Aukaleikkonurnar í Hollywood í aðalhlutverki á Akureyri?

Grenndargralið fjallaði ekki alls fyrir löngu um söngkonuna Ethel Hague Rea og píanósnillinginn Kathryn Overstreet sem dvöldust hér á landi í seinni heimsstyrjöldinni. Vitað er að þær komu báðar til Akureyrar. Ethel Hague Rea var viðstödd vígslu tómstundamiðstöðvar fyrir setuliðið árið 1942. Kathryn Overstreet skemmti Akureyringum á tvennum tónleikum í janúar 1944.

Ethel og Kathryn voru í hópi kvenna sem sendur var til Íslands af ameríska Rauða krossinum til að skemmta hermönnum sem hér gegndu herþjónustu. Ethel hafði getið sér gott orð sem sópransöngkona í Bandaríkjunum á millistríðsárunum. Kathryn var upprennandi stjarna í heimalandinu þegar hún steig á svið í Samkomuhúsinu. Konurnar sem hingað komu höfðu mikilvægu starfi að gegna innan setuliðsins. Þær voru í aðalhlutverki við að gleðja hundleiða hermennina sem höfðu lítið við að vera í tilbreytingarleysinu á Íslandi á meðan stríð geisaði í Evrópu.

Heimildir staðfesta komu fleiri skemmtikrafta en Ethel og Kathryn á vegum ameríska Rauða krossins (ARC) til Akureyrar á stríðsárunum. Grenndargralið hefur áður sagt frá heimsókn Jane Goodell, Doris Thain og Betsy Lane í bæinn. Allar voru þær samstarfskonur Ethel og Kathryn á meðan á Íslandsdvölinni stóð. Sumum af ARC-konunum sem unnu með þeim við að skemmta bandarískum hermönnum á Íslandi á stríðsárunum átti eftir að bregða fyrir á hvíta tjaldinu að stríði loknu. Þar voru þær oftar en ekki í aukahlutverkum. 

Reta Shaw (1912-1982) lék í fjölmörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á ferli sínum. Hún er þekktust fyrir hlutverk sín í Disney-myndunum Mary Poppins (1964) og Pollyanna (1960) og sjónvarpsþáttum á borð við Happy Days og Lucy Show.

Molly Dodd (1921-1981) gat sér gott orð sem leikkona í sjónvarpi. Hún kom m.a. fram í þáttunum The Brady Bunch, The Mary Tyler Moore Show, The Twilight Zone og The Andy Griffith Show. Þekktasta bíómynd sem Dodd lék í var stórmynd Alfred Hitchcock, Vertigo með James Stewart og Kim Novak (1958).

Parker McCormick (1918-1980) lék í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum í 30 ár. Hún lék með þekktum leikurum svo sem Lauren Bacall, James Garner, Angelu Lansbury, Glenn Ford og Tom Berenger. McCormick var gift leikaranum John Forsythe sem síðar átti eftir að slá í gegn í sjónvarpsþáttunum um ættarveldið, Dynasty.

Miriam Stovall kom fram í vinsælum sjónvarpsþáttum á sjötta áratugnum. Þekktust er hún þó fyrir leik á sviði á árunum eftir seinna stríð í leikritum George Bernard Shaw og Tennessee Williams.

Betty McCabe lék lítið hlutverk í kvikmyndinni Moonlight in Vermont (1943). Frá Íslandi fór hún á milli herstöðva víða í Evrópu til að skemmta amerískum hermönnum.

Fjórar hinar síðastnefndu mynduðu teymi en störfuðu einnig náið með Retu Shaw, Ethel Hague Rea og Kathryn Overstreet. Vel kann að vera að einhverjar úr þessum hópi aukaleikkvenna í Hollywood hafi leikið aðalhlutverk í heimabyggð með dansi, söng og hljóðfæraleik fyrir setuliðsmenn í bragga á Gleráreyrum eða í Lögmannshlíð.

Heimildir: The White Falcon og imdb.com.

Reta Shaw

Molly Dodd

Parker McCormick

Miriam Stovall

Betty McCabe

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd