir eru að miklu leyti byggðir á frásögnum af leiðöngrum Varðveislumanna minjanna í Hlíðarfjall undanfarin ár og stríðsminjum sem þar hafa fundist. Í nýju þáttunum er reynt að varpa frekara ljósi á minjarnar, uppruna þeirra og notagildi. Hver og einn gripur hefur sögu að segja.

Með því að smella hér má sjá sýnishorn af þeim stríðsminjum sem VM hafa fundið í Hlíðarfjalli undir nýrómantískum tónum bresku sveitarinnar Duran Duran.

Setuliðsmenn við leik og störf í Glerárgili

Glerá er samofin sögu setuliðsins á Akureyri á stríðsárunum frá Glerárdal, um Glerárgil og niður á Gleráreyrar. Setuliðsmenn stunduðu skot- og sprengjuæfingar í Dalnum. Efra- og Neðra-Glerárgil geyma sögur um dvöl þeirra við leik og störf í gilbörmum og klettum Gilsins. Stór kampur var þar sem Glerártorg er í dag.

Skemmtilegar ljósmyndir frá stríðsárunum koma upp í hugann þegar gengið er yfir rauðu stálbrúna við Glerá sunnan Glerárskóla. Myndirnar sem eru af breskum setuliðsmönnum eru teknar seinni hluta sumars eða haustið 1940. Á myndunum má sjá setuliðsmenn leggja rafmagnskapal í gilinu, sjóða vatn og fylla vatnstank á trukki. Þá er greinilegt að hermennirnir hafa þvegið sér í Gleránni. Á einni myndinni má sjá þá hálfnakta með skilti fyrir framan sig sem á stendur washing to be done here.

Auk þess að hafa tekið myndir á Íslandi, festi ljósmyndarinn sem tók myndirnar í Glerárgili atburði seinni heimsstyrjaldarinnar á filmu fyrir breska herinn í Frakklandi, Egyptalandi og Þýskalandi. Hann kemur við sögu í nýjum þætti í hlaðvarpsþáttaröðinni Leyndardómar Hlíðarfjalls sem fer í loftið föstudaginn 3. desember. Sagnalist framleiðir þættina í samstarfi við Grenndargralið.

 

 

 

Svarthvítar myndir: Imperial War Museum

Litmynd: Grenndargralið

Frá Hlíðarfjalli til Normandí

„Norðmenn kenndu okkur ýmsar aðferðir við vetrarhernað, mæla hæð fjallanna og slíka hluti. Skíðin voru ósköp látlaus og venjuleg. Við notuðum bara það sem okkur var fengið, notuð skíði frá almenningi í Englandi og ekki í miklu magni. Svo vorum við með norskar og kanadískar snjóþrúgur. Já, þetta var mikil þjálfun og mikil leiðindi. Ég meina, það er ekkert leiðinlegra en eyða nótt saman gamlir karlar á norðurhjara veraldar, í loftlausum bragga sem maður þurfti að grafa sig út úr á hverjum morgni því það hafði snjóað svo mikið um nóttina. Já, þetta var ekki einfalt. Eitt var það sem einkenndi Ísland á þessum árum, ekki kannski það skemmtilegasta en fullkomlega eðlilegt, en það var fiskilyktin sem var alls staðar. Ef þú fórst í leigubíl þá fannstu fiskilykt. Því allir Íslendingar borða mikinn fisk. Og þeir taka fisk fram yfir allt annað. Ef maður fór inn á heimili fólks þá var það þannig að eftir því sem heimilið var þrifalegra, þeim mun meiri fiskilykt. Það var vegna þess að olíurnar sem þeir báru á húsgögnin sín voru fiskiolíur. Og ekki var minni lyktin úti í garði þar sem þeir hengdu upp fisk til þerris. Til að toppa þetta þá báru bændur skemmdan fisk á túnin sín. Það snérist allt um fisk.“

„Þetta var eiginlega alveg yndislegt. Ég var upp í fjalli við æfingar í vetrarhernaði, með herdeildinni minni. Við vorum ákaflega vel á okkur komnir líkamlega, hlaupandi um í fjöllunum, þegar birtist okkur þessi dásamlega sýn í firðinum langt fyrir neðan þar sem við vorum staddir. Stórt herskip með tveimur reykháfum sigldi virðulega inn fjörðinn í átt að Akureyri. Um borð í skipinu var stór hópur amerískra hermanna. Þeir komu og tóku við kampinum okkar og 2-3 dögum síðar vorum við komnir um borð í skipið, á leið heim til Englands. Þetta var líflegur hópur bandarískra hermanna. Það virtist engin stjórn vera á því sem þeir voru að gera, þeir voru ekki með nauðsynjar eins og sápu eða klósettpappír. Þeir höfðu enga bílstjóra til að taka við þeim fjórum farartækjum sem við höfðum yfir að ráða. Einhver heyrði einn ameríska foringjann öskra yfir hópinn í einni marseringunni „strákar, við tökum við fjórum farartækjum af Bretunum, þremur breyttum bílum og einum jeppa. Kann einhver ykkar að keyra?“ Og enginn kunni það. „Vill einhver ykkar keyra?“ Þá fóru fjórar eða fimm hendur á loft. Svona var ástandið á þeim þegar við yfirgáfum Akureyri.“

Svona hljóma brot úr frásögnum tveggja breskra setuliðsmanna sem gegndu herþjónustu á Íslandi á stríðsárunum. Þeir voru í Hallamshires-herdeildinni frá Sheffield. Annar tók þátt í hættulegum fjallaleiðangri til að finna týnda setuliðsmenn áður en hann yfirgaf höfuðstað Norðurlands. Hinn varð heimsfrægur í listgrein sinni sjö árum eftir dvölina á Akureyri. Báðir voru sendir til Frakklands þar sem þeir tóku þátt í innrásinni í Normandí 6. júní 1944. Þar voru þeir lykilmenn í einni örlagaríkustu aðgerð innrásarinnar. Þeir segja frá dvölinni á Akureyri í nýjum þætti af Leyndardómum Hlíðarfjalls sem fara í loftið í nóvember. Þættirnir eru samstarfsverkefni Sagnalistar og Grenndargralsins.

Skotfærasöfnun er heill heimur

Sem ungur drengur fann hann byssukúlur í gömlum ruslahaug frá stríðsárunum. Áhugi hans á seinni heimsstyrjöldinni var vakinn. Á rúmum fjórum áratugum sem liðnir eru hefur Sigfús Tryggvi Blumenstein komið sér upp einu því stærsta og merkilegasta stríðsminjasafni sem til er í einkaeigu á Íslandi. Í fyrstu safnaði hann öllu sem snéri að heimsstyrjöldinni en hefur hin seinni ár einbeitt sér að stríðsminjum sem tengjast Íslandi. Markmið Tryggva er að gripirnir komist á endanum á safn, almenningi til fræðslu og skemmtunar.

Sennilega eru þeir ekki margir núlifandi Íslendingar sem eru jafnfróðir og Tryggvi um þann útbúnað sem setuliðið notaðist við hér á landi á stríðsárunum. Skotfæri eru stór hluti af þeim útbúnaði og finnast alltaf annað slagið skothylki (patrónur) eftir þá á víðavangi. Ekki er víst að allir átti sig á því að á enda skothylkjanna má greina nokkurs konar stimpla. Þeir kunna að virka sem dulmál á meðaljóninn en þegar betur er að gáð, gefa þeir upplýsingar um gerð patrónunnar, framleiðsluland, framleiðsluár o.s.frv. Á annað þúsund skothylkja hið minnsta og blýkúlna af ýmsum stærðum og gerðum hafa fundist í Hlíðarfjalli undanfarin ár. Tryggvi rýndi í nokkur sýnishorn frá Hlíðarfjalli á dögunum.

Mikill áhugi á skotfærasöfnun

Tryggvi, sem hefur umtalsverða reynslu þegar kemur að því að greina upplýsingar á skothylkjum úr seinni heimsstyrjöldinni, segir skotfærasöfnun vel þekkt fyrirbrigði. Margir safni mismunandi stimplum af skothylkjum þar sem ólík skothylki gangi kaupum og sölum á netinu. Hann segir skotfærasöfnun vera heim út af fyrir sig og að áhugi erlendis sé gríðarlegur.

Gaman að spá í stimplana

Bandaríkjamenn sem gegndu herþjónustu hér notuðu 45 kalibera skammbyssur. Norðmenn gerðu það einnig eftir að hafa fengið leyfi hjá framleiðandanum Colt. Tryggvi kemur auga á 45 kalibera skothylki úr Hlíðarfjalli sem við fyrstu sýn er ómögulegt að sjá hvort sé frá Bandaríkjamönnum eða Norðmönnum. „Þessi hylki sem eru 45 kalibera, þau bera ekki þessa venjulegu herstimpla. Það styrkir mig í þeirri trú að þetta sé frá norsku herdeildinni því ég held að Ameríkaninn hafi ekki verið með þessa stimpla á sínum 45. Það er þá spurning hvort þeir hafi verið að kaupa þetta sjálfir. Þetta er útlagastjórn í Bretlandi. Hvort að þeir séu að kaupa þetta eða breska ríkisstjórnin fyrir þá. Ég myndi ekki halda að ameríski herinn hafi notað þessi. Það er nefnilega oft gaman að spá í þessa stimpla á skothylkjunum.“

Skot í Hlíðarfjalli frá árinu 1926

Herskot eru framleidd í gríðarlegu magni og því mikið til af því sama. Sum skotfæri eru þó sjaldgæfari en önnur t.d. vegna aldurs. „Eins og við sáum hérna áðan, þá var eitt frá árinu 1926. Þetta eru bara gamlar birgðir. Þegar þeir [setuliðsmennirnir] koma hingað fyrst þá eru þeir oft að nota elstu skotin. Þeir eru að nota þetta í æfingar og þess háttar. Kannski verið með nýrri skot í bardaga.“

Ekki algengt að heil skot finnist

Tryggvi segir það ekki algengt á Íslandi að heil skot finnist úti í náttúrunni eins og þau sem fundist hafa í Hlíðarfjalli, þó vissulega séu þess dæmi. Sjálfur hafi hann fundið heil skot en í þeim tilfellum hafi verið um svokölluð æfingaskot að ræða. „Þá er ekki púður í þeim og þau aðeins notuð til að æfa hleðslu. Þá eru þau oft krumpuð en það er kúla í þeim. Það getur verið hvellhetta en þarf ekki að vera og það er hægt að taka í gikkinn en ekkert gerist.“

Tryggvi kemur við sögu í nýjum hlaðvarpsþætti í þáttaröðinni Leyndardómar Hlíðarfjalls sem fer í loftið í nóvember.